Of langt gengið

Það er merkilegt hvað meirihlutinn í Reykjavík leyfir sér að ganga langt í að nota skattfé almennings til að auglýsa Samfylkinguna. Undanfarnar vikur hafa fært okkur endalausa kosningaviðburði og glærusýningar þar sem lofað er þúsundum íbúða og framkvæmdum á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum, eina ferðina enn. -Allt í trausti þess að menn muni ekki eftir að hafa heyrt sömu loforð fyrir síðustu og þarsíðustu kosningar. Fjöldi fólks virðist vera í vinnu hjá borginni við að undirbúa efni um endurnýtt kosningaloforð Samfylkingarinnar.

Það er eitt að lofa sömu hlutunum aftur og aftur án þess að gera neitt í því eftir kosningar en nú er of langt gengið. Viku fyrir kosningar er borgin látin gefa út bækling með „fyrir og eftir“ myndum af miðborginni. Tilgangurinn er að gefa til kynna að meirihlutinn hafi fegrað miðbæinn. Myndirnar eru hins vegar flestar af gömlum húsum sem ég og fleiri börðumst árum saman fyrir að bjarga undan niðurrifsstefnu Dags B. Eggertssonar, þáverandi formanns skipulagsnefndar Reykjavíkur.

Þetta eru hús sem mörg hver höfðu verið sett á aftökulista skipulagsyfirvalda í hinu ógurlega deiliskipulagi áranna eftir aldamót eða verið látin standa yfirgefin í von um að fá að rífa þau og byggja stóran kassa í staðinn í samræmi við þáverandi stefnu.

Það væri svo sem hægt að láta sig hafa það að Samfylkingin léti borgina hanna og prenta fyrir sig enn einn fallegan kosningabækling ef hann væri lýsandi fyrir stefnu meirihlutans, þ.e. ef menn hefðu snúið af villu síns vegar. En vandinn er sá að ekki aðeins hefur niðurrifsstefna eftiraldamótaáranna verið endurvakin, hún hefur aldrei verið grimmari.

Hús sem þó stóð til að vernda á sínum tíma hafa verið fjarlægð, hvatinn til að leyfa húsum að grotna niður hefur aldrei verið meiri. Fjármagnið og ásókn í fermetra er allsráðandi í miðbæ Reykjavíkur. Hið fíngerða og smáa víkur fyrir hinu stórgerða og háa og hefðbundin fagurfræði telst skammaryrði.

Það sem áður einkenndi gamla bæinn í Reykjavík, þétt röð gamalla húsa við göturnar, bakhúsin og rýmið á milli þeirra, er að hverfa. Þegar búið er að fjarlægja húsin er grafið alveg út að lóðamörkum (og stundum lengra), bergið fleygað og sprengt langt ofan í jörðina, með tilheyrandi jarðskjálftum, og fyllt upp í með sem flestum fermetrum.

Það er ekki eins og Reykjavík hafi átt stóran gamlan miðbæ og af nógu hafi verið að taka. Á undanförnum árum hefur það sem gerði miðbæ Reykjavíkur sérstakan vikið fyrir byggð sem gæti staðið hvar sem er og bætir engu við sérstöðu borgarinnar.

Þá er gefinn út bæklingur sem er til þess ætlaður að draga upp þveröfuga mynd.

Húsin sem naumlega var forðað frá niðurrifi eru sýnd vanrækt og svo nýuppgerð. Þarna eru líka endurbyggðu húsin við Lækjargötu og Lækjartorg. Dettur einhverjum í hug að fólkið sem færði okkur gráu kassana við Hafnartorg hefði staðið fyrir slíkri endurbyggingu?

Í bæklingnum birtast Laugavegur 4 og 6. Hús sem áttu að víkja fyrir hótelkassa. Ekki einu sinni þau fengu þó að vera í friði því það er búið að umlykja þau kössum úr gleri og hrárri steinsteypu. Þarna er fallegt hús við Laugaveg sem núverandi borgarstjóri lét fjarlægja en var forðað að hluta í útlegð úti á Granda. Hús sem voru látin standa tóm (á meðan beðið var eftir niðurrifsheimild) og ég nefndi á sínum tíma sem dæmi um vanrækslu borgarinnar. Þannig mætti lengi telja.

