Víkur kirkjugarður fyrir hóteli?

Bólubrjálæðið í miðbæ Reykjavíkur heldur áfram. Stefnt er að því að ryðja burt einni fyrstu byggð borgarinnar og landsins alls við Lækjargötu og byggja þar hótelkassa og nú vilja borgaryfirvöld láta byggja á hinum forna kirkjugarði borgarinnar.

Áður en þýskumælandi þjóðflokkar héldu í austur og komu á þann stað sem þeir kölluðu síðar Berlín, áður en Normannar lögðu undir sig England og löngu áður en Absalon biskup stofnaði Kaupmannahöfn voru Reykvíkingar lagðir til hinstu hvílu á helgum reit í heimabyggð sinni, í Víkurkirkjugarði. Á þessum stað voru kynslóðir Reykvíkinga jarðsettar í átta- til níuhundruð ár. Kirkjan í Reykjavík er talin hafi verið ein þeirra fyrstu sem reistar voru eftir kristnitökuna árið 1000 og nýverið hafa fundist vísbendingar um að minjar úr heiðni kunni einnig að vera í garðinum.

Garðurinn var kirkjugarður Reykvíkinga til 1838 þegar Hólavallagarður var tekinn í notkun en einhverjir voru lagðir til hvílu í Víkurkirkjugarði fram undir 1883 þegar Schierbeck landlæknir fékk að gera hann að skrúðgarði, bæjarbúum til yndisauka.

Nú á að ganga á það sem eftir er af garðinum til að geta bætt aðeins fleiri fermetrum við stærðarinnar hótel við Austurvöll (og Ingólfstorg, og Aðalstræti og Kirkjustræti). Þannig á að koma fyrir enn fleiri hótelherbergjum en ella á ferðamannaferkílómetranum í miðbæ Reykjavíkur.

Til hvers? Væntanlega svo að aðeins fleiri hótelgestir geti skoðað öll hin hótelin og túristabúðirnar.

Ég hef áður fjallað um hvernig þessi bóla er að skemma eðli miðbæjarins, hvernig því sem gerir miðbæ Reykjavíkur sérstakan er rutt í burtu til að byggja sem flesta fermetra húsnæðis sem gæti staðið í hvaða borg sem er.

En það að stjórnendur borgarinnar skuli vilja grafa út og byggja yfir staðinn þar sem fólkið sem byggði Reykjavík í hátt í árþúsund hvílir virðist fela í sér alveg sérstaka vanvirðingu. -Virðingarleysi við gengnar kynslóðir og við söguna.

Vissulega var reiturinn notaður undir bílastæði og símaklefa um áratuga skeið en sögulegir reitir hafa oft verið geymdir undir bílastæðum þar til mikilvægi þeirra var rifjað upp. Meira að segja Englandskonungar hafa legið undir bílastæðum.

Í miðborg Lundúna hefur fasteignaverð hækkað gríðarlega undanfarin ár og áratugi. Afleiðingin er sú að smá kitrur eru leigðar út fyrir góð mánaðarlaun og íbúðir sem teljast dýrar eru helst á færi rússneskra „olígarka“ eða arabískra prinsa. Fjármagnið er orðið nánast allsráðandi, meðal annars með þeim afleiðingum að horfið hefur verið frá þeirri hundrað ára gömlu stefnu að byggja ekki skýjakljúfa í miðborginni. Mörg hverfi njóta að vísu verndar en á slíkum stöðum eru menn farnir að stunda það að rífa hús að innan og láta útveggina standa. Svo er grafið tugi metra ofan í jörðina til að fjölga fermetrum og loks fyllt aftur í skelina.

Algeng sjón í Lundúnum. Þessar myndir eru frá framkvæmdum við hús sem standa (eða stóðu) við hlið Buckinghamhallar. Fjárfestingafélag frá Abu Dahbi keypti heilan húsareit fyrir 3-400 milljónir punda og reif öll húsin á reitnum (nema eitt friðað hús). Útveggi húsanna mátti hins vegar ekki rífa, að frátöldu einu tuttugustu aldar húsi.

 

En jafnvel í London byggja menn ekki yfir kirkjugarða.

Í einu dýrasta hverfi borgarinnar, Marylebone, er almenningsgarður sem var þó ekki hannaður sem slíkur í upphafi. Húsin snúa mörg bakhliðinni að garðinum og lögun hans er ekki eins regluleg og flestra almenningsgarða í borginni. Ástæðan er sú að garðurinn, Paddington Street Gardens, er gamall kirkjugarður.

Þar sem gengið er inn í garðinn blasir við steinn sem minnir á að garðurinn hafi verið kirkjugarður áður en borgaryfirvöld fengu svæðið til afnota sem almenningsgarð. Það var árið 1885, tveimur árum eftir að Schierbeck fékk leyfi til að gera Víkurkirkjugarð að skrúðgarði (og sama ár og hann varð fyrsti forseti Hins íslenska garðyrkjufélags). Á steininum er svo minnt á að garðurinn sé enn vígð jörð (helgur reitur) og lúti stjórn kirkjunnar.

Myndir úr Paddington Street Gardens

 

Gamli kirkjugarðurinn í London var notaður sem slíkur í 126 ár, frá 1731 til 1857. Í Víkurkirkjugarði var fólk jarðsett í allt að 900 ár.

Þótt leiðin séu löngu horfin úr garðinum í London myndi ekkert fasteignafélag, hvort sem það væri frá Englandi, Rússlandi eða Sameinuðu arabísku furstadæmunum láta sér detta í hug að reyna að fá sneið af garðinum til að stækka hús, jafnvel þótt þau snúi bakhliðinni að honum. Þó er saga kirkjugarðsins í Paddington Street Gardens stutt saman borið við Víkurkirkjugarð og hefur ekki nærri því sama vægi í sögu borgarinnar eða landsins.

Nær væri að hefja þennan sögulega stað í hjarta höfuðborgarinnar aftur til vegs og virðingar og færa þangað aftur minjar um mikilvægi staðarins. Sýna gengnum kynslóðum Reykvíkinga virðingu og leyfa samtímafólki að njóta þessa merka og helga staðar. Þar með talið erlendum hótelgestum.

 

… Svo eru það byggingarnar sjálfar. En meira um það síðar.

 

(Mynd efst: landssimareitur.is)