Nýaldarpólitík ríkisstjórnarinnar

Eðli stjórnmála- og samfélagsumræðu hefur breyst mikið á undanförnum árum. Umbúðir og yfirlýst markmið skipta nú öllu máli á kostnað innihalds og raunverulegra áhrifa. Rétttrúnaðurinn er að verða allsráðandi á kostnað rökræðu. Margir stjórnmálamenn leitast nú við að vera það sem enskumælandi fólk kallar woke (vaknir). Þeir nota hvert tækifæri til að sýna að þeir hafi meðtekið rétttrúnaðinn og óttast hræðilega ásakanir um annað. Afleiðinguna mætti kalla nýaldarstjórnmál.

Undir handleiðslu ráðandi flokksins er núverandi ríkisstjórn orðin mest „woke“ ríkisstjórn Íslandssögunnar. Ríkisstjórn sem vill banna plastpoka en leyfa eiturlyf. Hún hefur verið meira vakin (og sofin) yfir rétttrúnaðinum en síðasta ríkisstjórn (og er þá langt til jafnað). Vinstristjórn áranna 2009-13 situr eftir í þriðja sætinu.

Áhersla hefur verið lögð á að tikka í hvert box ímyndarstjórnmálanna. Hér fylgja nokkur dæmi:

Umhverfismál

Umhverfismálin hafa einkennst af þeirri yfirborðsmennsku sem áður var fyrst og fremst beitt af öfgamönnum. Í stað þess að nálgast málin af skynsemi eru stöðugt kynnt ný boð og bönn og ný „græn“ gjöld, þau svo hækkuð og refsisköttum beitt til að hegna fólki fyrir að lifa daglegu lífi.

Einstökum árangri Íslands í loftslagsmálum er fórnað með fyrirheitum um að Ísland dragi meira úr losun (og þar með verðmætasköpun) en önnur iðnvædd lönd sem eru rétt að byrja að nýta sér endurnýjanlega orku.

Endalaust eru boðuð aukin útgjöld til málaflokksins (tugir milljarða) án þess að það sé ljóst hvernig það bæti umhverfið. Boðaðar eru jafnvel skaðlegar (en sýnilegar), aðgerðir á borð við að moka ofan í skurði. Á meðan eru leikskólabörn farin að þjást af loftslagskvíða og telja að heimsendir sé í nánd.

Borgarlína og samgöngur

Í samgöngumálum virðist borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík hafa verið falin stjórnin. Borgarstjóri útskýrir fyrir ríkisstjórninni að hún sé í raun búin að fallast á brotthvarf Reykjavíkurflugvallar. Ríkisstjórnin þakkar fyrir sig með því að styrkja borgarstjórann um 50 milljarða af ríkisfé (til að byrja með) til að hjálpa honum að standa við helsta kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík. Galin áform um að eyða endalausum peningum í tvöfalt strætisvagnakerfi í Reykjavík og auka enn á umferðarteppur. Almenningur fær að borga með nýjum veggjöldum á þá sem sitja fastir í umferðinni.

Kerfið og báknið

Kerfisræðið eykst og báknið stækkar (það hefur aldrei verið stærra).

ESB fer sínu fram enda, jaðrar það við guðlast að styggja ESB að mati rétttrúnaðarmanna. Evrópusambandið styrkir þannig völd sín jafnt og þétt, meðal annars yfir orkumálum landsins á sama tíma og sambandið útskýrir að það þurfi að hafa vald yfir orkumálum og allir skuli leggja sitt af mörkum. Ríkisstjórninni virðist þykja tal um fullveldi óþægilegt og gamaldags.

Lýðræði minnkar og Ísland líka

Nú áformar ríkisstjórnin að taka stóran hluta landsins undan lýðræðislegri stjórn með stofnun svokallaðs hálendisþjóðgarðs. Landsmenn munu þurfa leyfi til að njóta eigin lands (og svo eflaust borga fyrir það). Eftir mótbárur Miðflokksins lýstu nokkrir þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks yfir efasemdum um málið. En ætli megi ekki búast við gamla trikkinu, gerðar verði málamyndabreytingar svo menn geti sagst hafa bætt málið og tilkynnt að eitt og annað verði skoðað síðar (en kerfið mun sjá um það)?

Lýðræði og fjölmiðlar

Nú áformar ríkisstjórnin að gera einkarekna fjölmiðla háða ríkinu, í stað þess að létta af þeim álögum og rétta samkeppnisstöðu þeirra, undir stefnunni „ríkið í alla miðla“. Þó á Ríkisútvarpið að halda yfirburðastöðu sinni („skoðum það seinna“) enda öflugt við að boða rétttrúnaðinn og ráðherrar geta verið rólegir á meðan þeir halda sig á réttri línu.

