Að skjálfa gagnvart erlendu valdi

Hvað er málið með krata og erlent vald? Fyrir lýðveldisstofnun bölsótuðust þeir endalaust yfir því hvað Íslendingum lægi á að stofna lýðveldi. Betra væri að gera það þegar aðrar þjóðir væru tilbúnar fyrir lýðveldisstofnun á Íslandi. Lýðveldisstofnun var þó samþykkt með álíka hlutfalli og felldi fyrri Icesavesamninginn.

Í þorskastríðunum var það sama upp á teningnum. Þegar framsóknarmenn ákváðu á sjötta áratugnum, með stuðningi sósíalista, að segja upp samningi við Breta frá 1901 sem gerði þeim kleift að veiða upp við strendur landsins, brást þriðji stjórnarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, ókvæða við og hótaði margsinnis að slíta stjórnarsamstarfinu ef ekki yrði fallið frá áformunum. Ekki mátti ögra alþjóðasamfélaginu, mikilvægir markaðir í Bretlandi og víðar voru í húfi, lánafyrirgreiðsla osfrv.

Afstaða og afskipti ESB af Icesavedeilunni hafa verið augljós frá upphafi sem og það að Evrópusambandsþráin hafði mest um það að segja hvað ríkisstjórnin reyndi fast að troða Icesavekröfunum upp á Íslendinga. ESB þrætti þó lengst af fyrir afskipti sín af málinu, sagði það ekki koma viðræðum við Ísland neitt við. Um væri að ræða tvíhliða deilu Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar. Nú hefur ESB hins vegar kastað grímunni og stillt sér upp með andstæðingum Íslands, þvert gegn fyrri yfirlýsingum um hlutleysi.

Þeir mega þó eiga það að ekki er gerð tilraun til að fela ástæðuna. Talsmaður ESB sagði sambandið ætla að beita sér gegn Íslendingum í málinu til að verja fjármálastöðugleika í Evrópu (lesist: verja evrópska bankakerfið). Í stefnunni segir að það sé “mikilvægt fyrir hagsmuni Evrópusambandsins” að Ísland sé dæmt brotlegt.

ESB brýtur blað í sögu EFTA-dómstólsins með því að gerast sjálft aðili að málaferlum. Þannig tekur sambandið ekki aðeins afstöðu gegn Íslandi í þessu stóra hagsmunamáli heldur leggur pólitískan þunga sinn í að knýja fram „rétta“ niðurstöðu. Þetta kemur í beinu framhaldi af ótrúlegum yfirgangi, þvingunum og hótunum vegna lögmætra makrílveiða Íslendinga.

En hvert er svar ríkisstjórnarinnar?

Utanríkisráðherrann sem alltaf sér björtu hliðarnar á aðgerðum Evrópusambandsins gegn Íslandi telur sókn ESB gegn umsóknarlandinu til bóta. Telur það raunar styrkja stöðu okkar á sama hátt og fækkun stjórnarþingmanna er iðulega til þess fallin að styrkja stöðu ríkisstjórnarinnar að mati ráðherrans. Að hans mati hefur ESA (sem einhverjir héldu að væri hlutlaus stofnun) beðið ESB að veita sér stuðning í málaferlunum gegn Íslandi eftir að þeir áttuðu sig á því hversu veikur málstaður þeirra væri. En það þýðir þá væntanlega að ESA telji að stuðningur ESB muni hafa áhrif á dómsniðurstöðuna, óháð réttmæti krafnanna.

Utanríkisráðherrann taldi þetta meira að segja allt svo jákvætt og heppilegt að hann sá hvorki þörf á að upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis né forsætisráðherra um það, Hugsanlega telur hann gegnsæi svo mikið hjá ríkisstjórninni að allir sem vijla hljóti að geta séð mikilvæg gögn Icesave málsins í gegn um veggi utanríkisráðuneytisins.

Hvernig bregst svo forsætisráðherrann við eftir að hún frétti loksins af málinu í fjölmiðlum, tveimur vikum eftir að EFTA-dómstóllinn upplýsti um áform ESB? Hver eru viðbrögð þessa forystumanns þjóðarinnar við því að ESB hafi brotið blað í sögu sinni til að hefja sókn gegn landi sem er í aðildarferli og þar með tryggt að 27 þjóðir ættu ekki annan kost en að beita sér gegn Íslandi í málinu, eða a.m.k. ekki með því?

Jú, þetta er sjálfsagt mál og ástæðulaust að gera veður út af því. Raunar hefði það komið forsætisráðherra á óvart ef ESB hefði ekki farið gegn okkur.

Svo hefur þetta að sjálfsögðu engin áhrif á aðildarumsókn Íslands að bandalaginu sem nú er í  tangarsókn gegn Íslandi. Aðildarumsóknin heldur bara áfram, enda málin ótengd. Ótengd á sama hátt og afstaða Samfylkingarinnar til Icesave var að sjálfsögðu ótengd afstöðu hennar til ESB.