Viðsjárverð þróun á áhugaverðum tímum

Þetta verður ekki hefðbundin áramótagrein. Þó snýst hún um að líta yfir farinn veg og vangaveltur um framtíðina. Við þessi áramót er við hæfi að fjalla um lengra tímabil en nýliðið ár og það næsta. Nýverið fögnuðum við því að 100 ár væru liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki og skömmu áður voru liðin 100 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Annars vegar minntumst við nýs upphafs sem lagði grunn að stórkostlegum framförum. Hins vegar minntumst við loka mikilla hörmunga. Hvorugt markaði þó endapunkt. Framfarasaga Íslands hefur ekki alltaf verið auðveld og lok stríðsins sem átti að enda öll stríð sáði um leið fræjum að enn meiri og mannskæðari átökum.

Þessi aldarafmæli og áramót ber auk þess upp á tímum sem eru einstaklega áhugaverðir í stjórnmálasögu Vesturlanda. Áhugaverðir en um leið varhugaverðir. Það er því sérstakt tilefni til að líta til sögunnar og leitast við að læra af henni.

Sjálfsmyndarstjórnmál

Eitt af grundvallarviðmiðum frjálslyndra réttarríkja er að allir menn skuli vera jafnir fyrir lögum. Það má halda því fram að sú regla sé undirstaða alls hins, þar með talið almennra mannréttinda.

Á undanförnum árum hafa margar þeirra grundvallarreglna sem þróast hafa í meira en 2000 ár og lagt grunninn að vestrænum lýðræðisríkjum átt undir högg að sækja. Þessi þróun er stundum eignuð svokölluðum póstmódernisma í heimspeki en stjórnmálin sem eru í senn afleiðing og ástæða þróunarinnar eru kölluð sjálfsmyndarstjórnmál (e. Identity politics).

Í heimi sjálfsmyndarstjórnmálanna skiptir öllu máli hvaða hópum menn tilheyra, það hvað menn mega segja og gera veltur á því hvernig þeir eru skilgreindir. Mannréttindi og lagalegur réttur hvers og eins er jafnvel háður því hver á í hlut.

Áður en hugtakið sjálfsmyndarstjórnmál varð til kallaði ég þetta „stimpilstjórnmál“ enda snúast þau að miklu leyti um að setja ákveðna stimpla á málefni og fólk og meta í framhaldinu allt út frá því hvaða stimpli hefur verið komið á viðkomandi.

Ímyndarstjórnmál

Aðra birtingarmynd þróunarinnar mætti kalla ímyndarstjórnmál. Stjórnmál sem snúast um ímynd stjórnmálamanna og flokka en ekki um þau málefni sem menn standa fyrir eða ná fram, þ.e. hin eiginlegu „stjórnmál“. Það sem menn boða eða gera verður aukaatriði. Allt snýst um þá ímyndina eða ,,stimpilinn“.

Við þessar aðstæður hætta stjórnmálin að virka. Lýðræðið hættir að virka. Hugmyndin með lýðræði er sú að allir hafi jafnan rétt á að meta þær lausnir sem boðið er upp á fyrir samfélagið og taki afstöðu til þeirra.

Ef við trúum því að almenningur sé best til þess fallinn að ráða þróun eigin samfélags leiðir það til þess að þeir sem boða og framkvæma lausnir sem virka fái fyrir vikið aukinn stuðning en aðrir ekki. En þegar stjórnmálin snúast um ímynd fremur en málefni breytast þau í leikhús þar sem allt snýst um persónusköpun. Meginmarkmiðið verður þá jafnvel að koma höggi á persónu andstæðingsins fremur en að rökræða málefnin. Á meðan er kerfinu eftirlátið að stjórna.

Það verður jafnvel þægilegra fyrir stjórnmálamennina að láta aðra um ákvarðanirnar og vísa í að stefnan, frumvörpin og reglugerðirnar séu ekki pólitískar ákvarðanir heldur afleiðing af „faglegu ferli“. Í stað þess að framfylgja kosningaloforðum og stjórna einbeita menn sér þá að því að tala inn í ríkjandi tíðaranda, nota réttu frasana og láta mynda sig við borðaklippingar og á fundum með útlendingum.

Áður tókust menn hart á um málefni en gátu verið bestu vinir þess á milli. Það er erfiðara þegar pólitíkin gengur að miklu leyti út á persónuleg átök. Við þær aðstæður verður pólitíkin harðari, rætnari og neikvæðari. En verst er að um leið er valdið tekið af fólkinu sem á raunverulega að fara með það, kjósendum.

