Kæru félagar
Bestu þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til að mæta til þessa mikilvæga miðstjórnarfundar þrátt fyrir erfiða færð og veður.
Verkefni okkar er að undirbúa flokksþing og aðdraganda einhverra mikilvægustu þingkosninga sem fram hafa farið á Íslandi.
Kosningar eru alltaf mikilvægar og oft hefur verið tekist á um stór mál í alþingiskosningum.
En nú verður kosið um hvernig íslenskt samfélag eigi að þróast, ekki aðeins til næstu ára heldur áratuga og jafnvel allrar framtíðar.
Landið stendur núna samtímis frammi fyrir gríðarstórum efnahagslegum ógnum og stórkostlegum tækifærum.
Á næsta kjörtímabili ræðst hvort vandamálin verða leyst eða hvort þau verða óviðráðanleg. Hvort tækifærin verða nýtt eða þeim sólundað.
Við framsóknarmenn höfum að undanförnu lagt áherslu á að benda á tækifærin og hvernig megi nýta þau.
Á síðasta þingi fyrir kosningar hefur þingflokkurinn einbeitt sér að því að ræða hvernig rétt sé að gera hlutina í næstu ríkisstjórn fremur en að ræða mistök þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr.
Hér á síðasta miðstjórnarfundi fyrir kosningar er hins vegar óhjákvæmilegt að fara yfir kjörtímabilið sem er að klárast, gera upp framgöngu ríkisstjórnarinnar og ræða feril okkar í stjórnarandstöðu. – En jafnframt mun ég ræða hvernig við ætlum að nýta hin fjölmörgu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á næsta kjörtímabili.
Þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum stóð þjóðin frammi fyrir stórum vandamálum en einnig einstökum tækifærum til að leysa þau.
Til þess þurfti að vísu innsæi, afdráttarleysi og kjark. Og það er eðlileg krafa til ríkisstjórnar sem tekur að sér að stýra landi við erfiðar aðstæður að hún hafi þá eiginleika til að bera.
Þegar bent er á að taka verði tillit til þess að ríkisstjórnin hafi þurft að fást við stór vandamál verða menn líka að hafa í huga að við slíkar aðstæður er ábyrgðin þeim mun meiri.
Sú ríkisstjórn sem senn lætur af störfum nýtti ekki þá einstöku möguleika sem Íslendingar höfðu til að vinna á skuldavandanum og eyða kreppunni.
Í stað þess að grípa til nauðsynlegra aðgerða, lausnanna sem framsóknarmenn bentu á strax í upphafi árs 2009, var vandanum frestað.
Í nærri 4 ár hefur verið potað í einkenni vandans af hálfum hug, í stað þess að taka fast og örugglega á vandanum sjálfum. Fólk var hvatt til að nota séreignarsparnað sinn til að fleyta sér áfram um sinn, lán voru fryst en ekki leiðrétt, í stað þess að skapa ný störf var fólk fært af atvinnuleysisskrá eða flutti til útlanda í leit að vinnu,
fjárfesting er í sögulegu lágmarki enda hefur allt það fjármagn sem undirstöðuatvinnugreinar hefðu getað nýtt í atvinnuuppbyggingu farið í greiðslu nýrra gjalda.
Skattar á stóriðju voru meira að segja innheimtir fyrirfram nokkur ár fram í tímann.
í stað þess að taka á snjóhengjunni var vandanum frestað, gjaldeyrishöftin hert og vextir hækkaðir.
Í fjögur ár heimur heimilum og fyrirtækjum verið haldið í óvissu um skuldastöðu sína og þar með framtíðarhorfur.
Nú hefur verið staðfest að skuldir þjóðarbúsins eru miklu meiri en stjórnvöld hafa viljað viðurkenna, mun hærri en þegar þessi ríkisstjórn tók við. Niðurskurður til grunnstoða samfélagsins á borð við heilbrigðisþjónustu og löggæslu er orðinn hættulega mikill og eldri borgarar og öryrkjar hafa mátt þola mikla kjaraskerðingu.
