Rauða Reykjavík

Ef fram heldur sem horfir munu vinstriflokkarnir í Reykjavík enn treysta völd sín í borginni. Ekki skortir nýja vonbiðla til að hlaupa í skarðið og halda meirihlutanum gangandi sem fyrr. Það er því aukin hætta á að meirihlutinn undir forystu Samfylkingarinnar færist enn í aukana. Metskuldasöfnun muni enn aukast, enn fleiri verði ráðnir til að vinna að stefnu Samfylkingarinnar (starfsmönnum borgarinnar fjölgaði um meira 2.000 á einu kjörtímabili) og enn verði bætt við þá tugi upplýsingafulltrúa sem fyrir eru til að flytja boðskapinn.

Áfram verði haldið með áform um að þrengja að umferðinni til að neyða sem flesta upp í óendanlega dýra Borgarlínu (sem ríkisstjórnin tók að sér að fjármagna), enn verði þrengt að flugvellinum til að hrekja hann á brott og enn verði byggt fyrir glugga fólks í grónum hverfum í stað þess að byggja ný og falleg hverfi fyrir alla aldurs- og tekjuhópa.

Hvernig gat þetta gerst?

Vandi Sjálfstæðisflokksins (á landsvísu) hefur verið sá að hann hefur í allt of miklum mæli reynt að rétta sinn hlut með því að hverfa frá grunngildum sínum og reyna að vera eins mikill vinstriflokkur og vinstriflokkarnir. Reynt að vera eins Samfylkingarlegur og Samfylkingin og eins Viðreisnarlegur og Viðreisn. Þetta á augljóslega ekki við um alla sjálfstæðismenn en „gamla góða íhaldið“ hefur orðið að gefa eftir gagnvart „nýaldarsinnunum“ í pólitíkinni.

Þegar flestir flokkar eru meira og minna orðnir eins og síaukið kerfisræði bætist við fara atkvæði kjósenda að hafa sífellt minni áhrif. Þeir fá alltaf sömu niðurstöðuna og kerfið heldur áfram að fylgja sinni (borgar)línu. Þetta er því í raun ólýðræðisleg þróun.

Andspyrnan verður að lifa

Allt þetta kjörtímabil hefur Vigdís Hauksdóttir haldið uppi nauðsynlegri gagnrýni og lagt sig fram við að benda á skaðlega og oft á tíðum glórulausa framgöngu meirihlutans. Reykvíkingar mega ekki við því að raunveruleg gagnrýni þagni, gagnrýni byggð á þeim gildum sem skópu gott samfélag.

Ómar Már Jónsson var mikils metinn sveitarstjóri í 12 ár og hefur stofnað og rekið nokkur nýsköpunarfyrirtæki með góðum árangri. Hann er nú tilbúinn til að taka við keflinu af Vigdísi, veita nauðsynlegt aðhald, sýna hvernig megi taka til í rekstri borgarinnar og vera málsvari heilbrigðrar skynsemi.

Mér þótti gríðarlegur fengur í því að Ómar skyldi vera til í að bjóða sig fram til borgarstjórnar. Ég hvet Reykvíkinga til að þiggja það góða boð og tryggja að þau borgaralegu gildi sem byggðu Reykjavík eigi áfram sterka rödd.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. maí 2022