Ólíkt hafast kratar að

Nú er sum­arið liðið og enn sjást eng­in merki um að dansk­ir sósí­al­demó­krat­ar ætli að bregðast við um­vönd­un­um syst­ur­flokks­ins á Íslandi. Málið er mér skylt því að fyrr í sum­ar dróst ég inn í ágrein­ing ís­lenskra og danskra krata. Það gerðist þegar ég hætti mér út í umræðu um uppá­kom­ur sem urðu í tengsl­um við hátíðarþing­fund í til­efni 100 ára af­mæl­is full­veld­is Íslands.
Þing­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar þótti hann hafa farið illa út úr sam­tali okk­ar um málið í út­varpsþætti og brást við á fyr­ir­sjá­an­leg­an hátt. Ekki með því að skýra málið bet­ur held­ur með skrif­um sem sner­ust ein­göngu um per­són­uníð um mann­inn sem hafði leyft sér að vera ósam­mála. Slíkt er lýs­andi fyr­ir stjórn­mála­menn og flokka sem aðhyll­ast svo­kallaðan póst­mód­ern­isma í stjórn­mál­um. Stefnu sem geng­ur út frá því að allt sé af­stætt og staðreynd­ir séu ekki til. Fyr­ir vikið hafna póst­mód­ern­ist­arn­ir skyn­sem­is­hyggju eða leit­inni að hinni rök­réttu niður­stöðu. 

Sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál

Í staðinn kem­ur það sem ég hef kallað stimp­il­stjórn­mál og hef­ur nú verið þýtt á ís­lensku sem sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál (e. identity politics). Slík stjórn­mál ganga út á að skil­greina alla fyrst og fremst sem hluta af til­tekn­um hóp­um frem­ur en sem ein­stak­linga. Rétt­ur manna er svo mis­mik­ill eft­ir því hvaða hóp­um þeir til­heyra.Slík­um viðskilnaði við raun­veru­leik­ann fylgja óhjá­kvæmi­lega veru­leg­ar tak­mark­an­ir á tján­ing­ar­frelsi og sú hug­mynd að nauðsyn­legt sé að þagga niður í þeim sem ekki til­heyra rétt­um hópi eða jafn­vel út­skúfa þá.

Eins og í allri öfgapóli­tík, sama hvaða nöfn­um hún nefn­ist, mynd­ast svo til­hneig­ing til að þrengja mörk hins leyfi­lega og leita sí­fellt nýrra hluta til að for­dæma og fleiri fórn­ar­lamba. Hinir áköf­ustu leggja sig alla fram við að sýna að þeir séu sann­ir í trúnni, haldi sig inn­an mark­anna og vilji helst þrengja þau. Þ.e. séu betri en aðrir.

Hof­móðug­leik­arn­ir

Þetta get­ur skapað mikla sam­keppni milli póst­mód­ern­ist­anna. Þannig varð t.d. merki­leg uppá­koma í sum­ar þegar for­seti danska þings­ins kom til lands­ins sem full­trúi þings síns og þjóðar til að sýna Íslend­ing­um virðingu í til­efni full­veld­is­hátíðar. Þing­menn Pírata ákváðu á síðustu stundu að sniðganga full­veld­is­fund­inn til að geta sniðgengið danska þing­for­set­ann. Þeir höfðu að vísu áður samþykkt komu gests­ins en sögðu það hafa verið vegna þess að þeir vissu ekki hvaða kona þetta væri. Þegar ein­hver upp­götvaði svo hvaða stimp­il hún hefði tók ekki lang­an tíma að for­dæma hinn óþekkta gest.Nú voru góð ráð dýr hjá keppi­naut­un­um. Hóp­ur þing­manna límdi á sig miða fyr­ir fund­inn þar sem fram kom að þeir væru ekki ras­ist­ar. Þó hafði eng­inn sakað þá um þann ófögnuð.

Viðbrögð nokk­urra þing­manna Sam­fylk­ing­ar­inn­ar vöktu þó mesta at­hygli. Formaður flokks­ins varði stór­um hluta hátíðarræðu sinn­ar í að skamm­ast yfir kynþátta­hyggju á skandi­nav­ísku og ann­ar þingmaður mætti (ít­rekað) til þess eins að geta látið sjá sig ganga út.

Lík­lega má segja að í þess­ari um­ferð hof­móðug­leik­anna enda­lausu hafi Sam­fylk­ing­in haft sig­ur. Þing­menn flokks­ins fylgdu því svo eft­ir með skrif­um í dönsk blöð til að út­skýra lífið og til­ver­una fyr­ir þarlend­um. Þetta kom mörg­um Dön­um á óvart enda töldu þeir að Dan­mörk hefði fengið sjálf­stæði frá Íslandi um leið og Ísland varð sjálf­stætt frá Dan­mörku.

