Ráðherrar fastir í sama pakkanum

Pakk­inn er að sjálf­sögðu 3. orkupakki Evr­ópu­sam­bands­ins en ráðherr­arn­ir eru ekki bara nú­ver­andi ráðherr­ar því fyrr­ver­andi ráðherr­ar virðast komn­ir í sama pakk­ann. Þeirra a meðal er Björn Bjarna­son, fyrr­ver­andi ráðherra og formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins og nú­ver­andi formaður starfs­hóps rík­is­stjórn­ar­inn­ar um EES-samn­ing­inn.

Björn hef­ur að und­an­förnu skrifað nokkra pistla til stuðnings orkupakk­an­um og virðist helst telja það mál­inu til fram­drátt­ar að rík­is­stjórn mín hafi ekki kæft áform ESB um þriðja orkupakk­ann í fæðingu.

Lín­an gef­in

Það er engu lík­ara en starf­andi ráðherr­ar flokks­ins séu orðnir læri­svein­ar for­vera síns og EES-for­manns­ins í mál­inu. Þeir end­ur­taka í sí­fellu sama svarið við öll­um spurn­ing­um um þriðja orkupakk­ann. Svarið er að rík­is­stjórn mín (og þ.a.l. sér­stak­lega ég) hafi ekki sett ofan í við Evr­ópu­sam­bandið á sín­um tíma vegna þriðja orkupakk­ans. „Rök­semda­færsl­an“ sem að baki ligg­ur er sú að þá þegar hafi verið tíma­bært að taka af­stöðu til máls­ins en þar sem það hafi ekki verið gert sé ekki tíma­bært að taka af­stöðu til máls­ins nú og því þurfi meiri tíma til að velta því fyr­ir sér.

Að inn­leiða eða inn­leiða ekki

Nú kann vel að vera að ég og aðrir stjórn­arþing­menn fyrri ára hefðum átt að gera enn meira af því en raun var að beita okk­ur gegn hug­mynd­um sem upp hafa komið inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins um aukna ásælni á ýms­um sviðum. Ég verð þó að viður­kenna að vanga­velt­ur í Brus­sel um þriðja orkupakk­ann komu ekki mikið inn á radar ráðuneyt­is­ins í minni tíð. Önnur mál voru þar ofar á baugi og ekk­ert þeirra sner­ist um und­an­láts­semi við Evr­ópu­sam­bandið, öðru nær.

Að minnsta kosti er ljóst að við inn­leidd­um ekki þriðja orkupakk­ann eða aðrar til­raun­ir ESB til að auka vald sitt yfir stjórn lands­ins. Það er ný­mæli ef Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn, sem ósjald­an hef­ur bent á minn­is­leysi annarra flokka um þátt­töku í rík­is­stjórn, kann­ast ekki við hlut­verk sitt í rík­is­stjórn­um und­an­far­inna ára. Ég minn­ist ekki mik­ill­ar mót­spyrnu úr þeirri átt gagn­vart reglu­gerðafarg­ani ESB á sín­um tíma.

Þó skal ég vera fyrst­ur til að viður­kenna að gagn­rýni á fyrri rík­is­stjórn­ir fyr­ir að hafa ekki veitt ESB enn meiri viðspyrnu og kæft fleiri mál í fæðingu kunni í ein­hverj­um til­vik­um að vera rétt­læt­an­leg. Slík gagn­rýni get­ur þó varla verið rétt­læt­ing fyr­ir því að nú­ver­andi rík­is­stjórn taki stór skref í að gefa eft­ir full­veldi lands­ins og inn­leiði lög­gjöf sem skerðir sjálf­stjórn­ar­rétt Íslands.

Nýj­asta út­spil EES-for­manns rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að minna á að ég hafi um­borið áhuga Dav­ids Ca­merons, þáver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, á að skipa hóp til að skoða hugs­an­lega lagn­ingu sæ­strengs til Íslands. En eins og ég sagði hinum breska nafna mín­um á sín­um tíma, og fram kom í þing­ræðum og viðtöl­um, taldi ég ekki lík­ur á að niðurstaðan yrði sú að slík teng­ing þjónaði hags­mun­um Íslands. Og þá var ekki einu sinni orðið ljóst að ESB ætlaði sér að stjórna orku­mál­um á Íslandi.

