Maður að nafni Kári Arnór Kárason hefur komið við sögu í fréttum að undanförnu. Ég þekki manninn ekki neitt og veit nánast ekkert um hann, ég veit ekki hvaða stjórnmálaflokk hann styður, ekki einu sinni með hverjum hann heldur í enska boltanum. Samt get ég ekki annað en haft samúð með manninum. Kári Arnór var víst til umfjöllunar í einum af Panamaþáttum Kastljóss RÚV. Ekki sá ég ástæðu til að horfa á þáttinn þar sem Kári kom við sögu, hafandi kynnst því af eigin raun hvernig þessir þættir voru unnir. Ég sækist ekki sérstaklega eftir því, frekar en aðrir, að láta blekkja mig.
En hvað um það, í einhverjum þessara þátta var Kári Arnór sakaður um eitthvað og dæmdur um leið að hætti hússins. Ekki veit ég hvað hann var sakaður um en Kári virðist ekki hafa kannast við allt sem upp á hann var borið og gerðist því svo djarfur að biðja um að fá að sjá gögnin sem ásakanirnar byggðust á. Við þeirri beiðni fékk hann þau svör að gögnin væru ekki til, að minnsta kosti ekki hjá saksóknaranum, dómaranum og böðlinum (sem í þessu tilviki er allt sami aðilinn).
Láttu mig þekkja það (þá)
Þótt ég þekki ekki til mála Kára Arnórs gefur eigin reynsla mér ástæðu til að ætla að hann hafi haft tilefni til að kalla eftir skýringum ríkisstofnunarinnar. Þegar ég var, ásamt eiginkonu minni, sakaður um allt mögulegt, og ráðinn mér óafvitandi og launalaust sem leikari í einhverjum fáránlegum farsa (sem síðar reyndist hafa verið skrifaður fyrir fram), varð mér ljóst að líklega væri best að skýra málið. Ég fór þess því á leit við þá sem að þessu stóðu að ég fengi að sjá á hvaða gögnum hinar fjölskrúðugu ásakanir byggðust svo ég gæti svarað þeim. Mér var þá tjáð, eins og Jósef K í sögu Kafka, að það kæmi ekki til greina.
Ríki í ríkinu en þó ekki réttarríki
Öfugt við grundvallarreglu allra réttarríkja gilti hér sú regla að maður teldist sekur ef hann sannaði ekki sakleysi sitt. Fyrir vikið þurftum ég og fleiri að leita allra leiða til að komast yfir hverjar þær upplýsingar sem ákærendurnir kynnu að vera að leita eftir. Krafan virtist raunar vera sú að hinn ásakaði sannaði sakleysi sitt með gögnum sem ekki væru til. Gögnin sem ekki voru til átti að nálgast hjá fyrirtæki í Panama sem hafði verið í samstarfi við Landsbankann, banka sem varð gjaldþrota fyrir hátt í áratug.
Það er vandkvæðum bundið að sanna að eitthvað sem ekki er til sé ekki til. En við hljótum að vera komin í Kafka fyrir lengra komna þegar slík krafa er sett fram af stofnun sem neitar sjálf að láta af hendi svo mikið sem eitt blað til að skýra ásakanirnar sem hún setur fram og segist ekki einu sinni eiga nein blöð.
Snerist aldrei um að leita sannleikans
Skemmst er frá því að segja að við eyddum tveimur eða þremur vikum í að leita upplýsinga og svara spurningum hinna og þessara aðila. Þar á meðal sístækkandi hóps erlendra fjölmiðla sem margir höfðu fengið mjög rangar og stundum beinlínis undarlegar upplýsingar um gang mála en báru fyrir sig að þeir hefðu fengið upplýsingarnar frá íslenskum kollegum.
Við útskýrðum að allt hefði verið gefið upp til skatts á Íslandi, nafn, eignir og skráningarland og því hefðu Panamapappírstígrarnir ekki verið að gera neina uppgötvun. Þá var svarið að menn tryðu þessu ekki. Ekki veit ég hvort það var vegna þess að viðkomandi þótti sannleikurinn svekkjandi eða hvort þetta var sett fram til að „fiska“, reyna að fá okkur til að senda enn fleiri gögn til að snúa út úr. Líklega var það hvort tveggja.
