11/15/16

Hvert stefna stjórnmálin?

Frá því að ég hóf, nokkuð óvænt, þátttöku í pólitík hefur mér orðið tíðrætt um eðli stjórnmála og hvað betur mætti fara í þeim efnum. Stundum hef ég vitnað til orða sem Winston Churchill lét falla í breska þinginu tveimur árum eftir seinni heimsstyrjöldina: „Sagt hefur verið að lýðræði sé versta stjórnkerfið fyrir utan öll hin sem reynd hafa verið við og við.“

Lýðræði hefur vissulega aldrei verið gallalaust en síðustu misseri hafa þær miklu grundvallarbreytingar sem eru að verða á stjórnmálum á Vesturlöndum verið mér hugleiknar. Auk þess að flytja allmörg erindi um þessa þróun á undanförnum árum skrifaði ég grein fyrir erlend blöð síðastliðið vor en birti hana svo á heimasíðu minni nýverið.

Viðfangsefnið líka útgangspunkturinn í ræðum mínum á miðstjórnarfundi og flokksþingi Framsóknarmanna. Ástæðan er sú að ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn og -flokkar verði að gera sér grein fyrir þessari þróun og eiga svör við henni ef ekki á að fara illa.

Trump

Stærsta afleiðing þessara miklu breytinga til þessa er kjör Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna. Nokkuð sem flestir virtust telja óhugsandi þar til aðfaranótt síðastliðins miðvikudags.

Afskipti Trumps af stjórnmálum hafa verið óviðurkvæmileg frá því að hann gekk til liðs við hóp fólks sem krafðist þess að Obama forseti sannaði að hann hefði fæðst í Bandaríkjunum. Sami hópur hélt því svo fram að enginn kannaðist við að forsetinn hefði verið nemandi í Columbia-háskóla auk annarra tilrauna til að gera hann tortryggilegan.

Allt var þetta pólitík á sérlega lágu plani. Síðan þá hefur Trump sagt ýmislegt sem ekki hefur verið til þess fallið að lyfta stjórnmálaumræðu á hærra plan. Óþarfi er að rekja það hér, enda búið að gera því öllu góð skil í fjölmiðlum undanfarna mánuði og ræða það margfalt meira en nokkuð sem við kemur æðstu stjórn Bandaríkjanna.

Augljóslega er ég ekki einn um að hafa efasemdir um framgöngu Donalds Trumps en mikilvægt er að átta sig á því að það er gagnslaust að ætla að skýra niðurstöðu forsetakosninganna með því að Bandaríkin séu full af heimsku fólki, byssuóðum rasistum og einangrunarsinnum. Það eru Bandaríkjamenn almennt ekki, hvorki kjósendur Demókrata né Repúblikana. Langflestir þeirra sem kusu Trump gerðu það ekki vegna, heldur þrátt fyrir, framgöngu hans og talsmáta.

Kjósendur Trumps töldu hann einu vonina um að hrist yrði upp í kerfi sem er hætt að virka sem skyldi fyrir almenning. Ekki hjálpaði það heldur til að framboð fulltrúa miðju- og vinstrimanna var fjármagnað af „Íslandsvinum“ á borð við fjárfestingabankann Goldman Sachs og hópi vogunarsjóðastjóra með George Soros í fararbroddi.

Þetta gerist ekki að ástæðulausu

Sú sögulega breyting sem við verðum nú vitni að kom ekki til að ástæðulausu. Stjórnmálamenn á Vesturlöndum voru margir orðnir of meðvirkir með þróuninni, of líkir innbyrðis og of einsleitir í nálgun sinni. Óskrifaðar rétthugsunarreglur voru orðnar allsráðandi um það með hvaða hætti stjórnmálamenn ættu að haga sér og tjá sig. Hægt var að gefa sér fyrirfram hverju stjórnmálamenn myndu svara nánast hvaða spurningu sem þeir voru spurðir, hvort sem þeir skilgreindu sig til vinstri eða hægri.

Rökræða um grundvallaratriði og leitin að nýjum og frumlegum hugmyndum hafði látið undan fyrir óttanum við að vera umdeildur, segja eitthvað sem félli ekki að rétthugsuninni eða storkaði ráðandi kerfi, jafnvel bara óttanum við að segja eitthvað sem gæti þurft að útskýra. Í staðinn reiddu menn sig á frasa um sjálfsagða hluti sem enginn gat verið á móti og storkuðu þannig engum en vöktu heldur enga umræðu og engar nýjar hugsanir.

Á sama tíma var „kerfinu“ í auknum mæli eftirlátið að stjórna. Embættismenn, stofnanir og innvígðir sérfræðingar kerfisins, auk ytri kerfa eins og fjármálageirans og samtaka á vinnumarkaði, lögðu línurnar og gera enn. Stöðugt er dregið úr valdi kjörinna fulltrúa almennings og það fært annað en ábyrgðin þó skilin eftir hjá pólitíkusunum. Úr því verður hættuleg skekkja, vald án ábyrgðar og ábyrgð án valds. Það sem er þó verst er að með því er valdið tekið af almenningi og fært til ólýðræðislegs kerfis. Kerfisræði tekur við af lýðræði.

Þessu er almenningur á Vesturlöndum að átta sig á, meðvitað og ómeðvitað, og um leið átta menn sig á því að hið ráðandi kerfi er í takmörkuðum tengslum við almenning. Kerfið telur það fremur vera hlutverk sitt að segja fólki hvernig hlutirnir þurfi og eigi að vera en að hlusta á og lúta vilja almennings.

