Áformaðar skemmdir á Alþingishúsinu

Nú er unnið að óskiljanlegum áformum um að skemma ein fallegustu og merkilegustu húsakynni landsins.

Hús frá liðinni tíð hafa varðveist illa á Íslandi og það heyrir til algerra undantekninga að upprunalegar  innréttingar hafi varðveist. Það er því mikilvægt að við verndum þann byggða menningararf sem við þó eigum. Eðli máls samkvæmt er það sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða sögulega merkileg hús.

Alþingishúsið fellur augljóslega í þann flokk. Húsið var einstakt á Íslandi þegar það var byggt og reyndar er það næstelsta þinghús á Norðurlöndum. Fljótlega varð Alþingishúsið að táknmynd fyrir elsta þjóðþing heims, hina merku sögu Alþingis og fullveldisbaráttuna.

 

Húsið var hannað af Ferdinand Meldahl, einum áhrifamesta arkitekt Dana, en hann er m.a. þekktur fyrir endurbyggingu Friðriksborgarhallar og að hafa lokið við byggingu Marmarakirkjunnar í Kaupmannahöfn. Þegar Meldahl teiknaði Alþingishúsið var hann orðinn stjórnandi Konunglegu dönsku listaakademíunnar sem fræg er í sögu Danmerkur og Íslands og þótt víðar væri leitað.

Hönnun hússins er sérstök að því leyti að ytra byrðið er hrjúft og lítið skreytt en þó formfagurt með ítölskum endurreisnaráhrifum sem leyfa íslenska grágrýtinu að njóta sín. Að innan birtist hins vegar hrein klassík í björtum litum. Þar ber hæst salurinn sem á sínum tíma fyllti Íslendinga stolti og varð miðpunktur baráttu fyrir auknu sjálfstæði og lýðræði.

 

 

 

 

 

 

Salurinn og veggirnir sem nú er rætt um að brjóta eru meginhönnunin í innviðum hússins. Þar nýtti Meldahl reynslu sína af hönnun nokkurra af þekktustu höllum Danmerkur og lagði mikla vinnu í hvert smáatriði. Hin fíngerða klassík, öll hlutföll og skraut, voru því nákvæmlega tilgreind á teikningum. Þetta hefur allt varðveist þar til nú. Í salnum spilar allt saman, þar með talið fallegar skreytingar í lofti sem taka mið af lögun salarins. Enga sambærilega innviði er að finna í öðru húsi á Íslandi (þótt hinn glæsilegi salur í Iðnó sæki fyrirmyndir í hönnun Alþingissalarins).

Ein af teikningum Meldahls af sal efri deildar (sem er við hlið þingsalar). Frummyndirnar eru málaðar til að sýna rétta litasamsetningu.
Ef veggir verða brotnir og fyllt upp í dyraop í þingsalnum mun það einnig breyta rýmunum sem umlykja þingsalinn.

 

Á árunum 2003-2005 fór fram mikil vinna við endurbætur á Alþingishúsinu með það að markmiði að færa það sem næst upprunalegu horfi. Á neðri hæðinni höfðu verið gerðar umtalsverðar breytingar, m.a. á herbergjaskipan. Enda var sú hæð upphaflega nýtt undir nokkur söfn og síðar Háskóla Íslands þar til hann flutti í Háskólabygginguna árið 1940. Alþingi hafði ekki afnot af hæðinni allri fyrr en 1973. Á efri hæðinni, í húsakynnum Alþingis, hafði upprunaleg hönnun hins vegar varðveist, ekki hvað síst salurinn, eitt fallegasta og best varðveitta rými Íslands frá liðinni tíð, sögusviðið þar sem þingmenn hafa sett landinu lög í 140 ár. Helsta breytingin er sú að handriðum á þingpöllum var breytt fyrir margt löngu.

Frá upphafi báru Alþingismenn sérstaka virðingu fyrir þessum sal sem hannaður var sem nokkurs konar helgidómur lýðræðis. Ætlast var til að þingmenn væru vel klæddir þegar þeir kæmu í salinn og hefðu ekki með sér annað en það sem þar ætti heima, t.d. ekki önnur matvæli en vatn.