Fals
Auðvitað skipti öll vinna og afrakstur gagnaöflunarviknanna þessa menn engu máli. Það var búið að skrifa söguna og ef til vill snerist hin endalausa krafa um upplýsingar bara um að halda manni uppteknum á meðan verið var að klára að setja samsæriskenningarnar á myndrænt form. Og auðvitað bæta við öðru efni. Efni sem braut ekki aðeins allar lágmarksreglur siðferðis og mannlegra samskipta og vinnureglur heiðarlegra fjölmiðla heldur fól í sér hreinar falsanir. Til að mynda með dæmalausu viðtali þar sem viðmælandinn var skipulega blekktur að því marki að hann vissi ekki í hvaða vídd hann væri, hvað þá um hvað væri verið að spyrja, og allt svo sett í nýtt samhengi. Fölsun í öllum skilningi þess orðs.
„En útlendingar sögðu líka fréttir af þessu“
Það felst mikil kaldhæðni í því að Ríkisútvarpið skuli helst afsakar sig með því að vísa í að fjallað hafi verið um Panamamálin víða erlendis og sú umfjöllin vakið mikla athygli. Eitt besta dæmið var þegar skrifuð var einkar sérkennileg frétt þar sem stofnunin reyndi að réttlæta sig út frá því að dagblað í Flórída hefði fengið blaðamannaverðlaun fyrir umfjöllun um hin ýmsu Panamamál. Inntak fréttarinnar var „blað í Miami fékk þessi fínu verðlaun en samt hefur Sigmundur sett út á umfjöllun RÚV“.
Meira að segja í Bretlandi þar sem forsætisráðherra landsins hafði þó notið ávinnings af peningum í raunverulegu skattaskjóli var umfjöllun flestra fjölmiðla hófstillt miðað við hið gagnalausa RÚV.
Þegar stofnunin vísar í umfjöllun erlendis er það því fyrst og fremst áminning um að aðkoma stofnunarinnar að þeirri umfjöllun fólst einkum í tengingu hennar við aðila sem leituðust við að draga upp sem versta mynd af Íslendingum bæði innan lands og utan.
Ekkert undir höndum
Fjölmiðlamönnum þykir yfirleitt skemmtilegt að geta sagst „hafa gögn undir höndum“. Ég freistaðist örugglega til að nota frasann nokkrum sinnum á fjölmiðlaárum mínum og ekki hefur dregið úr notkuninni síðan þá. Jafnvel þótt verið sé að fjalla um skýrslu sem hver sem er getur sótt í anddyri ríkisstofnunar virðist innihaldið merkilegra ef menn „hafa það undir höndum“. Með því er enda verið að segja að viðkomandi hafi upplýsingarnar í raun og veru. Hafi áþreifanlegar upplýsingar sem hægt er að vísa í og leggja fram ef svo ber undir.
Því er öðruvísi háttað í umfjöllun hins gagnalausa RÚV um Panamagögnin. Það hefur ekkert undir höndum nema það sem það fékk matreitt og skreytt frá þeim sem keyptu gögnin af þeim sem stálu þeim.
Áður en Kári Arnór fékk hina sérkennilegu en fyrirsjáanlegu neitun hafði komið fram að þeir sem sáu um umræðuna, ásakanirnar og sakfellingarnar fyrir hönd ríkisstofnunarinnar hefðu látið skammta sér gögnin frá einhverjum huldumönnum í útlöndum. Viðtakendunum („front-mönnunum“) hafði meira að segja verið sagt um hvað þeir ættu að spyrja.
Þótt hinum ósýnilegu gögnum huldumannanna væru gerð góð skil gegndi öðru máli um þau gögn sem við hjónin lögðum fram. Það sem þótti helst í frásögur færandi við fyrstu greinargerðina sem við skiluðum til að svara spurningaflóðinu var hvað hún væri löng. En þetta var auðvitað áður en prógrammið var keyrt í gang og því hentaði ekki ræða mikið um skýringar. Það hefði sett strik í reikninginn ef réttar fréttir hefðu farið í loftið á undan hinum.