Fyrir vikið er þeim stjórnmálamönnum og flokkum sem láta þetta viðgangast refsað, eins og eðlilegt er. Hættan er þó sú að ef hefðbundnir stjórnmálamenn og flokkar bregðast ekki við muni aðeins öfgamenn gera það.

Hvað er til ráða?

Hefðbundnir stjórnmálaflokkar þurfa að rifja upp hlutverk sitt. Þeir þurfa að geta rætt mál sem almenningur lætur sig varða. Flokkarnir þurfa að bjóða upp á lausnir á því hvernig hægt sé að laga gallað fjármálakerfi, þeir þurfa að þora að ræða viðkvæm en stór mál eins og innflytjendamál.

Flokkar þurfa að geta rætt umdeild mál og vera reiðubúnir að verja hagsmuni ólíkra hópa samfélagsins. Þora að ræða bæði kosti og galla stórra breytinga á borð við alþjóðavæðingu, benda á að henni fylgi miklir kostir en líka gallar. Hún eigi t.d. ekki að þýða undirboð á vinnumarkaði eða undirboð á vörum eins og matvöru (af hverju leyfa menn sér að kalla það sérhagsmunagæslu ef reynt er að bæta starfsaðstæður bænda en ekki ef það sama er gert fyrir háskólakennara?).

Flokkarnir þurfa svo eftir rökræðu byggða á staðreyndum að þora að taka afstöðu. Hvernig má það t.d. vera að enginn flokkur á Íslandi þorir að segja að hann vilji ganga í Evrópusambandið, jafnvel ekki flokkar sem voru stofnaðir út á það eitt? Í staðinn er talað í kringum hlutina með innihaldslausum frösum.

Umfram allt þurfa stjórnmálaflokkar að endurheimta kjark. Þora að standa fyrir eitthvað þótt því fylgi að vera umdeildir. Stjórnmálamenn vinna beinlínis við að vera umdeildir. Það er hlutverk þeirra að gefa fólki val og láta það finna að valið skipti máli.

Augljóslega þurfa menn svo oft að geta miðlað málum til að ná meirihluta en svo kölluð samræðustjórnmál eru í raun ekki annað en samsæri stjórnmálamanna gegn kjósendum. Ef það á að vera hlutverk stjórnmálamanna að sameinast helst allir um lægsta samnefnarann í hverju máli er lýðræðislegur vilji fyrir borð borinn og á meðan fer kerfið sínu fram. Það er hættuleg og ólýðræðisleg þróun.

Síðar mun ég fjalla um þær miklu hindranir sem stjórnmálamenn og flokkar mæta við það að takast á við kerfið og hvernig bregðast megi við þeim. Auk þess mun ég svo fjalla um þau stóru álitaefni sem bíða okkar Íslendinga og leggja til lausnir.

10/27/16

Politics in Interesting Times

It is becoming clear to anyone concerned with politics and history that we live in interesting times. Close to a decade after the start of the international financial crisis antiestablishment sentiment has by no means receded. There is a growing distrust in traditional institutions, political parties and politicians and everything to do with finance and commerce is increasingly seen as suspicious activity at best.

It is important to note that this is not happening without reason. Politicians in Western societies had to a large extent become complacent, too much like each other and relying on unwritten politically correct guidelines on what a politician should say and do. Ideological debate and the search for novel ideas had given way to an ever growing fear of controversy and an inclination to leave the running of our societies to bureaucrats, thereby disconnecting the electorate from the decision making.

The power of the people has been curtailed and they know it. The result can now be seen all over Europe and in the United States with a continuing growth of new anti-establishment parties and politicians.

I can hardly be considered a traditional politician although I am the leader of Iceland’s oldest political party (100 years old this year). I became leader of the party in 2009, two weeks after becoming a member. I had strong opinions on what needed to be done and what had to be avoided. I fought for a radical shake up of the financial system and proposals on how the failed banks could finance a write down of household debt  and the resurgence of the Icelandic economy, along with various other measures designed to tackle our particular situation.

At the same time I emphasised the rule of law in the almost revolutionary atmosphere that characterised Icelandic politics after the crises. Three years ago I got the chance to implement my ideas as Prime Minister of Iceland. They proved to be even more successful than I had anticipated.

But a few weeks ago I stepped aside and asked the vice chairman of my party to relieve me in the role of Prime Minister. This was not because of a lack of results. In fact I challenge anyone to point to a Western government that has yielded better results for its country in the last three years. Iceland’s economic situation has been transformed through a mixture of traditional, sensible, economic measures such as following through on a pledge to balance the budget year on year and implementing incentives for economic growth along with radical measures without precedent.

These measures included making creditors of the failed banks – primarily hedge funds that bought claims after the fact – finance the lifting of capital controls. The result is the highest GDP growth in Europe and biggest primary surplus, the lowest unemployment rate, a dramatic fall in public and private debt measured by dozens of % of GDP, a stronger currency, lasting price stability and a 24% growth in purchasing power in just three years.

These results were achieved in the face of strong opposition from opposing political parties and much of the civic establishment, not to mention the hedge funds who intended to make a killing on Iceland’s financial crisis. As I am sure most people are aware, the hedge funds of Wall Street and the City of London are not without influence, neither political nor financial. In a short period of time they spent the equivalent of over 100 million pounds guarding their interests in Iceland. I experienced everything from repeated threats to attempts to buy ‘an acceptable conclusion’.