Ekki nýtt

Ekkert af því sem telst til ímyndarstjórnmála er nýtt. Fyrir 40 árum gerðu til dæmis bresku þættirnir ,,Já, ráðherra“ grín að mörgum þessara þátta. Hégómagirnd og hræðslu stjórnmálamannanna, kerfisræðinu, bjagaðri framsetningu bresku götublaðanna o.s.frv. Munurinn er þó sá að áður voru þetta taldir gallar, neikvæðir þættir stjórnmála. Nú virðist það sem áður taldist til lasta vera orðið að markmiðum í sjálfu sér, jafnvel allsráðandi.

Við það bætast svo sjálfsmyndarstjórnmálin, tilhneigingin til að líta ekki á fólk sem einstaklinga þar sem allir eiga að njóta sömu réttinda. Það er heldur ekki nýtt. Kommúnismi, og raunar flestar öfgahreyfingar stjórnmálasögunnar, hafa gengið út á að skilgreina fólk sem hluta hópa fremur en sem einstaklinga. Stefna öfgahreyfinga gengur iðulega út á að flokka suma hópa sem fórnarlömb og veita þeim fyrir vikið réttindi umfram aðra en kúga hina.

Þetta er alltaf sama sagan. Rússland 1917, Ítalía 1922, Þýskaland 1932 o.s.frv. o.s.frv. Brot á grundvallarreglum réttarríkisins, reglum sem tók þúsundir ára að móta, hafa alltaf verið réttlættar með því að það sé nauðsynlegt til að rétta hlut þeirra sem hallar á. Um þetta eru ótal dæmi á 20. öld og fram á þá 21.

Venesúela var lengi mesta velmegunarríki Suður-Ameríku, það fjölgaði jafnt og þétt í millitekjuhópum og ungt fólk naut góðrar menntunar og fjölbreyttra tækifæra. Þegar Hugo Chávez tók við völdum lét hann samþykkja nýja stjórnarskrá til að rétta hlut þeirra sem hallaði á í samfélaginu. Eftir að stefnu Chavez og arftaka hans Nicolásar Maduro var framfylgt ríkir nú neyðarástand í Venesúela og landsmenn líða næringarskort. Eins og alltaf er það fólkið sem var verst sett fyrir sem farið hefur verst út úr hinu nýja stjórnarfari.

Framfarir eru ekki sjálfgefnar

Árangur liðinna alda var ekki sjálfgefinn og það er ekki sjálfgefið að hann varðveitist ef við berum ekki gæfu til að vernda það sem vel gefst og vinna að því að bæta hitt.

Við lok átjándu aldar og upphaf þeirrar tuttugustu hafði fólk víða á Vesturlöndum upplifað ótrúlegt framfaraskeið. Það viðhorf var ríkjandi að heimurinn ætti aðeins eftir að verða betri, vísindin myndu leysa allan vanda, velmegun gæti ekki annað en aukist, heilbrigði og önnur lífsgæði myndu batna jafnt og þétt. Sérstök áhersla var á að bæta kjör hinna fátækari og réttindi einstaklinganna jukust stöðugt. Fáir efuðust um þau grundvallargildi sem reynst hefðu svo vel. Stríð tilheyrðu liðnum tímum. Tímum þegar samfélögin og maðurinn sjálfur voru frumstæðari. Slíkt þótti óhugsandi á þeim upplýstu framfaratímum sem þá ríktu.

Við tók mesta hörmungastríð sem mannkynið hafði upplifað. Við lok þess leituðust stjórnvöld á Vesturlöndum við að festa betur í sessi þau grundvallargildi sem best höfðu reynst. En bakslag gegn þeim grundvallargildum leiddi svo til enn stærra stríðs og enn meiri hörmunga.

Rétt eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar öðluðust Íslendingar fullveldi. Þann sjálfsákvörðunarrétt gat þjóðin nýtt til að ná stórkostlegum framförum ekki hvað síst vegna þess að tekist hafði að varðveita heildstætt samfélag með sameiginleg grundvallargildi.

Á undanförnum árum höfum við séð að pólitísk stefna og aðgerðir geta skipt sköpum. Ef við nýtum lýðræðið eins og til var ætlast og verjum réttarríkið, þau gildi sem hafa reynst okkur og öðrum löndum best, getum við vænst stórkostlegra framfara fyrir alla landsmenn.

 

Greinin birtist fyrst í áramótablaði Morgunblaðsins 31.12.2018