Hin undarlega stefnufesta

 

Margt var líkt með atkvæðagreiðslunum um Brexit í Bretlandi og Icesave á Íslandi. Eitt var að þær snerust ekki bara um efnahagslegt hagsmunamat. Í báðum tilvikum snerust þær líka að miklu leyti um að verja ákveðin prinsipp, hvaða afleiðingar sem það kynni að hafa til skamms tíma.

Fyrir nokkrum dögum birti YouGov í Bretlandi skoðanakönnun sem sýndi að stór hluti Breta hefði verið tilbúinn til að færa umtalsverðar fórnir til að ná þeirri niðurstöðu sem þeir töldu rétta í Brexit-kosningunni, hvort sem það sneri að efnahagslífinu í heild eða eigin afkomu. Einkum átti það við um þá sem vildu út.

Margir þeirra sem voru ósáttir við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hentu þetta á lofti og sögðu til marks um hvers konar öfgamenn Brexit-sinnar væru. Meira að segja í fréttatilkynningu frá YouGov var talað um þá sem lýstu sig reiðubúna til að færa fórnir sem „öfgamenn“ (í hvorri fylkingunni sem þeir voru).

Brendan O´Neill skrifar áhugaverða grein um málið í The Spectator og kemur inn á eitt af þeim vandamálum stjórnmálanna sem mér hefur orðið tíðrætt um að undanförnu. Þar segir:

 

„Áður töldum við það göfugt þegar fólk færði fórnir fyrir það sem það trúði á, þegar það sætti sig við að þola erfiðleika í þágu pólitískra eða siðferðislegra markmiða. Nú kallast þetta öfgar. Nú er hver sem er reiðubúinn að helga sig hugsjón, að því marki að hann sé tilbúinn til að skerða eigin lífsgæði til að ná markmiðinu, líklegur til að vera stimplaður galinn. Ég meina, hvers konar rugludallur tekur trú sína eða stefnu fram yfir eigin bankareikning.“

 

O‘Neill segir að hjá YouGov hafi menn verið skelkaðir að sjá að af þeim sem studdu Brexit í könnuninni sögðu 61% að „verulegt tjón fyrir breskt efnahagslíf“ væri „gjald sem mætti greiða“ til að gera Brexit að veruleika. Aðeins tuttugu prósent voru ekki reiðubúnir til þess og 19% voru óákveðnir.

 

„Við þetta breiddist vandlætingin um stétt teknókrata, en þeim þykir öll ástríða í stjórnmálum afar grunsamleg. Eins og við mátti búast bentu svo Brexit-hræddir Twitteratar á könnunina sem sönnun þess að útgöngusinnar væru ekki heilir á geði.

Ég túlka þetta öðruvísi. Mér finnst það einstaklega uppörvandi, jafnvel hrífandi, að félagar mínir í hópi Brexit-sinna séu reiðubúnir að ganga í gegnum þrengingar í nafni lýðræðis, í nafni þess að færa löggjafarvaldið aftur á þann stað þar sem hver framsækinn maður á tímum upplýsingar taldi að það ætti að vera; hjá þjóðinni, undir eftirliti almennings.

Ég fékk beinlínis kökk í hálsinn þegar ég las þann hluta YouGov rannsóknarinnar sem sýndi að margir útgöngusinnar myndu sætta sig við að missa eigin atvinnu, eða horfa upp á fjölskyldumeðlim missa vinnuna, í nafni Brexit. Þrjátíu og níu prósent sögðu að það væri þess virði að ganga í gegnum slíkar hrakfarir saman borið við 38 prósent sem sögðu að það væri það ekki. Þetta kallar maður trúfestu. Þetta er hugsjónafólk. Og ef það virkar framandi á okkur sýnir það bara hvað við lifum á flötum og gráum pólitískum tímum.

Raunar hafa hinar elítukenndu upphrópanir, eftir að í ljós kom að fólk væri tilbúið til að þjást fyrir lýðræðislega hugsjón, dregið fram hversu skaðleg áhrif kerfisræðið* hefur haft á pólitískt ímyndunarafl. Á tímum teknókratans, þar sem stjórnmálin hafa verið svipt stórum hugmyndum og snúast þess í stað um að „tikka í boxin“, snúast um að hafa stjórn á samfélaginu, fólkinu og vonum þess, getur pólitísk ástríða virkað ógnandi. Sterkar tilfinningar, lýðræðisleg hollusta, fórnfýsi – þetta teljast aðskotahlutir á tímum þegar stjórnmál snúast um að láta hlutina lullast áfram á eins óumdeildan hátt og kostur er. Í huga teknókratans, ESB-jakkafatanna sem semja lagafrumvörp fjarri hinni ærandi alþýðu, virkar setningin „Ég er reiðubúinn til að þola þrengingar fyrir það sem ég trúi á“ afbrigðileg. Hún er truflandi. Það er vegna þess að við búum í svo litlausum heimi smárra og spunninna stjórnmála að vilji Brexit-sinna til að þjást fyrir sannfæringu sína getur litið út eins og öfgar.“

 

Það er ekki alltaf auðvelt eða ókeypis að verja prinsipp. Í Icesave-deilunni fór prinsippafstaðan að vísu saman við gríðarlega efnahagslega hagsmuni. Engu að síður var fólki sagt að það myndi kalla yfir okkur efnahagslegar hamfarir ef við létum ekki undan þvingunum. Margir trúðu því en voru samt reiðubúnir til að verja prinsippið.

Ef Bretar klúðra ekki eftirleiknum mun Brexit líka reynast þeim vel. En ef stjórnmál eiga að virka sem skyldi fyrir almenning til framtíðar og gera það gagn sem þau geta gert verða menn að vera reiðubúnir til að verja prinsipp, líka þegar það er erfitt. Annars fer illa. Um þetta höfum við fengið nokkrar áminningar í nýlegri sögu Íslands. Vonandi nýtist sú reynsla okkur í framtíðinni.

 

 

*O´Neill notar orðið technocracy en við þýðinguna styðst ég við orð sem ég hef notað til að lýsa sömu þróun og höfundurinn rekur hér þótt merking þess sé heldur víðtækari.