VIÐVÖRUN

Hvað sem líður staðhæfingum evrópskra stjórnmála- og embættismanna er evru- og ríkisskuldakrísan í Evrópu rétt að byrja. Það er reyndar ótrúlega margt við þróunina og umræðuna á evrusvæðinu sem minnir á Ísland 2007 og 2008. Reynsla Íslands ætti að nýtast öðrum þjóðum við að leggja mat á stöðuna í Evrópu og Bandaríkjunum og hún ætti sérstaklega að nýtast Íslendingum til að gera ráðstafanir í tæka tíð.

Þegar ekki verður lengur hægt að fela vandann og fresta hinu óumflýjanlega uppgjöri verða afleiðingarnar miklar um allan heim. Með réttum undirbúningi getum við þó komist hjá því að framhald fjármálakrísunnar valdi öðru stóru áfalli á Íslandi.

Tvö og hálft ár hafa að miklu leyti farið til spillis. Eins og margir bentu á gat Ísland sem var fyrst til að taka höggið orðið fyrst til að vinna sig út úr kreppunni. Tækifærin hafa hins vegar ekki verið nýtt, þvert á móti. Skuldamál heimila og fyrirtækja eru enn óleyst, stöðugt er verið að hækka skatta og gjöld og flækja skattkerfið og fjárfestingu er haldið niðri á öllum vígstöðvum.

Staða ríkissjóðs

Nýbirtar tölur um afkomu ríkisins á síðasta ári sýna, eins og tölurnar fyrir 2009, hversu skaðleg þessi stefna hefur verið. Þrátt fyrir síendurteknar skattahækkanir og ný gjöld hafa tekjur ríkisins lítið aukist. Á sama tíma reynist erfiðara fyrir heimili og fyrirtæki að standa undir útgjöldum og fjárfesting dregst enn saman.

Hallinn á rekstri ríkisins nam á síðasta ári 8 prósentum af landsframleiðslu. Til samanburðar var hallinn í Grikklandi 10,5%, Á Spáni, þar sem atvinnuleysi er vel yfir 20%, var hallinn 9,2% og 4,6% á Ítalínu. Sé litið til tekna ríkisins nam hallinn á ríkissjóði Íslands 26% af tekjum ríkisins.

Hver er staðan í raun?

Meira en 20 krónur af hverjum 100 krónum sem ríkið eyddi í fyrra voru teknar að láni og 14% af tekjum ríkisins fóru í vexti og afborganir. Þar með er ekki öll sagan sögð því að tekjurnar sem ríkið hefur áætlað á undanförnum árum hafa ekki allar skilað sér. Í svari við fyrirspurn minni til fjármálaráðherra um skatta í vanskilum kemur fram að við síðustu áramót námu skattar í vanskilum rúmum 127 milljörðum króna, þar af var hátt í helmingur vörsluskattar. Það hafði með öðrum orðum ekki tekist að innheimta skatta sem nema meira en fjórðungi af árstekjum ríkisins.

Hættuleg keðjuverkun

Flestir Íslendingar eru sammála um að ríki og sveitarfélög eigi að stefna að því að tryggja velferð allra landsmanna. Það þarf hins vegar verðmætasköpun til að standa undir þeim útgjöldum sem því fylgja. Skattahækkanir búa ekki til ný verðmæti. Í kreppu halda skattahækkanir verðmætasköpun niðri. Það á sérstaklega við stöðuna eins og hún er á Íslandi þar sem heimili og fyrirtæki nota stóran hluta tekna sinna til að standa undir afborgunum af lánum. Svigrúmið er því lítið. Auk þess valda skattahækkanirnar aukinni verðbólgu og verðtryggingin leiðir svo til þess að skattahækkanirnar auka enn á skuldabyrðina.

Við þetta bætist að fjárfesting er nú í sögulegu lágmarki á Íslandi. Hlutfallið þyrfti að hækka um helming bara til að halda í horfinu. Þrátt fyrir það standa stjórnvöld í vegi fyrir fjárfestingu og skapa sterka öfuga hvata og óvissu um skattkerfið, en fátt er betur til þess fallið að fæla frá fjárfesta.

Kjörlendi fjárfestingar

Eftir efnahagshrunið varð Ísland á margan hátt kjörlendi fjárfestingar. Gjaldmiðillinn er ódýr, laun afar samkeppnishæf, nægt laust vinnuafl, sterkir innviðir, fríverslunarsamningar við lönd um allan heim, næg umhverfisvæn orka (samanber áætlun Landsvirkjunar um umhverfisvæna orkuvinnslu) og auk þess er staðsetning landsins nú að verða kostur frekar en galli í framleiðslu á útflutningsvörum. Erlendir og innlendir fjárfestar komu snemma auga á þetta og margir töldu að Ísland yrði fyrsta landið til að vinna sig út úr kreppunni.

Kolröng efnahagsstefna og pólitísk óvissa hefur hins vegar valdið því að tvö og hálft ár hafa farið til spillis. Fjölmörg stór verkefni og þúsundir starfa eru enn í biðstöðu eða hafa verið slegin af vegna þess að stjórnvöld viðhalda varanlegri óvissu um lagasetningu, skattastefnu og orkuframleiðslu. Það segir þó sína sögu um þá möguleika sem eru til staðar að erlendir fjárfestar hafa að undanförnu keypt fasteignir á Íslandi vegna þess hvað gjaldmiðillinn er ódýr. Fáir þora hins vegar að fjárfesta í atvinnusköpun á meðan pólitísk óvissa og aðgerðaleysi er jafn mikið og raun ber vitni.

Viðsnúningurinn

Hægt er að snúa þróuninni við og það þarf að gerast hratt því að þegar fjármálakrísan hefst aftur fyrir alvöru í Evrópusambandslöndunum, og líklega í Bandaríkjunum, getur staða okkar orðið mjög erfið.

Leysa þarf úr skuldamálunum með almennum og skýrum reglum. Einfalda þarf skattkerfið og taka upp lagasetningu og skattkerfi sem hvetur til fjárfestingar og atvinnusköpunar. Hefja þarf umhverfisvæna orkusköpun.

Ef búið verður að ganga frá skuldamálunum og setja af stað stór fjárfestingaverkefni áður en evru- og ríkisskuldakrísan fer úr böndunum  verðum við í stakk búin til að sigla í gegnum fjárhagslegt óveður, annars stöndum við frammi fyrir mikilli hættu.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júlí 2011)