Er sama hver er?

Í neðangreindum pistli sem ég fékk að birta hér á síðunni er spurningunni sem birtist í fyrirsögn velt upp út frá ímynduðum aðstæðum og atburðarás. Ég myndi e.t.v. setja fram einn eða tvo fyrirvara við þetta en það má bíða. Í bili læt ég nægja að segja bestu þakkir.

 

 

Er sama hver er?

 

Forsendurnar

Sex þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingarinnar fara saman á veitingahús eins og löng hefð mun vera fyrir hjá þingmönnum og drekka sumir meiri bjór en góðu hófi gegnir. Gefum fólkinu nöfn og köllum það Kristínu, Svanhvíti, Guðbrand, Bjarklindi, Helenu og Oddrúnu.

Eftir langar samræður um stjórnmál almennt þróast umræður í samsæti stjórnmálamannanna út í tal um samstarfsmenn þar sem lofgjörð um pólitíska andstæðinga er ekki ríkjandi þema. Sumir endurtaka gamlar lummur sem þeir hafa heyrt í þinginu eins og þau kunnu sannindi að formaður Miðflokksins sé geðveikur, sumir fara langt fram úr sér í samkeppni um grófasta orðavalið og aðrir fylgjast með.

Rúmlega viku seinna kemur í ljós að ungur Heimdellingur og harðlínu-frjálshyggjumaður hafði gert ráðstafanir til að njósna um vinstrimennina sex og gera ólögmæta upptöku af einkasamtali þeirra klukkutímum saman. Þótt upptökurnar séu ólögmætar fær hann vefmiðil, hina áköfu hægrivefsíðu Tíðarandann, til að skrifa upp og birta valda kafla úr hinum leynilegu upptökum.

 

Af tvennu, hvort er líklegra?:

 

 

I.

Eftir að Tíðarandinn ríður á vaðið flytja fjölmiðlar endalausar fréttir af málinu vikum saman þar sem klipptir eru bútar úr samtalinu og skrifaðir upp orð fyrir orð (þótt ekki sé alltaf rétt með farið) og allt túlkað og sett í versta hugsanlega samhengi.

Ímynduðu Leikfélagi Garðabæjar er stjórnað af sambýlismanni eins róttækasta frjálshyggjumanns landsins og ráðgjafa Heimdellingsins unga. Leikfélagið setur umsvifalaust upp sýningu þar sem leikarar lesa með tilburðum setningar úr hinni ólögmætu upptöku, broddborgurum Sjálfstæðisflokksins til mikillar skemmtunar. Þar er meðal annars fjallað um saklaust fólk sem ekkert hefur með málið að gera. Ríkisútvarpið gerir í skyndi ráðstafanir til að senda beint frá sýningu leikfélagsins. Þeir sem höfðu sagst vera miður sín yfir málinu geisla nú af Þórðargleði.

Heimdellingurinn ungi er hylltur sem hetja í fjölmiðlum fyrir uppljóstranir sínar og helstu hægripoppúlistar landsins keppast um að yfirbjóða skoðanabræður sína í stuðningi við hann.

Einn þeirra sem talað var um í hinum ólögmætu upptökum, formaður Miðflokksins, er boðaður í viðtal í Kastljósi til að flytja ótruflaður sýningu sem er enn betur æfð en uppsetning Leikfélags Garðabæjar. Sýningin er þó ekki undirbúin af leikstjóra heldur PR-mönnum og snýst um að koma út tilheyrandi frösum og stikkorðum. Miðflokksformaðurinn kallar vinstrimennina sem talað höfðu illa um hann sín á milli (eða hlýtt á) ofbeldisfólk. Framlag þáttarstjórnandans felst í því að kinka kolli og segja já.

Sjálfstæðisflokkurinn fer hamförum og krefst þess að allir sem heyrist í á hinni ólögmætu upptöku segi af sér hvort sem þeir sögðu eitthvað eða bara hlustuðu á það. Þegar kemur svo í ljós að oddviti Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur hafi setið með vinstrimönnunum sex, hluta kvöldsins, breytir það í engu afstöðu þeirra til málsins. Enginn spyr  heldur hvers vegna allt sem Sjálfstæðismaðurinn sagði hafi verið klippt út og ekki birt.