Carrying on with the plan I often got to hear that making the hedge funds pay for resurrecting the Icelandic economy could not go unpunished. Such a precedent could not be allowed to stand. In addition many could not forgive us for stopping a plan for EU membership with an expected EU ‘bailout’. Nevertheless we finished the job yielding results that Lee Buchheit, a leading authority on international debt resolution (and advisor to the Icelandic government) called “unprecedented in the financial history of the World”.

So why did I step aside as Prime Minister? A short look at international media coverage will give you quite varied reasons. The truth of the matter is that my name was found in the so called Panama papers in connection with a company registered in the British Virgin Islands and owned by my wife. This alone was sufficient to create a range of theories and news stories about a Prime Minister´s ‘hidden funds’. Such stories were helped by the willful distribution of fallacies and even a bogus interview and news report intended to create the sense that I had something to hide.

I am writing this now because it has been confirmed that all of the accusations were untrue. It may come as a surprise to those that remember some of the reports that were published at the time that in fact there were no hidden funds or assets, no attempt to evade taxes and no question of a conflict of interest. My wife’s company, its country of registration, and all its assets are declared on our tax return and full Icelandic taxes have been paid with no attempt to use off shore status to limit payments. Still, none of these facts mattered when it came to making use of the ‘Panama Papers’ in a political attack that had been in preparation for 7 months. In the current political climate a story about a prime minister hiding funds is too good for some to bother with the facts of the matter and for many ‘a means to justify an end’.

Which brings me to my main points: Things aren’t looking to good economically, socially or politically in Western societies these days. As the experience of Iceland shows it is possible to implement real and radical change to politics and dramatically improve the lives of people in our societies. But that alone will not ensure political stability and future progress. What is needed now, more than ever, is reasoned political debate.The internet and social media have changed the way information is distributed and consumed, creating new opportunities and dangers. Over 300 years ago Jonathan Swift wrote: “Falsehood flies and the truth comes limping after it”. Never has that been more true than in the interesting times we live in.

The model of Liberal Democracies has been an unparalleled success in human history. It is now under threat. In order to  preserve it we must look to the foundations of its success. We must further logical debate based on facts, or at least the search for facts. In that regard traditional political  parties have a role to play but also traditional media.

The media still plays an enormously important part in our democratic process. In living up to its role it must provide restraint and a commitment to the facts when it is lacking elsewhere. Western democracies need to rediscover their roots, the roots that lay in reasoned debate, a willingness to defend the right of people to express controversial views, but at the same time acknowledging that the aim should always be to get closer to the truth. And when debate helps rational solutions triumph over creed we need to be willing and able to implement them. What we need is radical rationalism.

 

The article was written in May 2016 and describes the situation in Icelandic politics at the time.

10/26/16

Stefnan tekin í Norðaustur

Eftir flokksþing Framsóknarmanna og atburði sem því tengdust lýsti ég því yfir að ég myndi helga mig málefnum Norðausturkjördæmis og því að kjördæmið fengi notið þeirra tækifæra sem þar liggja. Það er enda hagur landsins alls að Norðausturkjördæmi gangi vel.

Eins og flestum má vera ljóst gramdist mér mjög að menn skyldu taka þá ákvörðun að flýta kosningum og hætta við að leggja fram fjárlög. Mér mislíkaði þetta af mörgum ástæðum. Ein var sú að ég hafði vikið úr embætti forsætisráðherra um tíma, á meðan mál væru að skýrast, einmitt svo að ríkisstjórnin gæti komist hjá slíkum útspilum. Þess í stað gæti hún þá einbeitt sér að því að klára þau verkefni sem útaf stóðu. Önnur ástæða er sú að með þessum ákvörðunum varð lítið úr þeirri sókn sem ég hafði boðað í byggðamálum enda þótt tekist hefði að skapa þær efnahagslegu aðstæður sem voru forsenda slíkrar sóknar.

Allt er til reiðu

Aðalatriðið er þó það að grunnurinn hefur verið lagður. Með blöndu hefðbundinna en oft erfiðra aðgerða í ríkisrekstrinum og óhefðbundinna aðgerða sem hvergi höfðu verið reyndar áður tókst að gjörbylta stöðu og framtíðarhorfum ríkissjóðs til hins betra. Það er því allt til reiðu svo ráðast megi í þær aðgerðir sem taldar verða upp hér að neðan. Það þarf að gera bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum.

Veiðigjöldunum skilað

Engin ríkisstjórn hefur skilað jafnmiklum veiðigjöldum í ríkiskassann og stjórnin sem starfaði frá 2013-2016. Það er nauðsynlegt að þessi gjöld og önnur auðlindagjöld sem kunna að vera lögð á skili sér aftur í byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er í raun nánast hreinn landsbyggðarskattur. Tugir milljarða eru teknir út úr samfélögum hringinn í kringum landið. Þessu þarf að breyta.

Þriðjungur veiðigjaldanna ætti að renna til sveitarfélaganna utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið, einkum nýsköpun á sviði atvinnumála og þriðjungur í sérstök sóknarverkefni sem gera byggðir landsins að eftirsóknarverðari stöðum til að búa, starfa og fjárfesta. Það á t.d. við um menningarmál og fegrun byggða m.a. í gegnum verkefnið „verndarsvæði í byggð“.

Dreifing ferðamanna um landið

Sú áætlun sem lýst er að ofan mun gera byggðir landsins, ekki hvað síst hina fögru bæi og náttúru Norðausturkjördæmis, að enn eftirsóknarverðari ferðamannastöðum. En til viðbótar þarf sértækar aðgerðir til að dreifa ferðamönnum betur um landið og nýta þar með betur þá auðlind sem í landinu liggur.

