Það sem ekki má ræða

Fyrir skömmu vann ung kona að nafni Keira Bell mál fyrir hæstarétti Bretlands. Niðurstaðan vakti mikla athygli þar í landi vegna þess að hún snýr að umdeildu máli en einnig vegna þess að hún varðar grundvallarréttindi barna.

Á unglingsaldri leið Keiru illa í eigin líkama og var haldin óöryggi eins og algengt er meðal unglinga. Kerfið tók þá við og leiddi hana á einstefnubraut. Keiru voru gefin hormón og önnur efni til að koma í veg fyrir kynþroska og svo testósterón og lyf á tilraunastigi til að færa líkama hennar í aðra átt. Loks var hún send í aðgerð.

Keira sem er nú 23 ára segist upplifa sig sem konu en að meðferð heilbrigðiskerfisins hafi skaðað sig fyrir lífstíð. Dómstóllinn tók undir þá afstöðu hennar að börn hefðu ekki þroska til að taka slíkar ákvarðanir og að ekki ætti að setja þau í þá stöðu. Í tilviki 16 og 17 ára barna væri eðlilegt að fara fram á dómsúrskurð áður en ráðist yrði í lyfjagjöf og aðgerðir sem enn er óljóst hvaða áhrif muni hafa til langs tíma.

Umræðan hér og þar

Málefni transfólks hafa vakið mikla umræðu í nágrannalöndum okkar. Sú umræða hefur oft orðið öfgafull og margir mátt þola mikla ágjöf fyrir að spyrja gagnrýninna spurninga. Margt transfólk hefur lýst eigin reynslu og beitt sér fyrir skynsamlegri nálgun en oft mátt þola árásir, ekki hvað síst frá fólki sem hefur nýtt sér málstaðinn til að styðja við eigin hugmyndafræði fremur en að leita bestu lausnanna.

Hér á landi er umræða um kosti og galla mismunandi aðferða hins vegar lítil sem engin. Á þessu sviði hefur ríkisstjórn Íslands keyrt í gegn verulegar breytingar á lögum nánast án umræðu í samfélaginu. Eftir helgi hyggst stjórnin lögfesta þrjú frumvörp til viðbótar. Sem fyrr er gagnrýnin umræða talin til óþurftar þrátt fyrir að málin varði grundvallarbreytingar á samfélaginu og vernd barna, lífs og heilsu.

Stefna ríkisstjórnarinnar

Ólíkt niðurstöðu hæstaréttar Bretlands um að börn skuli njóta leiðsagnar fullorðinna leggur ríkisstjórn Íslands nú til að lagt verði bann við því að foreldrar eða læknar taki ákvörðun um aðstoð við börn sem fæðast með svokölluð ódæmigerð kyneinkenni. Þessar aðgerðir hafa verið tiltölulega algengar og mörg hundruð börn fengið slíkar lækningar á undanförnum árum og áratugum.

Í gögnum ríkisstjórnarinnar er vísað til þess að 1,7% barna fæðist með ódæmigerð kyneinkenni. Þannig er miðað við víðtækustu mögulegu skilgreiningu þess. Samkvæmt viðamikilli rannsókn fæðast um 0,018% barna með ódæmigerð einkenni sem kallast intersex. Ríkisstjórnin hyggst með löggjöf setja nærri hundraðfalt fleiri börn í þann hóp og koma í veg fyrir að þau fái notið þeirra úrræða sem nútímavísindi og lækningar bjóða upp á. Það þýðir að jafnvel í tilvikum þar sem augljóst má heita hvoru kyninu barnið tilheyrir, og vel hægt að auka lífsgæði þess, sé það bannað. Þetta snýst hvorki um vísindi né lækningar heldur blinda pólitík.

Reynsla annarra

Ímyndarstjórnmál samtímans eru til þess fallin að fordæma og þagga niður alla umræðu um svona mál. Því fer þó fjarri að allt transfólk styðji tilraunir til að koma í veg fyrir umræðuna. Margt þess hefur skrifað greinar, veitt viðtöl, lýst eigin reynslu og beitt sér fyrir skynsamlegum reglum. Oft kallar slíkt þó á fordæmingu þeirra sem hafa gert málstaðinn að sínum og berjast fyrir lögum eins og þeim sem ríkisstjórn Íslands innleiðir.

The Tavistock Clinic sem setti Keiru Bell í meðferðina sem málaferlin snerust um sérhæfir sig í kynbreytingum barna og heyrir undir bresku heilbrigðisþjónustuna. Á síðasta ári leituðu 2.590 börn slíkrar meðferðar hjá stofnuninni, einkum stúlkur. Þar af voru um 230 yngri en 10 ára og tíu börn fjögurra ára eða yngri. Árið 2009 voru börnin hins vegar aðeins 77 í heild.

Ýmissa skýringa hefur verið leitað. Allt frá skólakynningum (óvenjuhátt hlutfall stúlkna í nokkrum skólum hefur sóst eftir aðgerðum) að áróðri í barnasjónvarpi BBC. *1

Fjöldi lækna, sálfræðinga og annarra hjá Tavistock hefur yfirgefið stofnunina, sagt starfið markast af pólitískum markmiðum og gagnrýnt að óleyfilegt sé að veita börnum eðlilega sálfræðiþjónustu. Þess í stað sé þeim beint inn á braut kynleiðréttingar. Geðhjúkrunarfræðingur við Tavistock hefur stefnt stofnuninni fyrir að láta starfsmenn gefa börnum lyf á tilraunastigi.