Áður en langt um líður kemur í ljós að frammámenn í Sjálfstæðisflokknum hafi á undanförnum árum verið sakaðir um kynferðislega áreitni og að formaður og allir forystumenn flokksins hafi verið meðvitaðir um það árum saman og þaggað málin niður. Nýjasta þöggunin átti sér stað nokkrum dögum áður en þeir gerðu kröfu um rannsókn siðanefndar þingsins og afsögn vinstrimannanna vegna dónalegs orðbragðs í einkasamtali. Formaður Sjálfstæðisflokksins svarar því til að þeir hafi afgreitt sín mál innanhúss í Valhöll og þess vegna hafi þau ekki átt neitt erindi við aðra. Formaður siðanefndar flokksins segir leitt ef málin skaða ímynd flokksins en sendir um leið þeim sem hann rannsakaði hvatningarkveðjur.

Hægrivefurinn Kvörnin hefur lengi helgað sig „baráttunni gegn ógnum kommúnisma og kratisma“. Í ljós kemur að einn þeirra sem ásakaðir hafa verið um áreitni innan Sjálfstæðisflokksins var meðal eigenda Kvarnarinnar og að atburðirnir áttu sér stað í húsakynnum fjölmiðilsins. Kvörnin taldi það ekki fréttnæmt, enda málið leitt til lykta í Valhöll.

Ríkisútvarpið lætur þetta gott heita og löng saga áreitni og þöggunar í Sjálfstæðisflokknum nær ekki einu sinni inn í yfirlit sjónvarpsfrétta. Þess í stað leggur RÚV áherslu á að hampa hetjunni úr Heimdalli nokkrum sinnum á dag. Þrátt fyrir að vera námsmaður tókst honum að ljóstra upp um hugarheim vinstri- og miðjumanna í íslenskum stjórnmálum.

Guðbjörn, einn þeirra sem teknir voru upp, hefur helgað sig baráttu fyrir aukinni þróunaraðstoð og umhverfismálum. En eftir að dregin er sú ályktun af einum samtalsbútanna að hann hafi haft málaflokkana í flimtingum tilkynnir Rannsóknarstofnun Háskólans á sviði þróunarmála að stofnunin muni ekki vinna meira með þinginu fyrr en Guðbjörn verður gerður brottrækur. Forstöðumaður rannsóknarstofnunarinnar er reyndar frammámaður í Sjálfstæðisflokknum en það kemur ekki að sök enda hvergi nefnt. Ljúfmennið samviskusama, Guðbjörn, hefur verið stimplaður fordómafullur og er í framhaldinu gerður tortryggilegur á allan hátt. Var hann raunverulega sérfræðingur í þróunarhjálp í Namibíu árið 1998? Nei, hann starfaði sem ráðunautur.

Fréttamenn Ríkisútvarpsins hefja hringingar í flokksmenn Vinstri grænna til að spyrja hvort þeirra fólk eigi ekki að segja af sér. Garðyrkjubóndi á Suðurlandi verður undrandi þegar hann fær símtal frá fréttastofunni þar sem honum er sagt að sjá megi af opinberum gögnum að hann hafi stutt VG með fjárframlagi. Hann er inntur eftir því hvort hann muni halda slíku áfram. Þegar hann spyr hvers vegna hann sé tekinn fyrir með þessum hætti fær hann þau svör að það sé verið að hringja í fleiri til að kanna það sama.

Áfram heldur umfjöllun um málið á þeim forsendum að vinstrimennirnir skuli dirfast að biðja um rannsókn á atburðarásinni.

 

EÐA…

 

II.

Einungis hægrivefurinn Tíðarandinn birtir upptökurnar. Eftir að þær vekja athygli segja aðrir fjölmiðlar frá þeim en umfjöllunin snýst fyrst og fremst um að aldrei fyrr í íslenskri stjórnmálasögu hafi öðrum eins aðferðum verið beitt. Tekin eru viðtöl við kunna álitsgjafa sem rifja upp sögur af því sem þeir kalla skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins en láta þó fylgja sögunni að jafnvel í þá tíð hafi menn ekki beitt svo óheiðarlegum brögðum. Þetta sýni að nú svífist Sjálfstæðismenn einskis vegna þess að þeir sjái ofsjónum yfir auknum stuðningi við þá flokka sem njósnað var um.

Forseti þingsins, flokksbróðir flestra sem teknir voru upp, lýsir yfir miklum harmi vegna málsins, þ.e. að menn skuli leggjast svo lágt að hljóðrita með ólögmætum hætti samtöl þingmanna. Þingið þurfi að bregðast við til að „vernda rétt þeirra sem gefa sig að störfum í almannaþágu“ eins og hann orðar það.

Samtölin eru þó komin í dreifingu á netinu og vekja talsverða athygli. Af þeim sökum boðar Ríkisútvarpið til sérstakrar umræðu um þá hættu sem stafar af því að óprúttnir aðilar nýti sér nýjustu tækni til að brjóta grundvallar mannréttindi fólks. Sú þróun sé ógn við lýðræðið og um leið stjórnarskrárvarin réttindi almennings.

