03/18/16

Nokkur orð um eiginkonu mína

Stjórnmálaátök samtímans einkennast oft af því að „farið sé í manninn“ fremur en málefnið. Mér er nokkuð sama hvernig hjólað er í mig. Ég er ýmsu vanur í pólitískri umræðu. En menn hljóta að geta fallist á að það sé með öllu ólíðandi að ráðist sé á ættingja eða maka stjórnmálamanna til þess eins að koma á þá höggi. Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hafa engu að síður verið gerðar margar tilraunir til að gera eignir eiginkonu minnar og ættingja tortryggilegar í von um að með því megi koma höggi á mig.

Ég hef haft það prinsipp að ræða ekki málefni eiginkonu minnar eða ættingja hennar í fjölmiðlum og hyggst halda mig við það nema grundvallarbreyting verði á íslenskum stjórnmálum. Sú breyting að eðlilegt eða æskilegt verði talið að málefni maka og fjölskyldna stjórnmálamanna séu til umræðu í tengslum við störf þeirra. Verði sú raunin mætti spyrja margra spurninga um maka stjórnmálamanna allt frá eignum að vinnu fyrir stjórnvöld á liðnum árum.

En þegar menn leggjast svo lágt að velta því upp hvort kona mín eigi ekki að teljast til hrægamma fyrir að hafa tapað peningum á bankahruninu get ég ekki látið það óátalið. Enginn á slíkar ákúrur síður skilið en hún.

Ef það er eitthvað sem einkennir eiginkonu mína umfram annað er það fórnfýsi og heiðarleiki. Frá því við kynntumst hef ég sagt henni að hún sé of fórnfús og of upptekin af erfiðleikum annarra. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af mörgu í veröldinni og samfélagi okkar og vilja láta gott af sér leiða. Það er hins vegar ekki hollt að vera alltaf með hugann við vandamál og líða stöðugt fyrir erfiðleika annarra.

Eiginkona mín hefur líka fórnað miklu fyrir mig og gerir enn. Hún hætti vinnu sinni á Íslandi til að fylgja mér til útlanda í nám. Síðar fékk hún, sem er mannfræðingur, inngöngu í framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Ég sagði henni að nú væri komið að því að ég fylgdi henni og hjálpaði. Á meðan við vorum að leita að íbúð í Kaupmannahöfn reið hrunið yfir. Þar með komumst við sameiginlega að þeirri niðurstöðu að áformin væru úr sögunni og hún fylgdi mér heim til að takast á við aðstæður á Íslandi.

Hér heima blandaði ég mér strax í umræðuna um hrunið og nauðsyn þess að gera tilteknar ráðstafanir til að gæta almannahagsmuna. Ég sagði Önnu Stellu að hún ætti ekki að gera ráð fyrir miklum endurheimtum af því fjármagni sem hún hefði lánað bönkunum. Nauðsynlegt hefði verið að forgangsraða innistæðum á undan skuldabréfum en að ef eindurreisa ætti samfélagið myndi þurfa að ganga lengra.

Ég sagði henni að ég myndi berjast fyrir því að engar kröfur yrðu settar á íslenskan almenning og að hagsmunir samfélagsins yrði hámarkaðir á kostnað þeirra sem ættu inni peninga hjá bönkunum. Eina leiðin til að endurreisa samfélagið væri að afskrifa mikið af kröfum á bankana og það myndi þýða að margir sem þegar hefðu tapað miklu á gjaldþroti þeirra myndu tapa enn meiru. Ég man enn hvað viðbrögð hennar voru einlæg og afdráttarlaus. Hún sagði mér að ef það mætti verða til að draga úr þeim ótta og þjáningum sem við blöstu á Íslandi ætti það að vera markmiðið að afskrifa sem allra mest af kröfum á bankana.

Einhverjum kann að koma þetta á óvart en ég veit að þetta kemur engum sem þekkir Önnu Stellu Pálsdóttur á óvart. Alla tíð síðan hefur hún verið helsti hvatamaður minn í því að lágmarka tjón samfélagsins okkar. Enginn hefur rekið mig harðar áfram í því. Það er ekki skemmtilegt hlutverk að vera maki stjórnmálamanns en hún hefur stutt mig alla leið í baráttu sem oft hefur verið erfið. Það gerir hún óhikað vegna þess að hún telur það mikilvægt fyrir aðra en sjálfa sig.

Skömmu eftir hrunið benti ég á að ríkið ætti að eignast kröfurnar á bankana á meðan þær væru einskis metnar. Sú varð ekki raunin. Hins vegar keyptu erlendir vogunarsjóðir slíkar kröfur af miklum móð með það að markmiði að hagnast á þeim þegar verð hækkaði. Megnið af kröfum á bankana voru keyptar upp af slíkum sjóðum. Sumir kalla þessa sjóði hrægammasjóði vegna þess að þeir ganga út á að hagnast á óförum annarra. Kona mín keypti hins vegar aldrei kröfur eftir hrun, þvert á móti, hún tapaði á því sem hún lánaði bönkunum fyrir hrun.

