Ybbar

Þessi misserin eru merkilegir hlutir að gerast. Tekist er á um eðli og framtíð samfélaga, ekki síst í okkar heimshluta. Þótt íslenska hafi mikla aðlögunarhæfni hefur okkur þó skort orð til að fjalla um þessa atburðarás. Til að mynda hefur sá hópur sem setur mark sitt á samtímann, umfram alla aðra, verið nafnlaus.

Á níunda áratugnum þóttu svokallaðir uppar einkenna tíðarandann. Fyrr höfðu aðrir hópar sett mark sitt á ákveðin tímabil í meira eða minna mæli, t.d. pönkarar og þar áður hippar o.s.frv. Sá hópur sem einkennir okkar tíma hefur hins vegar verið nafnlaus á íslensku. Stundum er talað um „rétttrúnaðarfólkið“ eða „háværa minnihlutann“. Í kaldhæðni er jafnvel rætt um „góða fólkið“ með vísan til sjálfsálits meðlima hópsins. Það er hins vegar nokkuð óþjált en einnig óheppilegt í ljósi þess að meðlimir hópsins eiga margir erfitt með að skilja fyrirbæri a borð við kaldhæðni, háð og húmor.

Lýsandi nafn

Það var því til þess fallið að einfalda mjög umræðu um samfélagsmál þegar hópurinn fékk loks viðeigandi nafn. Hópurinn sem einkennir samtímann umfram alla aðra eru ybbarnir. Nafnið er viðeigandi vegna þess að meðlimir hópsins telja sig yfirleitt yfir aðra hafna og álíta sig jafnan yfirburðafólk með yfirburði yfir „fávísan og fordómafullan almúgann“. Fyrir vikið telja þeir það hlutverk sitt að vera yfirboðarar hinna fávísu (hvað sem líður gömlum hugmyndum um lýðræði og skoðanafrelsi). Auk þess er uppáhaldsiðja meðlima hópsins sú að ybba sig, ybba gogg og útskýra fyrir öllum öðrum hvers vegna þeir hafi rangt fyrir sér. Þetta er yfirleitt gert af talsverðu yfirlæti.

 

 

 

 

 

 

Ybbar telja sig enda yfir gagnrýni hafna. Að þeirra mati skiptir yfirbragð meira máli en innihald. Yfirbragð skiptir raunar öllu máli enda eru ybbarnir forsprakkar svokallaðra ímyndarstjórnmála (sem einnig eru kölluð sjálfsmyndarstjórnmál, merkimiðastjórnmál, stimplastjórnmál o.fl). Hvaða nafni sem viðhorfin eru nefnd ganga þau öll út á yfirborðsmennsku og það að skipta fólki í hópa og meta svo réttindi þess og dæma það sem það segir og gerir út frá þeirri skilgeiningu.

Í þessu liggur grundvallarmunur á viðhorfi ybbanna og annarra. Flestir telja eðlilegt að fólk geti valið sér hvaða hópi það vill tilheyra, t.d. út frá skoðunum, áhugamálum, atvinnugrein, búsetu o.s.frv. Slíkt félagsfrelsi er grundvallaratriði í vestrænni siðmenningu. Réttur sem náðist með aldalangri baráttu. Réttur sem um leið byggist á því grundvallaratriði að allir séu jafnréttháir og frjálsir til að skipa sér í hóp eða hverfa frá honum. Ybbarnir flokka fólk hins vegar eftir meðfæddum einkennum eða stöðu þess í einhverju þeirra valdakerfa sem þeir búa til eftir þörfum.

Erfiðisvinna

Það er þó ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera góður ybbi (þótt þeir vinni jafnan sitjandi). Enda mikil samkeppni um virðingarstöður milli undirhópa og hinar einu sönnu og eilífu lífsreglur þeirra breytast hratt.

