NÝR Landspítali

Ef það er möguleiki á að byggja nýjan flottan Landspítala þar sem allt er glænýtt og í samræmi við þarfir nútímaheilbrigðisþjónustu, hafa hann á góðum stað í fallegu umhverfi, skipuleggja spítalann þannig að hann virki sem öflug heild og gera þetta allt hraðar, hagkvæmar og betur en áður var talið. Er þá ekki rétt að skoða það?

Bæjarstjóri Garðabæjar lýsti því yfir með afdráttarlausum hætti, í viðtali við Morgunblaðið, að bærinn væri reiðubúinn í samstarf við stjórnvöld um byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Bæjaryfirvöld í Garðabæ eru tilbúin til að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt þ.a. það geti gengið hratt og vel fyrir sig. Mér finnst ekki hægt að líta framhjá þessum kosti nú þegar bæjarstjórinn hefur stigið fram með þeim hætti sem hann gerði.

mynd 1

STAÐA MÁLSINS

Það hefur ekki verið samstaða um málið á Alþingi. Þingsályktunartillögu um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut var breytt í tillögu um að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði spítalans við Hringbraut. Einungis þannig náðist samstaða um tillöguna. Það var enda í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar en í stjórnarsáttmálanum er því haldið opnu að menn skoði hver besta framtíðarlausnin sé en um leið lögð áhersla á mikilvægi þess að ráðast í úrbætur á núverandi húsnæði. Þar segir: „Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.“

Á undanförnum árum hef ég oft lýst þeirri skoðun að ég teldi æskilegt að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut. Ýmsar breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum hafa verið til þess fallnar að auka kosti þess að endurskoða áform um staðsetningu spítalans. Ég hef hins vegar haft þá stefnu, og lýst því yfir opinberlega, að gera ekkert sem leitt gæti til tafa á nauðsynlegum úrbótum við Hringbraut og jafnframt ekki viljað tefja framtíðaruppbyggingu á nokkurn hátt.

Ég hef því stutt og talað fyrir öllum áformum um auknar fjárveitingar til spítalans og jafnvel  hönnunarvinnu nýframkvæmda. Nauðsynleg frumhönnun nýtist að mestu leyti óháð staðsetningu en getur um leið verið til þess fallin að draga betur fram kosti og galla þeirra áforma sem unnið er út frá og um leið staðsetningar.

Það er mikil og dýr hönnunarvinna framundan. Hún mun taka nokkur ár. Við erum nú stödd á tímapunkti þar sem okkur hefur tekist að endurreisa efnahag landsins og erum fyrir vikið að verða í stakk búin til að ráðast í hið langþráða stórvirki að byggja nýjan Landspítala. Í nýjustu áætlunum er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 2019 en unnið verði að hönnun fram að því. Eftir því sem nær dregur framkvæmdum verður hönnunarvinnan hins vegar sérhæfðari og háðari staðsetningu og endanlegu útliti.

Nú er því rétti tíminn til að ræða hvort aðrir kostir kunni að vera betri en Hringbraut miðað við núverandi aðstæður, það sem hefur breyst og það sem við höfum lært á síðustu fimmtán árum.

Með því er ekki verið að gera lítið úr vinnu þess fólks sem haldið hefur utan um verkefnið til þessa, unnið marga áfangasigra og þokað því áfram. Sú vinna verður forsenda byggingar hins nýja spítala hvort sem hann rís við Hringbraut eða annars staðar. Skipulag og byggingaráform hafa enda oft breyst frá því að fyrst var tekin ákvörðun um spítalan. Samt vindur verkefninu fram. Það eina sem enn er óbreytt er staðsetningin en það hlýtur að vera eðlilegt að meta þann þátt eins og alla hina um leið og við nýtum þá þekkingu sem byggst hefur upp og lögum okkur að þróuninni.

mynd 2

mynd 3

MÖGULEG STAÐSETNING

Ég hef nefnt nokkra staði sem gætu hentað vel fyrir nýjan Landspítala og það hafa margir aðrir gert líka.

Land Keldna hentar mjög vel með tilliti til umhverfis, samgangna, þróunarmöguleika osfrv. Nefndir hafa verið staðir umhverfis Elliðaárvog sem hafa ýmsa kosti. Margir hafa fært rök fyrir því að best væri að byggja upp umhverfis Borgarspítalann en þar hefur lóðum verið ráðstafað í ýmislegt annað á undanförnum árum þótt uppbygging þar sé ekki útilokuð. Loks bendi ég á Víðidal sem er staðsetning sem myndi henta afburða vel með tilliti til samgönguæða. -Land á jaðri Höfuðborgarsvæðisins en samt í því miðju og tengt því í allar áttir en um leið tengt akstursleiðinum til og frá Reykjavík og í nálægð við fallega náttúru.