Þegar jafnvel þeir sem hafa verið skæðustu andstæðingar mínir í baráttunni fyrir því að tryggja að tap fjármálafyrirtækja færðist ekki yfir á íslenskan almenning finna sig svo í því að stökkva fram nú og reyna að ná höggi á mig með því að ráðast á konu mína læt ég það ekki gerast athugasemdalaust.

Ég skal viðurkenna að það hvarflaði að mér í kosningabaráttunni árið 2013 að ræða um að ég væri að berjast fyrir því að tekin yrði upp stefna sem myndi auka á tap eiginkonu minnar af bankahruninu. Að athuguðu máli sá ég að það væri ekki forsvaranlegt og skammaðist mín reyndar fyrir að hafa látið mér detta í hug að nota fjárhagslegt tap eiginkonu minnar í pólitískri baráttu.

En nú þegar fjármál eiginkonu minnar hafa verið gerð að opinberu umræðuefni finnst mér rétt að gera grein fyrir þessu. Um leið bendi ég á að þessi umræða hefur einkum leitt tvennt í ljós. Í fyrsta lagi þá staðreynd að konan mín hefur greitt alla skatta af eignum sínum og ekki nýtt tækifæri til að fela nokkurn hlut. Reyndar hefur hún ekki einu sinni nýtt heimildir laga til að fresta skattgreiðslum. Í öðru lagi að hún hefur í eigin fjármálum eins og öðru tekið hagsmuni annarra fram yfir sína eigin.

Og varðandi hrægamma: Hrægammar eru þeir sem koma aðvífandi og reyna að gera sér mat úr ógæfu annarra og kroppa þá inn að beini. Hvað er þá andstæða hrægamma? Það eru þeir sem tapa en eru samt til í að fórna meiru sjálfir í þágu annarra.

Vonandi skilja þeir sem þetta lesa hvers vegna mér þykir lítið til þeirra koma sem kenna konu mína við hrægamma.

03/11/16

NÝR Landspítali

Ef það er möguleiki á að byggja nýjan flottan Landspítala þar sem allt er glænýtt og í samræmi við þarfir nútímaheilbrigðisþjónustu, hafa hann á góðum stað í fallegu umhverfi, skipuleggja spítalann þannig að hann virki sem öflug heild og gera þetta allt hraðar, hagkvæmar og betur en áður var talið. Er þá ekki rétt að skoða það?

Bæjarstjóri Garðabæjar lýsti því yfir með afdráttarlausum hætti, í viðtali við Morgunblaðið, að bærinn væri reiðubúinn í samstarf við stjórnvöld um byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Bæjaryfirvöld í Garðabæ eru tilbúin til að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt þ.a. það geti gengið hratt og vel fyrir sig. Mér finnst ekki hægt að líta framhjá þessum kosti nú þegar bæjarstjórinn hefur stigið fram með þeim hætti sem hann gerði.

mynd 1

STAÐA MÁLSINS

Það hefur ekki verið samstaða um málið á Alþingi. Þingsályktunartillögu um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut var breytt í tillögu um að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði spítalans við Hringbraut. Einungis þannig náðist samstaða um tillöguna. Það var enda í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar en í stjórnarsáttmálanum er því haldið opnu að menn skoði hver besta framtíðarlausnin sé en um leið lögð áhersla á mikilvægi þess að ráðast í úrbætur á núverandi húsnæði. Þar segir: „Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.“

Á undanförnum árum hef ég oft lýst þeirri skoðun að ég teldi æskilegt að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut. Ýmsar breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum hafa verið til þess fallnar að auka kosti þess að endurskoða áform um staðsetningu spítalans. Ég hef hins vegar haft þá stefnu, og lýst því yfir opinberlega, að gera ekkert sem leitt gæti til tafa á nauðsynlegum úrbótum við Hringbraut og jafnframt ekki viljað tefja framtíðaruppbyggingu á nokkurn hátt.

Ég hef því stutt og talað fyrir öllum áformum um auknar fjárveitingar til spítalans og jafnvel  hönnunarvinnu nýframkvæmda. Nauðsynleg frumhönnun nýtist að mestu leyti óháð staðsetningu en getur um leið verið til þess fallin að draga betur fram kosti og galla þeirra áforma sem unnið er út frá og um leið staðsetningar.

Það er mikil og dýr hönnunarvinna framundan. Hún mun taka nokkur ár. Við erum nú stödd á tímapunkti þar sem okkur hefur tekist að endurreisa efnahag landsins og erum fyrir vikið að verða í stakk búin til að ráðast í hið langþráða stórvirki að byggja nýjan Landspítala. Í nýjustu áætlunum er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 2019 en unnið verði að hönnun fram að því. Eftir því sem nær dregur framkvæmdum verður hönnunarvinnan hins vegar sérhæfðari og háðari staðsetningu og endanlegu útliti.

