Ráðuneyti sannleikans og endurmenntun þjóðarinnar

Þá er það komið fram á Alþingi. Áður boðað frumvarp forsætisráðherra um að gera eigið ráðuneyti að einhvers konar sannleiksráðuneyti og senda almenning á námskeið um hvernig einstaklingar eigi að hugsa og tjá sig.

Útópískt og raunar hreint galið frumvarp forsætisráðherrans er í umbúðum gamalkunnra frasa og markmiðið sagt vera að vinna gegn svokallaðri hatursorðræðu. Hverjir geta verið hlynntir hatri og þar með andvígir frumvarpi með svo göfugt markmið? En hvað er hatursorðræða? Ráðherrann sem leggur málið fram og kallar eftir ótrúlega umfangsmiklu inngripi ríkisins í daglegt líf, stjórnmál, skóla, fjölmiðla, dómstóla o.s.frv. veit að eigin sögn ekki hvað það er. Aðspurður um hvort tiltekið dæmi væri hatursorðræða sagðist ráðherrann ekki vita það, „ég þarf bara að fara á námskeið“ var svarið.

Raunveruleikinn

Áður en sögunni víkur að ótrúlegu innihaldi frumvarpsins er rétt að líta til fyrirliggjandi reynslu af því þegar stjórnvöld hafa orðið sér úti um aukin völd og tæki til að ráðskast með og takmarka frelsi fólks á grundvelli baráttu gegn hlutum á borð við hatursorðræðu.

Þegar tækin og tólin eru komin líður ekki á löngu þar til skilgreining hugtaksins eða vandamálsins er útvíkkuð. Á faraldursárunum var hatursorðræðuhugtakið notað til að loka á umræðu, m.a. vísindamanna, t.d. um uppruna veirunnar. Því hefur verið beitt til að hafa stjórn á umræðu um lausnir í umhverfismálum. Bandarískir vogunarsjóðir brugðu því meira að segja fyrir sig til að reyna að loka umræðuþráðum lítilla fjárfesta sem kostuðu þá peninga.

Íslendingar eru minnugir þess þegar bresk stjórnvöld nýttu hryðjuverkalög gegn Íslandi í bankahruninu. Þar í landi og víðar hefur „baráttan gegn hatursorðræðu“ leitt til þess að fjöldi fólks hefur fengið heimsókn frá lögreglu fyrir að hafa sett skopmynd, brandara eða limru á samfélagsmiðla. Lögregla í Oxford hóf umfangsmikla rannsókn og leit að þeim sem hefði fest upp litla límmiða með skilgreiningu orðabókar háskólans á orðinu „kona“ („fullorðinn kvenkyns manneskja“).

Um leið og lögregla austan hafs og vestan er látin eyða auknum tíma í slík verkefni hefur hún orðið smeyk við að bregðast við því sem gæti kallað á ásakanir um fordóma. Þannig voru þúsundir barnungra stúlkna misnotaðar kynferðislega á skipulagðan hátt af gengjum manna í hinum ýmsu borgum Bretlands án þess að lögreglan aðhefðist neitt. Rannsókn leiddi í ljós að ótti við hatursstimpilinn var meginástæðan. Sama má segja um mikil mistök í aðdraganda annarra hræðilegra atburða, m.a. hryðjuverkaárása, t.d. þeirrar sem gerð var á tónleikum fyrir börn í Manchester.

Stofnanir sem berjast gegn hatursorðræðu hafa hins vegar fært sig upp á skaftið við að vara við kvikmyndum, sjónvarpsefni og bókmenntum sem falla ekki að nýjustu rétttrúnaðarreglum. J.K. Rowling á það sameiginlegt með William Shakespeare að hafa lent í ónáð.

Byrjunarreiturinn í áformum forsætisráðherra og íslensku ríkisstjórnarinnar á þessu sviði er hins vegar allsherjaryfirhalning á samfélaginu og flestum sviðum þess. Hvað menn gera svo með þau völd á eftir að koma í ljós.

Tillagan: 1 og 2

Í fyrsta lagi skal stofna nýjan framkvæmdasjóð vegna verkefna sem beinast að hatursorðræðu. Þetta er gamalkunnug brella. Þegar búið er að stofna sjóð um verkefni sem ber titil sem enginn þorir að andmæla mun hann vaxa og dafna og útvíkka hlutverk sitt án þess að nokkur fái neitt við ráðið. Forsætisráðuneytið ætlar að halda utan um sjóðinn og velja úr þóknanlegum umsóknum frá hinum ráðuneytunum!

Samhliða stendur til að hefja „vitundarvakningarherferð“. Það á ekki bara að auka þekkingu á málinu, þetta verður herferð! Þar má eiga von á alls konar rétttrúnaðarauglýsingum frá ríkinu og fleiri verkefnum fyrir hina þóknanlegu en það verður svo sem bara viðbót við það sem fyrir er.

Í þriðja lagi

Þá kemur að brjálæðinu. Innrætingarnámskeiðunum sem ríkið á að standa fyrir á meira og minna öllum sviðum samfélagsins. Hverjir munu skrifa námsefnið og kenna námskeiðin? Líklega er óhætt að veðja á að það verði ekki grandvarir sérfræðingar með vernd einstaklingsfrelsis og réttarríkisins að leiðarljósi. En það á bara að koma í ljós þegar tækin og tólin eru komin og ráðherrar Vinstri grænna geta skipað samherja sína í að uppfræða landslýð.

