Réttmæt „eignaupptaka“

 

Ágreiningur þeirra Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um neyðarlögin og ólíka meðferð á kröfuhöfum bankanna er áhugaverður og jafnvel dálítið skemmtilegur (sjá tilvísun í grein Eyjunnar hér að neðan).

Báðir hafa þeir rétt fyrir sér að nokkru leyti. Auðvitað var þetta „eignaupptaka“, eða að minnsta kosti eignatilfærsla, en þetta var réttlætanleg, og að mínu mati nauðsynleg, eignatilfærsla.

Með neyðarlögunum og aðgerðunum sem við réðumst svo í til að leiðrétta skuldir og endurreisa efnahagslíf Íslands framkvæmdum við langstærstu eignatilfærslu í sögu landsins, öll önnur tilvik um slíkt eru agnarsmá, nánast ósýnileg, í samanburði. En þessar risaaðgerðir voru réttlætanlegar og skýringarnar eru þessar:

 

„Eignaupptakan“

1.

Fyrir fall íslensku bankanna voru allir sem geymdu pening í bönkunum með jafnan rétt. Það skipti engu máli hvort viðkomandi átti pening á hlaupareikningi, debetkorti, bundinni bankabók eða í formi skuldabréfs. Við gjaldþrotin urðu allir sem áttu inni pening hjá bönkunum kröfuhafar (fermingarbarn sem átti 100.000 krónur inni á bók varð kröfuhafi með 100.000 króna kröfu í búið). Allir voru þessir kröfuhafar jafn-réttháir óháð því á hvaða formi skuld bankans var, bankans sem nú gat ekki greitt skuldir sínar.

Með neyðarlögunum var þessu breytt afturvirkt. Gríðarlegt fjármagn var tekið af kröfuhöfum sem áttu eignir á einu formi til að borga út kröfuhafa sem áttu eignir á öðru formi. Þeir sem áttu inni pening á bankabók fengu kröfuna alla greidda (og réðu því hvort þeir geymdu peninginn áfram í nýja bankanum eða tóku hann út og geymdu undir koddanum). Það var fjármagnað með því að minnka endurheimtur þeirra sem áttu kröfur á formi skuldabréfa.

Síðan var reyndar ákveðið að koma sérstaklega til móts við þá sem áttu kröfur á formi skuldabréfa í gegnum svo kallaða peningamarkaðssjóði og þá tekið enn meira af þeim sem áttu skuldabréfin beint.

Niðurstaðan: Ákveðin hópur eignafólks fékk allt sitt bætt á kostnað annars hóps eignafólks.

2.

Nokkrum árum eftir bankahrunið var ráðist í aðgerð sem ég hafði beitt mér fyrir frá því ég hóf þátttöku í pólitík. Aðgerðin snerist um að rétta hlut þeirra sem skulduðu. Það var gert með því að taka enn meira af þeim hópi kröfuhafa sem höfðu átt inneign á formi skuldabréfa.

Niðurstaðan: Fólk með verðtryggð fasteignalán fékk skuldir sínar lækkaðar og greitt var fyrir það með eignum þeirra sem höfðu átt skuldabréf í bönkunum. Þ.e. þeirra sem höfðu þegar látið stóran hluta eignanna af hendi með neyðarlögunum.

3.

Loks var ráðist í aðgerð sem fróðustu menn á viðkomandi sviði hafa bent á að sé einstök í fjármálasögunni. Þeir sem áttu kröfur á formi skuldabréfa voru látnir afhenda mörghundruð milljarða eignir til viðbótar við það sem þegar hafði verið tekið af þeim til þess að gera okkur kleift að endurreisa efnahagslíf Íslands og þar með að bæta kjör fólks og aflétta höftum.

Niðurstaðan: Hagkerfi landsins var endurreist, staða ríkissjóðs og kjör almennings bætt og höftum aflétt á kostnað hverra, jú, enn og aftur þeirra kröfuhafa sem áttu kröfur á formi skuldabréfa.

 

Þegar ég boðaði að ráðist yrði í þessar aðgerðir fyrir kosningar (fyrst 2009 og svo 2013) voru margir tilbúnir til að eyða miklum kröftum í að halda því fram að þetta væri ekki hægt. Minnt var á eignarrétt kröfuhafa (sem vissulega var til staðar) og því slegið upp að ég ætlaði að ná 300 milljörðum af kröfuhöfunum. Ég veit ekki hver fann upp á þeirri tölu, ekki gerði ég það, en væntanlega var hún sett fram í tilraun til að sýna hversu óábyrgur ég væri í tali og til að geta síðar undirstrikað hversu hrapalega mér hefði mistekist. Niðurstaðan varð þó sú að kröfuhafar voru látnir afhenda miklum mun meira en 300 milljarða. Enn er óljóst hver endanleg niðurstaða verður en talan er enn að hækka.