Stuðmenn útskýrðu þetta fyrir mörgum árum: „Að vera í takt við tímann er mjög tímafrekt, til þess þarf ástundun og góða eftirtekt.“

Ybbarnir liggja því yfir Twitter og öðrum safnaðarritum til að fylgjast með, læra nýjustu reglurnar, tungutakið og frasana og sanna sig. Þá má ekki missa af nokkru tækifæri til að sýna dyggðamont.

Betri en þú

Einfaldast er að sanna sig með því að níða skóinn af einhverjum öðrum. Þannig myndast oft samkeppni um að verða fyrstur til að ganga sem harðast fram gegn þeim sem sætir gagnrýni hverju sinni. Svo þarf stöðugt að finna ný fórnarlömb. Það þarf ferskt blóð.

Þegar sjálfsvirðing fólks byggist á því að vera betri en aðrir vill bera við að það fari að eigna öðrum, sérstaklega þeim sem láta ekki skilyrðislaust undan rétttrúnaðinum, allar verstu kenndir. Ástæðan er sú að því verri sem náunginn er, þeim mun betri er ybbinn í samanburði.

Ybbasamfélagið

En samkeppnin er líka mikil innan ybbasamfélagsins (eins og þeir vilja væntanlega láta kalla það). Ef þú ert ekki betri en aðrir ert þú verri en aðrir. Ef þú fylgir ekki nýjasta rétttrúnaðinum ertu villutrúar. Ófáir hátt skrifaðir ybbar hafa fallið í ónáð eftir eitt skynsamlegt tíst.

Sumir taka svo þátt af ótta án þess að langa beinlínis til þess. Tilgangurinn er þá stundum bara sá að fá að vera í friði, forðast að verða skotmark („ef þú ert ekki hluti af lausninni ertu hluti af vandamálinu“ er þekktur ybbafrasi).

Svo eru það þeir sem hafa ekki tekið trúna og skilja hana ekki en sækjast eftir að vera innundir hjá þeim sem þeir telja vera „svala gengið“. Þetta er algengt meðal fræga fólksins víða um lönd þegar það þráir að komast í viðtöl í ybbaþáttum eða að fá deilingar á ybbamiðlum.

Stundum er þátttakan hagnaðardrifin þótt það skili ekki alltaf árangri. Þegar fyrirtæki og stofnanir lenda í því að ybba yfir sig er það oft fyrir tilstilli stjórnenda og markaðsfólks sem alist hefur upp í rétttrúnaðarsamkeppni innan háskólanna og leitast við að nota starfið til að sanna sig í þeim efnum. Þá skiptir ekki máli þótt með því sé verið að fæla burt viðskiptavini og fyrri stuðningsmenn.

Staðreyndir trufla þá ekki

Ybbar hafa ímugust á staðreyndum og rökum enda þvælist slíkt mjög fyrir hinni síbreytilegu kenningasmíð þeirra. Í enskumælandi löndum hafa þekktir afreksybbar haldið því blákalt fram að staðreyndir og rökræða séu verkfæri „feðraveldisins“ til að tryggja völd sín.

Þetta hefur jafnvel áhrif á raunvísindi og augljósustu staðreyndir. Hversu mörg eru kynin? Ef þú spyrð ybba koma mörg svör til greina (eftir því hversu framsæknir þeir eru), öll svör nema tvö.

Aktívistar í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa enda farið fram á að hætt verði að kenna bókmenntir, heimspeki og vísindi hvítra karla.

Samhengisleysi og þversagnir

Slík viðhorf valda auðvitað algjöru samhengisleysi og endalausum þversögnum en því skyldi það vera vandamál þegar staðreyndir skipta ekki máli? Þá er bara að flækja kenningarnar enn, pakka hlutunum inn í nýjar umbúðir og auðvitað koma í veg fyrir gagnrýna umræðu.