Allt gerist þetta í landi sem sem ætti að geta skapað mest verðmæti á hvern íbúa af öllum löndum heims.
Staðan við upphaf næsta kjörtímabils verður því á margan hátt verri en við upphaf þessa kjörtímabils.
Uppsveiflan sem oftast fylgir snarpri niðursveiflu, og gerði það víða á Vesturlöndum strax 2010, var ekki nýtt til atvinnusköpunar. Og nú er að hefjast samdráttur á ný.
Í byrjun árs 2009 fannst framsóknarmönnum blasa við hvað þyrfti að gera og okkur var sama hverjir framkvæmdu það svo framarlega sem það yrði gert.
Við hugsuðum ekki um að eigna okkur heiðurinn af því heldur að réttar ákvarðanir yrðu teknar.
En ríkisstjórnin sem við tók leit fyrst og fremst á efnahagshremmingarnar sem tækifæri fyrir sig. Tækifæri til að mynda fyrstu hreinu vinstristjórnina og innleiða sína hugmyndafræði.
Svo langt var gengið í þeim efnum að Samfylkingin, sem einhvern tímann hafði velt því fyrir sér að reyna að verða Sósíaldemókrataflokkur, var færð langt út á vinstri kantinn.
Ríkisisstjórnin sem senn fer frá hefur stjórnað landinu í krafti orðræðunnar í stað aðgerða.
Forsætisráðherra tilkynnti að ríkisstjórn sín ætti að vera ríkisstjórn jafnréttis en var svo sjálf dæmd fyrir að brjóta jafnréttislög.
Viðbrögð ráðherrans þóttu þó enn verri en brotið sjálft. Útúrsnúningar forsætisráðherra urðu til þess að hún varð fyrsti stjórnmálamaðurinn til að vera dæmdur fyrir spuna.
Það er eiginlega við hæfi því að pólitískur spuni hefur verið ær og kýr þessarar ríkisstjórnar.
Þetta átti að verða ríkisstjórn gagnsæis. En leyndarhyggjan hefur aldrei verið meiri.
Þetta átti að verða ríkisstjórn samráðs. En aldrei á lýðveldistímanum hefur ríkisstjórn reynt að valta jafnoft yfir stjórnarandstöðuna og þessi ríkisstjórn.
Það kveður svo rammt að því að jafnvel breytingar á stjórnarskrá á að knýja í gegn í ágreiningi.
Það hefði aldrei svo mikið sem hvarflað að framsóknarmönnum. Jón Kristjánsson sem fór fyrir nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar hafði samstöðu sem meginreglu í þeirri vinnu.
Þetta átti að vera faglega ríkisstjórnin en þegar sérfræðingar skila ekki áliti sem stjórnvöldum henta fara slík álit í besta falli í beint í ruslatunnuna. Í mörgum tilvikum hafa sérfræðingar sem gagnrýna tillögur ríkisstjórnarinnar mátt þola árásir fyrir afstöðu sína.
Þegar átti að umturna undirstöðu atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum, sendu sveitarfélög, Alþýðusambandið, háskólaprófessorar og aðrir sérfræðingar og fjölmargir fleiri ábendingar um skaðsemi tillagnanna.
Það breytti engu, samt stóð til að troða þeim í gegn.
Þegar framsóknarmenn bentu á þá hættu sem varað var við í tugum sérfræðiálita vorum við úthrópuð fyrir málþóf.
Nýjasta dæmið eru viðbrögð forsætisráðherra við ábendingum eigin sérfræðinefndar og allra helstu fræðimanna á sviði stjórnarskrármála vegna tillagna um nýja stjórnarskrá. Í stað þess að hlusta á sérfræðingana og vinna málið faglega og í samvinnu er þjösnast áfram.
Forsætisráðherra hefur ítrekað talað um að fagleg og trúverðug umgjörð um ráðningar sé nauðsynleg til að skapa traust á stjórnsýslunni. En allt þetta kjörtímabil hefur ríkisstjórnin stundað ráðningar án auglýsingar, þær voru orðnar nærri 100 síðast þegar var talið.