Þar sem birtast ný hús fylgja myndir af þeim gömlu í niðurníðslu. Rétt eins og menn birtu myndir af Bernhöftstorfunni í hörmulegu ástandi við hliðina á teikningum af „glæsilegri“ skrifstofubyggingu sem átti að koma í staðinn.

Hér að neðan eru myndir sem eru meira lýsandi fyrir ástandið í miðbæ Reykjavíkur:

Stúdentagarðana vinstra megin á myndinni nefndi þáverandi formaður skipulagsráðs, Dagur B. Eggertsson sem dæmi um „glæsilega uppbyggingu í miðbænum”. Enn hefur þessi götumynd ekki verið gefin út á póstkorti.
Gömlu bakgarðarnir og rýmið milli húsanna sem einkenndi gamla miðbæinn er óðum að hverfa. Um allt er verið að troða eins mörgum fermetrum inn í gömlu byggðina og hægt er.
Þegar búið er að fjarlægja gömlu húsin eru lóðir grafnar út alveg að næstu lóð og jafnvel lengra. Þeir sem lögðu tíma, peninga og vinnu í að gera upp gömlu húsin búa við háværar framkvæmdir og reglubundna jarðskjálfta mánuðum eða árum saman og fá svo stærðarinnar steinsteypukassa allt í kring.
Í sumum tilvikum er nánast grafið undan gömlu byggðinni, í bókstaflegri merkingu.

 

Það er helst þar sem nýbyggingarnar mætast sem ekki er hægt að fylla alveg út í lóðir.
Eigendur gula hússins áttu á sínum tíma hús á reit sem til stóð að vernda, reit þar sem byggðin minnti helst á Grjótaþorpið. En þegar búið var að gera húsið fallega upp voru næstu hús rifin.

Á mestu efnahagslegu uppgangstímum í sögu landsins hafa fyrrum falleg hús í miðbæ Reykjavíkur verið látin standa auð og vanrækt. Hús sem fallega upp gerð væru mikil bæjarprýði og myndu styðja við það sem gerir miðbæ Reykjavíkur sérstakan og áhugaverðan stað.
Þessi hús eru nú horfin eftir að hafa verið látin standa tóm árum saman. Takið eftir því að byrjað var að gera upp húsið og m.a. búið að skipta um þak áður en skipt var um stefnu.
Þetta hús hét Von eftir verslun sem var rekin þar áratugum saman. Þegar nágrannahúsin voru fjarlægð til að byggja stórhýsi var útskýrt að því miður þyrftu nokkur hús að víkja en á móti kæmi að hið sögulega hús, Von, fengi að standa. En eins og svo oft er þegar stórhýsi eru byggð upp við þau litlu þá er það síðar notað til að rökstyðja að þau þurfi að fara. Í þeirri stefnu sem nú er rekin átti Von enga von. Nú er verið að ljúka við niðurrif hússins.
Sums staðar fá nokkur gömul hús að standa áfram. Húsin hægra megin á myndinni eru friðuð. Það kom þó ekki í veg fyrir að gula húsið væri rifið til grunna. Nú er verið að endurbyggja það en önnur friðuð hús úr þessari heillegu gömlu húsaþyrpingu voru rifin með leyfi borgaryfirvalda. Að sjálfsögðu var risasteinsteypukassi byggður í staðinn. Tölvugerðar myndir af nýbyggingum eru yfirleitt villandi og oftast sýna þær húsin „glóandi“ í góðu veðri. Myndin að ofan er óvenjuleg að því leyti að þar er rigning og fremur dimmt. Að neðan er hins vegar raunveruleg mynd úr sömu götu við svipaðar aðstæður.
Hinn nýi gamli miðbær
Nýframkvæmdir austar í miðbænum. Það er ekkert að því að byggja svona hús þar sem þau eiga við en er þetta til þess fallið að styrkja heildarmynd gamla bæjarins í Reykjavík?
Nýtt skrifstofuhverfi utan við Düsseldorf? Nei gamli bærinn (Altstadt) í Reykjavík.
Áður á sama stað.