Nú er því rétti tíminn til að ræða hvort aðrir kostir kunni að vera betri en Hringbraut miðað við núverandi aðstæður, það sem hefur breyst og það sem við höfum lært á síðustu fimmtán árum.

Með því er ekki verið að gera lítið úr vinnu þess fólks sem haldið hefur utan um verkefnið til þessa, unnið marga áfangasigra og þokað því áfram. Sú vinna verður forsenda byggingar hins nýja spítala hvort sem hann rís við Hringbraut eða annars staðar. Skipulag og byggingaráform hafa enda oft breyst frá því að fyrst var tekin ákvörðun um spítalan. Samt vindur verkefninu fram. Það eina sem enn er óbreytt er staðsetningin en það hlýtur að vera eðlilegt að meta þann þátt eins og alla hina um leið og við nýtum þá þekkingu sem byggst hefur upp og lögum okkur að þróuninni.

mynd 2

mynd 3

MÖGULEG STAÐSETNING

Ég hef nefnt nokkra staði sem gætu hentað vel fyrir nýjan Landspítala og það hafa margir aðrir gert líka.

Land Keldna hentar mjög vel með tilliti til umhverfis, samgangna, þróunarmöguleika osfrv. Nefndir hafa verið staðir umhverfis Elliðaárvog sem hafa ýmsa kosti. Margir hafa fært rök fyrir því að best væri að byggja upp umhverfis Borgarspítalann en þar hefur lóðum verið ráðstafað í ýmislegt annað á undanförnum árum þótt uppbygging þar sé ekki útilokuð. Loks bendi ég á Víðidal sem er staðsetning sem myndi henta afburða vel með tilliti til samgönguæða. -Land á jaðri Höfuðborgarsvæðisins en samt í því miðju og tengt því í allar áttir en um leið tengt akstursleiðinum til og frá Reykjavík og í nálægð við fallega náttúru.

Fleiri staðir hafa verið nefndir og einn alveg sérstaklega: Vífilsstaðir.

Aðrir staðir sem ég taldi upp eiga það allir sammerkt að vera í landi Reykjavíkur og borgaryfirvöld hafa lagst þvert gegn öllum tilraunum til að endurskoða staðsetningu spítalans innan borgarinnar. Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa hins vegar lýst sig fús til samstarfs um byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði.

Að mínu mati ber stjórnvöldum að bregðast við þessu tilboði Garðabæjar, taka því fagnandi og skoða hvort ekki sé best, í ljósi allra aðstæðna að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur.

Berum saman valkostina og lítum um leið á hvað hefur komið í ljós á síðustu árum.

 

HRINGBRAUT

Húsakostur Landspítalans virðist vera í miklu verra ástandi og henta mun verr en ráð var fyrir gert þegar forsendur staðarvals byggðust á því að mikilvægt væri að nýta gamla húsnæðið. Varla líður sú vika að ekki séu sagðar fréttir af myglu, maurum, músum eða öðrum plágum sem herja á spítalann. Svo ekki sé minnst á hvað húsnæðið er allt orðið lélegt og óhentugt.  Af fréttum að dæma virðist vandfundin sú starfsemi sem hentar jafnilla í núverandi húsnæði Landspítalans við Hringbraut og sjúkrahúsrekstur.

Ljóst er að ef byggt yrði við Landspítalann við Hringbraut þýddi það að sjúklingar, gestir þeirra og starfsmenn spítalans myndu búa við viðvarandi hávaða og annað rask árum saman. Endalus og ærandi högg frá loftpressum að fleyga berg, sprengingar, sundurgrafnar lóðir og aðrar truflanir.

Árum saman væru tómir og hlaðnir vörubílar og steypubílar á ferð til og frá miðbæ Reykjavíkur og á milli húsa Landspítalans og stórvirkar vinuvélar að störfum, gröfur, ýtur og kranar. Hávaði og ryk myndu einkenna lífið á Landspítalanum.

Það þyrfti að endurnýja nánast allt núverandi húsnæði spítalans með endalausu raski og tilfæringum. Svo þyrfti að tengja þetta allt innbyrðis og við nýbyggingar spítalans. Ekki er gott að meta hvernig tækist til við að fá þetta allt til að vinna saman en ekki yrði það einfalt og ekki yrði það ódýrt. Útilokað er að það myndi nokkurn tímann virka jafnvel og húsnæði sem væri hannað og byggt sem heild með tilliti til nútíma þarfa.

Mikið hefur verið fjallað um hversu illa staðsetningin við Hringbraut hentar út frá umferðartengingum við restina af höfuðborgarsvæðinu og landinu. Ég læt vera að fara út í miklar útlistanir á því hér en öllum má vera ljóst hversu óhentugt það er í þessu tilliti að byggja spítalann utarlega á nesi þar sem burðargeta umferðaræða er löngu sprungin og byggðin heldur áfram að þróast í aðrar áttir.