Loks átti þetta að verða ríkisstjórn nýrra og betri vinnubragða. Vinnubrögðin eru að einhverju leyti ný en ekki eru þau betri.
Hvað eftir annað svíkur ríkisstjórnin samkömulög og samninga, jafnvel formlega undirritaða samninga.
Það er sama hverjir eiga í hlut, hvort það eru fyrirtæki, samtök, stjórnarandstaðan eða aðilar vinnumarkaðarins, bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið, hvað eftir annað er gengið á bak gerðum samningum.
Þegar fulltrúar launþega leyfa sér að gera athugasemdir við vanefndir stjórnvalda er þeim svarað með tómum skætingi.
En þessu leiðindatímabili lýkur senn. Það hefur verið hlutverk okkar framsóknarmanna á þessu kjörtímabili að vera í vörn fyrir almannahagsmuni. Á næsta kjörtímabili getum við vonandi hafið sóknina og snúið þróuninni hratt til betri vegar.
Eins og ég nefndi áðan er sú staða sem næsta ríkisstjórn tekur við á margan hátt erfið. En vegna þeirrar baráttu sem framsóknarmenn hafa háð í stjórnarandstöðu er enn hægt að sækja hratt fram þegar skynsemisstefnan kemst til áhrifa á ný.
Tillögur okkar til úrbóta á undanförnum árum hafa ekki hlotið brautargengi hjá ríkisstjórninni. Engu að síður hafa þær smátt og smátt sannað gildi sitt eftir því sem tíminn líður og menn fá betri mynd af raunveruleikanum.
Ástæðan er sú að framsóknarmenn byggja tillögur sínar á staðreyndum og rökum en reyna ekki að troða raunveruleikanum inn í hugmyndafræði til hægri eða vinstri. Þess vegna vinna reynslan og tíminn með tillögum framsóknarmanna.
Það er þó tilefni til að minna á að þótt við séum frjálslyndur flokkur sem er opinn fyrir ólíkum hugmyndum úr öllum áttum þá þýðir það ekki að við teljum allar hugmyndir jafngóðar.
Það er eðli rökhyggju að eitthvað sé rétt og annað sé rangt.
Og meira að segja sé sumt mjög rangt en annað afar gott. Af því leiðir að þegar frjálslyndir menn hafa komist að niðurstöðu um að eitthvað sé skynsamlegt og annað ekki verða þeir að vera reiðubúnir til að verja það góða og berjast gegn því slæma.
Framsóknarflokkurinn er flokkur róttækrar rökhyggju. Þegar okkur þykir blasa við að eitthvað sé óréttlátt eða skaðlegt berjumst við gegn því af öllu afli og þegar við höfum komið auga á tækifæri til að láta gott af okkur leiða beitum við okkur af einurð fyrir því að þau tækifæri verði nýtt.
Þannig fara saman hjá okkur áhersla á mikilvægi samvinnu og rökræðu til að komast að því hvað er rétt og rangt og um leið vilji til að berjast af krafti fyrir því sem við teljum rétt og gegn því sem við teljum rangt.
Þess vegna hefur okkur stundum lent saman við ríkisstjórn sem oft hefur hagað sér óskynsamlega og tekið rangar ákvarðanir. Fyrir vikið hefur verið hart að okkur sótt.
Þýski heimspekingurinn Schopenhauer sagði að allur nýr sannleikur gengi í gegnum þrjú stig. Fyrst væri hæðst að honum, næst væri ráðist gegn honum með ofstæki og loks teldist hann sjálfgefinn.
Það sama virðist eiga við um stefnumál Framsóknarflokksins. Enda rökrétt að stefnumál flokksins séu háð sömu lögmálum og almennur sannleikur.
Við lögðum fram tillögur um almennar aðgerðir í skuldamálum heimilanna strax í upphafi árs 2009.
Fyrst var gefið í skyn að þær væru bara brella og jafnvel hæðst að því hvað framsóknarmenn legðu fram vitlausar tillögur. Svo kom í ljós að e.t.v. væri eitthvað spunnið í tillögurnar.
