Leggjum ESB umsóknina til hliðar – þjóðin ákvarði framhaldið

Evrópusambandið leikur á reiðiskjálfi. Erlendir fjölmiðlar fjalla daglega um efnahagskrísuna sem blasir við evrusvæðinu og um pólitískar ástæður og hugsanlegar afleiðingar hennar. Það hvernig trúin á að sameiginleg mynt tryggði sameiginlega lága vexti skapaði efnahagsbólu sem sprakk og hvernig sameiginlega myntin heldur mörgum ríkjum sambandsins í efnahagslegri sjálfheldu.

Stuðningsmenn og andstæðingar Evrópusamrunans eru orðnir sammála um að ESB geti ekki lifað óbreytt. Annað hvort þurfi að vinda ofan af samrunaferlinu eða koma á evrópsku ríki með sameiginlegan fjárhag.

Breyttar forsendur

Á sama tíma halda nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar áfram súrrealískum málflutningi um mikilvægi þess að ganga í ESB og taka upp evru til að skapa stöðugleika.

Framsýnni þingmenn flokksins virðast þó gera sér grein fyrir því að Íslendingar muni ekki samþykkja aðild að Evrópusambandinu í bráð. Þeir hafa því breytt um taktík og tala nú um að langt sé í ákvörðun um aðild. Allt talið um flýtimeðferð er gleymt. Á meðan minna kosningasvik Vinstri grænna betur á sig í hverjum mánuðinum sem líður og nú síðast hefur formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnt að umsóknina skuli draga til baka. Hættan er að í þessum pólitísku átökum gleymist aðrir hagsmunir almennings. Nú er allt upp í loft og forsendur algerlega breyttar frá því sem var þegar umsóknin var lögð fram. Því er eðlilegt að þjóðin fái tækifæri til að segja sína skoðun þegar rykið sest.

Tækifærið

Hér er tækifæri til að losa um þá sjálfheldu sem íslensk stjórnmál eru í vegna aðildarumsóknarinnar. Allir flokkar eiga að geta náð saman um að leggja aðildarviðræðurnar til hliðar. Sjálfstæðisflokkurinn kemst þá hjá því að láta landsfund sinn snúast um ESB, Samfylkingin getur áfram átt málið sitt eina og svarað öllum spurningum með þremur bókstöfum. Vinstri grænir geta vonað að kjósendur gleymi framgöngu þeirra í málinu.

Þegar málin hafa skýrst og við vitum hvort eða hvernig ESB lifir af er rétt að þjóðin taki afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka skuli viðræður upp að nýju. Þeir sem halda því fram að efnahagskrísan muni styrkja ESB og evruna telja sig væntanlega ekki þurfa að óttast þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem telja hins vegar að Íslendingar muni prísa sig sæla að hafa ekki klöngrast um borð í brennandi skip þurfa væntanlega ekki að óttast að þjóðin segi já.

Sú íhaldsemi að stjórnmálamenn taki einir ákvarðanir var sem betur fer brotin þegar þjóðin hafnaði Icesave samningum í trássi við vilja þeirra flokka sem nú vilja ná stöðugleika með aðild að efnahagslegum rústum ESB. Við fetum nú í átt til frjálslyndari stjórnhátta og ESB umsóknin er tilvalið prófmál.

ESB hentar líka að leggja viðræðurnar til hliðar

Ákafir ESB-sinnar ættu að sjá sér hag í að leggja málið til hliðar því þrýstingur á að umsóknin verði dregin til baka mun fara vaxandi. Frestun hentar líka Evrópusambandinu ágætlega. Þar á bæ er menn farið að renna í grun að umsókn Íslands sé innantómt fiaskó. Hún nýtur ekki stuðnings þjóðarinnar, ekki þingsins og ekki nema hálfrar ríkisstjórnarinnar.

Jafnvel sá helmingur stjórnarinnar sem stendur að baki umsókninni heldur því fram að aðeins sé verið að sækja um til að „kanna hvað er í pakkanum“. Sviðstjóri stækkunarskrifstofu ESB bauð enda Íslendingum nýverið að fresta viðræðunum og benti á að vinnan muni ávallt nýtast ákveði þjóðin að hefja þær aftur síðar.

Öndum léttar

Við getum þá farið að huga að því að byggja upp landið án þess að ESB-málið haldi stjórnmálunum í pattstöðu og tekið á skulda- og atvinnumálum án þess að spurt sé hvaða áhrif það hafi á Evrópuferlið. Allt í einu verða hinir erlendu kröfuhafar ekki jafn ógnvænlegir, hægt verður að ráðast í áætlanagerð (aðra en 20/20-áætlun að forskrift ESB), slaka má á áróðri gegn landbúnaðinum, stjórnsýslan getur snúið sér að uppbyggingu heima fyrir, fjármagnið má nýta í annað, semja má um makrílveiðar án hótana um viðræðuslit og óhætt verður að leita að olíu og gasi.

Mikilvægast er þó að loksins mun gefast tækifæri til að ræða landsins gagn og nauðsynjar án þess að afstaða til allra mála byggist á því hvað menn halda um Evrópusambandið.

Leggjum viðræðurnar til hliðar

Einhverjir kunna að velta því fyrir sér hvort ekki sé best að afgreiða málið, ljúka viðræðunum og fella samning til að losna við umræðuna. Gallinn er að ekki verður kosið um samning á næstunni. Viðræður verða ekki kláraðar fyrr en þeir sem stýra ferlinu telja sig hafa náð meirihluta fyrir jái. Þangað til verður samfélagið undirlagt af Evrópuvegferðinni og síharðnandi deilum.

Milljörðum verður varið í móður allra áróðursherferða og Vinstri-grænar hagstjórnar- og samfélagstilraunir fá að halda áfram samhliða því að Samfylkingin útskýrir að hagvöxtur og atvinna verði ekki til nema innan ESB. Núverandi ástand er óásættanlegt, hvað þá nokkur ár í viðbót af stöðnun og innbyrðis átökum. Leggjum ESB umsóknina til hliðar og snúum okkur að mikilvægari verkefnum. Það hentar öllum.

One comment

Comments are closed.