Það er ómögulegt að segja til um hversu marga áratugi í viðbót bútasaumsaðferðin við Hringbraut myndi taka. Minna má á að Læknagarður sem byggður var sem áfangi í áformaðri uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut hefur staðið ókláraður í nærri 40 ár þótt við og við hafi verið uppi áform um að halda áfram þar sem frá var horfið.

mynd 4

mynd 5

 

Frumhönnun fyrirhugaðra framkvæmda við Hringbraut gefur ekki tilefni til bjartsýni um að þar verði aðlaðandi byggð. Þar er gert fyrir þéttum röðum stórra grárra kassa. Menn geta ímyndað sér hversu uppörvandi það er fyrir sjúklinga starfsfólk og gesti spítala að vera umkringdir röðum grárra kassa og ganga um vindgöngin (göturnar) sem liggja á milli þeirra.

mynd 6

mynd15mynd 7

VÍFILSSTAÐIR

Á Vífilsstöðum væri hægt að hanna nýjan glæsilegan spítala frá grunni. Allt fyrsta flokks í samræmi við möguleika og þarfir samtímans. Enginn fjáraustur í að reyna að gera við hálfónýta hluti, tjasla því saman sem ekki passar saman og laga óhentugar byggingar að heilbrigðisþjónustu 21. aldar. Allt hannað sem ein heild sem vinnur eins og vél um leið og hugað er að mannlega þættinum, því að fólki líði vel í umhverfinu og það sé til þess fallið að lyfta andanum og stuðla að betri andlegri og líkamlegri líðan sjúkling, gesta og starfsfólks.

Það væri hægt að fara á fullt í skipulags- og hönnunarvinnu í þeirri vissu að verkefnið gæti farið á fullan skrið strax að þeirri vinnu lokinni. Engin þörf á að reyna að stilla framkvæmdir af m.v. umferð á mestu umferðargötum landsins. Óþarfi að bíða með borinn eða dýnamítið þangað til búið er að klára vandasamar skurðaðgerðir í næsta húsi. Lágmarks truflun af framkvæmdunum.

Hægkvæmni þess að fara í eitt stórt verkefni þar sem allt passar saman er ótvíræð, hvort sem litið er til byggingarkostnaðar eða hagræðisins af því að reka slíka einingu samanborið við safn ólíkra húsa frá 100 ára tímabili (þar sem þau elstu eru þó ekki síst).

Á meðan á framkvæmdum stendur heldur starfsemi Landspítalans við Hringbraut áfram ótrufluð. Þegar framkvæmdum er lokið eða a.m.k. búið að innrétta einhverjar álmur spítalans er byrjað að flytja starfsemina yfir í nýja húsnæðið ásamt þeim tækjum sem ekki fara á haugana eða lækningaminjasafn. Húsnæðið við Hringbraut er svo loks afhent nýjum eigendum og því breytt til að laga það að nýju hlutverki. Endurnýjun gömlu húsanna getur þá farið fram á sama tíma og framkvæmt er á óbyggðu lóðunum.

Byggð yrði ný aðstaða fyrir nám á heilbrigðissviði samhliða annarri uppbyggingu á Vífilsstöðum. Einnig mætti hugsa sér að Háskólinn fengi hið gamla virðulega hús Vífilsstaðaspítala til umráða. Það væri myndarleg háskólabygging.

Eftir fáein ár stæði glæsilegur fullbúinn spítali í einstaklega fallegu umhverfi á Vífilsstöðum þar sem fólki liði vel að koma. Það þyrfti enginn að kvíða fyrir að fara á Vífilsstaði vegna erfiðleikanna við að komast þangað, leggja bílnum á sjöttu hæð í bílastæðahúsi og ganga svo inn í grá húsagöng. Á Vífilsstöðum væri nægt andrými, starfsmenn og námsfólk gæti stundað hreyfingu og útivist í fallegri náttúru í kringum spítalann og sjúklingar á batavegi rölt með gestum sínum um Vífilsstaðagarðinn.

mynd 8

FJÁRHAGSLEGAR FORSENDUR

Staða ríkissjóðs hefur verið stórbætt á undanförnum árum. Það gerðist með því að það tókst að hætta skuldasöfnun, gera upp slitabúin, yfirtaka bankana og stórlækka vaxtabyrði ríkisins. Þetta þýðir að aðstæður til að ráðast í stórframkvæmdir eru mun betri en áður. En fleira mun vinna með okkur ef spítalinn verður byggður á nýjum stað.

Verðmæti fasteigna og lóða í miðbæ Reykjavíkur hefur hækkað gríðarlega frá því að síðast var lagt mat á staðsetningu spítalans. Með því að selja húsnæði og lóðir gætu ríki og borg náð tugmilljarða tekjum. Þessar tekjur gæti ríkissjóður nýtt til að standa straum af umtalsverðum hluta byggingarkostnaðar nýs spítala.