Fleiri staðir hafa verið nefndir og einn alveg sérstaklega: Vífilsstaðir.

Aðrir staðir sem ég taldi upp eiga það allir sammerkt að vera í landi Reykjavíkur og borgaryfirvöld hafa lagst þvert gegn öllum tilraunum til að endurskoða staðsetningu spítalans innan borgarinnar. Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa hins vegar lýst sig fús til samstarfs um byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði.

Að mínu mati ber stjórnvöldum að bregðast við þessu tilboði Garðabæjar, taka því fagnandi og skoða hvort ekki sé best, í ljósi allra aðstæðna að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur.

Berum saman valkostina og lítum um leið á hvað hefur komið í ljós á síðustu árum.

 

HRINGBRAUT

Húsakostur Landspítalans virðist vera í miklu verra ástandi og henta mun verr en ráð var fyrir gert þegar forsendur staðarvals byggðust á því að mikilvægt væri að nýta gamla húsnæðið. Varla líður sú vika að ekki séu sagðar fréttir af myglu, maurum, músum eða öðrum plágum sem herja á spítalann. Svo ekki sé minnst á hvað húsnæðið er allt orðið lélegt og óhentugt.  Af fréttum að dæma virðist vandfundin sú starfsemi sem hentar jafnilla í núverandi húsnæði Landspítalans við Hringbraut og sjúkrahúsrekstur.

Ljóst er að ef byggt yrði við Landspítalann við Hringbraut þýddi það að sjúklingar, gestir þeirra og starfsmenn spítalans myndu búa við viðvarandi hávaða og annað rask árum saman. Endalus og ærandi högg frá loftpressum að fleyga berg, sprengingar, sundurgrafnar lóðir og aðrar truflanir.

Árum saman væru tómir og hlaðnir vörubílar og steypubílar á ferð til og frá miðbæ Reykjavíkur og á milli húsa Landspítalans og stórvirkar vinuvélar að störfum, gröfur, ýtur og kranar. Hávaði og ryk myndu einkenna lífið á Landspítalanum.

Það þyrfti að endurnýja nánast allt núverandi húsnæði spítalans með endalausu raski og tilfæringum. Svo þyrfti að tengja þetta allt innbyrðis og við nýbyggingar spítalans. Ekki er gott að meta hvernig tækist til við að fá þetta allt til að vinna saman en ekki yrði það einfalt og ekki yrði það ódýrt. Útilokað er að það myndi nokkurn tímann virka jafnvel og húsnæði sem væri hannað og byggt sem heild með tilliti til nútíma þarfa.

Mikið hefur verið fjallað um hversu illa staðsetningin við Hringbraut hentar út frá umferðartengingum við restina af höfuðborgarsvæðinu og landinu. Ég læt vera að fara út í miklar útlistanir á því hér en öllum má vera ljóst hversu óhentugt það er í þessu tilliti að byggja spítalann utarlega á nesi þar sem burðargeta umferðaræða er löngu sprungin og byggðin heldur áfram að þróast í aðrar áttir.

Það er ómögulegt að segja til um hversu marga áratugi í viðbót bútasaumsaðferðin við Hringbraut myndi taka. Minna má á að Læknagarður sem byggður var sem áfangi í áformaðri uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut hefur staðið ókláraður í nærri 40 ár þótt við og við hafi verið uppi áform um að halda áfram þar sem frá var horfið.

mynd 4

mynd 5

 

Frumhönnun fyrirhugaðra framkvæmda við Hringbraut gefur ekki tilefni til bjartsýni um að þar verði aðlaðandi byggð. Þar er gert fyrir þéttum röðum stórra grárra kassa. Menn geta ímyndað sér hversu uppörvandi það er fyrir sjúklinga starfsfólk og gesti spítala að vera umkringdir röðum grárra kassa og ganga um vindgöngin (göturnar) sem liggja á milli þeirra.

mynd 6

mynd15mynd 7

VÍFILSSTAÐIR

Á Vífilsstöðum væri hægt að hanna nýjan glæsilegan spítala frá grunni. Allt fyrsta flokks í samræmi við möguleika og þarfir samtímans. Enginn fjáraustur í að reyna að gera við hálfónýta hluti, tjasla því saman sem ekki passar saman og laga óhentugar byggingar að heilbrigðisþjónustu 21. aldar. Allt hannað sem ein heild sem vinnur eins og vél um leið og hugað er að mannlega þættinum, því að fólki líði vel í umhverfinu og það sé til þess fallið að lyfta andanum og stuðla að betri andlegri og líkamlegri líðan sjúkling, gesta og starfsfólks.

