Misnotkun Alþingis

For­seti Alþing­is reyn­ir nú að efna til póli­tískra rétt­ar­halda í annað sinn. Í fyrra skiptið studd­ist hann við gild­andi lög. Þá lýsti hann því með leik­ræn­um til­b­urðum að eins sorg­legt og það væri krefðist nauðsyn þess að hinn fallni for­sæt­is­ráðherra yrði ákærður. Með því endurómaði hann, vilj­andi eða óvilj­andi, fræg orð Robespier­re um ör­lög hins fallna kon­ungs Frakk­lands. Eft­ir þversagna­kennda ræðu um að al­menn­ar regl­ur ættu ekki við sagði bylt­ing­arof­samaður­inn (þ.e. Robespier­re) að hann yrði með mikl­um harmi að til­kynna hver ör­lög kon­ungs þyrftu að verða. Í því til­viki beið fallöx­in. Á Íslandi sýndu lög­in sem bet­ur fer fram á að hinn ís­lenski bylt­ing­ar­for­ingi hefði reynt að koma fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra lands­ins í fang­elsi að ósekju.

Nú tel­ur hins veg­ar þing­for­set­inn að gild­andi lög dugi ekki til. Skömmu fyr­ir jól sendi hann því frá sér for­dæma­lausa yf­ir­lýs­ingu um að hann ætlaði að láta breyta lög­um og beita svo hinum nýju lög­um sín­um aft­ur­virkt til að ná fyr­ir fram ákveðinni niður­stöðu.

Að af­nema eigið van­hæfi

Áformin kynnti þing­for­set­inn um leið og hann lýsti yfir eig­in van­hæfi til að fjalla um málið sem um ræddi. Ætli sé ekki rétt að kalla málið „hler­un­ar­málið“ (það er óviðeig­andi að kenna það við veit­inga­stof­una þar sem glæp­ur­inn fór fram enda ekki verið sýnt fram á að staður­inn teng­ist af­brot­inu). Í um­fjöll­un sinni um málið hafði þing­for­set­inn gert sig van­hæf­an og með viðbrögðum sín­um dregið með sér aðra nefnd­ar­menn for­sæt­is­nefnd­ar.

Í til­kynn­ingu þing­for­set­ans kom fram að hann myndi láta breyta lög­um á þann hátt að staðfest van­hæfi hans sjálfs og vara­for­seta Alþing­is yrði af­numið með aft­ur­virkri laga­setn­ingu. Þannig gæti þing­for­set­inn áfram leitt mál sem hann hafði neyðst til að lýsa sig van­hæf­an til að af­greiða og skilað þeirri niður­stöðu sem hann vildi. Með öðrum orðum, lær­dóm­ur­inn af lands­dóms­mál­inu var sá að nú þyrfti hann að gera sjálf­an sig að dóm­ara.

Mark­miðið og ann­mark­ar þess

Mark­mið þing­for­set­ans var að koma mál­inu til svo kallaðrar siðanefnd­ar til að geta að því búnu fellt dóm sinn. Siðanefnd­in er und­ir­nefnd for­sæt­is­nefnd­ar Alþing­is og henni aðeins til ráðgjaf­ar. Þing­for­set­inn hef­ur þegar verið upp­lýst­ur um að þar sem for­sæt­is­nefnd­in sé van­hæf sé siðanefnd­in það einnig. Mark­miðið var því að van­hæf nefnd gæti beðið van­hæfa und­ir­nefnd sína um álit.

Einnig hef­ur for­set­inn verið minnt­ur á að málið varði alls ekki siðanefnd­ina. Í regl­un­um sem starf henn­ar bygg­ist á kem­ur enda skýrt fram að gild­is­svið þeirra nái ein­ung­is til þess sem þing­menn gera sem hluta af op­in­ber­um skyld­um sín­um. Eng­inn skyn­sam­ur maður gæti haldi því fram að einka­sam­tal yfir öldrykkju væri hluti af op­in­ber­um skyld­um þing­manna.

Það mætti eins vísa mál­inu til EFTA-nefnd­ar­inn­ar eða til Vestn­or­ræna ráðsins. Þar hafa menn að minnsta kosti staðgóða þekk­ingu á öldrykkju þing­manna eins og for­seta Alþing­is er kunn­ugt.