Bæta þarf samgöngumannvirki, t.d. með malbikun Dettifossvegar til að klára „demantshringinn“ sem yrði gríðarlega sterk söluvara í ferðaþjónustu. Flugþróunarsjóðurinn sem forsætisráðuneytið vann að því að koma á fyrr á kjörtímabilinu skiptir sköpum við að opna nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum. En meira þarf að koma til. Bæta þarf aðstöðu á flugvöllunum (fjárfesting í Keflavík nemur tugum milljarða) og jöfnun flutningskostnaðar á eldsneyti er nauðsynleg til að gera þessa flugvelli betur samkeppnishæfa við Keflavíkurvöll.
Sátt virðist hægt að ná um hækkun komugjalda. Rétt er að a.m.k. hluti þeirrar gjaldheimtu renni til sveitarfélaga. Á sama tíma og við hækkum komugjöld í Keflavík mætti halda komugjöldum á Akureyri og Egilsstöðum umtalsvert lægri til að skapa aukinn hvata fyrir flugfélög að nýta þá flugvelli.

Tekjustofnar sveitarfélaga

Sveitarfélög bera að miklu leyti hitann og þungann af fjölgun ferðamanna. Þau hafa ekki fengið auknar tekjur til samræmis við það. Að hluta til koma endurheimtur auðlindagjalda til móts við þann vanda en einnig þarf að færa sveitarfélögum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu. Þar þarf þó að huga að því að megnið af kostnaðinum við innviðauppbyggingu fellur til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum, t.d. gistináttagjöld, eru lögð á í borginni. Þess vegna þurfa komugjöld að renna til sveitarfélaganna svo að þau geti staðið straum af nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er líka eðlileg krafa í ljósi þess hversu mikið hallar á sveitarfélögin hvað varðar tekjuskiptingu.

Skattalegir hvatar

Lengi hefur verið rætt um að æskilegt gæti verið að veita skattalegar ívilnanir til fólks og fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi hefur m.a. verið litið til Noregs. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að innleiða slíka stefnu. Í henni felst að tryggingargjald verður lægra því fjær sem reksturinn er frá Reykjavík en einnig búsetustyrkir, þ.m.t. ferðastyrkir til þeirra sem þurfa að ferðast langa vegalengd til og frá vinnu. Einnig er ástæða til að líta til fyrirmynda í Noregi varðandi endurgreiðslu námslána þar sem fólk sem starfar utan höfuðborgarsvæðisins fær sérstaka niðurfærslu námslána.

Opinber störf

Við munum innleiða í stjórnkerfið hvata til að ný störf hjá hinu opinbera verði til á landsbyggðinni. Setja ætti reglu um að störfum hjá opinberum stofnunum fjölgi ekki á höfuðborgarsvæðinu. Vilji opinberar stofnanir, ráðuneyti osfrv. fjölga starfsfólki þurfa þær að búa til, eða auka við, starfsaðstöðu á landsbyggðinni og ráða fólk þar.

Innviðir

Fjölgun íbúa og starfa og aukin fjárfesting utan höfuðborgarsvæðisins er háð því að innviðirnir séu samkeppnishæfir. Ljósleiðaravæðing landsins alls verður forgangsverkefni á nýju kjörtímabili. Gagnrýni á að ekki skuli hafa verið gengið lengra í þeim efnum á kjörtímabilinu er réttmæt. Hins vegar er nú allt til reiðu, skipulag og fjármagn til að ráðast í ljósleiðaravæðingu landsins.
Samgöngumál hafa setið á hakanum í meira en áratug, fyrst vegna þenslu og svo vegna kreppu. Nú er tímabært og mögulegt að hefja átak í samgöngumálum. Losna við einbreiðar brýr af þjóðveginum, laga hættulega vegaspotta og ráðast í Fjarðarheiðargöng og fleiri mikilvægar samgönguúrbætur í kjördæminu.

Innanlandsflug

Fullreynt er að hægt sé að ná samstarfi við núverandi borgaryfirvöld um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Flugvöllurinn er þjóðareign og megnið af landinu sem hann stendur á í eigu ríkisins. Afsal ríkisins á landi undir þriðju flugbrautinni (neyðarflugbrautinni) stenst ekki lög.
Fullt tilefni er til að greiða niður ferðir íbúa landsbyggðarinnar í innanlandsflugi. Fordæmi frá Skotlandi munu reynast vel í því efni. Hins vegar þarf að tryggja aukið opinbert eftirlit, með fulltingi samkeppnisyfirvalda, til að tryggja að niðurgreiðslan nýtist í raun til verðlækkunar. Álagning á ákveðnum flugleiðum innanlands er nú þegar of mikil og nauðsynlegt að tryggja að niðurgreiðsla ríkisins hverfi ekki með enn aukinni álagningu.