Þegar ákvörðun hefði verið tekin um framkvæmdir á Vífilsstöðum væri hægt að selja húsnæði og lóðir og nýta fjármagnið strax til að flýta framkvæmdum á nýjum stað þótt spítalinn flytti ekki strax úr húsnæðinu. Einnig gæti ríkið veitt öðru fjármagni, t.d. arði úr bönkunum í spítalabygginguna þar til tekjur af sölu eigna við Hringbraut skiluðu sér. Aðrar leiðir eru líka færar til að brúa bilið. Hvaða leið sem farin yrði myndu tugir milljarða skila sér í ríkissjóð við það að færa spítalann. Peningar sem ekki yrðu til ella. Peningar sem nýta mætti í aðra innviðauppbyggingu, ekki hvað síst á landsbyggðinni.

 

SPÍTALINN

mynd 9

Í Hilleröd á Norður Sjálandi er stórt sjúkrahús sem samanstendur af mörgum misaðlaðandi húsum sem byggð voru á löngu tímabili. Nú stendur til að byggja nýjan spítala fyrir Norður Sjáland í Hilleröd. Þótt gamli spítalinn sé ekki inni í gamla bænum var ákveðið að byggja nýja spítalann annars staðar.

Nýi spítalinn verður byggður utan við bæinn í nálægð við náttúruna og mikilvægar samgönguæðar. Spítalinn á myndinni hér að ofan (og öðrum myndum ofar) var hannaður af C.F. Möller. Hann er 124.000 fermetrar og átta hæðir þótt það beri ekki á því vegna þess hvernig hann er byggður inn í landslagið. Áætlaður byggingarkostnaður er 3,8 milljarðar danskra króna eða um 76 milljarðar íslenskra króna. Þessi hönnun komst nálægt því að verða fyrir valinu en að lokum varð önnur arkitektastofa hlutskarpari. Teikningarnar gefa góða mynd af því hvernig spítala væri hægt að byggja við Vífilsstaði. Það væri meira að segja hægt að nýta hönnun C.F. Möller

mynd 10

HIÐ NÝJA HRINGBRAUTARSVÆÐI OG MIÐBORGIN

Gömlu Landspítalabyggingarnar yrðu ýmist rifnar og nýjar byggðar í staðinn eða teknar í gegn og breytt í hótel, skrifstofur, íbúðir osfrv. Gamla Landspítalabyggingin auk viðbygginga myndi henta vel sem glæsihótel. Sjúkrahótelið sem verið er að byggja gæti orðið að stúdentaíbúðum (eða verið sjúkrahótel áfram) og Barnaspítali Hringsins sem er mjög gott húsnæði geti hýst heilbrigðisþjónustu áfram. Þannig fengist blönduð byggð, íbúðir, skrifstofur og þjónusta í miðbænum án þess að það þurfi að rústa gamla bænum til að troða þar inn hótelum og íbúðum á kostnað nágranna og menningarlegs gildis bæjarins. Í þessu fælust mikil tækifæri fyrir borgina.

 

VALIÐ

Það er því hugsanlegt að valið standi á milli eftirfarandi kosta:

1. Áframhaldandi óljós, hægvirkur og óhagkvæmur bútasaumur við Hringbraut. Endalaus barátta við alkalískemmdir, myglu, gamalt lagnakerfi og úrelta tækni í tugum bygginga og við að tengja það gamla við nýbyggingar til að láta allt virka sem heild. Rannsóknarstörf, kennsla, aðgerðir, sjúkrahússlega veiks fólks og aðrar lækningar færu fram á meðan loftborarnir hamast fyrir utan og grjótinu er mokað í vörubíla. Eftir stendur svo þyrping ólíkra gamalla kassa og nýrra stærri grárra kassa. Þyrping sem stendur utarlega á nesi sem tengt er restinni af höfuðborgarsvæðinu með götum þar sem umferðarteppur eru regla fremur en undantekning.

2. Glænýr heildstæður hátæknispítali, hannaður til að virka sem ein heild og veita umgjörð um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Fallegt hús að innan sem utan á jaðri byggðarinnar, umkringt dásamlegri náttúru og útivistarsvæðum. Húsið mætti byggja hratt með lágmarkstruflun á framkvæmdum og lágmarkstruflun fyrir borgarbúa og fjármagna verkefnið að miklu leyti með sölu á eignum við Hringbraut. Eignum sem ganga svo í endurnýjun lífdaga með nýtingu sem hentar svæðinu og styrkja og vernda miðborgina.

mynd 11

Væri ekki óábyrgt að velta þessu ekki fyrir sér á þessum tímapunkti, nú þegar ljóst er að Vífilsstaðaleiðin er fær? Það eru varla rök í málinu að búið sé að eyða hundruðum milljóna í að undirbúa mistök og þess vegna þurfi að klára að gera mistökin.