Til­gangs­leysi

Ljóst er að siðanefnd Alþing­is hef­ur ekki dómsvald á sama hátt og lands­dóm­ur eða hæstirétt­ur. Hver gæti niðurstaða siðanefnd­ar­inn­ar orðið ef hún ákvæði að líta fram hjá hlut­verki sínu? E.t.v. sú að það hefði verið ósiðlegt að nota dóna­leg orð í einka­sam­tali. En það vita all­ir fyr­ir. Ekki hvað síst þeir sem það gerðu, eins og þeir hafa viður­kennt af­drátt­ar­laust og beðist fyr­ir­gefn­ing­ar á af ein­lægni. Fyr­ir at­vikið hafa þeir enda liðið sál­ar­kval­ir og þegar þolað grimmi­legri refs­ingu en nokk­ur dóm­stóll myndi telja viðeig­andi.

Í okk­ar sam­fé­lagi telst það ekki til glæps að hugsa ljót­ar hugs­an­ir, hugs­an­ir sem menn iðrast jafn­an, og ekki held­ur að missa út úr sér slík­ar hugs­an­ir í einka­sam­töl­um, hvort sem þær lýsa ein­lægri af­stöðu eða eru sagðar í hálf­kær­ingi, gríni, kald­hæðni eða til að ganga fram af öðrum.

Al­menn­ing­ur er full­fær um að meta hvað er siðlegt og hvað ekki og þarf ekki póli­tíska sér­fræðinga til að segja sér það. Afstaða slíkr­ar nefnd­ar, sem skipuð væri á póli­tísk­um for­send­um hefði því ekk­ert gildi og skipti engu máli.

Þarf þá að and­mæla?

Ef afstaða siðanefnd­ar skipt­ir ekki máli, því þá að and­mæla málsmeðferðinni? Svarið er von­andi aug­ljóst. Alþingi get­ur ekki leyft sér að mis­nota lög í póli­tísk­um til­gangi. Það get­ur ekki sætt sig við að for­set­inn láti þingið fara gegn lög­um og rétti í þágu eig­in hé­góma og skaps­muna.

Ef­laust er til fólk sem tel­ur að Alþingi Íslend­inga sé fyrst og fremst póli­tísk­ur víg­völl­ur þar sem allt sé leyfi­legt. Slík viðhorf eru hættu­leg lýðræðinu og mega aldrei ráða för. Hlut­verk Alþing­is er að setja lög sem öll­um lands­mönn­um er ætlað að hlíta. Hvernig er hægt að ætl­ast til þess að al­menn­ing­ur og dóm­stól­ar beri virðingu fyr­ir lög­un­um ef þeir sem setja lög­in líta hik­laust fram hjá þeim til að ná póli­tísk­um mark­miðum eða svala hefnd­arþorsta. Það er því ekki hægt að sætta sig við að þingið sjálft sýni lög­um, rétti, sann­girni og heiðarleika full­komna van­v­irðingu.

Þetta er sér­stak­lega mik­il­vægt í ljósi þess sem gerðist eft­ir að fyrri áform þing­for­set­ans um aft­ur­virka laga­setn­ingu, til að af­nema eigið van­hæfi, runnu út í sand­inn.

Það sem gerðist næst

Í jóla­leyfi þings­ins hef­ur ein­hver hug­rakk­ur maður út­skýrt fyr­ir þing­for­set­an­um að áform hans væru óraun­hæf, ólög­mæt og ólýðræðis­leg eða að minnsta kosti eitt­hvað af þessu þrennu.

Þing­for­set­inn hóf því nýja árið á nýrri for­dæma­lausri yf­ir­lýs­ingu. Hann hygðist láta kjósa nokk­urs kon­ar auka for­sæt­is­nefnd sem hefði það eina hlut­verk að af­greiða eitt til­tekið mál. Um leið lét hann þess getið hver niðurstaðan ætti að verða. Með því vísaði hann aft­ur í Robespier­re, vilj­andi eða óvilj­andi.