Námskeið verða haldin fyrir opinbera starfsmenn (eins gott að þeir mæti og hlýði ef þeim er annt um starfsframann). Stjórnendur og starfsfólk stjórnarráðsins á að mæta, þ.e. þeir sem eru að innleiða verkefnið, og stjórnkerfið allt með þeim.

Kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga er sérstaklega tekið fyrir og talið æskilegt að senda allt liðið á námskeið um hatursorðræðu. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála á reyndar að sjá um þann þátt. Ríkisvaldið ætlar að taka sveitarstjórnarstigið á námskeið um hugarfar og orðræðu.

Skólastjórnendur, kennarar, leiðbeinendur og íþróttaþjálfarar eiga að fara á námskeið. Hvað er verið að gefa í skyn hérna? Að kennarar og íþróttaþjálfarar stundi hatursorðræðu að því marki að það þurfi að senda þá alla í endurmenntun? Eða getur verið að þetta snúist bara um að nýja vinstrið fái að leggja línurnar?

Dómarar, ákærendur og lögregla eiga að mæta á námskeið! Það verður auk þess unnið sérhæft fræðsluefni fyrir þessa hópa. Vinna skal að betri þekkingu þeirra á málaflokknum. Hvað er eiginlega í gangi hérna?! Það er alla vega ekki þrískipting ríkisvalds. Kunna dómarar ekki lögin? Þarf Vg-aktívista til að útskýra fyrir þeim hvernig beri að skilja lög eða á að dæma eftir einhverju öðru? E.t.v. nýju skilgreiningunum sem verða mótaðar þegar Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að gefa Vg frítt spil til að leiðbeina dómstólum og löggæslu.

Það á reyndar eftir að nefna einn hóp enn sem fellur undir þennan lið. Það er smáhópur sem kallast vinnumarkaðurinn. Það verður boðið upp á námskeið fyrir alla vinnustaði „sbr. aðgerð 3, sem hluta af fræðslu um félagslegt vinnuumhverfi“. Hvenær hættu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur alfarið þátttöku í stjórnmálum? E.t.v. hafa þeir engar áhyggjur í ljósi þess að félagsmálaráðherra verður kommisar þessa hluta námskeiðanna. Ráðherra Vg á að tryggja að stjórnendur fyrirtækja skapi góða vinnustaðamenningu.

Stjórnendum fyrirtækja er ekki treystandi til að vilja gott vinnuumhverfi, kjósendum er ekki treyst til að kjósa fulltrúa án endurmenntunar, kennurum er ekki treyst fyrir börnum og dómurum er ekki treyst til að dæma.

Þetta var bara byrjunin

Þetta voru bara fyrstu þrír liðir aðgerðaáætlunarinnar og ekki batnar það. Samfélagið allt, stofnanir þess og einstaklingar, ungir sem aldnir, eru undir. Það þarf enga byltingu þegar samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn eru fúsir til að leyfa þér að endurmennta samfélagið samkvæmt viðmiðum sem þú færð að móta ásamt samherjum þínum sem svo sjá um framkvæmdina.

Í þessari miklu áætlun eru 14 liðir til viðbótar við þá þrjá sem þegar hafa verið nefndir.

Stefnt er að úttekt á refsilöggjöfinni til að kanna hvort hún sé nægjanlega í takt við hinar nýju reglur. Verklagsreglur lögreglu og ákærenda skulu endurskoðaðar til að meta hvort þær falli að herferðinni.

Vg fær loksins netlögregluna sína eftir öll þessi ár. Mál sem haft var að háði og spotti af núverandi samstarfsflokkum þegar flokkurinn fann fyrstur upp á þessu. „Hver hlær núna?“ hljóta þeir að spyrja sig.

Fjölmiðlarnir sleppa ekki. Enda getur reynst erfitt að hafa stjórn á heilu samfélagi ef ekki er komið taumhaldi á fjölmiðlana. Haldið verður utan um þann þátt af ráðuneytinu sem útdeilir ríkisstyrkjum til fjölmiðla.

Forsætisráðuneytið mun halda utan um upplýsingamiðlun (fjölmiðlun) fyrir þóknanleg félagasamtök.

Það þýðir auðvitað ekkert að endurmennta samfélag án þess að taka börnin sérstaklega fyrir. Það á við um öll börn í öllum skólum, hvað sem foreldrunum kann að finnast. Gamla fólkið liggur líka undir grun um vafasamt hugarfar. Gerð skal úttekt á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum til að kanna hvort þeir sem þar dveljast sýni merki slíks.

Þannig mætti lengi telja en til að gera langa sögu stutta er allur heimurinn undir því íslenskir diplómatar eiga að bera heimsbyggðinni þennan boðskap. En látum okkur nægja að hafa áhyggjur af Íslandi til að byrja með.

Þetta dæmalausa dellumakerí ríkisstjórnarinnar miðar að því að senda samfélagið allt í endurmenntun sem stjórnað verður af einhverjum sem kynntir verða síðar. Þeir munu svo kenna á grundvelli hugmyndafræði sem forsætisráðherrann treysti sér ekki til að útskýra hver er. Það kemur fyrst í ljós þegar samstarfsflokkarnir hafa álpast til að veita forsætisráðherranum og pólitískum samherjum vald til að móta samfélagið eftir eigin höfði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11.3.2023