Hvað þýðir orðið kona?

Ég rakst á frétt (á vefmiðlinum Eyjunni) um að ég hefði spurt forsætisráðherra (skriflega) hvernig ráðuneytið skilgreindi orðið kona.

Fréttin snerist um að á Twitter, aðalsamfélagsmiðli hinna gagnrýnustu og hörundsárustu, hefði spurningin vakið hörð viðbrögð með hefðbundnum ásökunum um fordóma og fávisku.

Til að skilja slík viðbrögð við þessari einföldu spurningu, þarf að þekkja til nýrrar harðlínustefnu sem nú hefur verið flutt inn frá útlöndum. Þar hefur málið þó vakið talsverða umræðu, nokkuð sem er stundum af skornum skammti hér á landi (einkum ef um er að ræða stór grundvallarmál).

Víða erlendis, einkum í enskumælandi löndum, þykir sumum nú óviðeigandi að tala um konur. Þetta viðhorf hefur verið keyrt áfram af þeirri hörku, að starfsmenn fyrirtækja og opinberra stofnana hafa fengið leiðbeiningar eða verið settir á innrætingarnámskeið um að forðast beri að tala um konur. Hvatt hefur verið til orðanotkunar á borð við „einstaklingar sem hafa tíðir“ og „leghafar“. Slíkt orðalag nær reyndar ekki yfir allar konur en hefur skotið upp kollinum hér á landi, jafnvel í umfjöllun um þingmál.

Þessi nýi rétttrúnaður hefur gengið svo langt, að í Bretlandi var ráðist í umfangsmikla lögreglurannsókn til að komast að því hverjir hefðu fest upp litla miða á götum úti með texta sem talinn var hættulegur. Þetta var líklega í fyrsta skipti sem ráðist var í slíka rannsókn frá því á 19. öld. En hver voru hin hættulegu skilaboð? Á miðunum var aðeins skilgreining orðabókarinnar á orðinu kona: „Kona: Fullorðin, kvenkyns manneskja“ (e. „Woman: Adult human female“).

Þetta er eitt af mörgum dæmum um hvernig lög um svo kallaða hatursorðræðu eiga það til að vera misnotuð með sífelldum endurskilgreiningum á því hvað teljist vera hatur.

Nú er svo komið að enskumælandi aktívistar á þessu sviði (þ.m.t. ráðgjafar opinberra stofnana) vilja ekki einu sinni sjá orðið „woman“ og hafa skipt því út fyrir „womxn“.

Sótt að konum

Femínistar, og aðrir sem hafa talað fyrir mikilvægi þess að verja réttindi kvenna og réttmæti þess að það megi yfir höfuð tala um konur, hafa orðið fyrir aðkasti. Vinsælasti rithöfundur heims, J.K. Rowling, hefur aldeilis fengið að finna fyrir því frá því hún skrifaði stutt tíst þar sem hún vísaði í fyrirsögn greinar um réttindi „fólks sem hefur tíðir“. Í lauslegri þýðingu skrifaði hún: „Ég er viss um að það var til orð yfir þetta fólk. Getur einhver hjálpað mér. Kóbur? Kyníur? Kanúur?“.

Fyrir þetta mátti Rowling þola ótrúlegt skítkast, fordæmingu og hótanir. Það færist svo í aukana í hvert sinn sem hún minnir á réttindi kvenna eða kemur til varnar einhverjum sem orðið hefur fyrir aðkasti fyrir að gera slíkt hið sama. Í engu tilvikanna hefur hún sýnt af sér fordóma (þvert á móti) en reyndar leyft sér að benda á að það sé ekki hatur að segja sannleikann.

Öfgarnar sem Rowling gagnrýndi taka á sig ýmsar myndir. Hópur femínista í Bretlandi (sem Rowling hefur stutt) hélt nýverið fund við styttu af hinni frægu súffragettu, Emily Pankhurst, í Manchester. Fundurinn var haldinn til að ræða réttindi kvenna undir yfirskriftinni „Leyfum konum að tala“. Fyrr en varði sótti hópur fólks að konunum. Flestir voru svartklæddir karlmenn með svartar grímur að hætti bankaræningja (eða hópa sem eigna sér hvaða málstað sem þeir telja nýtast til að ráðast á fólk á götum úti í nafni „réttlætis“). Árásarmennirnir sökuðu konurnar um að ráðast á transfólk með kvenréttindatali sínu, öskruðu á þær, ýttu við þeim og hengdu snöru með fána málstaðarins um háls styttunnar. Fremur en að fjarlægja ólátabelgina bað lögreglan konurnar að fara annað.