Komið hef­ur fram að þing­for­set­inn hafi látið starfs­menn Alþing­is rann­saka þing­menn­ina 63 til að kom­ast að því hverj­ir þeirra kunni að telj­ast hæf­ir til að leiða málið til lykta á þann hátt sem hann mælti fyr­ir um. Enn er margt á huldu um hvernig slíkt get­ur gerst en kannað var hvað þing­menn hefðu sagt í fjöl­miðlum og hvað þeir hefðu aðhafst á sam­fé­lags­miðlum. Mark­miðið var að finna þing­menn sem gætu tekið að sér að fram­kvæma það sem hinn van­hæfi þing­for­seti til­kynnti op­in­ber­lega að þeir ættu að gera. – Finna það sem Am­er­íku­menn kalla „patsy“.

Það hlýt­ur að vekja áhyggj­ur að for­seti Alþing­is beiti starfs­mönn­um á þenn­an hátt enda er það hlut­verk þeirra að gæta jafn­ræðis gagn­vart öll­um þing­mönn­um (og það hafa starfs­menn al­mennt gert ein­stak­lega vel).

Niðurstaðan var sú að 3-6 þing­menn kæmu til greina og for­set­inn hófst handa við að reyna að skikka þá í hlut­verkið. Að minnsta kosti einn þeirra sagðist strax ekki ætla að láta leiða sig út í ógöng­ur for­set­ans og þá voru eft­ir tveir (eða fimm).

Stang­ast á við lög

Þetta stang­ast á við lög um þingsköp á svo víðtæk­an hátt að hægt væri að skrifa heila grein bara um það. Eins og fram kom að ofan telst siðanefnd­in van­hæf, ver­andi und­ir­nefnd for­sæt­is­nefnd­ar. Öllum má þá vera ljóst að sér­stök und­ir­nefnd van­hæfr­ar for­sæt­is­nefnd­ar val­in af van­hæfu fólki í trássi við lög til að af­greiða mál með fyr­ir fram ákveðnum hætti væri sjálf van­hæf. Þá skipt­ir engu máli þótt þeir sem létu hafa sig út í slíkt segðust ætla að leggja eigið mat á málið. For­send­urn­ar lægju fyr­ir, umboðið væri í and­stöðu við lög og van­hæfi hinn­ar nýju und­ir­nefnd­ar aug­ljóst.

Nú er brotið blað

Með fram­ferði sínu brýt­ur þing­for­set­inn blað í sögu Alþing­is. Frá því að ég hóf þátt­töku í stjórn­mál­um fyr­ir ára­tug hafa þing­for­set­ar leit­ast við að vera for­set­ar allra þing­manna. Þeim hef­ur tek­ist mis­vel upp en alltaf hef­ur verið samstaða um að það ætti að vera mark­miðið.

Marg­ir höfðu efa­semd­ir um að Stein­grím­ur J. Sig­fús­son væri heppi­leg­ur til að gegna slíku hlut­verki. Nú kýs hann að renna stoðum und­ir þær efa­semd­ir með af­ger­andi og sögu­leg­um hætti. Viðhorf Stein­gríms til mín er vel þekkt. Hann tel­ur sig eiga harma að hefna og leit­ast nú við að nýta stöðu sína í þeim til­gangi. Þó blas­ir við að ekk­ert af því sem ég sagði í einka­sam­tali sem tekið var upp með ólög­mæt­um hætti jafn­ast á við fjöl­margt sem þing­for­set­inn sjálf­ur hef­ur sagt og gert op­in­ber­lega að yf­ir­lögðu ráði.

Ætlar Alþingi að byggja starf sitt á lög­broti

Ætlar Alþingi Íslend­inga, sem hef­ur það hlut­verk að setja lands­mönn­um lög og standa vörð um rétt­ar­ríkið, að láta skammta sér sér­vald­ar, sund­urklippt­ar og ólög­mæt­ar upp­tök­ur og byggja form­lega málsmeðferð á því? Fyr­ir ligg­ur að at­b­urðarás­in er órann­sökuð og að þeir sem stóðu að verknaðinum og skömmtuðu þing­for­seta efni til að vinna úr hafa beitt sér gegn því, fyr­ir dóm­stól­um, að upp­lýst verði um málið í heild. Margt á eft­ir að koma í ljós um at­b­urðarás­ina fá­ist heim­ild til að nýta fyr­ir­liggj­andi gögn.

