Turninn

Það var mikil mildi að enginn skyldi slasast í aurskriðunum á Seyðisfirði. Tilfinningalegt tjón er þó mikið fyrir þá sem urðu fyrir eignatjóni eða upplifa aukið óöryggi eftir skriðurnar. Viðbrögð við náttúruhamförunum eiga að sjálfsögðu fyrst og fremst að snúast um að verja íbúana. En það þarf líka að vernda menningararf bæjarins. Hann skiptir Seyðfirðinga miklu máli og vonandi flesta landsmenn.

 

Ég á nokkuð umfangsmikið safn mynda frá Seyðisfirði, m.a. af öllum húsunum sem eyðilögðust í aurskriðunum.

 

Myndirnar eru of margar til að birta þær allar samtímis og því ætla ég að byrja á nokkrum myndum af einu þeirra húsa sem hurfu.

 

Turninn var lítið en mjög sérstakt hús. Líklega það eina sinnar tegundar á Íslandi þótt það hafi átt ættingja sem flestir eða allir eru horfnir. Húsið var byggt árið 1908 í svo kölluðum drekastíl en hafði misst nokkuð af skrautinu, einkum þakskraut.

 

Í hinni merku bók Húsasögu Seyðisfjarðarkaupstaðar færir höfundurinn, Þóra Guðmundsdóttir, rök fyrir því að Turninn hafi verið fyrsti söluturn landsins og markað upphafið að sjoppumenningu Íslendinga.

 

Síðar gegndi Turninn ýmsum hlutverkum en húsið var eitt af örfáum gömlum verslunarhúsum á Íslandi þar sem upprunalegar innréttingar (eða því sem næst) höfðu varðveist. Annað þessara fágætu dæma finnst handan götunnar í Gamla Ríkinu sem vonandi verður nú loks gert upp.

 

Að undanförnu hafði verið unnið að því að gera upp Turninn. Ég fékk að fylgjast með og tók m.a. innanhússmyndir sem sumar fylgja hér á eftir (það var nánast eins og að stíga aftur í tímann).

 

Vonandi verður Turninn endurreistur ásamt öðrum merkum húsum sem glötuðust á Seyðisfirði. Annað hvort á sama stað (ef áformaðar rannsóknir og ráðstafanir leyfa) eða annars staðar í þessum fallega og sögufræga bæ.