Stefán Ólafsson og Schopenhauer

Heimspekingurinn Schopenhauer sagði að allur sannleikur (öll ný sannindi) gengi í gegnum þrjú stig. Fyrst væri hæðst að honum, næst væri ráðist gegn honum með ofstæki og loks teldist hann sjálfgefinn. Það sama virðist eiga við um stefnumál framsóknarmanna (eðlilega).

Háskólamaðurinn Stefán Ólafsson tekur snögga en skynsamlega u-beygju frá Evrópusambands-einstefnu Samfylkingarinnar í nýjasta bloggpistli sínum. Stefán setur þar fram þá „nýstárlegu“ hugmynd að líklegast sé best í stöðunni að setja ESB umsóknina á ís, fresta viðræðum og jafnvel halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli þeim áfram.  Stefán skrifar m.a.:

Ef ekki er hægt að klára samningaviðræðurnar vel fyrir kosningar ættu stjórnarflokkarnir í sameiningu að skoða alvarlega að fresta viðræðunum þar til staða mála í Evrópu og framtíðarskipan ESB er orðin ljósari. Í Brussel myndu menn skilja slíka afstöðu. … Síðan væri einnig athyglisvert að setja kostina bið eða framhald viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu … Kanski væri atkvæðagreiðsla besta leiðin fyrir stjórnarflokkana. Láta þjóðina leysa málið.

Það eru (því miður) nokkur nýmæli að talsmenn stjórnarflokkanna geri hugmyndir framsóknarmanna að sínum. Sú breyting sem fellst í ábendingum Stefáns er sérlega merkileg í ljósi þess að þar skrifar maður sem einhver hluti Samfylkingarinnar bindur vonir við að taki innan tíðar við formennsku í flokknum. Því ber að fagna að Stefán skuli gera þessa tillögu mína að sinni og vonandi nær hann að snúa fleirum á okkar band í þessu efni.

Nú hentar það Stefáni e.t.v. ekki að viðurkenna að hann hafi tekið upp tillögu framsóknarmanns, en staðreyndin er sú að þessa hugmynd um frestun ESB viðræðna og þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið  setti ég fyrst fram í grein í Morgunblaðinu fyrir ári síðan, í ágúst 2011, og hún var einnig birt hér á blogginu:  Þar sagði ég meðal annars:

Allir flokkar eiga að geta náð saman um að leggja aðildarviðræðurnar til hliðar. Sjálfstæðisflokkurinn kemst þá hjá því að láta landsfund sinn snúast um ESB, Samfylkingin getur áfram átt málið sitt eina og svarað öllum spurningum með þremur bókstöfum. Vinstri grænir geta vonað að kjósendur gleymi framgöngu þeirra í málinu.

Þegar málin hafa skýrst og við vitum hvort eða hvernig ESB lifir af er rétt að þjóðin taki afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka skuli viðræður upp að nýju.

Stefán sem er yfirlýstur áhugamaður um Framsóknarflokkinn, hefur tæpast gleymt þessari grein, enda olli hún talsverðu fjaðrafoki meðal stuðningsmanna Evrópusambandsviðræðnanna. Greininni var m.a. kennt um að fjórir áhugamenn um ESB-aðild hefðu sagt sig úr Framsóknarflokknum skömmu síðar (jafnvel með vísan til þessarar hugmyndar um frestun og þjóðaratkvæðagreiðslu).

En hafi Stefán misst af þessu má benda honum á að þetta ár sem liðið er hef ég (ásamt fleiri framsóknarmönnum) margoft ítrekað þessa skoðun mína, að réttast sé að fresta Evrópusambandsviðræðunum og leyfa þjóðinni að ákveða framhaldið, bæði í þingræðum, viðtölum og greinum.

Þess er einnig skammt að minnast að á síðasta landsfundi sínum gerði Sjálfstæðisflokkurinn þessa hugmynd að yfirlýstri stefnu sinni í Evrópumálum. Myndi Samfylkingin undir forystu Stefáns Ólafssonar fara sömu leið, fresta ESB viðræðunum, stöðva aðlögunarferlið og leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hver veit. Hugsanlega komumst við Stefán að því hvort þingmenn Samfylkingarinnar eru tilbúnir að fylgja skynseminni ef greidd verða atkvæði um frestun viðræðna þegar Alþingi hefur störf í haust.