Heilbrigðisþjónusta
Á kjörtímabilinu hefur tugum milljarða verið bætt í heilbrigðismálin. Að mestu leyti hefur sú aukning fallið til á Landspítalanum. Á sama tíma hafa heilbrigðisstofnanir víða á landsbyggðinni ekki enn náð fyrri styrk. Þetta þarf að leiðrétta með því að hverfa frá áformum um aukna samþjöppun í heilbrigðisþjónustu. Byggja skal nýjan 21. aldar landspítala við Vífilsstaði en viðhalda um leið spítalarekstri í grennd við Reykjavíkurflugvöll í Fossvogi eða í nýrri húsum spítalans við Hringbraut. Um leið þarf að nýta betur innviði heilbrigðisþjónustunnar utan Reykjavíkur, stækka Sjúkrahúsið á Akureyri og veita heilbrigðisstarfsfólki hvata til að starfa á landsbyggðinni, annars vegar með betri starfsaðstöðu og hins vegar með fjárhagslegum hvötum á borð við niðurfærslu námslána.
Við fyrstu sýn virðist kosta meira að halda úti heilbrigðisþjónustu víða um land í stað þess að hafa hana á einum stað. En við mat á hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu hefur iðulega verið litið framhjá stórum hluta þess kostnaðar sem hlýst af slíkri breytingu. Það á m.a. við um ferðakostnað sjúklinga og vandamanna þeirra, dvalarkostnað, vinnutap og svo stærsta kostnaðarliðinn af öllum: Hann fellst í því að þegar heilbrigðisþjónusta er skert á einum stað skerðir það möguleika samfélagsins á að halda í fólk og fyrirtæki eða að laða að nýja íbúa og fjárfestingu. Fátt hefur meiri áhrif á ákvarðanir um staðarval en spurningin um hvort boðið sé upp á viðunandi heilbrigðisþjónustu.
Ekki má gleyma því að víða eru samgöngur mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu. Samgönguhindranir eins og Víkurskarð geta komið í veg fyrir að fólk geti nýtt þá heilbrigðisþjónustu sem því er ætlað. Það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að losna þarf við slíkar hindranir á Norður- og Austurlandi með framkvæmdum eins og Vaðlaheiðargöngum. Reyndar er álitamál hvort það sé forsvaranlegt að láta íbúa Norðausturlands greiða sérstaklega fyrir að komast leiðar sinnar innan sama atvinnu- og þjónustusvæðis.

Menntamál

Kostnaður á hvern nemanda í minni framhaldsskólum verður óhjákvæmilega meiri en í stóru framhaldsskólunum á höfuðborgarsvæðinu. Ávinningurinn af því að gera nemendum kleift að ljúka framhaldsnámi í, eða nærri, heimabyggð er þó miklu meiri en nemur kostnaði af því að reka framhaldsskóla hringinn í kringum landið. Það er því mikilvægt að fjárveitingar séu nægar til að gera skólunum kleift að rækja hlutverk sitt til fulls. Það á ekki hvað síst við um verkmenntaskólana.
Mikilvægi Háskólans á Akureyri er ótvírætt. Skólinn hefur sannað svo ekki verður um villst mikilvægi þess að taka stórar ákvarðanir um uppbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins og gera það með hliðsjón af heildaráhrifum og langtímaáhrifum en ekki bara kostnaði til eins árs. Með samkomulagi ríkisins við HA er hægt að gera skólanum kleift að auka við framboð á mikilvægum sérsviðum, t.d. nám í tæknigreinum, sem svo mun nýtast við vöxt atvinnulífs og verðmætasköpunar um allt land.

Sjávarútvegur

Samhliða þeirri nýsköpun sem ég hef lýst verður starfsumhverfi hefðbundinna undirstöðuatvinnugreina kjördæmisins styrkt. Einstakur árangur íslensks sjávarútvegs byggist á kerfi sem gerir honum kleift að gera langtímaáætlanir. Eigi sjávarútvegur áfram að geta skilað samfélaginu verulegum fjárhagslegum ávinningi, verið burðarstólpi í atvinnulífi byggðarlaga og staðið undir fjárfestingu og nýsköpun þarf greinin að búa við starfsöryggi. En einnig þarf að auka öryggi byggðarlaga sem hafa reitt sig á sjávarútveg. Það má gera með aukinni byggðatengingu.

Landbúnaður

Landbúnaður verður áfram ein af undirstöðuatvinnugreinum kjördæmisins. Fallandi afurðaverð kallar á aðlögun af hálfu stjórnvalda. Sé litið til heildaráhrifa er stuðningur við innlenda matvælaframleiðendur og þar með neytendur mikilvæg efnahagsleg aðgerð en einnig byggða- menningar- og lýðheilsumál.
Með stuðningi við landbúnað tryggjum við undirstöðu byggðar um allt land, leggjum grunn að uppbyggingu annarra greina á borð við ferðaþjónustu, viðhöldum þúsundum starfa, tryggjum heilnæm og góð íslensk matvæli og spörum sem nemur um 50 milljörðum króna í gjaldeyri á ári. Framsókn-NA mun standa með íslenskri matvælaframleiðslu.

Iðnaður 

Mikilvægt er að stjórnvöld hlutist til um að uppbygging á sviði iðnaðar eigi sér stað sem víðast á landinu. Eigi markaðurinn einn að ráða för mun slík uppbygging fyrst og fremst verða í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem mest framboð er af vinnuafli og veðhæfi fasteigna mest. En þegar verkefni eru komin af stað annars staðar hafa þau þeim mun meiri margfeldisáhrif og styrkja byggð og alla starfsemi til muna. Á slíkum stöðum er iðnaðaruppbygging til þess fallin að styðja við alla aðra starfsemi á atvinnusvæðinu.
Stjórnmálamenn þurfa því að hafa þor til að beita sér fyrir því að ríkisvaldið liðki fyrir uppbyggingu á sviði iðnaðar utan höfuðborgarsvæðisins. Slíkan hvata skortir ekki aðeins hjá hinum frjálsa markaði heldur líka í stjórnkerfinu. Þess vegna þurfa kjörnir fulltrúar almennings að vera óhræddir við að beita sér til að rétta þá skekkju af. Nýleg dæmi sýna að ekki aðeins hefur kerfið tilhneigingu til að þvælast fyrir því að slík verkefni fari af stað, það getur jafnvel gripið inn í til að stöðva stór og mikilvæg verkefni sem eru þegar farin af stað. Ríkisstjórnin þarf strax í þessari viku að setja bráðabirgðalög svo hægt sé að halda áfram vinnu við að tengja Þeistareiki við Kröflu og uppbygginguna á Bakka. Ella geta getur því mikilvæga verkefni verið stefnt í óvissu mánuðum saman og það jafnvel sett í uppnám fyrir vikið.