Það væri hægt að fara á fullt í skipulags- og hönnunarvinnu í þeirri vissu að verkefnið gæti farið á fullan skrið strax að þeirri vinnu lokinni. Engin þörf á að reyna að stilla framkvæmdir af m.v. umferð á mestu umferðargötum landsins. Óþarfi að bíða með borinn eða dýnamítið þangað til búið er að klára vandasamar skurðaðgerðir í næsta húsi. Lágmarks truflun af framkvæmdunum.

Hægkvæmni þess að fara í eitt stórt verkefni þar sem allt passar saman er ótvíræð, hvort sem litið er til byggingarkostnaðar eða hagræðisins af því að reka slíka einingu samanborið við safn ólíkra húsa frá 100 ára tímabili (þar sem þau elstu eru þó ekki síst).

Á meðan á framkvæmdum stendur heldur starfsemi Landspítalans við Hringbraut áfram ótrufluð. Þegar framkvæmdum er lokið eða a.m.k. búið að innrétta einhverjar álmur spítalans er byrjað að flytja starfsemina yfir í nýja húsnæðið ásamt þeim tækjum sem ekki fara á haugana eða lækningaminjasafn. Húsnæðið við Hringbraut er svo loks afhent nýjum eigendum og því breytt til að laga það að nýju hlutverki. Endurnýjun gömlu húsanna getur þá farið fram á sama tíma og framkvæmt er á óbyggðu lóðunum.

Byggð yrði ný aðstaða fyrir nám á heilbrigðissviði samhliða annarri uppbyggingu á Vífilsstöðum. Einnig mætti hugsa sér að Háskólinn fengi hið gamla virðulega hús Vífilsstaðaspítala til umráða. Það væri myndarleg háskólabygging.

Eftir fáein ár stæði glæsilegur fullbúinn spítali í einstaklega fallegu umhverfi á Vífilsstöðum þar sem fólki liði vel að koma. Það þyrfti enginn að kvíða fyrir að fara á Vífilsstaði vegna erfiðleikanna við að komast þangað, leggja bílnum á sjöttu hæð í bílastæðahúsi og ganga svo inn í grá húsagöng. Á Vífilsstöðum væri nægt andrými, starfsmenn og námsfólk gæti stundað hreyfingu og útivist í fallegri náttúru í kringum spítalann og sjúklingar á batavegi rölt með gestum sínum um Vífilsstaðagarðinn.

mynd 8

FJÁRHAGSLEGAR FORSENDUR

Staða ríkissjóðs hefur verið stórbætt á undanförnum árum. Það gerðist með því að það tókst að hætta skuldasöfnun, gera upp slitabúin, yfirtaka bankana og stórlækka vaxtabyrði ríkisins. Þetta þýðir að aðstæður til að ráðast í stórframkvæmdir eru mun betri en áður. En fleira mun vinna með okkur ef spítalinn verður byggður á nýjum stað.

Verðmæti fasteigna og lóða í miðbæ Reykjavíkur hefur hækkað gríðarlega frá því að síðast var lagt mat á staðsetningu spítalans. Með því að selja húsnæði og lóðir gætu ríki og borg náð tugmilljarða tekjum. Þessar tekjur gæti ríkissjóður nýtt til að standa straum af umtalsverðum hluta byggingarkostnaðar nýs spítala.

Þegar ákvörðun hefði verið tekin um framkvæmdir á Vífilsstöðum væri hægt að selja húsnæði og lóðir og nýta fjármagnið strax til að flýta framkvæmdum á nýjum stað þótt spítalinn flytti ekki strax úr húsnæðinu. Einnig gæti ríkið veitt öðru fjármagni, t.d. arði úr bönkunum í spítalabygginguna þar til tekjur af sölu eigna við Hringbraut skiluðu sér. Aðrar leiðir eru líka færar til að brúa bilið. Hvaða leið sem farin yrði myndu tugir milljarða skila sér í ríkissjóð við það að færa spítalann. Peningar sem ekki yrðu til ella. Peningar sem nýta mætti í aðra innviðauppbyggingu, ekki hvað síst á landsbyggðinni.