Það hefði sannarlega verið hægt að fara aðrar leiðir en farin var með aðgerðunum sem lýst var að ofan, þar sem eignir voru ítrekað gerðar upptækar hjá sama hópi. Í bankakrísunni á Kýpur, sem fylgdi í kjölfar þeirrar íslensku, var til að mynda farin sú leið að skerða eignir allra kröfuhafa bankanna, hvort sem þeir áttu peninga inni á bankabók eða í formi skuldabréfa. Um leið tók ríkið erlend lán. Mest var skerðingin hjá þeim sem áttu reikning í Laiki-banka, allt að 80%. Að auki voru Kýpverjar látnir greiða tryggingargjald fyrir innistæðurnar sem þeir héldu eftir. Hér var nálgunin önnur.

 

Réttlætingin

Í fyrstu var nauðsynlegt að halda bankakerfinu gangandi og verja eignir fólks á neyslureikningum. Annað hefði leitt til miklu verra hruns. Síðan taldi ég réttlætanlegt að koma til móts við fólk sem skuldaði. Fyrir því voru ýmsar ástæður sem ég hef rakið á undanförnum árum. Loks var að mínu mati ljóst að ef landið ætti að ná sér aftur á strik efnahagslega og losna úr höftum þyrftu kröfuhafar að láta af hendi enn meiri eignir. Hin leiðin, sú að íþyngja íslenskum almenningi enn frekar með því að láta hann bera kostnaðinn af uppbyggingunni, hefði leitt til lífskjaraskerðingar og langvarandi hafta.

Auðvitað hefði mátt gera þetta með öðrum hætti en ég taldi rétt að fara leið sem á heildina litið færði eignir frá þeim sem áttu meira til þeirra sem áttu minna. Að vísu hafði það að afnema jafnræði kröfuhafa með neyðarlögunum þegar leitt til þess að sumir sem áttu minna töpuðu á meðan sumir sem áttu meira voru varðir.

Tökum ímyndað dæmi: Ekkja sem seldi einbýlishús og geymdi 50 milljónirnar sem hún fékk fyrir í öruggustu fjárfestingu sem hún gat fundið, skuldabréfi í banka, tapaði megninu af eigininni og þar með lífeyri sínum. Fjárfestir sem átti 300 milljónir á bankabók fékk það allt bætt, meðal annars á kostnað ekkjunnar.

Aðalatriðið er þó að allir sem áttu kröfur á formi skuldabréfa voru meðhöndlaðir eins og allir sem áttu kröfur á formi innlánsreikninga fengu sömu meðhöndlun. Gert var upp á milli hópa en allir meðhöndlaðir eins innan hópsins þótt það þýddi að ekkjan í skuldabréfahópnum sætti hlutfallslega sömu „eignaupptöku“ og Deutsche Bank.

Það er athygli vert, í þessu sambandi, að enginn íslenskur stjórnmálamaður sem hagnaðist sjálfur eða átti ættingja sem höfðu hagsmuna að gæta, til dæmis eignir í peningamarkaðssjóðum, sá nokkurn tímann ástæðu til að greina frá þeim hagsmunum á meðan verið var að taka ákvarðanir um tilfærslur sem vörðu milljónir, tugi- eða hundruð milljóna. Sú krafa virtist einungis gerð til þeirra sem stöðugt börðust fyrir því að fórna eigin hagsmunum eða fjölskyldu.

Við þetta er svo því að bæta, sem iðulega gleymist, að þeim sem áttu kröfur á bankana má skipta í tvo eðlisólíka hópa. Þá sem áttu inni peninga og töpuðu (eða fengu tapið bætt) þegar bankarnir féllu og svo þá sem í daglegu tali hafa verið kallaðir vogunarsjóðirnir eða einfaldlega „kröfuhafarnir“. Þ.e.a.s. þeir sem áttu ekkert inni hjá bönkunum en keyptu kröfur á bankana eftir að þeir féllu til að hagnast á þeim. Annar hópurinn var fórnarlömb bankahrunsins. Hinn græddi á því. Það er merkilegt hvað þessu er oft ruglað saman viljandi eða óviljandi.

Það er líka merkilegt að reynt hafi verið, að vísu án rökstuðnings, að halda því fram að ríkisstjórnin sem ég fór fyrir hafi verið einhvers konar hægristjórn. Stjórnin sem framkvæmdi stærstu eignatilfærslu frá þeim sem eiga meira til þeirra sem eiga minna frá upphafi Íslandsbyggðar og framkvæmdi það með aðgerð sem var einstök á heimsvísu.

Mesti skaðinn var að stjórnin skyldi ekki geta klárað þau áform sem boðuð höfðu verið og með því komið betur til móts við hópana sem eftir stóðu, ekki hvað síst þá sem þurfa að reiða sig á lífeyris- eða örorkugreiðslur. Sem betur fer erum við þó í margfalt betri aðstöðu til að klára það, og öll önnur góð mál, vegna þess að ráðist var í hina réttlætanlegu „eignaupptöku“.

 

Frétt Eyjunnar: http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/08/01/jon-steinar-svarar-hannesi-holmsteini-neydarlogin-voru-eignarupptaka/