Forsendurnar – er þetta hægt?

Öll þau verkefni sem ég hef rakið í greinunum tveimur um Norðausturstefnu Framsóknarflokksins snúast um að tryggja heildarhagsmuni samfélagsins og gera það með því að líta til heildaráhrifa og langtímaáhrifa af þeirri stefnu sem unnið er eftir fremur en að horfa bara kostnaðar til eins árs.

Allt er þetta framkvæmanlegt og raunar nauðsynlegt. Á þremur árum höfum við gjörbreytt stöðu og horfum í rekstri ríkisins til hins betra. Grunnurinn hefur aldrei verið jafnsterkur. Nú þegar við hefjumst handa við að byggja ofan á þann grunn er grundvallaratriði að við fjárfestum í landinu öllu. Stórsókn í byggðamálum er einmitt það, fjárfesting til framtíðar. Þetta snýst ekki um eyðslu heldur fjárfestingu sem skila mun samfélaginu ávinningi til langrar framtíðar. Fyrir því mun ég nú berjast af sama krafti og ég barðist fyrir þeim breytingum sem gera sóknina nú mögulega.

Vegna árangurs stjórnarmeirihlutans á kjörtímabilinu erum við nú í stöðu til hverfa frá þeirri vörn sem staðið hefur áratugum saman og hefja sókn fyrir Ísland allt.

 

Greinarnar “Stefnan tekin í Norðaustur” og “Áfram í Norðaustur” birtust í Morgunblaðinu 15. og 24. október 2016

09/1/16

Selt undan flugvellinum

Nú er liðið eitthvað á annan áratug frá því ég birti myndir af því í sjónvarpi hvernig verið væri að þrengja að Reykjavíkurflugvelli með því að sækja að honum úr öllum áttum og sneiða búta af landinu í kringum flugvöllinn jafnt og þétt. Áformað var að flytja götur og vegi nær flugvellinum og skipuleggja lóðir undir hina ýmsu starfsemi allt um kring. Loks yrði búð að byggja meðfram flugbrautunum og inn á milli þeirra og þá yrði loks bent á að það gengi ekki að vera með flugvöll inn á milli húsanna.

Samkvæmt áætlun

Smátt og smátt hefur þetta svo gengið eftir. Hringbrautin var færð þannig að nú er beinlínis ekið undir lendingarljós einnar flugbrautarinnar og lóðaúthlutanir hafa farið fram af meira kappi en forsjá. Valsmenn hf. hafa til dæmis búið við óvissu í meira en áratug vegna lóðasamkomulags við borgina. Stundum hefur virst sem borgaryfirvöldum þætti það bara ágætt ef hremmingar Valsmanna mættu verða til þess þrýsta á um lokun flugvallarins. Það er varla hægt annað en að hafa samúð með Valsmönnum vegna þeirra fyrirheita sem borgin hefur gefið byggingafélaginu og ætlað svo ríkinu að uppfylla.

Háskólinn í Reykjavík fékk líka að kynnast því að borgaryfirvöld eiga það til að fara fram úr sér þegar kemur að lóðaúthlutunum í kringum flugvöllinn. Þegar þau óttuðust að skólinn kynni að flytja í annað sveitarfélag fékk hann snarlega lóð við flugvöllinn. Eftir að skipulag uppbyggingarinnar var kynnt kom í ljós að borgin hafði óvart lofað að gefa skólanum hluta af landi ríkisins og land innan öryggisgirðingar flugvallarins. Það gerðist þrátt fyrir að nægt pláss hafi verið fyrir skólann og aðrar byggingar á landi borgarinnar og það utan flugvallargirðingar. Málið var svo leyst með því að sópa því undir veg sem lagður var inn á flugvallarsvæðið og með því að færa öryggisgirðinguna nær flugbrautinni. Þannig gerðist það að eitt af flugskýlum Reykjavíkurflugvallar stendur nú á umferðareyju utan flugvallargirðingarinnar.

Samkomulagið

Stærsti áfanginn í því að bola flugvellinum burt átti að vera lokun NA/SV-flugbrautarinnar sem í daglegu tali er kölluð neyðarbrautin vegna þess að flugvélar lenda þar þegar ekki er talið eins öruggt að lenda á hinum flugbrautunum tveimur.

Í október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. Óvissuna höfðu þeir reyndar skapað sjálfir með því að leggja fram tillögu að aðalskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að norður/suður-brautin, önnur af stóru brautum flugvallarins, viki árið 2016.

Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.

Fallist var á þetta og samkomulagið undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.

Lokun neyðarbrautarinnar

Þeir sem annast sjúkraflug og ýmsir aðrir talsmenn íslenskra flugmanna og fyrirtækja í flugrekstri hafa varað við lokun neyðarbrautarinnar og bent á að ekki hafi verið rétt staðið að öryggismati sem lá þar til grundvallar. Nú síðast lýsti öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna yfir vonbrigðum með drög að samgönguáætlun meðal annars með vísan til lokunar brautarinnar. Bent er á að ekki sé hægt að lenda flugvél á suðvesturhorni landsins í stífri suðvestan átt eftir lokunina.

