Sjálfsmyndarstjórnmál
Í staðinn kemur það sem ég hef kallað stimpilstjórnmál og hefur nú verið þýtt á íslensku sem sjálfsmyndarstjórnmál (e. identity politics). Slík stjórnmál ganga út á að skilgreina alla fyrst og fremst sem hluta af tilteknum hópum fremur en sem einstaklinga. Réttur manna er svo mismikill eftir því hvaða hópum þeir tilheyra.Slíkum viðskilnaði við raunveruleikann fylgja óhjákvæmilega verulegar takmarkanir á tjáningarfrelsi og sú hugmynd að nauðsynlegt sé að þagga niður í þeim sem ekki tilheyra réttum hópi eða jafnvel útskúfa þá.
Eins og í allri öfgapólitík, sama hvaða nöfnum hún nefnist, myndast svo tilhneiging til að þrengja mörk hins leyfilega og leita sífellt nýrra hluta til að fordæma og fleiri fórnarlamba. Hinir áköfustu leggja sig alla fram við að sýna að þeir séu sannir í trúnni, haldi sig innan markanna og vilji helst þrengja þau. Þ.e. séu betri en aðrir.
Hofmóðugleikarnir
Þetta getur skapað mikla samkeppni milli póstmódernistanna. Þannig varð t.d. merkileg uppákoma í sumar þegar forseti danska þingsins kom til landsins sem fulltrúi þings síns og þjóðar til að sýna Íslendingum virðingu í tilefni fullveldishátíðar. Þingmenn Pírata ákváðu á síðustu stundu að sniðganga fullveldisfundinn til að geta sniðgengið danska þingforsetann. Þeir höfðu að vísu áður samþykkt komu gestsins en sögðu það hafa verið vegna þess að þeir vissu ekki hvaða kona þetta væri. Þegar einhver uppgötvaði svo hvaða stimpil hún hefði tók ekki langan tíma að fordæma hinn óþekkta gest.Nú voru góð ráð dýr hjá keppinautunum. Hópur þingmanna límdi á sig miða fyrir fundinn þar sem fram kom að þeir væru ekki rasistar. Þó hafði enginn sakað þá um þann ófögnuð.
Viðbrögð nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar vöktu þó mesta athygli. Formaður flokksins varði stórum hluta hátíðarræðu sinnar í að skammast yfir kynþáttahyggju á skandinavísku og annar þingmaður mætti (ítrekað) til þess eins að geta látið sjá sig ganga út.
Líklega má segja að í þessari umferð hofmóðugleikanna endalausu hafi Samfylkingin haft sigur. Þingmenn flokksins fylgdu því svo eftir með skrifum í dönsk blöð til að útskýra lífið og tilveruna fyrir þarlendum. Þetta kom mörgum Dönum á óvart enda töldu þeir að Danmörk hefði fengið sjálfstæði frá Íslandi um leið og Ísland varð sjálfstætt frá Danmörku.
Ekki hvað þú gerir heldur hver þú ert
Það sérkennilegasta við framgöngu Samfylkingarþingmanna var hins vegar að þeir skyldu sjá ástæðu til að útskúfa forseta danska þingsins vegna þess að viðkomandi hefði talað fyrir tiltekinni stefnu í innflytjendamálum á sama tíma og danskir sósíaldemókratar (DS) hafa tekið upp stefnu sem gefur stefnu þingforsetans ekkert eftir.Danskir jafnaðarmenn, undir forystu Mette Fredriksen, hafa leitast við að færa sig frá póstmódernismanum sem leikið hefur margan krataflokkinn grátt. Á sviði innflytjendamála fóru flokksmenn að velta fyrir sér hverjar væru staðreyndir málsins og hvernig væri raunverulega hægt að gera mest gagn. Það átti alla vega að vera markmiðið hvað sem mönnum kann að þykja um stefnuna.
Áhugaverð þróun
Peter Nedergaard, stjórnmálafræðiprófessor við Kaupmannahafnarháskóla, segir stefnubreytinguna afar merkilega og verðskulda alþjóðaathygli. Hann telur ástæður hennar margþættar. Í fyrsta lagi grundvallist hún á því að DS líti á sig sem helstu varðmenn velferðarríkisins og að eins og ýmsir fræðimenn hafi bent á sé grundvallar þversögn í opinni innflytjendastefnu og rekstri velferðarsamfélags. Forysta DS sé nú alfarið þeirrar skoðunar að velferðarríki hafi ekki efni á öðru en strangri innflytjendastefnu.Í öðru lagi telur Nedergaard að afstöðubreytingin eigi sér sögulegar skýringar. Mattias Tesfaye, ein af forystumönnum DS í danska þinginu, gaf nýverið út bók um sögu innflytjendamála í flokknum. Tesfaye er múrari af eþíópískum ættum. Í bókinni „Welcome Mustafa“ skýrir hann að sögulega séð hafi grasrót DS verið fylgjandi strangri innflytjendalöggjöf en að um 1980 hafi flokksforystan farið að fylgja stefnu sem mótuð var af hópi vinstrisinnaðra háskólamanna fremur en vilja almennra flokksmanna. Það ástand hafi illu heilli varað í hátt í 40 ár og á þeim tíma hafi verið þaggað niður í forystufólki í flokknum úr verkalýðsarminum í umræðu um stefnuna. Að mati Nedergaards er niðurstaða bókarinnar sú að mjög opin stefna í innflytjendamálum og sönn jafnaðarmennska séu eins og eldur og vatn.
Loks telur prófessorinn að löngun flokksins til að lifa af hafi haft sín áhrif. Fyrir vikið sé stuðningur við opna (d. liberal) innflytjendastefnu horfinn í DS og finnist nú aðeins í flokkunum vinstra megin við hann.
Staðan nú
Í ljósi uppákomunnar á Íslandi hefur verið áhugavert að fylgjast með dönskum stjórnmálum að undanförnu. DS hefur nú slitið samstarfi við Radikale venstre vegna ágreinings í innflytjendamálum. Það er eftir því tekið hversu gott samband er milli forystumanna Danska þjóðarflokksins (sem ver minnihlutastjórn mið- og hægriflokka) og Sósíaldemókrata (sem eru í stjórnarandstöðu) og formaður DS segist til í að mynda ríkisstjórn með stuðningi DÞ. Það er breyting frá því sem áður var þegar leiðtogar DS reyndu að einangra DÞ og sniðganga þá (þótt þeir hafi ekki gengið út undir ræðum þeirra).Í Svíþjóð hefur svipuð aðferð verið reynd gagnvart Svíþjóðardemókrötum. Í stað þess að takast á við flokkinn og setja fram betri rök og stefnu reyndu menn sniðgönguaðferðina (án þess þó að ganga út). Á morgun verða kosningar í Svíþjóð. Þá mun flokkur sænskra sósíaldemókrata fá verstu útreið sína í 110 ár eða frá því að flokkurinn var að mótast í byrjun 20. aldar. Svíþjóðardemókratar munu hins vegar vinna sigur sem hefði verið talinn óhugsandi fyrir nokkrum árum.
Það er mikilvægt að stjórnmál fari aftur að snúast um staðreyndir og lausnir. Það er besta leiðin til að bæta samfélögin og besta leiðin til að hjálpa fólki í neyð. Sjálfsmyndarstjórnmál snúast ekki um neitt nema sjálfsmynd þeirra sem þau stunda.