Reykjavík eftir loftárás

Fólk sem leiðir ferðamenn um miðbæ Reykjavíkur er oft spurt að því hvort borgin hafi orðið illa úti í loftárásum í seinni heimsstyrjöldinni. Sundurlaus byggð þar sem steinkumbaldar frá undanförnum áratugum standa innanum leifarnar af gömlu byggðinni þykir minna á evrópska bæi sem fyrst máttu þola sprengjuárásir og svo tilraunastarfsemi í arkitektúr og skipulagsmálum.

Auk þess hafa óbyggðar lóðir staðið auðar, eða verið notaðar sem bílastæði, áratugum saman, rétt eins og í Berlín (einkum austurhluta borgarinnar). Þessu ástandi hefur verið viðhaldið með misráðnu skipulagi og það sem verra er, víða hefur ástandið versnað. Nú lítur miðbærinn á köflum ekki út eins og fórnarlamb seinni heimsstyrjaldarinnar, sumstaðar er eins og stríðsátökum sé nýlokið. Við Hverfisgötu stendur t.a.m. hálfbrunnið hús sem  hefur verið látið standa opið fyrir veðri og vindum.

Um er að ræða hús sem til stóð að vernda og gera fallega upp. Borgin hefur hins vegar látið það viðgangast að ekkert hafi verið gert til að verja húsið, hvað þá að lagfæra það, í á þriðja ár. Slík dæmi eru reyndar fjölmörg. Þau eru afleiðing af stórskaðlegri stefnu í skipulagsmálum. Stefnu sem skapar hvata til að láta hús grotna niður og eyðileggjast í stað þess að hvetja til viðgerða og fegrunar. Við það bætist að borgin beitir ekki þeim úrræðum sem hún hefur til að taka á því þegar fallegum húsum er leyft að eyðileggjast og valda tjóni fyrir umhverfi sitt og íbúa borgarinnar.

Á meðan borgir og bæir í Mið- og Austur-Evrópu hafa verið færðar til fyrri glæsileika og orðið miðstöðvar ferðaþjónustu og líflegs mannlífs hafa Reykvíkingar mátt horfa upp á stöðnun og stundum afturför í miðbæ höfuðborgarinnar. Með skynsamri stefnu í skipulagsmálum má snúa þróuninni hratt við, öllum til hagsbóta. Miðbærinn getur enn orðið aðlaðandi miðpunktur í höfuðborg friðsæls lands. Sú stefnubreyting þolir hins vegar enga bið.