Sanngjörn krafa hjúkrunarfræðinga

Hjúkrunarfræðingar standa nú frammi fyrir grafalvarlegri stöðu. Þrátt fyrir að kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við fjármálaráðherra (sem nær til 2000 hjúkrunarfræðinga) hafi verið undirritaður 4. júní 2011 kveði á um að stofnanasamningar séu hluti af kjarasamningi hafa stofnanasamningar FÍH á stofnunum ríkisins ekki verið endurnýjaðir á samningstímabilinu. Staða hjúkrunarfræðinga á Landsspítala (LSH) er enn verri, en þar hefur stofnanasamningur ekki verið endurnýjaður frá árinu 2007.

Hjúkrunarfræðingum er gefin sú skýring að vegna fjárskorts stofnana og LSH sé ekki hægt að endurnýja stofnanasamninga.

Mannekla í hjúkrun er yfirvofandi
Þetta er ótæk staða. Ljóst er að sá niðurskurður sem heilbrigðisstofnanir á öllu landinu hafa þurft að þola undanfarin ár er hluti af þessum vanda. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár er mjög mikilvægt tekið verði tillit til þessa vanda og heilbrigðisstofnunum verði tryggt fjármagn til að endurnýja stofnanasamninga.

Ef þetta ástand heldur áfram óbreytt er ljóst að í óefni stefnir á heilbrigðisstofnunum, sérstaklega á Landsspítalanum. Hjúkrunarfræðingar eru gríðarmikilvæg grunnstétt í heilbrigðisþjónustu. Ef ekki verður gripið til aðgerða nú við afgreiðslu fjárlaga er ljóst að stór hætta verður á að fjölmargir hjúkrunarfræðingar segi upp störfum sínum og leiti betri kjara annars staðar.

Slíkt myndi setja heilbrigðisþjónustu hér á landi í uppnám þar sem skortur á hjúkrunarfræðingum er nú viðvarandi vandamál og frekari skortur er yfirvofandi á næstu árum. Sem dæmi um það má nefna að fram til ársins 2020 er áætlað að um 950 hjúkrunarfræðingar fari á eftirlaun en aðeins tæplega 900 komi nýir til starfa á sama tíma. Mannekla í hjúkrun er því yfirvofandi.

Allir íslenskir hjúkrunarfræðingar geta fengið störf í Noregi
Nú þegar er orðið töluvert um að íslenskir hjúkrunarfræðingar séu í hlutastörfum í Noregi til að drýgja tekjurnar með því að afla þar norskra króna sem eru verðmætur gjaldeyrir á Íslandi. Það er ljóst að fleiri hjúkrunarfræðingar munu horfa til Noregs á næstunni ef stofnanir ríkisins fá ekki nauðsynlegt fjármagn til að endurnýja stofnanasamninga eins og kjarasamningar hjúkrunarfræðinga mæla fyrir um.

Í Noregi er skortur á hjúkrunarfræðingum svo mikill að allir íslenskir hjúkrunarfræðingar, um 2800 talsins, gætu fengið þar störf. Störf sem almennt eru mun betur launuð en hér á landi. Undanfarið hefur verið mjög virk eftirspurn eftir íslenskum hjúkrunarfræðingum til starfa í Noregi og ljóst að ef ekkert er gert til að bæta ástandið hér á landi munu nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar, sem og reynslumikið fólk sem nú starfar á stofnunum ríkisins, horfa alvarlega til þeirra kosta.

Nú þegar þykir líklegt að uppsagnir hjúkrunarfræðinga hefjist á Landsspítalanum um næstu mánaðarmót ef ekkert verður að gert. Reynslan sýnir að stór hluti þeirra sem taka þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu skilar sér ekki aftur til baka þó að ástandið batni síðar.

Það er sanngjörn krafa að kjarasamningar séu virtir
Grunndagvinnulaun nýútskrifaðs hjúkrunarfræðings á Landsspítalanum eru nú 280 þúsund. Það er viðurkennd staðreynd að álag á hjúkrunarfræðinga og aðra opinbera starfsmenn hefur stóraukist undanfarin ár. Það er sanngjörn krafa að stofnanasamningar hjúkrunarfræðinga verði endurnýjaðir eins og mælt er fyrir um í kjarasamningum þeirra. Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu má ekki verða til þess að við missum fleira hæft fólk úr þessum mikilvægu störfum.