Ljóst er að sam­kvæmt lög­um sem Alþingi hef­ur sett átti sér ekki stað annað brot en það sem framið var með hinni ólög­mætu njósnaaðgerð. Með því voru brot­in mann­rétt­indi þeirra sem tekn­ir voru upp og þeirra sem talað var um. En þrátt fyr­ir áhuga þing­for­seta á mál­inu virðist hann ekki hafa neinn áhuga á að rann­saka brotið, hvað þá að verja þá sem urðu fyr­ir því. Mark­miðin liggja í aug­um uppi og til­gang­ur­inn helg­ar meðalið. Lög og rétt­ur eiga að víkja í til­raun­um for­seta til að svala hefnd­arþorsta sín­um.

For­dæmið

Varla er það vilji þings­ins að setja þau for­dæmi sem þing­for­set­inn boðar með fram­göngu sinni. Eigi einka­sam­tal nokk­urra þing­manna er­indi til siðanefnd­ar hlýt­ur að þurfa að vísa ótal mál­um til nefnd­ar­inn­ar, þar með talið mál­um sem varða þing­for­set­ann.

Það mætti til dæm­is nefna fjöl­mörg dæmi um hluti sem aðrir þing­menn, þar með talið Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, hafa sagt um mig op­in­ber­lega sem eiga mun frek­ar er­indi til siðanefnd­ar en nokkuð sem ég sagði í hinum ólög­mætu upp­tök­um. Eigi svo póli­tík að ráða för frem­ur en gild­is­svið siðaregln­anna verður mála­fjöld­inn enda­laus. Í því sam­bandi er rétt að minn­ast þess að hver sem er get­ur lagt til að mál gangi til siðanefnd­ar með því að senda er­indi til for­sæt­is­nefnd­ar þings­ins.

Sam­ræmið

Þing­for­set­inn naut sviðsljóss­ins þegar hann ákvað að biðjast af­sök­un­ar á tali sex þing­manna án þess að gera grein fyr­ir því á hverju hann væri að biðjast af­sök­un­ar hjá hverj­um um sig. Bet­ur hefði farið á að hann byrjaði á að biðjast af­sök­un­ar á því sem hann hafði sjálf­ur stöðu og til­efni til.

Þing­for­set­inn hefði getað byrjað á að biðjast af­sök­un­ar á orðfæri sínu und­an­farna ára­tugi, á því að hafa lagt hend­ur á ráðherra í þingsal og reyna svo að koma sama manni í fang­elsi með póli­tísk­um rétt­ar­höld­um, á því að af­henda er­lend­um hrægamm­a­sjóðum ís­lensku bank­ana á sama tíma og þúsund­ir fjöl­skyldna misstu heim­ili sín, á því að hafa reynt að láta ís­lensk­an al­menn­ing taka á sig skuld­ir fall­inna einka­banka í and­stöðu við lög, á því að nýta ekki þau tæki­færi sem gáf­ust til að end­ur­reisa ís­lenskt efna­hags­líf en státa sig í staðinn af hrósi er­lendra fjár­mála­stofn­ana. Verði þing­for­set­inn kom­inn á skrið get­ur hann svo haldið áfram og beðist af­sök­un­ar á því sem hann hef­ur sagt og gert í gleðskap und­an­far­in ár, meðal ann­ars sem ráðherra.

Hlut­verk þing­for­seta

Þing­for­set­inn hefði líka getað ákveðið að verja lög og rétt. Hann hefði getað hvatt þing­menn til að gæta í framtíðinni hófs í því hvernig þeir tala í einka­sam­töl­um og ekki síður op­in­ber­lega. Hann hefði getað sýnt að hann væri prinsippmaður. Hann hefði getað lyft sér yfir flokkapóli­tík og per­sónu­lega óvild í garð samþing­manna sinna. Hann hefði getað gætt sóma Alþing­is.

En lík­lega var það aldrei raun­hæft.

 

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21.1.2019