 

SPÍTALINN

mynd 9

Í Hilleröd á Norður Sjálandi er stórt sjúkrahús sem samanstendur af mörgum misaðlaðandi húsum sem byggð voru á löngu tímabili. Nú stendur til að byggja nýjan spítala fyrir Norður Sjáland í Hilleröd. Þótt gamli spítalinn sé ekki inni í gamla bænum var ákveðið að byggja nýja spítalann annars staðar.

Nýi spítalinn verður byggður utan við bæinn í nálægð við náttúruna og mikilvægar samgönguæðar. Spítalinn á myndinni hér að ofan (og öðrum myndum ofar) var hannaður af C.F. Möller. Hann er 124.000 fermetrar og átta hæðir þótt það beri ekki á því vegna þess hvernig hann er byggður inn í landslagið. Áætlaður byggingarkostnaður er 3,8 milljarðar danskra króna eða um 76 milljarðar íslenskra króna. Þessi hönnun komst nálægt því að verða fyrir valinu en að lokum varð önnur arkitektastofa hlutskarpari. Teikningarnar gefa góða mynd af því hvernig spítala væri hægt að byggja við Vífilsstaði. Það væri meira að segja hægt að nýta hönnun C.F. Möller

mynd 10

HIÐ NÝJA HRINGBRAUTARSVÆÐI OG MIÐBORGIN

Gömlu Landspítalabyggingarnar yrðu ýmist rifnar og nýjar byggðar í staðinn eða teknar í gegn og breytt í hótel, skrifstofur, íbúðir osfrv. Gamla Landspítalabyggingin auk viðbygginga myndi henta vel sem glæsihótel. Sjúkrahótelið sem verið er að byggja gæti orðið að stúdentaíbúðum (eða verið sjúkrahótel áfram) og Barnaspítali Hringsins sem er mjög gott húsnæði geti hýst heilbrigðisþjónustu áfram. Þannig fengist blönduð byggð, íbúðir, skrifstofur og þjónusta í miðbænum án þess að það þurfi að rústa gamla bænum til að troða þar inn hótelum og íbúðum á kostnað nágranna og menningarlegs gildis bæjarins. Í þessu fælust mikil tækifæri fyrir borgina.

 

VALIÐ

Það er því hugsanlegt að valið standi á milli eftirfarandi kosta:

1. Áframhaldandi óljós, hægvirkur og óhagkvæmur bútasaumur við Hringbraut. Endalaus barátta við alkalískemmdir, myglu, gamalt lagnakerfi og úrelta tækni í tugum bygginga og við að tengja það gamla við nýbyggingar til að láta allt virka sem heild. Rannsóknarstörf, kennsla, aðgerðir, sjúkrahússlega veiks fólks og aðrar lækningar færu fram á meðan loftborarnir hamast fyrir utan og grjótinu er mokað í vörubíla. Eftir stendur svo þyrping ólíkra gamalla kassa og nýrra stærri grárra kassa. Þyrping sem stendur utarlega á nesi sem tengt er restinni af höfuðborgarsvæðinu með götum þar sem umferðarteppur eru regla fremur en undantekning.

2. Glænýr heildstæður hátæknispítali, hannaður til að virka sem ein heild og veita umgjörð um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Fallegt hús að innan sem utan á jaðri byggðarinnar, umkringt dásamlegri náttúru og útivistarsvæðum. Húsið mætti byggja hratt með lágmarkstruflun á framkvæmdum og lágmarkstruflun fyrir borgarbúa og fjármagna verkefnið að miklu leyti með sölu á eignum við Hringbraut. Eignum sem ganga svo í endurnýjun lífdaga með nýtingu sem hentar svæðinu og styrkja og vernda miðborgina.

mynd 11

Væri ekki óábyrgt að velta þessu ekki fyrir sér á þessum tímapunkti, nú þegar ljóst er að Vífilsstaðaleiðin er fær? Það eru varla rök í málinu að búið sé að eyða hundruðum milljóna í að undirbúa mistök og þess vegna þurfi að klára að gera mistökin.

Sunnan við Vífilsstaðatúnin er lítil mýri sem heitir Vatnsmýri. Mér sýnist allt benda til að rétt sé að byggja nýjan spítala við Vatnsmýri en það sé gríðarlega mikilvægt að það sé rétta Vatnsmýrin.