Sunnan við Vífilsstaðatúnin er lítil mýri sem heitir Vatnsmýri. Mér sýnist allt benda til að rétt sé að byggja nýjan spítala við Vatnsmýri en það sé gríðarlega mikilvægt að það sé rétta Vatnsmýrin.

03/3/16

Almannahagsmunir

Það er furðulegt hvað þeir sem síst skyldu atast mikið og lengi í bændum.

Afstaða heildsala sem vilja fá að flytja meira inn á kostnað innlendrar framleiðslu og leggja meira á vörurnar kemur ekki á óvart. En hvernig stendur á því að þeir sem tala mest um sérhagsmuni líta á það sem sérhagsmunagæslu að samið sé um kjör við stóra stétt fólks sem leikur gríðarlega mikilvægt hlutverk í samfélaginu á meðan þeir sem reka beinlínis samtök um fákeppnisrekstur og berjast fyrir auknum innflutningi og hærri álagningu til sín eru ekki taldir vera í sérhagsmunagæslu? Nei, þeir eru kallaðir til sem álitlegir álitsgjafar um sérhagsmunagæsluna sem felst í því að samið sé við stóra stétt fólks um starfsaðstæður og kjör. Kjör sem eru sannarlega ekki betri en það sem samið er um við margar aðrar stéttir.

Svo birtist forseti ASÍ og skammast yfir því að hafa ekki fengið að skipta sér nógu mikið af samningum við bændur. Á þá formaður Bændasamtakanna að troða sér að samningaborðinu hjá öðrum stéttarfélögum og mæla fyrir um hversu mikið megi greiða hinum og þessum stéttum og með hvaða hætti?  Ætti formaður Bændasamtakanna að bölsótast yfir því að það sé ómögulegt að menn séu bundnir af þessum íslensku kjarasamningum þegar erlent vinnuafl sé til í að vinna sömu vinnu á lægra verði?

Væri svo talið eðlilegt að kalla hagfræðing Bændasamtakanna í sjónvarpsviðtöl til að útskýra, sem fulltrúi almannahagsmuna, að það eigi ekki að semja á þennan hátt? Launahækkanir iðnaðarmanna séu of miklar og alveg ómögulegt að enn sé verið að verja hindranir gegn innflutningi á ódýru vinnuafli. Svo væri útskýrt að þetta snerist um að verja hagsmuni almennings gegn sérhagsmunum ákveðinna stétta.

Hagfræðingurinn gæti farið yfir hversu gamaldags þetta væri og óhagkvæmt fyrir neytendur. Ef menn fengju bara að senda peninga úr landi til erlendra starfsmannaleiga væri hægt að fá góða iðnaðarmenn, t.d. frá Indónesíu á spottprís. Nútíminn væri þannig að menn gætu bara sent ákveðna greiðslu úr landi og þá kæmi hópur fólks og kláraði verkið á nótæm. Á endanum yrði þetta bara gott fyrir íslenska iðnaðarmenn því það myndi halda þeim á tánum og þeir myndu aðlaga sig að samkeppninni. Í raun væri það bara synd fyrir þá að þeir fengju ekki að njóta samkeppninnar. Það héldi aftur af greininni. Svona aðgangshindranir væru því slæmar fyrir neytendur og fyrir iðnaðarmenn.

Auðvitað myndu formaður og hagfræðingur Bændasamtakanna aldrei tala svona og mér þætti fráleitt að heimilað yrði að vega að kjörum og starfsöryggi íslenskra iðnaðarmanna á þennan hátt.  En hvers vegna má tala svona um bændur og aðra sem starfa í íslenskum matvælaiðnaði?

Hvernig ætli vinnuaðstæður og kjör séu í mörgum þeirra verksmiðjubúa sem ráða verðlagningunni á matvælamarkaði erlendis og okkur er sagt að það sé gamaldags og óhagkvæmt að setja hindranir á?

Hver telur forseti ASÍ að séu kjör þeirra sem starfa við framleiðsluna sem hann vill að fái betri tækifæri til að keppa við framleiðslu þeirra sem starfa í greininni á Íslandi? Telur hann að þeir sem starfa þar á lægstu töxtum búi við betri, jafngóðar eða verri aðstæður og kjör en fólk sem við myndum á Íslandi kalla fórnarlömb mansals? Það væri auðvitað hægt að ná sama markmiði með því að hafa bara nokkur risabú á Íslandi með vinnuafli sem fengi greitt samkvæmt kjarasamningum í Bangladesh.

Þetta snýst ekki bara um að verja bændur. Þetta snýst um að verja samvinnu ólíkra stétta. Hvar endar það ef við sættum okkur við að vegið sé að einni stétt í einu til að bæta kjör hinna? Reyndar er það ekki einu sinni svo að það að hætta stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu bæti kjör annarra hópa. Á endanum myndi það þýða aukið gjaldeyristap og hærri álagningu á hinum innfluttu matvælum eins og menn hafa kynnst í löndum sem gert hafa tilraunir í þessa veru.