Þeir starfsmenn heilbrigðiskerfisins sem hafa gagnrýnt þróunina hafa mátt þola fordæmingu aktívista og jafnvel fjölmiðla. En þeir eru þó ekki einir um að lenda í slíku eftir tilraun til að ræða þessi mál. Fleira er undir í þessari umræðu en börn með kynáttunarvanda.

„Terfurnar“

Margar konur, ekki hvað síst femínistar, hafa mátt þola hreinar árásir fyrir að spyrja spurninga um þróunina og setja hana í samhengi við réttindi kvenna. Slíkar konur eru uppnefndar terfur (e. TERF – Trans Exclusionary Radical Feminist). Meðal frægustu fórnarlamba slíkra árása er breski rithöfundurinn J.K. Rowling sem leyfði sér að minna á að til væri orð yfir þann hóp fólks sem hefur tíðir og gaf til kynna að það orð gæti verið „kona“. Rowling er í aðstöðu til að standa af sér þá miklu herferð sem rekin hefur verið gegn henni en aðrar konur hafa misst vinnuna og mátt þola útskúfun fyrir að ræða þessi mál.

Maya Foraster missti starfið hjá hugveitunni Center for Global Development eftir athugasemdir við áform um innleiðingu svokallaðs kynræns sjálfræðis. Hún hafði leyft sér að benda á að ekki væri vikið að grundvallarréttindum kvenna. Síðar ákvað ný ríkisstjórn Bretlands að falla frá áformunum en Maya og fjölmargir aðrir sem höfðu spurt spurninga um áformin lágu óbættir hjá garði.

Eftir dóminn í máli Keiru Bell rifjaði transkonan Debbie Hayton upp mörg slík mál. Hún hefur verið óhrædd við að benda á að það henti ekki málstaðnum að koma í veg fyrir gagnrýna umræðu og leitina að skynsamlegum lausnum. Hún lýsti líka eigin reynslu af því að reyna að tala fyrir skynsemi við aðstæður þar sem baráttan snýst í raun ekki um frelsi einstaklingsins heldur takmarkalausa fylgispekt.

Réttindasamtök samkynhneigðra

Aðrir sem lengi hafa barist fyrir réttindum ákveðinna hópa eiga heldur ekki von á góðu ef þeir spyrja gagnrýninna spurninga. Samkynhneigt fólk og stuðningsmenn réttindabaráttu þeirra fá það óþvegið ef þau hætta sér í slíkt. T.d. með því að vara við þeirri tilhneigingu að líta á stráka sem hafa gaman af að leika sér með dúkkur eða stelpur sem hafa gaman af bílum sem transbörn. Áhugamál fólks eru ólík en þegar strákur sem fer í kjól eða stelpa sem hefur gaman af byssuleik eru fyrir vikið skilgreind þannig að þau séu í röngum líkama er þeim stefnt í hættu. Þessi börn geta í langflestum tilvikum lifað góðu lífi ef þau fá að vera þau sjálf. LGB Alliance bendir á að sum þessara barna gætu orðið samkynhneigð og hamingjusöm. Hví þá að setja þau í lyfjameðferð og aðgerð? Samtökin benda á að við séum aftur komin á þann stað að samkynhneigð krefjist leiðréttingar. *2

Ekkert er algilt

Þó má alls ekki líta fram hjá því að sumt fólk mun komast að þeirri niðurstöðu að það sé í röngum líkama og það fólk á rétt á þeim lækningum sem hægt er að veita auk virðingar og jafnréttis. Eins og margt transfólk hefur bent á er þó mikilvægt að svo stór ákvörðun hafi ákveðið gildi en sé ekki bara spurning um að senda eitt skráningarblað.

Í fyrra innleiddi ríkisstjórnin lög um svokallað kynrænt sjálfræði án nokkurrar umræðu sem heitið gat í samfélaginu og án þess að áhrif málsins lægju fyrir. Ef fólk getur sjálft skilgreint kyn sitt fyrirvaralaust, hvað þýðir það þá t.d. um þátttöku fyrrverandi karla í íþróttum kvenna, aðgang að salernum, búningsklefum, kvennafangelsum o.s.frv.? Þessum spurningum sem mikið eru ræddar víða annars staðar var ósvarað þegar ríkisstjórn Íslands dreif málið í gegn.

Nú er haldið áfram án umræðu og fyrir liggja ný frumvörp m.a. um að taka orðin „móðir“ og „kvenmaður“ úr lögum. Orð sem þóttu jákvæð og falleg.

Í þessum málum eins og öðrum stórum viðfangsefnum stjórnmálanna þarf að leita lausna sem byggjast á staðreyndum, vísindum, sanngirni, jafnrétti og skynsemi. Aðeins þannig er hægt að verja samfélagið og raunveruleg mannréttindi.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12.12.20

*1 Einn fjölmiðill taldi þessa fyrirsögn mest lýsandi fyrir innihald greinarinnar: „Sigmundur gefur í skyn að „áróður“ í barnaefni sé að hafa áhrif á börn“. Eins og sjá má viðraði ég ekki eigin kenningar um slíkt. Þetta kom hins vegar til tals í breskum fjölmiðlum eftir að birtar voru svartar skýrslur um the Tavistock Clinick. Sjá t.d. samantekt hér: https://www.spectator.co.uk/article/keira-bell-s-landmark-victory-against-hormone-blockers-for-children

*2 Sett hefur verið út á samtökin LGB Alliance. Hér er ágætis umfjöllun um herferð sem rekin hefur verið gegn samtökunum: https://www.spectator.co.uk/article/the-disgraceful-crusade-against-the-lgb-alliance