Strangar reglur gilda um myndatökur í salnum og því hafa t.d. þeir sem vilja taka upp sjónvarpsefni sem á að gerast í þingsal þurft að smíða eigin eftirlíkingar. Það á við hvort sem um er að ræða Spaugstofuna, Áramótaskaup eða þætti á borð við Ráðherrann þar sem framleiðendur fengu þó leyfi til að taka upp efni annars staðar í húsinu.

Það er þarna, í salnum þar sem fyrir skömmu mátti ekki hafa með sér tölvu, sem nú stendur til að menn mæti með fleyga til að brjóta niður veggi ásamt því að fylla upp í þau dyraop sem eftir standa. Þegar veggir eru brotnir innanhúss (eða fyllt upp í dyr) hefur það eðli máls samkvæmt áhrif á fleiri en eitt herbergi. Salurinn er miðrými hinnar vel varðveittu þinghæðar og því mun nánast öll hæðin taka breytingum. Meðal þeirra rýma sem eiga að hverfa, samkvæmt tillögunni sem nú er efst á blaði hjá niðurbrotsmönnum, er gangurinn sem tengir hæðina saman á einkar skemmtilegan hátt. Gangurinn, sem hefur varðveist í upprunalegri mynd m.a. með fallegum glervegg, tengir stigaganginn, þingsalinn og hliðarherbergin.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta áformaða menningartjón var réttlætt með því að auka þyrfti rými og bæta fleiri stólum í salinn og framlengja þannig nýtingartíma hússins (þótt síðan hafi verið leitað að fleiri rökum). Vissulega er þröngt um menn í salnum en það er yfirleitt ekki verra enda sitja þingmenn ekki löngum stundum í salnum og geta fylgst með þingfundum frá skrifstofum sínum. Þekkt er sú kenning að opinberar stofnanir stækki eftir því sem húsrúm leyfir. Stærri salur hefði þá e.t.v. þau áhrif að stuðla að fjölgun þingmanna. Nokkuð sem varla er mikið ákall eftir.

 

Það er gaman að taka á móti gestum í Þinghúsinu og svara spurningum þeirra um sögu hússins. Margir hafa orð á því hversu fallegt og notalegt húsið er og taka eftir því að þar ríkir góður andi þrátt fyrir að mikið hafi verið tekist á í gegnum tíðina.

Þegar fólk sér þingsalinn í fyrsta skipti, annars staðar en í sjónvarpi, þykir því oftast furðulegt að sjá hversu tiltölulega lítill hann er. En hann er notalegur og heldur vel utan um mannskapinn ólíkt því sem yrði ef salnum yrði snúið við, bætt við útskotum, forsetastóllinn settur undir svalir og ræðupúltið fram á gólfið. Þótt praktísk áhrif séu ekki megináhyggjuefnið vekur það furðu að einhverjir telji að áhrifin réttlæti þessar framkvæmdir. Þeir sem sitja í útskotunum sjá forsetastólinn (þar sem forsetinn hírist undir svölunum) illa eða alls ekki. Það sama á við um ræðustólinn. Sumir þingmenn sjá fyrst og fremst hnakkann á ræðumanninum, aðgengi að sætum verður jafnvel verra en nú og þrengslin ekki minni.

 

Með þessu er ég ekki að gagnrýna arkitektana. Þeim var einfaldlega falið að breyta hinum gömlu salakynnum í eitthvað sem þeim var aldrei ætlað að vera.

Varla þarf að taka fram að Alþingishúsið er friðað og nú reynir á það. Því skyldu Minjastofnun og húsafriðunarnefnd heimila skemmdir á þessum einstöku salakynnum. Hver væri þá tilgangurinn með starfi þeirra?

Nú er verið að byggja nýtt hús fyrir Alþingi, steinsteypukassa á lóðinni þar sem glæsibygging Guðjóns Samúelssonar átti að rísa. Má ekki ekki leyfa gamla þinghúsinu að vera í friði og verja þeim hundruðum milljóna sem færu í að gera nýjan sal í gamla þinghúsinu í verðugri verkefni?