Um stefnuræðu forsætisráðherra

Frú forseti.

Ég vil byrja á að senda hugheilar kveðjur til björgunarsveita, bænda og þeirra fjölmörgu sjálfboðarliða sem nú berjast við að bjarga bústofnum úr klóm náttúruaflanna. Megi starf þeirra takast sem allra best.

 

Góðir landsmenn.

“Ekkert fæst fyrir ekkert. Engu verður áorkað með úrtölum og doða… Ekkert ætti að vera Íslendingum jafn fjarri og að láta sér fallast hendur. Aldrei má það gerast. Aldrei mun það eiga sér stað.”

 

Þessi orð frú Vigdísar Finnbogadóttur eiga jafn vel við í dag og fyrir réttum tuttugu árum síðan.

Að undanförnu hefur farið fram mikil umræða milli stuðningsmanna hægri og vinstriflokkanna um útfærsluatriði á efnahagsmálum og um það hvort frjálshyggjan eða sósíalisminn séu betur til þess fallin að bæta hag landsmanna.

Því miður gerist það oftast í slíkum kappræðum að raunveruleikinn gleymist.

Sjálfur hef ég þá trú að engin ein hugmyndafræði til hægri eða vinstri hafi öll svörin.

Til að ná raunverulegum árangri verðum við að leita skynsömustu lausnarinnar á hverjum vanda

en jafnframt að hafa óbilandi trú á framtíðinni og sannfæringu fyrir því að Íslandi séu allir vegir færir.

Það er kjarni Framsóknarstefnunnar!

Hvorki sósíalismi, né frjálshyggja hefur lausn á öllum vanda. Og þeim mun fyrr sem stjórnmálamenn átta sig á þessari staðreynd, þeim mun fyrr mun rökhyggja og skynsemi þoka okkur nokkuð á leið.

Hér á eftir mun ég ræða þau verkefni og tækifæri sem bíða Íslendinga á næstu misserum. Vonandi verður hægt að ljúka einhverjum þeirra á þessu kjörtímabili en það er líka orðið tímabært að ræða það sem bíður næstu ríkisstjórnar.

Þó verður ekki komist hjá því að nefna stuttlega þann mikla áróður sem settur var af stað síðsumars um árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Flestum sem búið hafa á Íslandi undanfarin ár kemur sá málflutningur eflaust spánskt, eða grískt, fyrir sjónir og sumir telja eflaust óþarfa að benda á augljósar staðreyndir í þeim efnum.

Ég tel þó rétt að sýna forsætisráðherra þá virðingu að svara nokkrum þeirra fullyrðinga sem fram komu í stefnuræðu ráðherrans um hið nýfundna efnahagsundur ríkisstjórnarinnar.

Það er margt kúnstugt í tölfræði-leikjum ríkisstjórnarinnar. Frægt varð þegar hún státaði sig af því að framlög til velferðarmála hefðu aukist á kjörtímabilinu á þeim forsendum að fleiri voru atvinnulausir og því var greitt meira í atvinnuleysisbætur. Á ótrúlegan hátt hafði aukið atvinnuleysi verið skilgreint sem aukin velferð.

Enn er rætt um hagvöxtinn sem sagður er mun meiri en í ríkjum Evrópusambandsins, þótt hann sé reyndar minni en hann þyrfti og ætti að vera í kjölfar djúprar niðursveiflu.

Það er hins vegar alfarið litið framhjá því hvernig sá hagvöxtur hefur orðið til.

Fólk hefur neyðst til að nota séreignarsparnað sinn í neyslu og þegar hann var uppurinn tók við ótrúleg aukning yfirdráttarlána. Auk þess reyndist makríllinn óvænt búbót og hafði veruleg áhrif á hagvöxt. Makríllinn er þó varla hingað kominn í boði ríkisstjórnarinnar.

 

Fall krónunnar hefur líka ýtt undir útflutning og haldið atvinnuleysi mun lægra en í evruríkjunum. Þó hafa þúsundir starfa flust úr landi og atvinnuleysi verið endurskilgreint.

Nýju störfin sem lofað hefur verið hvað eftir annað hafa  því miður ekki orðið til enda er fjárfesting, það er atvinnusköpun, enn í sögulegu lágmarki á tímabili þegar forsendur eru til að hún nái hámarki.

Ríkisstjórnin státar sig af því að geta tekið stór lán á erlendum mörkuðum, ólíkt mörgum Evrópuríkjum, þar sem skuldastaða ríkisins sé betri en stefndi í og útflutningurinn hefur styrkt gengi krónunnar sem reyndar er enn í gjaldeyrishöftum.