Þá var ótrúlegu púðri eytt í tilraunir til að drepa þær. Nú telst það nánast sjálfgefið að rétt hefði verið að ráðast í skuldaleiðréttingu áður en bönkunum var skipt upp.
Við vöruðum við því að bönkunum yrði skipt upp á þann hátt sem gert var og því að myntkörfulánin kynnu að verða dæmd ólögmæt og þess vegna mætti ekki færa þau yfir í nýju bankana. Allir vita í hvaða stöðu þau mál eru nú.
Við börðumst gegn undirritun og staðfestingu Icesavesamninganna. Það stríð þekið þið öll.
Þær skipta hundruðum fréttirnar og greinarnar þar sem framsóknarmenn voru sakaðir um að vera óábyrgir, fara með rangt mál, vera haldnir þráhyggju og ætla jafnvel að stefna landinu í stór hættu. Í leiðurum og forsíðufréttum var skrifað um að framsóknarmenn stæðu í vegi fyrir samkomulagi allra flokka í Icesave.
Álitsgjafar og ráðherrar töluðu um efnahagslegan kjarnorkuvetur, Ísland yrði Kúba-norðursins eða Norður-Kórea vestursins ef menn létu ekki af andstöðu við samningana.
Því máli lauk með því að 98% kjósenda studdu þá afstöðu sem framsóknarmenn höfðu um tíma háð nauðvörn fyrir.
Nú hefur verið staðfest að Seðlabankinn gaf upp kolrangar tölur um skuldastöðu þjóðarbúsins í aðdraganda kosninga um Icesave og þar með að ekki hefði með nokkru móti verið hægt að bæta við greiðslu yfir 40 milljarða króna vaxta í erlendri mynt árlega.
Á síðustu þremur þingum höfum við lagt fram tillögu um að þak verði sett á verðtrygginguna, og haft forystu um skynsamlegar lausnir á vanda heimila sem glíma við stökkbreytt verðtryggð lán. En tillögum okkar hefur öllum verið hafnað af ríkisstjórnarflokkunum eða þær svæfðar í nefndum.
Upprunalegar tillögur stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum hefðu lagt greinina í rúst. Þar tókst að draga mikið úr skaðanum.
Heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni var stefnt í voða. Skaðinn varð umtalsverður en ekkert í líkingu við það sem í stefndi.
Þegar við fórum að ræða þau tækifæri sem fælust í opnun siglingaleiða yfir norðurskautið fengum við að heyra að við værum komin langt fram úr okkur í umræðu um eitthvað sem yrði ekki að veruleika fyrr en eftir marga áratugi.
Nú hafa Kínverjar sent skip yfir norðurskautið til Íslands og til baka og mikilvægi staðsetningar landsins er orðið að umfjöllunarefni fjölmiðla um allan heim.
Þegar við bentum á mikilvægi þess að taka olíuleitarmál föstum tökum var fullyrt að við værum að skapa óraunhæfar væntingar um fjarlæga framtíðardrauma.
Nú hefur verið staðfest að olíu og gas er að finna í íslenskri lögsögu og norskir sérfræðingar fullyrða að jarðlögin á Jan Mayen-hryggnum séu líkleg til að geyma vinnanlegar lindir í sama mæli og í Noregshafi.
Þau hafa verið mörg málin þar sem aðhald og frumkvæði Framsóknarflokksins hefur skipt sköpum á undanförnum árum.
Enn er þó leitað til álitsgjafa sem hvað eftir annað hafa haft algjörlega rangt fyrir sér og enn mæta framsóknarmenn mótspyrnu þegar þeir tala fyrir sannleikanum. Það er eitthvað sem málsvarar rökhyggjunnar þurfa líkega alltaf að búa við. Lykilatriðið er að við látum það ekki draga úr okkur kjarkinn og að við höldum óhrædd áfram að berjast fyrir því sem við teljum vera rétt.
Kæru félagar
Ég ætla ekki að þylja hér upp þann fjölda tækifæra sem Íslendingar standa frammi fyrir á næstu árum. Þau höfum við ítrekað bent á undanfarið á ýmsum vettvangi, á kjördæmisþingum, í fjölmiðlum og á Alþingi.