Dæmin um þversagnir ybbanna eru of mörg til að rekja þau hér en oft er breitt yfir þær með sérkennilegum hugtökum (ybbyrðum) á borð við „menningarnám“. Ekki er langt síðan „fjölmenning“ var ógagnrýnanlegt hugtak. Þrátt fyrir galla í framkvæmd fylgdi þó réttmæt ábending um að samfélög lærðu hvert af öðru og tileinkuðu sér það sem reynst hefur vel annars staðar. Nú er slíkt glæpur í huga hins upplýsta ybba og kallast menningarnám. Aðeins Kínverjar mega selja kínverskan mat og Mexíkóar mexíkóskan. Leyfileg hárgreiðsla er meira að segja bundin við kynþætti.

Pólitískar rætur

Hugmyndir ybbanna eru í grunninn vinstrisinnaðar. Þær eiga rætur að rekja til marxískrar menningarelítu sjöunda áratugarins. Þ.e. svokallaðs póstmódernisma án áherslu á stéttabaráttu og bætt kjör verkalýðsins. Þó hefur talsverður fjöldi fólks af hægri kanti stjórnmála aðhyllst stefnuna í seinni tíð.

Þversagnirnar eru margar. Þrátt fyrir tengingu við sósíalískar stefnur liðinna áratuga er ybbinn jafnan eigingjarn. Þótt ybbar séu fljótir til að saka aðra um fordóma eru þeir allra manna fordómafyllstir. Fyrstir til að fordæma og fyrstir til að lýsa sig fórnarlömb.

Andstaða við vestræna menningu og gildi.

Ef finna má einhverja samfellu í viðhorfum ybbanna, aðra en þversagnirnar og tilhneigingu til að draga fólk í dilka, er það andstaða við grunngildi vestrænnar menningar. Þar er margt undir; frelsi einstaklingsins, tjáningarfrelsi, réttarríkið, jafnræði, sakleysi uns sekt er sönnuð, eignarréttur, einkaréttur ríkisins á valdbeitingu, persónuvernd og svo mætti lengi telja.

Ybbinn er auk þess oftar en ekki andsnúninn kristni og gyðingdómi (en telur glæpsamlegt að gagnrýna önnur trúarbrögð). Nýi rétttrúnaðurinn á að koma í staðinn enda tekur hann oft á sig einkenni sértrúarsafnaðar.

Þessu fylgir andstaða við gamlar og góðar hefðir og löngun til að endurskrifa söguna. Þá skal allt dæmt eftir nýjustu útgáfu rétttrúnaðarreglunnar, samfélög liðinna alda og fólkið sem tilheyrði þeim.

Mest er þó andúðin á nútímasamfélagi sem að undanförnu hefur verið skilgreint sem hið versta sem sögur fara af m.a. með tilliti til jafnréttis, misskiptingar, kynþáttahyggju o.s.frv. Raunin er þó þveröfug. Vestræn samfélög hafa náð meiri árangri á þessum sviðum en nokkur dæmi eru um og áframhaldandi framfarir byggjast á því að við gerum okkur grein fyrir því að árangurinn kom ekki af sjálfum sér. Hann er afleiðing erfiðis og átaka um aldir og árþúsund.

Framtíðaráhrif

Þegar öllu er á botninn hvolft byggist ybbahreyfingin á sömu áhrifum og birtast hjá öllum öfgasamtökum og afleiðingarnar verða þær sömu. Hópur fólks skilgreinir vald sitt út frá því að segjast málsvarar hópa sem hallar á og telur að málstaðurinn réttlæti brotthvarf frá reyndum grundvallargildum. Á endanum étur þó byltingin börnin sín.

Ybbar hafa verið með okkur lengur en Covid og munu eflaust smita út frá sér löngu eftir að sá faraldur er úr sögunni. Við munum því þurfa að læra að lifa með ybbunum og reyna að forðast smit. Það getur verið erfitt þegar ríkið ver milljörðum í markvissa útbreiðslu faraldursins. En það má ekki gefast upp. Áframhaldandi framfarir vestrænnar siðmenningar velta á því.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10.10.20