Sams konar atburðir hafa átt sér stað í öðrum löndum á síðustu misserum. Um síðustu helgi var svo gerð önnur tilraun til að halda „Leyfum konum að tala“ fund. Að þessu sinni á sérstökum málfrelsisreit (Speakers corner) í Bristol.

Sambærileg atburðarás átti sér stað en lauk með því að lögreglan forðaði konunum inn á knæpu og leitaðist við að varna svartklæddum skrílnum inngöngu við aðal- og bakdyrnar.

Rowling benti á hið augljósa, að slík framganga gerði málstaðnum varla gagn. Öllum má vera ljóst að því fer fjarri að allir sem berjast fyrir réttindum transfólks réttlæti slíkar aðferðir eða það að gagnrýninni umræðu sé mætt með skítkasti eða að lögregla sé send heim til fólks vegna kvartana yfir fimmaurabröndurum á samfélagsmiðlum.

Þótt þeir sem fara fram með slíkum hætti telji sig vera í réttindabaráttu, má skynsömu fólki vera ljóst að það verður að vera hægt að gagnrýna bæði ályktanirnar og aðferðirnar sem beitt er. Það verður líka að leyfa orð og skilja hvað þau þýða. Aðeins þannig næst skynsamleg og réttlát niðurstaða.

Erfið spurning

Það vildi svo til að tveimur dögum eftir að ég lagði fram fyrirspurnina um skilgreiningu forsætisráðuneytisins á orðinu kona, birtist grein í tímaritinu Spectator undir fyrirsögninni „Hvað er kona?“. Umfjöllunarefnið var nýútkomin heimildarmynd með sama nafni. Höfundur greinarinnar, Debbie Hayton, er transkona og lýsti myndinni sem óhugnanlegri.

Debbie hefur skrifað mikið um mikilvægi þess að byggja réttindi transfólks á skynsamlegri umræðu. Það sem henni þótti óhugnanlegt var að sjá hversu erfitt viðmælendur í heimildarmyndinni (sem hlotið hefur afbragðsgóða dóma) áttu með að svara spurningunni „hvað er kona?“ og hversu margir þeirra sem töldu sig tala máli transfólks sýndu öfgakennd og illa ígrunduð viðbrögð. Hún vísaði auk þess í grein eftir femínistann Jo Bartosch um sama efni. Greinarnar eru aðgengilegar á vefnum og höfundarnir hafa báðir bætt við greinum um atburðina í Bristol.

Mikilvæg spurning

Þegar ég lagði fram fyrirspurnina gerði ég það ekki í hálfkæringi. Það skiptir verulegu máli hvernig forsætisráðuneytið skilgreinir konur, því það hefur áhrif á lög og framfylgd þeirra. Á síðustu árum hafa verið sett lög þar sem þetta virðist vera á reiki. Á síðasta þingi voru sett lög sem stönguðust á að þessu leyti. Alþingi hefur auk þess samþykkt frumvörp ríkisstjórnarinnar, þar sem engin tilraun var gerð til að skýra hver áhrifin yrðu á réttindi, öryggi og íþróttir kvenna eða annað sem mikið hefur verið rætt í öðrum löndum. Ekki er langt síðan ríkisstjórnin lagði til að orðið móðir yrði fjarlægt úr ýmsum lagagreinum.

Það hlýtur að vera hægt að ræða þessi stóru mál, án þess að stjórnvöld komi sér hjá því að svara til um áhrifin og að þeir sem spyrja spurninga megi vænta persónulegra árása eða fullyrðinga um að þeir megi ekki tjá sig um málið af því þeir tilheyri ekki réttum hópi.

Það væri fráleitt að útiloka að konur geti fæðist í líkama karls og öfugt. En bæði kynin hljóta að geta tekið undir með Debbie Hayton um að það eigi að sýna öllum virðingu, ræða málin af skynsemi og verja um leið konur, karla og börn fyrir skaðlegum þrýstingi og öfgum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25.6.2022