Myndin sem dregin var upp og raunveruleikinn
Grundvallaratriðum málsins hefur enn ekki verið gert skil á Ríkisútvarpinu. Ætli margir sem reiða sig á fréttir stofnunarinnar séu til dæmis meðvitaðir um að þar var ekki ljóstrað upp um neitt sem viðeigandi aðilar vissu ekki fyrir? Áhorfendur hafa ekki enn fengið að heyra að konan mín hefur aldrei leitast við að nýta lægra skatthlutfall í öðrum ríkjum (skattaskjól) né hefur hún nokkurn tímann átt peninga í Panama eða á nokkrum eyjum öðrum en Íslandi og Bretlandi (og e.t.v. Sjálandi).
Að lokum þurfti að setja upp vefsíðu svo fólk gæti nálgast réttar upplýsingar um málið (hún er enn virk: www.panamaskjolin.is) því ekki mun stofnunin rengja sjálfa sig. Athugasemdir kalla þvert á móti á frekari tilraunir til sjálfsréttlætingar á kostnað þess sem leitast við að ná fram leiðréttingu.
Ef til vill skiljanlegt
Líklega verður maður að sýna því skilning að eftir alla fyrirhöfnina og spenninginn við að fá að kíkja á „leyniskjöl“ frá útlöndum hafi ekki verið hægt að ætlast til að menn segðu fréttir af því að eiginkona forsætisráðherra hafi alltaf leitast við að greiða skattana sína og gera það á Íslandi en ekki annars staðar þar sem skattar eru lægri. Og það þótt hún hafi verið „sett í sama pakka“ í bankanum og flestir sem áttu umtalsverða peninga á Íslandi fyrir 12 árum. Svo hefði auðvitað verið sérlega óspennandi að segja frá því að hún hafi ekki hagnast fjárhagslega heldur tapað verulega á því að vera gift stjórnmálamanni og stefnunni sem hann barðist harðast fyrir.
Svo verður líka að taka tillit til þess að Ríkisútvarpið, „fjölmiðill í almannaþágu“ má auðvitað ekki leyfa fólki að fá þá flugu í höfuðið að stofnuninni geti skjátlast, ekki frekar en stofnanir þýska alþýðulýðveldisins forðum „stofnanir í almannaþágu“ gátu leyft sér að umbera slíkar grillur. Það er því bara af praktískum ástæðum sem teknar hafa verið upp sömu vinnureglur og stuðst var við þar eystra: „Ef staðreyndirnar falla ekki að skoðun stofnunarinnar eru staðreyndirnar rangar“. Af því leiðir svo óhjákvæmilega að þeir sem eru sakaðir um eitthvað teljast þar með sjálfkrafa sekir.
Engu að síður er auðvitað gerð rík krafa um játningar og í því skyni notuð gömul brella úr sömu átt, að krefjast þess af hinum ásakaða að hann biðjist að minnsta kosti afsökunar á því sem hann er sakaður um.
Niðurstaðan
Ég þekki Kára Arnór ekki og veit ekki hvort eitthvað var öðru vísi hjá honum en eðlilegt gat talist en með hliðsjón af gögnunum sem ekki finnast hjá Ríkisútvarpinu, ekki einu sinni undir gólfinu þar sem var þó lengi hægt að nálgast mikið af gögnum, ætla ég að leyfa mér að giska á að hann sé að minnsta kosti saklaus af þeim ásökunum sem hann kannast ekki við. Það þarf reyndar ekki að giska. Þar til annað kemur í ljós hlýtur hann að teljast saklaus miðað við hvaða gögn liggja fyrir í málinu, eða réttara sagt, liggja ekki fyrir.
* Þar sem fjallað er um Ríkisútvarpið snýr gagnrýnin fyrst og fremst að tilteknum hópi innan stofnunarinnar sem fengið hefur að nýta hana að vild og stjórnendum sem láta það viðgangast. Hjá Ríkisútvarpinu starfar mikill fjöldi af færu og góðu fólki sem ég hef mætur á.