En hafa menn gleymt þeim mikla áróðri sem þessi sama ríkisstjórn viðhafði í á þriðja ár um að ef menn létu sig ekki hafa það að bæta hundruðum milljarða af skuldum gjaldþrota banka á ríkið yrði hér efnahagslegur kjarnorkuvetur og enginn í heiminum myndi vilja lána Íslendingum peninga?

Það væri ánægjulegt ef ríkisstjórnin viðurkenndi nú loks að hafa haft rangt fyrir sér.

Það myndi líka bera vott um vilja til að skoða hlutina upp á nýtt og vinna að sameiginlegum markmiðum á nýju þingi ef ríkisstjórnin féllist á að við seinni einkavæðingu bankanna hefði þurft að taka miklu meira tillit til skuldsettra heimila.

Góðir landsmenn.

Umræða um mismunandi stefnu er mikilvægur hluti lýðræðisins og það er eðlilegt að þar greini stjórnmálamenn á um leiðir. En við verðum að muna að markmiðið er okkur öllum sameiginlegt

Við viljum öll  reisa við íslenskt efnahags- og atvinnulíf, við viljum öll byggja upp þjóðfélag þar sem enginn fellur í gegn um öryggisnetið og allir hafa jöfn tækifæri, við viljum öll að Ísland rísi á ný upp sem fullgildur þátttakandi í samfélagi þjóða heims.

En ef við eigum að ná þessu sameiginlega markmiði verðum við að muna að hagvaxtaraukning vegna séreignarsparnaðar og makrílveiða segir lítið til um það hvernig hjúkrunarfræðingi í Kópavogi gengur að ná endum saman.

Gengisvísitala veitir einstæðum foreldrum á Akureyri engar lausnir á því þegar útgjöld heimilisins hækka um tugþúsundir í sama mánuðinum því börnin eru að byrja í skólanum.

Og ný skilgreining á atvinnuleysistölum segir kennaranum á Ísafirði og lögreglumanninum á Þórshöfn ósköp lítið um það hvernig þeir eiga að sinna starfi sínu af fagmennsku þegar starfsumhverfið hefur brotnað niður vegna áralangs niðurskurðar.

Þetta eru raunverulegu vandamálin. Til að leysa þau þarf skynsemi og rökhyggju, en ekki blinda trú á að ein hugmyndafræði, til hægri eða vinstri, leysi allan vanda.

Vandi okkar hverfur ekki bara við að nokkrir hagfræðingar ríkisstjórnarinnar segi efnahagstölur hafa batnað.

Vandi íslensku þjóðarinnar er ekki leystur fyrr en almenningur finnur það í sínu daglega lífi, heimli geta náð endum saman um mánaðarmót, og aldraðir og öryrkjar geta lifað mannsæmandi og áhyggjulausu lífi.

Vandi okkar er ekki leystur fyrr en verðtryggðu húsnæðislánin hætta að éta upp sparifé fólks í hverjum mánuði, allir eiga jafna möguleika á menntun og heilbrigðisþjónustu og langtíma atvinnuleysi heyrir fortíðinni til.

Vandi Íslendinga er ekki leystur fyrr en Íslendingar sjálfir  trúa því að á Íslandi sé framtíðin björt og að hér verði gott að búa eftir tíu eða tuttugu ár.

Sem betur fer er staðreyndin sú að við höfum ríka ástæðu til að líta framtíðina björtum augum. Tækifærin eru óþrjótandi. Við munum nýta þau til að byggja upp þjónustugreinar, iðnað, landbúnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu svo að enginn þurfi að hræðast atvinnuleysi.

Við munum hefja olíuleit og undirbúa opnun nýrra siglingaleiða um norðurslóðir.

Við munum leita skynsamlegustu lausnarinnar á hverjum vanda og styrkjast við hverja raun. Því Ísland býr yfir svo gríðarlegum tækifærum og auðlindum til framtíðar að hér á enginn að þurfa að líða skort.

Það er full ástæða fyrir Íslendinga að hafa óbilandi trú á möguleika okkar til að nýta sóknarfærin, með samvinnu, skynsemi og rökhyggju að leiðarljósi. Í því felst lykillinn að framtíð íslensku þjóðarinnar.

Það er blik af þessum draumi sem verður að knýja okkur áfram til góðra verka, bæði stjórnmálamenn og þjóðina alla.

 

Að nokkrum mánuðum liðnum mun íslenska þjóðin ganga til kosninga um það hvaða stefna eigi að móta framtíð hennar. Næsta ríkisstjórn þarf að koma til móts við skuldsett heimili og skapa jákvæða hvata fyrir fólk að vinna sig út úr vandanum. Þar má ekki bara horfa í það hvað kostar að taka á vandanum, því það er enn dýrara fyrir samfélagið að gera ekkert. Strax á morgun munum við kynna nýjar tillögur í þeim efnum.