Þegar öllu eru á botninn hvolft er samvinna og samstaða ólíkra stétta best fyrir alla. Það eru almannahagsmunir.

02/20/16

Fullkomin kaldhæðni

Þetta er löngu komið gott af stórfurðulegum árásum fáeinna talsmanna stórverslana á íslenska bændur. Kvartanirnar yfir því að fá ekki fullt vald yfir matvælaframleiðendum taka á sig ýmsar myndir en kaldhæðnin gæti varla orðið meiri en þegar stuðningur við innlenda matvælaframleiðslu er gagnrýndur með samanburði við Icesavesamningana.

Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu árið 2011 sagði þáverandi formaður samtakanna að brýnasta verkefni þjóðarinnar og stjórnvalda væri tryggja samþykkt Icesave-samninganna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það átti að gera til að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja. ,,Ef Icesave verður fellt þá mun engin ríkisstjórn hjálpa okkur upp úr þeirri stöðu” sagði formaður samtaka sem nú bera búvörusamninga saman við Icesavesamninga.

Icesavesamningurinn fól í sér greiðslu hundruða milljarða króna úr landinu í erlendri mynt sem ekki var til. Nýverið var reiknað út að kostnaður skattgreiðenda af fyrsta samningnum væri orðinn vel á annan milljarð evra. Það er ómögulegt að segja hvað það væri mikið í krónum vegna þess ekki er hægt að segja til um hversu mikið gengið hefði hrunið við að taka ábyrgð á Icesavekröfunni. Upphæðin sem fallið hefði á skattgreiðendur næmi þó hæglega 300 milljörðum króna (á núverandi gengi er hún yfir 200 milljarðar) og um leið væri staða ríkisfjármála miklu lakari, vaxtakostnaður ríkissjóðs meiri, meiri verðbólga með veikara gengi, innfluttar vörur dýrari osfrv. osfrv.

Stuðningur við innlenda matvælaframleiðslu snýst hins vegar um að spara gjaldeyri. Nýta auðlindir landsins til að búa til gæðavöru og selja hana á samkeppnishæfu verði. Stuðninginn mætti allt eins kalla neytendastyrki enda er álagning stórverslana meiri á innfluttar vörur en þær innlendu.

Fyrir rúmum sjö árum höfðu menn áhyggjur af því hvort til væri gjaldeyrir til að flytja inn eldsneyti og lyf. Menn geta rétt ímyndað sér hver staðan hefði verið ef við hefðum ekki átt öfluga innlenda matvælaframleiðslu með þeim tugmilljarða gjaldeyrissparnaði sem hún skilar. Svo ekki sé einu sinni hugsað til þeirrar stöðu sem upp hefði komið ef við hefðum ekki haft innlenda matvælaframleiðslu og samþykkt Icesavesamninginn á sama tíma.

Að gagnrýna 13-14 milljarða stuðning við lægra vöruverð til neytenda og gjaldeyrissparnað upp á um 50 milljarða á ári með vísan til áforma um að greiða hundruð milljarða úr landi fyrir ekki neitt þegar enginn gjaldeyrir var til er vægast sagt furðulegt. En það er lýsandi fyrir hvað þeir sem það gera eru komnir langt út í haga í gagnrýni sinni á bændur og landbúnað, undirstöðuatvinnugrein á Íslandi í meira en 1100 ár.

Og allt til að geta eytt meiri gjaldeyri í að flytja inn meira af erlendum matvælum og selja þau með hærri álagningu.

01/27/16

Heilbrigðismál hér og þar

Ég sá að pennavinur minn, Kári Stefánsson mannvinur, tók það óstinnt upp að ég væri sammála honum um mikilvægi stórfelldrar eflingar heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Eins og menn þekkja er Kára tamt að úthúða þeim sem eru ósammála honum en ég hafði ekki gert mér grein fyrir að það sama ætti við um þá sem tala máli hans (án þess þó að vera lögmenn). Líklega gerði það útslagið að ég lét fylgja vinsamlega ábendingu um að ef til vill væri ekki best að ná markmiðinu um eflda heilbrigðisþjónustu með því að einblína eingöngu á hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu.

Kári virtist telja að með því hefði ég verið að gera grín að sér (reyna að vera fyndinn). Ég skal viðurkenna að ég þykist ekki skilja skilgreiningu Kára Stefánssonar á húmor en ég á bágt með að sjá að nokkuð í tölfræðinni sem ég benti á hafi verið til þess fallið að gera grín að Kára eða grín yfir höfuð.

