Evrópusambandið kastar grímunni í Icesave málinu.

Það er allt undarlegt við Evrópusambandsumsókn Íslands.

Þegar ríkisstjórnin sótti um aðild lýsti hún því yfir að það væri ekki gert vegna þess að menn vildu endilega ganga í ESB heldur til að athuga hvað væri í boði. Þessi umræða hefur lifað fram á þennan dag jafnvel þótt Evrópusambandið sjálft reyni reglulega að útskýra að menn sæki ekki um aðild nema af því þeir vilji ganga í sambandið og aðlaga sig að reglum þess.

ESB hafði meira að segja fyrir því að senda Íslendingum skriflega ábendingu um að það væri villandi að tala um „samningaviðræður“ því að það gæfi til kynna að það væru tveir aðilar að semja um eitthvað. Viðræður snérust ekki um það heldur hvernig umsóknarríkið ætlaði að fara að því að aðlaga sig að ESB.

Því er hvað eftir annað haldið fram af stjórnvöldum að fráleitt sé að tala um aðlögunarferli. Á sama tíma berast ályktanir frá Evrópuþinginu um mikilvægi þess að herða enn á aðlöguninni.

Stjórnvöld töluðu um flýtimeðferð Íslands inn í ESB og einn stjórnmálaflokkur rak kosningabaráttu sína árið 2009 á þeim forsendum að það eitt að sækja um aðild myndi styrkja gengi krónunnar og hleypa af stað mikilli erlendri fjárfestingu. Strax eftir að umsóknin var send inn féll gengi krónunnar og fjárfesting er í sögulegu lágmarki.

Helsta fréttaefni erlendra fjölmiðla undanfarin misseri hefur verið evrukrísan, þau stórkostlegu vandræði sem ESB stendur frammi fyrir við að halda hinum sameiginlega gjaldmiðli lifandi og þær gríðarlegu fórnir sem ríki sambandsins þurfa að færa í tilraunum til að bjarga evrunni. Vaxtamunur á milli ríkja sem nota evruna er nú orðinn margfaldur þótt um sömu mynt sé að ræða. Á sama tíma er birtast auglýsingar í íslenskum fjölmiðlum þar sem fólki er lofað lægri vöxtum og milljónasparnaði með upptöku evru.

Könnun ESB á matvælaverði í álfunni sýndi að matvælaverð væri orðið einna lægst á Íslandi, einkum verð landbúnaðarvörum. Samt er almenningi á Íslandi lofað lægra matvælaverði með inngöngu í ESB.

Því er haldið fram að við getum samið um sérstakar undanþágur í sjávarútvegi og haldið innlendum yfirráðum yfir undirstöðuauðlindinni þótt það feli í sér frávik frá grunnstoðum Evrópusambandsins. Íslendingar muni njóta svo mikils skilnings í sjávarútvegsmálum að sambandið muni víkja frá grundvallarreglum sínum í fyrsta skipti, jafnvel þótt stórþjóðirnar hafi ekki fengið slíkar undanþágur.

En svo vill til að á sama tíma stendur ESB í harðri fiskveiðideilu við Íslendinga. Samningar um makríl ganga vægast sagt illa vegna ótrúlegs yfirgangs ESB sem telur Ísland eiga nánast engan rétt til að veiða úr fiskstofni sem fer um lögsögu Íslands eins og engisprettufaraldur og ryksugar upp fæði frá öðrum fiskistofnum.

Skilningurinn á mikilvægi fiskveiða fyrir Íslendinga er svo mikill að hófsömum kröfum Íslendinga um veiðar í eigin lögsögu er mætt með hótunum um refsiaðgerðir og þvinganir í trássi við alþjóðalög og samninga. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda eru þau að skipta út samningamanninum sem hafði staðið fast á rétti Íslendinga.

Íslenskir bankar nýttu sér gallað regluverk ESB til að vaxa hratt og stofna til gríðarlegra skulda vítt og breitt um Evrópu. Það var í samráði við reglur ESB um frjálst flæði fjármagns sem áttu að gera bönkum smáríkja kleift að keppa við þá stóru um fjármagn. Þegar illa fór kom Evrópusambandið ekki til aðstoðar. Þess í stað var ótrúlegri hörku beitt við að fá íslenskan almenning til að taka á sig skuldir sem einkafyrirtæki höfðu búið til með hjálp evrópska regluverksins.

Afskipti ESB af Eftirlitsstofnun EFTA hafa verið augljós. Þegar menn þar á bæ áttuðu sig á því að ekki væri lagastoð fyrir ríkisábyrgð fundu þeir upp hugtakið niðurstöðuskyldu (e. obligation of result) og héldu því fram að þótt ekki væri ríkisábyrgð á innistæðum bæri íslenska ríkinu að tryggja greiðslur á innistæðum.

Þar sem flestir sjá að sú niðurstaða gengur tæplega upp var krafan einnig byggð á mismunun, enda þótt þeir sem áttu innistæðueigendur erlendis og hollenska og breska ríkið fái að öllum líkindum meira bætt en íslenska ríkið og þeir sem áttu innistæður á Íslandi.

Allt á þetta að sýna fram á, segir ESA, að breskir og hollenskir innistæðueigendur hafi orðið fyrir tjóni af hendi íslenskra skattgreiðenda. En samt fengu nánast allir þessir innistæðueigendur innistæður sínar greiddar út að fullu fyrir rúmum tveimur árum síðan og því erfitt að sjá hvernig það hefur valdið þeim tjóni.

Neyðarlögin tryggja svo að ríkissjóðir Breta og Hollendinga munu fá allan höfuðstólinn sem þau lögðu út greiddan úr þrotabúi Landsbankans. Það er því erfitt að sjá hvernig aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafa skert þeirra rétt. Aðgerðir Íslendinga hafa bætt rétt þeirra með beinum hætti.

Þrátt fyrir þetta hefur framkvæmdastjórn ESB nú tekið þá einstæðu ákvörðun að Evrópusambandið taki sjálft þátt í málaferlum gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Það er í fyrsta skipti sem slíkt gerist.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur með þessu kastað grímunni og stillt sér upp með beinum hætti með ósanngjörnum kröfum á hendur íslenska ríkinu í Icesave málinu, ósanngjörnum kröfum sem íslenska þjóðin hefur tvívegis hafnað skýrt og greinilega í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekkert hefur staðist af því sem stjórnvöld héldu fram um aðildarumsókn Íslands. Í stað þess að Íslendingar njóti sérstaks skilnings í sjávarútvegsmálum ræðst ESB harkalega gegn rétti okkar til veiða, og það á meðan á aðildarviðræðum stendur. Í stað þess að Ísland hafi haft efnahagslegan ávinning af umsókninni ræðst Evrópusambandið gegn hagsmunum almennings í fjölmiðlum, í þingsölum og nú fyrir dómstólum.

Engin stjórnvöld með sjálfsvirðingu, eða a.m.k. með virðingu fyrir eigin þjóð, myndu halda áfram aðiladarviðræðum við þessar aðstæður.