Taka þarf atvinnumál mun fastari tökum en hingað til. Leggja verður höfuðáherslu á að efla verðmætasköpun og framleiðslu því einungis þannig munu tekjurnar hækka, atvinnuleysi minnka og ríkissjóður njóta ágóðans. Það þarf að einfalda skattkerfið og skapa pólitískan stöðugleika en um leið gæta þess að skattkerfið tryggi tekjujöfnun, meðal annars með hækkun skattleysismarka.

Þá þarf að bæta starfsumhverfi opinberra starfsmanna umtalsvert svo þeir sjái sér ekki þann kost vænstan að leita betri kjara annars staðar.

Vinna þarf að því alla daga að ýta undir fjölgun starfa, aukna framleiðslu og kaupmátt.

Til að Íslendingar eygi von um mannsæmandi framtíð á Íslandi þarf næsta ríkisstjórn að tryggja að fólk hafi atvinnu og geti lifað af þeim launum sem það fær greidd fyrir vinnu sína og að fólk fái þá þjónustu sem það þarf á að halda. Við verðum að fara að reka ríkið meira eins og heimili og þora að fjárfesta í framtíðinni.

Góðir Íslendingar.

„Ekkert fæst fyrir ekkert. Engu verður áorkað með úrtölum og doða.“

Engum dylst að undanfarin fjögur ár hefur þessi þjóð krýnst þyrnum en ekki rósum. Og á slíkum tímum er það grunnhlutverk þeirra sem stýra landinu að blása þjóðinni kjark í brjóst, að veita leiðsögn og skýra framtíðarsýn sem þjóðin getur fylkt sér um í þeirri vissu að hún leiði til betra samfélags fyrir komandi kynslóðir.

Stjórnvöld verða að stuðla að samkennd, framtakssemi, heilbrigði og öllu því sem gerir líf okkar og samfélagið betra. Því það getur orðið miklu betra.

Það er hægt að taka á skuldavandanum, það er hægt að skapa ný störf en til þess þarf að skapa jákvæða hvata til að lítil og meðalstór fyrirtæki geti stækkað, fjölgað fólki og greitt fleirum laun og betri laun.

Það er hægt að efla menntun og háskólastarf, en það verður líka að styrkja starfsumhverfi og aðstæður þeirra sem vinna mikilvæg störf án langskólamenntunar.

Og það er hægt að ná árangri í baráttunni gegn glæpastarfssemi, en til þess þarf að styrkja löggæsluna, þá stofnun samfélagsins sem Íslendingar bera mest traust til.

Við viljum lifa í samfélagi sem byggir á væntumþykju gagnvart öðru fólki þar sem samhjálp er sjálfsagður hlutur. Við eigum að geta lifað í sátt og samlyndi, laus við yfirgang og ofbeldi, og við eigum að vera óhrædd við að sýna hvert öðru kærleika og umburðarlyndi.

Við eigum að virða og meta drifkraft og frelsi einstaklingsins til að móta eigið líf en um leið að byggja upp samfélag þar sem enginn er skilinn eftir. Við eigum að berjast fyrir mannréttindum og vera tilbúinn til að standa fast gegn kúgun og valdníðslu. Þetta eru og verða þau grunngildi sem Framsókn stendur fyrir og samfélag okkar á að hafa að leiðarljósi.

 

Góðir landsmenn.

Engin hindrun sem verður á vegi okkar er svo stór að skynsemi, rökhyggja og samvinna fái ekki við hana ráðið. Íslendingar hafa áður unnið bug á krepputímum með dug og þor og óbilandi trú á samtakamátt þjóðarnnar að vopni. Þessi þjóð sem í meira 1000 ár hefur komast af við erfiðar aðstæður, á nú auðlindir og tækifæri sem aldrei fyrr. Innviðir ríkisins eru sterkir. Þjóðin er vel menntuð. Mannréttindi eru á fáum stöðum heims jafn vel varin og á Íslandi. Og á þessum traustu stoðum munum við í sameiningu ná markmiðum okkar um að reisa Ísland við og byggja upp það samfélag sem við viljum búa í til framtíðar. Það er ekki bara verkefni næstu ríkisstjórnar, það er verkefni okkar allra.

Svo leyfi mér að lokum að vitna aftur í Frú Vigdísi Finnbogadóttur:

„Megi íslensk þjóð marka sér framtíð með festu og seiglu og minningu um upphaf sitt. Megi henni farnast vel á öllum stundum framtíðar.“