Ekki hvað þú ger­ir held­ur hver þú ert

Það sér­kenni­leg­asta við fram­göngu Sam­fylk­ing­arþing­manna var hins veg­ar að þeir skyldu sjá ástæðu til að út­skúfa for­seta danska þings­ins vegna þess að viðkom­andi hefði talað fyr­ir til­tek­inni stefnu í inn­flytj­enda­mál­um á sama tíma og dansk­ir sósí­al­demó­krat­ar (DS) hafa tekið upp stefnu sem gef­ur stefnu þing­for­set­ans ekk­ert eft­ir.Dansk­ir jafnaðar­menn, und­ir for­ystu Mette Fredrik­sen, hafa leit­ast við að færa sig frá póst­mód­ern­ism­an­um sem leikið hef­ur marg­an krata­flokk­inn grátt. Á sviði inn­flytj­enda­mála fóru flokks­menn að velta fyr­ir sér hverj­ar væru staðreynd­ir máls­ins og hvernig væri raun­veru­lega hægt að gera mest gagn. Það átti alla vega að vera mark­miðið hvað sem mönn­um kann að þykja um stefn­una.

Áhuga­verð þróun

Peter Nederga­ard, stjórn­mála­fræðipró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla, seg­ir stefnu­breyt­ing­una afar merki­lega og verðskulda alþjóðaat­hygli. Hann tel­ur ástæður henn­ar margþætt­ar. Í fyrsta lagi grund­vall­ist hún á því að DS líti á sig sem helstu varðmenn vel­ferðarrík­is­ins og að eins og ýms­ir fræðimenn hafi bent á sé grund­vall­ar þver­sögn í op­inni inn­flytj­enda­stefnu og rekstri vel­ferðarsam­fé­lags. For­ysta DS sé nú al­farið þeirr­ar skoðunar að vel­ferðarríki hafi ekki efni á öðru en strangri inn­flytj­enda­stefnu.Í öðru lagi tel­ur Nederga­ard að af­stöðubreyt­ing­in eigi sér sögu­leg­ar skýr­ing­ar. Matti­as Tes­faye, ein af for­ystu­mönn­um DS í danska þing­inu, gaf ný­verið út bók um sögu inn­flytj­enda­mála í flokkn­um. Tes­faye er múr­ari af eþíópísk­um ætt­um. Í bók­inni „Welcome Mu­stafa“ skýr­ir hann að sögu­lega séð hafi grasrót DS verið fylgj­andi strangri inn­flytj­enda­lög­gjöf en að um 1980 hafi flokks­for­yst­an farið að fylgja stefnu sem mótuð var af hópi vinst­ris­innaðra há­skóla­manna frem­ur en vilja al­mennra flokks­manna. Það ástand hafi illu heilli varað í hátt í 40 ár og á þeim tíma hafi verið þaggað niður í for­ystu­fólki í flokkn­um úr verka­lýðsarm­in­um í umræðu um stefn­una. Að mati Nederga­ards er niðurstaða bók­ar­inn­ar sú að mjög opin stefna í inn­flytj­enda­mál­um og sönn jafnaðar­mennska séu eins og eld­ur og vatn.

Loks tel­ur pró­fess­or­inn að löng­un flokks­ins til að lifa af hafi haft sín áhrif. Fyr­ir vikið sé stuðning­ur við opna (d. li­ber­al) inn­flytj­enda­stefnu horf­inn í DS og finn­ist nú aðeins í flokk­un­um vinstra meg­in við hann.

Staðan nú

Í ljósi uppá­kom­unn­ar á Íslandi hef­ur verið áhuga­vert að fylgj­ast með dönsk­um stjórn­mál­um að und­an­förnu. DS hef­ur nú slitið sam­starfi við Radikale ven­stre vegna ágrein­ings í inn­flytj­enda­mál­um. Það er eft­ir því tekið hversu gott sam­band er milli for­ystu­manna Danska þjóðarflokks­ins (sem ver minni­hluta­stjórn mið- og hægri­flokka) og Sósí­al­demó­krata (sem eru í stjórn­ar­and­stöðu) og formaður DS seg­ist til í að mynda rík­is­stjórn með stuðningi DÞ. Það er breyt­ing frá því sem áður var þegar leiðtog­ar DS reyndu að ein­angra DÞ og sniðganga þá (þótt þeir hafi ekki gengið út und­ir ræðum þeirra).Í Svíþjóð hef­ur svipuð aðferð verið reynd gagn­vart Svíþjóðardemó­kröt­um. Í stað þess að tak­ast á við flokk­inn og setja fram betri rök og stefnu reyndu menn sniðgönguaðferðina (án þess þó að ganga út). Á morg­un verða kosn­ing­ar í Svíþjóð. Þá mun flokk­ur sænskra sósí­al­demó­krata fá verstu út­reið sína í 110 ár eða frá því að flokk­ur­inn var að mót­ast í byrj­un 20. ald­ar. Svíþjóðardemó­krat­ar munu hins veg­ar vinna sig­ur sem hefði verið tal­inn óhugs­andi fyr­ir nokkr­um árum.

Það er mik­il­vægt að stjórn­mál fari aft­ur að snú­ast um staðreynd­ir og lausn­ir. Það er besta leiðin til að bæta sam­fé­lög­in og besta leiðin til að hjálpa fólki í neyð. Sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál snú­ast ekki um neitt nema sjálfs­mynd þeirra sem þau stunda.