Ég tel mikilvægara að nú á þessum síðasta miðstjórnarfundi fyrir einar mikilvægustu þingkosningar sem við höfum staðið frammi fyrir notum við tímann til að ræða þau gildi sem við munum leggja áherslu á við lausn viðfangsefna næstu ára. Þau gildi sem framsóknarfólk um allt land mun berjast fyrir, sem einn maður, að verði lögð til grundvallar uppbyggingu samfélagsins á næsta kjörtímabili.
Framsóknarflokkurinn er félagshyggjuflokkur vegna þess að við beitum okkur fyrir því sem er æskilegast fyrir heildina en um leið frjálslyndur flokkur vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að einstaklingsfrelsi er einn af drifkröftunum fyrir hagsmunum heildarinnar.
Jónas frá Hriflu vitnaði meira að segja í skrif Adam Smith um mikilvægi einstaklingsframtaks. En hann vissi að þótt kenningar hans væru áhugaverðar væru þær ekki fullnægjandi.
Framsóknarflokkurinn er samvinnuflokkur því að við vitum að oft má ná betri árangri með samvinnu einstaklinga en með samkeppni þeirra.
Framsóknarflokkurinn er jafnréttisflokkur vegna þess að við viljum að allir fái sem jöfnust tækifæri.
Við teljum það réttlátt og sanngjarnt. En við vitum líka að það er hagkvæmt að jafna tækifæri fólks óháð búsetu, kyni, efnahag og öðru sem aðgreinir fólk.
Framsóknarmenn hafa frá stofnun flokksins lagt áherslu á að tryggja öllum sem jöfnust tækifæri. Þess vegna stofnuðu framsóknarmenn héraðsskólana, bættu samgöngur og fjarskipti, stofnuðu almannatryggingakerfið, byggðu verkemannabústaði, lengdu fæðingarorlof og svo mætti lengi telja.
Framsóknarflokkurinn er atvinnuflokkur því að við vitum að það er aðeins hægt að byggja velferðarsamfélagið á því að allir hafi vinnu.
Fjölbreytt og næg atvinna er forsenda þess að allir fái búið við mannsæmandi kjör.
Eins viljum við tryggja að þeir sem ekki geta stundað atvinnu, t.d. vegna veikinda, og eldri borgarar sem hafa lokið starfsævinni búi við öryggi.
Mikilvægasta verkefni næstu ára er að nýta atvinnutækifærin og styrkja og styðja grunnatvinnugreinar okkar Íslendinga, landbúnað, sjávarútveg og iðnað, sem samfélag okkar getur ekki verið án.
Við viljum virða öll störf og umbuna í samræmi við það. Íslendingar verða að sjá sér hag í því að verða múrarar, lögreglumenn, smiðir, hjúkrunarfræðingar, sendibílstjórar, kennarar eða hvað sem hjarta þeirra stendur til. Til þess þarf að styðja við menntun á öllum skólastigum og sviðum og veita raungreinamenntun og iðn- og verkmenntun sérstaka athygli.
Við viljum að öllum finnist þeir öruggir á Íslandi, að öryggi borgaranna sé tryggt eins vel og mögulegt er. Til þess þarf að styrkja löggæsluna.
Og einu megum við aldrei gleyma; þó að efnahagsástandið sé erfitt um þessar mundir þá er Ísland ríkt af auðlindum og tækifærum, ríkt af þekkingu og mannuði og ríkt af fólki eins og ykkur sem er tilbúið að gefa vinnu sína og tíma til að vinna saman að því að bæta samfélag okkar.
Og verkefni okkar á næstu árum er að nýta auðlindirnar, tækifærin, þekkinguna og mannauðinn til að skapa það samfélag velferðar, jöfnuðar, atvinnu og réttlætis sem við viljum búa við. Samfélag þar sem enginn á að þurfa að líða skort.
En fáum við tækifæri til að innleiða skynsemisstefnuna?
Sagan er ekki hliðholl frjálslyndum miðjumönnum við aðstæður sem þessar.