Einnig virtist hinn miskunnsami samfélagsrýnir telja að ég hefði gert lítið úr fátækum ríkjum eins og Síerra Leóne með því að hafa í rökstuðningi mínum bent á að heilbrigðismál væru stærri hluti landsframleiðslu þar en á Norðurlöndum. Stjórnvöld í Síerra Leóne áttu að mati Kára hrós skilið fyrir að vera reiðubúin til að fórna hlutfallslega meiru en Íslendingar til að hlúa að þeim sem minna mega sín. Þetta sýndi að stjórnvöld í Síerra Leone væru, rétt eins og hann sjálfur, betri en annað fólk og þá auðvitað betri en íslensk stjórnvöld sem ættu að taka sér stjórnmálamenn í Síerra Leóne til fyrirmyndar.

Ætli sé ekki óhætt að gefa sér að Kári hafi ekki allt í einu tekið upp á því að kynna sér staðreyndir mála áður en hann útskýrði að Síerra Leóne stæði sig í raun betur í heilbrigðismálum en Ísland (hlutfallslega) og sannaði þannig að best væri að líta til hlutfalls af landsframleiðslu. Alþjóðlegu mannúðarsamtökin ODI gætu upplýst Kára um að stór hluti íbúa landsins nýtur ekki heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa aðgang að þjónustu sem ætti að vera ókeypis eru oftast látnir borga fyrir hana þ.a. í raun greiðir almenningur hátt í 90% af kostnaðinum við heilbrigðiskerfið. Það er miklu hærra hlutfall en í grannríkjunum (sem þó verja lægra hlutfalli landsframleiðslu til heilbrigðismála).

Síerra leóne

Hið háa hlutfall heilbrigðisþjónustu í landsframleiðslu í fyrirmyndarríki VLF-leiðar Kára helgast því af lágri landsframleiðslu (fátækt) og heilbrigðiskerfi þar sem hinir fátæku íbúar landsins þurfa sjálfir að greiða óvenju mikinn kostnað vegna þjáninga sinna.

Það þarf ekki að skoða þróunarríki til að átta sig á því að varasamt getur verið að miða bara við hlutfall af landsframleiðslu. Hlutfall heilbrigðismála af landsframleiðslu er einna hæst í Bandaríkjunum (þrátt fyrir mikil hernaðarútgjöld). Ætli megi ekki gefa sér að jafnvel Kári Stefánsson væri tregur til að halda því fram að bandaríska heilbrigðiskerfið væri betra og og fæli í sér meiri manngæsku en það íslenska.

Ef litið er eingöngu til hlutfalls opinberra útgjalda til heilbrigðismála lítur dæmið öðruvísi út en sú mynd sem Kári dregur upp. Þá stendur Ísland enn betur í samanburðinum bæði fyrr og nú. Ísland var raunar efst allra landa fyrir fáeinum árum eins og sjá má af þessu súluriti fjármálaráðuneytisins frá 2006 (þá voru íslensk stjórnvöld, í kvalaþorsta sínum, búin að svelta heilbrigðiskerfið í a.m.k. fimmtán ár að mati Kára):

vlf h206

Þegar sýnt var fram á það í sjónvarpsþætti að Kári færi rangt með tölur og að bæði samanburðurinn og viðmiðin voru röng voru viðbrögðin hefðbundinn fúkyrðaflaumur með fullyrðingum um að fólki sem gagnrýndi hann væri sama um þá sem minna mega sín eða vildi viðhalda þjáningum.  Að lokum upplýsti hann þó að þetta byggðist ekkert á þessum prósentutölum.

Semsagt átak um að tiltekin prósenta af landsframleiðslu færi í heilbrigðismál byggðist ekki á tölum. Sjálfsagt er það rétt að átakið snúist ekki um prósentutölur. Enda má velta fyrir sér um hvað undirskriftasöfnun snýst þar sem fólki býðst að skrifa nafnið sitt undir gríðarstóra framboðsmynd af Kára Stefánssyni?

Líti menn hins vegar svo á að undirskriftasöfun Kára Stefánssonar snúist bara almennt um vilja til að efla heilbrigðiskerfið þá er hver slík undirskrift krafa um að menn finni bestu leiðina til að láta það gerast. Þá ættu menn að fagna umræðu um málið og jafnvel láta sig hafa það að fá ábendingar.

Hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála af landsframleiðslu rauk upp á Íslandi, sem hlutfall af VLF, við efnahagshrunið en hrundi svo vegna niðurskurðar.

Varla vilja menn þó halda því fram að besta leiðin til að bæta heilbrigðisþjónustu sé efnahagshrun. Í stað þess að sveiflast eftir landsframleiðslu þurfa heilbrigðisútgjöld að vera næg og nógu vel fjármögnuð til að veita nauðsynlega þjónustu óháð efnahagssveiflum.

Það þarf yfirvegaða umræðu og skynsamlegar ráðstafanir svo vel takist til við eflingu heilbrigðiskerfisins. Þá verða menn að þola umræðu um hvað snýr upp og niður og hvaða leiðir séu bestar til að halda áfram hinni miklu uppbyggingu síðustu ára.