Enginn skortur er á sérfræðingum til að útskýra að fráleitt sé að draga of miklar ályktanir af samtölum sem tekin eru upp í heimildarleysi. Það geti verið ýmsar ástæður fyrir því að menn tjái sig með þeim hætti sem þeir gera við þessar aðstæður. Eins og allir geti heyrt hafi augljóslega ekki verið mikil alvara þar á bak við samræðurnar.

Ófáir benda á að Kristín hafi ekki lagt mikið til málanna og alls ekki notað dónaleg orð jafnvel í því andrúmslofti sem var ríkjandi þegar upptakan var gerð. Það segi sína sögu um Kristínu. Hvað varði þær Svanhvíti og Bjarklindi geti menn ekki leyft sér að taka orðaval þeirra of alvarlega. Þetta sé augljóslega sagt í kaldhæðni. Það sé skiljanlegt að þær vilji, í öruggu umhverfi, fá útrás vegna þeirra takmarkana sem samfélagið nú til dags setji á það með hvaða hætti konur megi tjá sig. Þær búi við hömlur alla daga og þótt það brjótist fram með þessum hætti, þegar þær telja sig vera að ræða málinn þar sem enginn heyrir til og enginn verður fyrir skaða, megi ekki túlka það sem svo að þær séu að lýsa afstöðu sinni eða hugarfari.

Kvörnin er fordæmd fyrir að gefa í skyn í fréttaflutningi sínum að sá góði maður Guðbjörn, sem alla tíð hefur unnið að umhverfismálum og þróunarmálum, hafi verið að gera lítið úr málaflokknum  sem hann hefur helgað starfsæfi sína.

Formaður Miðflokksins, sem ræddur var í upptökunum, er boðaður í viðtal í Kastljósi. Hann kemst lítið að fyrir spurningum sem snúast meðal annars um getgátur um það sem rætt var. „Nú hlýtur þú að vera vanur því sem stjórnmálamaður að vera baktalaður, þú hlýtur að hafa séð hvað menn segja um þig á netinu, það eru verri hlutir sagðir um þig á netinu daglega, ert þú ekki óþarflega viðkvæmur?“ „Hefurðu engar áhyggjur af því að einkasamtöl stjórnmálamanna séu hljóðrituð ólöglega?“ „Er ekkert til í því að þú hafir blekkt fólkið sem var að tala um þig?“. Formaður Miðflokksins reynir að koma talpunktunum sínum að á meðan talað er yfir hann og skýtur því inn að hann telji sig hafa verið beittan ofbeldi. Áður en setningin klárast er hann spurður hvort hann geti í alvöru haldið því fram að það sé ofbeldi að gagnrýna einhvern í einkasamtali.

Eftir þáttinn logar twitter yfir því að þetta forréttindafífl skuli leyfa sér að kalla umtal um sig í einkasamtali ofbeldi. „Hvernig heldur þessi maður, sem hefur örugglega aldrei upplifað neitt, að það sé fyrir fólk sem hefur sætt raunverulegu ofbeldi að heyra þetta?“

Eftir að löng saga ásakana um kynferðislega áreitni og þöggun í Sjálfstæðisflokknum kemur í ljós eru beinar útsendingar frá Valhöll í hverjum fréttatímanum af öðrum þar sem sagt er frá því að formaður flokksins neiti að svara fyrir málið. Kvörnin er fordæmd fyrir að hylma yfir málin með flokknum jafnvel þótt hluti atburðanna hafi átt sér stað á skrifstofum fjölmiðilsins. Vinstrimenn tala um að miðillinn hafi birt hatursáróður en þaggað önnur mál niður.

Heimdellingurinn ungi er kjöldreginn í umræðum á netinu, grafist fyrir um fortíð hans og allt gert tortryggilegt. Rifjaðar eru upp greinar sem hann skrifaði um mikilvægi einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu og gagnrýni hans á velferðarkerfið. Hann er sagður óheiðarlegur en því miður aðeins birtingarmynd af sjúku ástandi í flokki sem svífst einskis í því að koma höggi á andstæðinga sína til að geta viðhaldið sérhagsmunagæslu sinni. Ef maðurinn verði ekki sóttur til saka verði enginn öruggur í samfélaginu framar. Stasi-samlíkingar koma fram.

Leiddir eru fram sérfræðingar til að útskýra að atburðurinn kalli á aðgerðir svo það verði ekki reglan að mannréttindi fólks séu brotin með persónunjósnum. Rannsaka þurfi málið enda séu vísbendingar um að fleiri hafi komið við sögu. Það þurfi að verja réttarríkið.