Pakkinn er að sjálfsögðu 3. orkupakki Evrópusambandsins en ráðherrarnir eru ekki bara núverandi ráðherrar því fyrrverandi ráðherrar virðast komnir í sama pakkann. Þeirra a meðal er Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður starfshóps ríkisstjórnarinnar um EES-samninginn.
Björn hefur að undanförnu skrifað nokkra pistla til stuðnings orkupakkanum og virðist helst telja það málinu til framdráttar að ríkisstjórn mín hafi ekki kæft áform ESB um þriðja orkupakkann í fæðingu.
Línan gefin
Það er engu líkara en starfandi ráðherrar flokksins séu orðnir lærisveinar forvera síns og EES-formannsins í málinu. Þeir endurtaka í sífellu sama svarið við öllum spurningum um þriðja orkupakkann. Svarið er að ríkisstjórn mín (og þ.a.l. sérstaklega ég) hafi ekki sett ofan í við Evrópusambandið á sínum tíma vegna þriðja orkupakkans. „Röksemdafærslan“ sem að baki liggur er sú að þá þegar hafi verið tímabært að taka afstöðu til málsins en þar sem það hafi ekki verið gert sé ekki tímabært að taka afstöðu til málsins nú og því þurfi meiri tíma til að velta því fyrir sér.
Að innleiða eða innleiða ekki
Nú kann vel að vera að ég og aðrir stjórnarþingmenn fyrri ára hefðum átt að gera enn meira af því en raun var að beita okkur gegn hugmyndum sem upp hafa komið innan Evrópusambandsins um aukna ásælni á ýmsum sviðum. Ég verð þó að viðurkenna að vangaveltur í Brussel um þriðja orkupakkann komu ekki mikið inn á radar ráðuneytisins í minni tíð. Önnur mál voru þar ofar á baugi og ekkert þeirra snerist um undanlátssemi við Evrópusambandið, öðru nær.
Að minnsta kosti er ljóst að við innleiddum ekki þriðja orkupakkann eða aðrar tilraunir ESB til að auka vald sitt yfir stjórn landsins. Það er nýmæli ef Sjálfstæðisflokkurinn, sem ósjaldan hefur bent á minnisleysi annarra flokka um þátttöku í ríkisstjórn, kannast ekki við hlutverk sitt í ríkisstjórnum undanfarinna ára. Ég minnist ekki mikillar mótspyrnu úr þeirri átt gagnvart reglugerðafargani ESB á sínum tíma.
Þó skal ég vera fyrstur til að viðurkenna að gagnrýni á fyrri ríkisstjórnir fyrir að hafa ekki veitt ESB enn meiri viðspyrnu og kæft fleiri mál í fæðingu kunni í einhverjum tilvikum að vera réttlætanleg. Slík gagnrýni getur þó varla verið réttlæting fyrir því að núverandi ríkisstjórn taki stór skref í að gefa eftir fullveldi landsins og innleiði löggjöf sem skerðir sjálfstjórnarrétt Íslands.
Nýjasta útspil EES-formanns ríkisstjórnarinnar er að minna á að ég hafi umborið áhuga Davids Camerons, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, á að skipa hóp til að skoða hugsanlega lagningu sæstrengs til Íslands. En eins og ég sagði hinum breska nafna mínum á sínum tíma, og fram kom í þingræðum og viðtölum, taldi ég ekki líkur á að niðurstaðan yrði sú að slík tenging þjónaði hagsmunum Íslands. Og þá var ekki einu sinni orðið ljóst að ESB ætlaði sér að stjórna orkumálum á Íslandi.
Í þessu máli þarf bandamenn
Hvað varðar afstöðu Sjálfstæðisflokksins og ráðherra hans til orkupakkans hef ég engan áhuga á að gera flokkinn að andstæðingi mínum í málinu. Samfylkingin og Viðreisn geta séð um það hlutverk. Andstæðingar gera stundum sitt gagn en í þessu máli vil ég miklu fremur bandamenn en andstæðinga. Málið snýst enda um grundvallarhagsmuni og fullveldi þjóðarinnar.
Annars eru áhyggjurnar líklega óþarfar því framsóknarmenn munu hafa ályktað um að flokkurinn sé andsnúinn þriðja orkupakkanum og þá hljóta ráðherrar og þingmenn flokksins að fara eftir því. …Nei, þetta er líklega ekki rétti tíminn fyrir hótfyndni. Nú þurfum við stuðning allra sem eru reiðubúnir til að verja fullveldi landsins, sama hvort þeir gera það af sannfæringu eða vegna þess að einhverjir aðrir eru til í þann slag.
Má gagnrýna EES-mál?
Það er raunar merkilegt hversu margir eru viðkvæmir fyrir gagnrýni á Evrópusambandið eða EES-samninginn. Samningurinn hefur gríðarleg áhrif á reglur og viðskipti á Íslandi. Það hlýtur því að vera óhætt og eðlilegt að ræða eðli hans, kosti og galla.
Það eru ekki mjög mörg ár síðan íslenskir kratar lofuðu EES-samninginn í hástert og útskýrðu á Alþingi, á fundum og í fjölmiðlum að vöxtur íslensku bankanna og útrás íslenskra fyrirtækja væru afleiðing EES-samningsins og hefðu ekkert með þáverandi stjórnvöld að gera. Sá málflutningur hvarf skyndilega, nánast á einum degi. Mig minnir að það hafi verið haustið 2008. Eftir það var umræðunni í auknum mæli beint að stjórnarskrá landsins og henni kennt um alla skapaða hluti.
EES-samningurinn hefur vissulega gert gagn á ýmsum sviðum en hann er sannarlega ekki gallalaus. Æskilegt og eðlilegt væri að Íslendingar ræddu samninginn og áhrif hans mun meira en raunin hefur verið. Vonandi mun niðurstaðan af vinnu Björns Bjarnasonar gefa tilefni til þess.
Í millitíðinni er ljóst að við getum ekki leyft okkur að fallast á tilraunir til að færa erlendum stofnunum valdheimildir á Íslandi og leggja grundvallarhagsmuni þjóðarinnar í hendur ókjörinna fulltrúa erlendra ríkja. Prinsippið eitt og sér nægir til að hafna slíkum tilburðum. Til viðbótar hefur þeim praktísku hættum sem af málinu stafa þegar verið lýst ágætlega af innlendum og erlendum sérfræðingum.
Þarf nú að berjast við vindmyllur?
Loks veldur það mér áhyggjum að sjá að iðnaðarráðherra landsins skuli þegar vera farinn að tala fyrir draumórum Evrópusambandsmanna (og afmarkaðs hóps íslenskra vinstrimanna) um að gera Ísland að vindmyllugarði. Það er í samræmi við hugmyndir um að gera Ísland að orkubúi í svokölluðu „Super-grid“-orkukerfi Evrópu. Vindmyllur eru hins vegar hvorki lausnin á orkubúskap Íslands né umhverfisvanda heimsins eins og ég hef áður fjallað um nokkuð ítarlega. Vonandi þurfum við ekki að slást við vindmyllur þegar búið er að skila þriðja orkupakkanum.
Greinin birtist fyrist í Morgunblaðinu 15.11.2018