Í þessu máli þarf banda­menn

Hvað varðar af­stöðu Sjálf­stæðis­flokks­ins og ráðherra hans til orkupakk­ans hef ég eng­an áhuga á að gera flokk­inn að and­stæðingi mín­um í mál­inu. Sam­fylk­ing­in og Viðreisn geta séð um það hlut­verk. And­stæðing­ar gera stund­um sitt gagn en í þessu máli vil ég miklu frem­ur banda­menn en and­stæðinga. Málið snýst enda um grund­vall­ar­hags­muni og full­veldi þjóðar­inn­ar.

Ann­ars eru áhyggj­urn­ar lík­lega óþarfar því fram­sókn­ar­menn munu hafa ályktað um að flokk­ur­inn sé and­snú­inn þriðja orkupakk­an­um og þá hljóta ráðherr­ar og þing­menn flokks­ins að fara eft­ir því. …Nei, þetta er lík­lega ekki rétti tím­inn fyr­ir hót­fyndni. Nú þurf­um við stuðning allra sem eru reiðubún­ir til að verja full­veldi lands­ins, sama hvort þeir gera það af sann­fær­ingu eða vegna þess að ein­hverj­ir aðrir eru til í þann slag.

Má gagn­rýna EES-mál?

Það er raun­ar merki­legt hversu marg­ir eru viðkvæm­ir fyr­ir gagn­rýni á Evr­ópu­sam­bandið eða EES-samn­ing­inn. Samn­ing­ur­inn hef­ur gríðarleg áhrif á regl­ur og viðskipti á Íslandi. Það hlýt­ur því að vera óhætt og eðli­legt að ræða eðli hans, kosti og galla.

Það eru ekki mjög mörg ár síðan ís­lensk­ir krat­ar lofuðu EES-samn­ing­inn í há­stert og út­skýrðu á Alþingi, á fund­um og í fjöl­miðlum að vöxt­ur ís­lensku bank­anna og út­rás ís­lenskra fyr­ir­tækja væru af­leiðing EES-samn­ings­ins og hefðu ekk­ert með þáver­andi stjórn­völd að gera. Sá mál­flutn­ing­ur hvarf skyndi­lega, nán­ast á ein­um degi. Mig minn­ir að það hafi verið haustið 2008. Eft­ir það var umræðunni í aukn­um mæli beint að stjórn­ar­skrá lands­ins og henni kennt um alla skapaða hluti.

EES-samn­ing­ur­inn hef­ur vissu­lega gert gagn á ýms­um sviðum en hann er sann­ar­lega ekki galla­laus. Æskilegt og eðli­legt væri að Íslend­ing­ar ræddu samn­ing­inn og áhrif hans mun meira en raun­in hef­ur verið. Von­andi mun niðurstaðan af vinnu Björns Bjarna­son­ar gefa til­efni til þess.

Í millitíðinni er ljóst að við get­um ekki leyft okk­ur að fall­ast á til­raun­ir til að færa er­lend­um stofn­un­um vald­heim­ild­ir á Íslandi og leggja grund­vall­ar­hags­muni þjóðar­inn­ar í hend­ur ókjör­inna full­trúa er­lendra ríkja. Prinsippið eitt og sér næg­ir til að hafna slík­um til­b­urðum. Til viðbót­ar hef­ur þeim praktísku hætt­um sem af mál­inu stafa þegar verið lýst ágæt­lega af inn­lend­um og er­lend­um sér­fræðing­um.

Þarf nú að berj­ast við vind­myll­ur?

Loks veld­ur það mér áhyggj­um að sjá að iðnaðarráðherra lands­ins skuli þegar vera far­inn að tala fyr­ir draumór­um Evr­ópu­sam­bands­manna (og af­markaðs hóps ís­lenskra vinstrimanna) um að gera Ísland að vind­myll­ug­arði. Það er í sam­ræmi við hug­mynd­ir um að gera Ísland að orku­búi í svo­kölluðu „Super-grid“-orku­kerfi Evr­ópu. Vind­myll­ur eru hins veg­ar hvorki lausn­in á orku­bú­skap Íslands né um­hverf­is­vanda heims­ins eins og ég hef áður fjallað um nokkuð ít­ar­lega. Von­andi þurf­um við ekki að slást við vind­myll­ur þegar búið er að skila þriðja orkupakk­an­um.

 

Greinin birtist fyrist í Morgunblaðinu 15.11.2018