Í efnahagsþrengingum og þegar órói er í samfélögum, eiga öfgar auðveldara uppdráttar. Við slíkar aðstæður er hins vegar alveg sérstök þörf fyrir Framsóknarstefnuna, stefnu rökhyggju sem leitar skynsömustu lausnarinnar á hverjum vanda. Það setur mikla ábyrgð á herðar okkar.
Til hægri og vinstri ganga menn stöðugt lengra í öfgaátt eins og sést best á áherslum ungliða flokkanna. Ungir Sjálfstæðismenn hafa nýlega lagt fram tillögu að fjárlagafrumvarpi þar sem lagt er til að ríkið hætti þegar á næsta ári að fjármagna fjölmörg af mikilvægustu verkefnum samfélagsins.
Á sama tíma ræða ungir sósíalistar í Vinstri grænum um ríkiseinokun í rekstri matvöruverslana og afnám eignarréttar.
Sú skynsemisstefna sem við höfum staðið fyrir í nærri heila öld átti stóran þátt í því að gera sögu Íslands að einni mestu framfarasögu heimsins á tuttugustu öldinni. Það er skylda okkar að berjast fyrir því að hún nái sama árangri á þeirri tuttugustu og fyrstu.
Það er ekki skylda okkar gagnvart okkur sjálfum heldur gagnvart samfélaginu.
Til að svo megi verða er tvennt ófrávíkjanlegt. Fólk verður að vita fyrir hvað við stöndum og við verðum að standa saman, samheldin heild.
Nú er að hefjast sá tími sem framsóknarmönnum hentar best, aðdragandi kosninga. Sá tími hentar okkur vel vegna þess að þá fer umræðan í auknum mæli að að snúast um málefnin, og kosti og galla ólíkrar stefnu. Þar erum við á heimavelli.
En baráttan verður hörð og hún mun ekki bara snúast um ólíka stefnu og lausnir.
Við þekkjum það af reynslunni að í aðdraganda kosninga verður hart að okkur sótt. Þar munu margir pólitískir andstæðingar, sem sumir kalla sig annað en stjórnmálamenn, beita öllum brögðum til að koma höggi á flokkinn.
En við munum ekki láta það slá okkur út af laginu heldur halda ótrauð áfram baráttu okkar fyrir betra samfélagi.
Ég hlakka til kosningabaráttunnar. Við skulum hefja hana tímanlega og gera hana skemmtilega.
En umfram allt hlakka ég til að fá tækifæri til að fylgjast með áhrifum þess þegar skynsemisstefna framsóknarmanna fer að setja mark sitt á þróun samfélagsins.
Að sjá landsmenn aftur fá von um farsæla framtíð, þegar skuldsett heimili sjá ljósið við enda ganganna, þegar atvinnuleysið fer að minnka, ekki vegna þess að atvinnulausir flytja til Noregs eða fara að þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum, heldur vegna þess að fólkið fær vinnu, ný og vel launuð störf, störf sem skila skattekjum til ríkisins og ávinningi til samfélagsins.
Það verður stórkostlegt að sjá kyrrstöðuna rofna, þegar farið verður að byggja upp heilbrigðisþjónustu um allt land í stað þess að draga úr henni, þegar lögreglan fær möguleika á að útrýma skipulagðri glæpastarfsemi,
þegar byrjað verður að leggja vegina, byggja brýrnar, bora göngin, reisa virkjanirnar, gera við skipin, rækta upp gömlu túnin, stofna nýju sprotafyrirtækin, bæta hafnirnar og bora eftir olíunni.
Framfarasaga Íslands á 21.öldinni getur orðið einstök í veröldinni rétt eins og hún var á þeirri 20. ef skynsemin ræður för og við nýtum tækifærin sem bíða okkar.
Það skiptir miklu máli, nei, það skiptir öllu máli, að við náum góðum árangri í kosningunum í apríl. Ekki bara fyrir flokkinn heldur fyrir Íslendinga alla og framtíð þeirra.
Þeim árangri munum við ná ef við beitum okkur sem eitt lið, sameinað afl rekið áfram af óbilandi trú á framtíð Íslands.