Sögulegar kosningar

Á morgun verður kosið í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi.

Kosningarnar geta haft áhrif um allt land. Nýja sveitarfélagið sem er hið langstærsta á Íslandi (að flatarmáli) getur reynst öflugur bandamaður okkar sem viljum innleiða nýja stefnu í byggðamálum og hverfa frá dýrri vörn liðinna áratuga í arðbæra sókn. Ný sveitarstjórn gæti líka sett mark sitt á þróun stjórnmála á Íslandi.

Ef lýðræði á að virka þarf að skipta máli hvaða  stjórnmálaflokk fólk kýs. Kjósendur verða að geta  treyst því að flokkar ætli sér raunverulega að fylgja þeirri stefnu sem þeir boða og standa við gefin loforð.

Frá því að hópur hugsjónamanna af Austurlandi fékk mig til að hefja þátttöku í stjórnmálum hefur mér orðið  tíðrætt um óheillavænlega þróun í pólitíkinni hér á landi og víðar. Það virtist skipta sífellt minna máli hvaða flokkar væru kosnir, hvort sem um var að ræða þingkosningar eða  sveitarstjórnarkosningar. Strax að loknum kosningum hefst  kapphlaupið um að komast í meirihluta til að geta skipt stólum  á milli flokka og skipað hinar ýmsu stöður. Í stað þess að nýta  áhrifin til að framfylgja þeirri stefnu sem boðuð var í kosningum  er stjórnkerfinu hins vegar eftirlátið að stjórna. Oft er því raunin sú að þótt kjósendur velji breytingar, aðra flokka og fólk með nýja stefnu (að nafninu til) breytist lítið með kosningum.

Sumir flokkar ganga á lagið og nýta sér þetta ástand. Þeir birta langa lista kosningaloforða og auglýsa grimmt fyrir kosningar til að ná inn fulltrúum með það eitt að markmiði að komast í meirihluta til að geta útdeilt gæðum. En um leið og nýr meirihluti hefur verið myndaður eru fyrirheitin gleymd.

Þessi þróun ætti að valda öllum lýðræðissinnum áhyggjum. Áhyggjur eru þó aðeins gagnlegar ef þær verða til þess að fólk bregðist við vandanum og leysi hann.

Að leyfa lýðræðinu að virka

Miðflokkurinn var stofnaður til að breyta íslenskum stjórnmálum til hins betra. Það gerum við með rökhyggju og skynsemi að vopni en ekki innihaldslausum frösum eða pólitískum kreddum. Við leggjum áherslu á að finna lausnir og hrinda þeim í framkvæmd. Grundvallaratriði í starfi okkar hefur frá upphafi verið að standa við fyrirheitin og gera það sem við segjumst ætla að gera. Við höfum sýnt það í verki innan Miðflokksins, og  áður í störfum fyrir aðra flokka, að við erum ekki tilbúin til að  fórna prinsippum fyrir vegtyllur.

Á þessum forsendum býður Miðflokkurinn nú fram gríðarlega öflugan hóp fólks til sveitarstjórnar í hinu nýja sveitarfélagi.  Fólk sem hefur lausnir og getuna til að hrinda þeim í  framkvæmd. Fólk sem mun standa við fyrirheitin og gera það  sem það segist ætla að gera.

Sterk heild

Rétt eftir stofnun Miðflokksins voru haldnar Alþingiskosningar þar sem við fórum fram undir kjörorðinu  „Ísland allt!“. Með því var vísað til þeirrar grundvallarstefnu  flokksins að landið þurfi að virka sem ein heild. Við létum ekki nægja að lýsa því yfir heldur kynntum heildaráætlun  um hvernig mætti ná þessu markmiði. Það er áætlun sem við  munum standa við og hrinda í framkvæmd.

Með stofnun nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi  verður til öflug heild sem þarf að vera til þess fallin að bæta lífskjör íbúanna allra. Rétt eins og við leggjum áherslu á  mikilvægi og kosti þess að Ísland allt virki sem ein heild  leggja frambjóðendur okkar í nýja sveitarfélaginu áherslu á að  sveitarfélagið virki sem ein heild. Sem slíkt verður það til þess  fallið að efla landshlutann allan og þar með Ísland allt.

Búsetujafnrétti

Við leggjum áherslu á að tryggja búsetujafnrétti, þ.e. að allir hafi sama rétt óháð búsetu. Það er eðlileg krafa að allir íbúar sveitarfélags eigi rétt á sambærilegri þjónustu frá sveitarfélaginu og að allir íbúar landsins eigi rétt á sambærilegri þjónustu ríkisins.

Sveitarfélög og ríkið eiga ekki að búa til hindranir heldur ryðja brautina og vera í þjónustuhlutverki við þá sem gætu viljað ráðast í nýsköpun og byggja upp atvinnurekstur. Allt of oft mætir slíkt fólk hindrunum, skipulagslegum og kerfislægum. Gott skipulag og innviðir eru grunnur framfara á öðrum sviðum.

Í nýju sveitarfélagi þarf hvetjandi umhverfi og sveitarstjórn sem tryggir að stjórnkerfið allt sé í þjónustuhlutverki við nýverandi íbúa og þá sem vilja setjast að eða hefja rekstur.

Stutt en mikilvægt kjörtímabil

Þótt kjörtímabilið vari aðeins í eitt og hálft ár skiptir það meira  máli en hefðbundið fjögurra ára kjörtímabil. Nú verða línurnar  lagðar um framhaldið, teknar verða ákvarðanir um hvert skuli stefnt. Á því stutta kjörtímabili sem fram undan er verða  teknar ákvarðanir sem munu hafa áhrif til langrar framtíðar. Þær ákvarðanir þarf að taka á grundvelli skynsemishyggju en ekki kerfisstjórnmála.

Tækifæri hins nýja sveitarfélags eru stórkostleg. Ég sé t.d. fyrir mér að með skynsamlegum ákvörðunum í skipulagsmálum verði hægt að efla þau fjögur byggðarlög sem mynda nýja sveitarfélagið gríðarlega og heildaráhrifin verði enn stærri en summa partanna.

Sem forsætisráðherra lagði ég áherslu á mikilvægi Seyðisfjarðar sem megin ferjuhafnar Íslands, vinnu við undirbúning ganganna, uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli, ekki aðeins sem innanlandsflugvallar heldur millilandaflugvallar, m.a. með flugþróunarsjóðnum (sem því miður var svo settur í dvala)  og áformum um uppbyggingu innviða. Innanlandsflug þarf að efla sem almenningssamgöngur en alls ekki má koma á  kerfi sem notað verður sem afsökun fyrir því að flytja enn meira af opinberri þjónustu og jafnvel starfsemi fyrirtækja á  Suðvesturhornið.

Í samvinnu við nýtt öflugt sveitarfélag á Austurlandi mun  Miðflokkurinn enn betur en áður geta barist fyrir eflingu  opinberrar þjónustu í landshlutanum, skattalegum hvötum,  samgöngubótum, bættri mennta- og heilbrigðisþjónustu,  stuðningi við nýsköpun og öðrum þáttum sem tilheyra stefnu  okkar um Ísland allt.

Ég óska íbúum hins nýja sveitarfélags velfarnaðar á þessum  merku tímamótum.

– Sveitarfélagið allt, Ísland allt!