Heilbrigðisþjónusta Marteins Mosdal

Ríkisstjórnin vill frekar borga allt að þrefalt verð fyrir að senda sjúklinga í aðgerðir á heilbrigðisstofnunum erlendis en að leyfa sams konar stofnunum á Íslandi að framkvæma aðgerðirnar og spara þannig peninga og létta undir með Landspítalanum. Sjálfstæður rekstur virðist vera eitur í beinum heilbrigðisráðherrans og þar með ríkisstjórnarinnar. Það er talið skárra að styrkja slíkan rekstur erlendis til að geta svelt hann hér á landi. Frjáls félagasamtök sem áratugum saman hafa gert samfélaginu gríðarlegt gagn, Krabbameinsfélagið, SÁÁ osfrv. virðast nú einnig litin hornauga af ríkisvaldinu. „Allt til ríkisins og ríkið skal starfa við Hringbraut í Reykjavík“:

Lögleiðing fíkniefna

Á sama tíma og landsmenn hafa sameinast um að fylgja leiðsögn sérfræðinga í viðureigninni við einn faraldur vill ríkisstjórnin nú fara þvert á leiðsögn sérfræðinga með því að lögleiða annan og ekki síður hættulegan faraldur. Hér er stefnt að einhverri róttækustu lögleiðingu fíkniefna í víðri veröld. Eins og jafnan í nýaldarmálum ríkisstjórnarinnar er það fyrst og fremst stutt af vinstriflokkunum á þingi, einkum pírötum sem hafa barist fyrir sams konar máli um árabil.

Hælisumsóknum beint til Íslands

Nú hyggst ríkisstjórnin innleiða grundvallarbreytingu á hælisleitendakerfinu. Til stendur að tryggja öllum sem fá hæli eða dvalarleyfi jöfn réttindi hvort sem þeir fara lögformlegu öruggu leiðina og er boðið til Íslands eða koma með öðrum hætti, ólögmætum eða lögmætum, á eigin vegum eða undir handleiðslu glæpagengja. Þetta gengur þvert á stefnu annarra Norðurlanda ekki hvað síst Danmerkur undir stjórn jafnaðarmanna þar sem markmiðið er nú að enginn komi til Danmerkur til að sækja um hæli. Öllum skuli beint í löglegu öruggu leiðina. Hælisleitendur eru þegar orðnir sexfalt fleiri á Íslandi en í Noregi og Danmörku. Stefna ríkisstjórnarinnar mun enn auka þann mun.

Fóstureyðingar

Lengi hafði ríkt friður um fóstureyðingalöggjöfina á Íslandi. Einhverra hluta vegna sá ríkisstjórnin ástæðu til að setja heimsmet í því hversu lengi mætti eyða fóstri. Engin rök voru færð fyrir hinum nýju viðmiðum og forsætisráðherra lýsti því ítrekað yfir að hann teldi að engin tímamörk ættu að vera á fóstureyðingum. Þær ættu að vera heimilar fram að fæðingu barnsins. Yfirlýsing sem víðast hvar annars staðar teldist til öfgahyggju og hefði vakið mikil viðbrögð. Samstarfsflokkarnir héldu fyrir eyru, augu og munn og tryggðu heimsmetið.

Jafnréttið gleymdist

Nýaldarstjórnmálin hafa leitast við að eigna sér málefni transfólks í meira mæli en nokkuð annað mál. Erlendis hefur verið mikil umræða um þann málaflokk árum saman. Margt transfólk hefur bent á að málefni þeirra megi ekki verða fórnarlamb ímyndarstjórnmála og gagnrýnt stjórnmálamenn fyrir að nálgast þau ekki af skynsemi. Femínistar og jafnréttissinnar hafa einnig látið mikið til sín taka. En íslenska ríkisstjórnin stökk fram nánast án umræðu með frumvarp þar sem öllum var gert kleift að ákveða hvoru kyninu þeir tilheyrðu fyrirvaralaust.

Það lá svo á að gorta sig af heimsmetinu að það gleymdist einu sinni sem oftar að huga að raunverulegum áhrifum málsins, t.d. á íþróttir kvenna, aðgengi að svæðum sem eingöngu eru ætluð konum, ýmsum jafnréttissjónarmiðum o.s.frv.

Nútímalæknavísindum fórnað

Svokölluð lög um kynrænt sjálfræði voru svo notuð til að innleiða öfgastefnu sem (þrátt fyrir nafn laganna) hefur fyrst og fremst áhrif á aðra en transfólk. Ríkisstjórn Íslands leiddi í lög bann við því að börn (sem ekki hafa aldur til að biðja sjálf um læknisaðstoð) nytu nútímaheilbrigðisþjónustu sem í mörgum tilvikum hefur verið veitt áratugum saman. Málið snýr að lækningum sem varða kyn- og þvagfæri. Oft er mikilvægt að hægt sé að veita lækningu sem fyrst. Helsta framlag ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu málsins var að árétta að skoðað yrði hvort þær tvær undantekningar sem þó voru heimilaðar (með ýmsum hindrunum) skyldu afnumdar.

Einkenni nýaldarstjórnmálanna

Eitt af helstu einkennum nýaldarstjórnmálanna er að þegar þau mæta gagnrýni eru stimplarnir jafnan dregnir á loft fremur en að rökræða innihaldið. Þannig var brugðist við tilraunum til verja nútímalæknavísindi með því að skilgreina slíkt sem öfgar og afturhald. Rétttrúnaðurinn skipti meira máli en lækningar og vísindi. Þegar skynsemi er endurskírð öfgar er orwellsk þróun rétttrúnaðarins fullkomnuð.

Ég hvet því borgaralega sinnað fólk á Íslandi til að staldra við, verja grunngildi samfélagsins og frjálslyndi, þá hugmynd að skoðanaskipti séu af hinu góða. Annars höldum við áfram niður braut raunverulegra öfga.

Látum svo ekki blekkjast af því þegar nýaldarpólitíkusar mæta fyrir kosningar og segjast ætla að gera eitthvað allt annað en þeir hafa verið að gera. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.

 

 

Styttri útgáfa greinarinnar birtist fyrst í Morgunblaðinu 13.5.´21 undir fyrirsögninni „Ákall til borgaralega sinnaðs fólks“.