Brautin seld

Ég læt vera að fjalla um tæknilegar forsendur lokunarinnar þótt ærið tilefni sé til að leiða þá umræðu til lykta eins fljótt og auðið er. En á meðan sú umræða stendur enn berast þær óvæntu og óskemmtilegu fréttir að ríkið hafi selt Reykjavíkurborg rúmlega 110.000 fermetra land sem nú er undir suðurenda umræddrar neyðarbrautar fyrir 440 milljónir króna. Þetta er algjörlega óskiljanleg ráðstöfun eftir það sem á undan er gengið í átökum ríkisvaldsins við núverandi borgaryfirvöld um Reykjavíkurflugvöll og með hliðsjón af stöðunni sem uppi er í þeirri deilu.

Þar fyrir utan er verðið fáránlega lágt fyrir svo stórt og verðmætt land. Vandfundnar eru verðmætari lóðir í Reykjavík og ekki óvarlegt að ætla að verðmæti þessarar ríkiseignar nemi 8 til 10 milljörðum króna sé litið til söluverðs byggingarréttar annars staðar í borginni, m.a. verðlagningar borgarinnar sjálfrar á lóðum sem ekki eru jafnverðmætar og þær sem hér um ræðir.

Að vísu mun ríkið eiga að fá einhvern hlut í þeim tekjum sem fást af sölu byggingarréttar en ekki hefur komið fram hversu mikill sá hlutur verður að öðru leyti en því að tekið er fram að því meira sem fáist fyrir lóðirnar þeim mun stærri verði hlutdeild Reykjavíkurborgar.

Óheimil sala

Þessi sérkennilega sala, sem að óbreyttu mun kosta ríkið veikari stöðu í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og milljarða króna, er sögð gerð á grundvelli samnings sem tveir fyrrum varaformenn Samfylkingarinnar gerðu rétt fyrir kosningar 2013. Þ.e. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Katrín Júlíusdóttir þáverandi fjármálaráðherra. Vísað er í heimild í fjárlögum ársins 2013 til að réttlæta söluna nú.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar lýsti því reyndar yfir fyrir þremur árum að til stæði að vinda ofan af þessum gjörningi og heimildin var ekki endurnýjuð. Auk þess hafa lögmenn, þ.m.t. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum Hæstaréttardómari, bent á að salan nú standist ekki lög. Jafnvel þótt fjallað hefði verið um málið í fjárlögum þessa árs (sem ekki var gert) dygði það ekki til. Samþykkja þyrfti sérstök lög um söluna.

Ljóst má vera að sala á flugvallarlandi ríkisins í Skerjafirði stenst hvorki lagalegar forsendur né fjárhagslegar forsendur og hún vinnur gegn því markmiði að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og öruggar flugsamgöngur milli höfuðborgarinnar og landsins alls. Annað getur því vart talist forsvaranlegt en að rifta hinum ólögmæta samningi. Sú riftun myndi vonandi marka viðsnúning í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og sýna að ríkisvaldið sé reiðubúið að gera það sem þarf til að stöðva tilraunir borgaryfirvalda til að fjarlægja flugvöllinn sneið fyrir sneið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. september 2016

07/26/16

Það sem ekki má bíða

Það er sama til hvaða mælikvarða er litið. Á þremur árum hefur ríkisstjórn Íslands náð árangri sem er einstakur í samanburði við önnur þróuð ríki. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér.

Ég hef áður bent á hversu mikilvægt er að halda því til haga að þegar viðraðar voru hugmyndir um að flýta kosningum var það háð því að fyrst tækist að klára mikilvæg verkefni ríkisstjórnarinnar.

Áætlunin

Þegar ríkisstjórnin var mynduð gerðum við samning til fjögurra ára. Eins og ég hef áður lýst unnum við eftir heildaraætlun um hvernig við gætum náð markmiðum okkar á þessum fjórum árum. Áætlunin, fjögurra ára planið, skiptist í megindráttum í tvennt. Fyrri áfanginn snerist um hvernig taka ætti á þeim stóra vanda sem beið okkar, seinni hlutinn um hvernig standa ætti að sókninni og uppbyggingunni sem svo ætti, og þyrfti, að taka við. Fyrri hlutinn snerist um að takast á við vandamál, seinni hlutinn um að nýta tækifæri.

Til að leysa vandamálin þurfti að mínu mati að blanda saman erfiðum en margreyndum aðgerðum annars vegar og óhefðbundnum og róttækum aðgerðum hins vegar. Það þurfti til dæmis einbeittan vilja til að hætta skuldasöfnun og reka ríkissjóð með afgangi öll ár kjörtímabilsins samhliða því að innleiða hvata til fjárfestingar og verðmætasköpunar. En ríkisstjórnin þurfti líka að vera reiðubúin til að ráðast í aðgerðir sem engin stjórnvöld nokkurs staðar höfðu nokkurn tímann reynt. Hluti á borð við almenna skuldaleiðréttingu og aðgerðir til að fá kröfuhafa bankanna til að afsala sér hundruðum milljarða króna samhliða afnámi fjármagnshafta. Hluti sem sagðir voru óraunhæfur popúlismi, skýjaborgir, og ólögmæt eignaupptaka svo nefnd séu dæmi um hófstilltari hluta gagnrýninnar sem við kvað.

Árangurinn

Þrátt fyrir þetta var ég bjartsýnn. Ég hafði trú á verkefninu. Ég var sannfærður um að þetta væri allt hægt og efaðist ekki um tækifæri landsins. En þrátt fyrir að ég hafi verið bjartsýnn við upphaf vinnunnar gekk hún betur en jafnvel ég þorði að vona.

Það gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér, síður en svo. Lagabreytingar til að örva verðmætasköpun og aðhaldssöm fjárlög kölluðu á stöðuga og oft á tíðum harða gagnrýni síðustu fjóra mánuði hvers árs. Það var þó ekkert miðað við stríðið sem leiddi af áformum um að láta vogunarsjóði og aðra kröfuhafa föllnu bankanna borga fyrir losun gjaldeyrishafta og endurreisn efnahagslífsins, eins og ég mun greina betur frá síðar. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum muna þó væntanlega eftir dæmum um það sem á gekk í þeim slag. Slag þar sem vogunarsjóðirnir vörðu á skömmum tíma 20 milljörðum króna í hagsmunagæslu.

Afrakstur vinnunnar birtist í vel yfir 1.000 milljarða króna viðsnúningi á stöðu ríkisins, líklega nær 1.500 milljörðum. Breytingin fyrir samfélagið í heild er enn meiri. Enn hefur ekki verið bent á annan eins efnahagslegan viðsnúning í seinni tíma hagsögu. Lee Bucheit kallaði enda þann þátt sem sneri að losun hafta og fjárútlátum kröfuhafa einstakan í fjármálasögu heimsins.

Framhaldið

Við erum því einstaklega vel í stakk búin til að framfylgja seinni hluta áætlunarinnar, betur en nokkur hefði trúað, og það verðum við að gera. Þótt lengst af hafi gengið vel að framfylgja stjórnarsáttmálanum eru nokkur mikilvæg verkefni ókláruð. Það eru verkefni sem teljast til seinni hluta fjögurra ára plansins. Nú eru forsendur til að klára þau öll og ótækt að gera það ekki.

Sum þessara verkefna snúast um aðkallandi framhald vinnu við það sem kalla mætti endurbætur á reglunum sem samfélagið starfar eftir. Önnur snúa að fjárfestingu og því að nýta hinn mikla efnahagslega árangur til uppbyggingar.

Leiðrétting fyrir eldri borgara

Um síðustu áramót gáfum við fyrirheit um að áfram yrði lögð áhersla á að bæta kjör eldri borgara og tryggja að efnahagslegur árangur skilaði sér í bættum lífskjörum lífeyrisþega. Samhliða því stóð til að endurskoða örorkubætur og raunar bótakerfið í heild. Pétursnefndin svo kallaða (kennd við Pétur H. Blöndal og síðar undir forystu Þorsteins Sæmundssonar) hefur skilað af sér tillögum um mikilvægar úrbætur í lífeyriskerfinu. Það er óhugsandi fyrir ríkissjórn sem náð hefur þeim árangri sem við höfum skilað á síðast liðnum þremur árum að vanrækja að skila þeim árangri áfram til fólksins sem byggði upp samfélagið sem við njótum nú góðs af.

Búsetujafnrétti

Frá upphafi hef ég lagt áherslu á að eitt af mikilvægustu verkefnum þessarar ríkisstjórnar væri að vinna að umfangsmiklum úrbótum á því sem nefna má búsetujafnrétti. Reyndar snýst það um meira en jafnrétti landsmanna óháð búsetu. Það snýst um að tryggja að árangur Íslendinga nýtist landinu öllu svo að landið allt nýtist við að ná árangri fyrir Íslendinga.

Í þjóðhátíðardagsræðu var ég afdráttarlaus um að úrbætur í þessu efni væru forgangsmál á seinni hluta kjörtímabilsins. Ég útskýrði að við stæðum á þeim tímamótum að ekki væri forsvaranlegt að bíða lengur með að vinna að bættum fjarskiptum um allt land, einkum ljósleiðaravæðingu, samgöngubótum, endurreisn heilbrigðis- og menntakerfisins á landsbyggðinni auk þess að tryggja forsendur fyrir eðlilegri atvinnusköpun. Hið síðastnefnda snýst um að stjórnvöld skapi þær aðstæður að ný störf verði til um allt land, bæði hjá hinu opinbera og með einkarekstri.

Þessi ríkisstjórn verður að skila áþreifanlegum árangri fyrir byggðir landsins. Klári hún það ekki mun önnur ríkisstjórn ekki gera það. Skaðinn af því að vanrækja stærstan hluta landsins yrði mikill fyrir landið allt.

Aðrir innviðir

Óþarfi að telja upp þá fjölmörgu mikilvægu innviði landsins sem nauðsynlegt er að halda áfram að bæta nú þegar við höfum efni á því og tækifæri til þess. Á mörgum sviðum höfum við þó ekki aðeins tækifæri til að setja meiri peninga í verkefnin, við getum líka leyft okkur að hugsa upp á nýtt með hvaða hætti við stöndum að uppbyggingunni, Það á ekki hvað síst við á sviði heilbrigðismála.

Fjármálakerfið og verðtrygging

Loks nefni ég mikilvægi þess að ríkisstjórnin hverfi ekki frá því gríðarmikilvæga verkefni að laga fjármálakerfið á Íslandi og losa samfélagið úr viðjum verðtryggingar. Samhliða því þarf að gera ungu fólki auðveldara og ódýrara að taka óverðtryggð lán og eignast húsnæði. Allt er þetta hægt enda hefur það verið í undirbúningi í þrjú ár. Sá undirbúningur fólst í því að búa til forsendurnar (ríkið hefur t.a.m. yfirtekið fjármálakerfið að mestu leyti) og svo að hanna bestu leiðina. Það er allt til reiðu. Fjögurra ára planið hefur gengið upp til þessa. Nú er viljinn allt sem þarf til að klára það.