Stjórnmálaátök samtímans einkennast oft af því að „farið sé í manninn“ fremur en málefnið. Mér er nokkuð sama hvernig hjólað er í mig. Ég er ýmsu vanur í pólitískri umræðu. En menn hljóta að geta fallist á að það sé með öllu ólíðandi að ráðist sé á ættingja eða maka stjórnmálamanna til þess eins að koma á þá höggi. Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hafa engu að síður verið gerðar margar tilraunir til að gera eignir eiginkonu minnar og ættingja tortryggilegar í von um að með því megi koma höggi á mig.
Ég hef haft það prinsipp að ræða ekki málefni eiginkonu minnar eða ættingja hennar í fjölmiðlum og hyggst halda mig við það nema grundvallarbreyting verði á íslenskum stjórnmálum. Sú breyting að eðlilegt eða æskilegt verði talið að málefni maka og fjölskyldna stjórnmálamanna séu til umræðu í tengslum við störf þeirra. Verði sú raunin mætti spyrja margra spurninga um maka stjórnmálamanna allt frá eignum að vinnu fyrir stjórnvöld á liðnum árum.
En þegar menn leggjast svo lágt að velta því upp hvort kona mín eigi ekki að teljast til hrægamma fyrir að hafa tapað peningum á bankahruninu get ég ekki látið það óátalið. Enginn á slíkar ákúrur síður skilið en hún.
Ef það er eitthvað sem einkennir eiginkonu mína umfram annað er það fórnfýsi og heiðarleiki. Frá því við kynntumst hef ég sagt henni að hún sé of fórnfús og of upptekin af erfiðleikum annarra. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af mörgu í veröldinni og samfélagi okkar og vilja láta gott af sér leiða. Það er hins vegar ekki hollt að vera alltaf með hugann við vandamál og líða stöðugt fyrir erfiðleika annarra.
Eiginkona mín hefur líka fórnað miklu fyrir mig og gerir enn. Hún hætti vinnu sinni á Íslandi til að fylgja mér til útlanda í nám. Síðar fékk hún, sem er mannfræðingur, inngöngu í framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Ég sagði henni að nú væri komið að því að ég fylgdi henni og hjálpaði. Á meðan við vorum að leita að íbúð í Kaupmannahöfn reið hrunið yfir. Þar með komumst við sameiginlega að þeirri niðurstöðu að áformin væru úr sögunni og hún fylgdi mér heim til að takast á við aðstæður á Íslandi.
Hér heima blandaði ég mér strax í umræðuna um hrunið og nauðsyn þess að gera tilteknar ráðstafanir til að gæta almannahagsmuna. Ég sagði Önnu Stellu að hún ætti ekki að gera ráð fyrir miklum endurheimtum af því fjármagni sem hún hefði lánað bönkunum. Nauðsynlegt hefði verið að forgangsraða innistæðum á undan skuldabréfum en að ef eindurreisa ætti samfélagið myndi þurfa að ganga lengra.
Ég sagði henni að ég myndi berjast fyrir því að engar kröfur yrðu settar á íslenskan almenning og að hagsmunir samfélagsins yrði hámarkaðir á kostnað þeirra sem ættu inni peninga hjá bönkunum. Eina leiðin til að endurreisa samfélagið væri að afskrifa mikið af kröfum á bankana og það myndi þýða að margir sem þegar hefðu tapað miklu á gjaldþroti þeirra myndu tapa enn meiru. Ég man enn hvað viðbrögð hennar voru einlæg og afdráttarlaus. Hún sagði mér að ef það mætti verða til að draga úr þeim ótta og þjáningum sem við blöstu á Íslandi ætti það að vera markmiðið að afskrifa sem allra mest af kröfum á bankana.
Einhverjum kann að koma þetta á óvart en ég veit að þetta kemur engum sem þekkir Önnu Stellu Pálsdóttur á óvart. Alla tíð síðan hefur hún verið helsti hvatamaður minn í því að lágmarka tjón samfélagsins okkar. Enginn hefur rekið mig harðar áfram í því. Það er ekki skemmtilegt hlutverk að vera maki stjórnmálamanns en hún hefur stutt mig alla leið í baráttu sem oft hefur verið erfið. Það gerir hún óhikað vegna þess að hún telur það mikilvægt fyrir aðra en sjálfa sig.
Skömmu eftir hrunið benti ég á að ríkið ætti að eignast kröfurnar á bankana á meðan þær væru einskis metnar. Sú varð ekki raunin. Hins vegar keyptu erlendir vogunarsjóðir slíkar kröfur af miklum móð með það að markmiði að hagnast á þeim þegar verð hækkaði. Megnið af kröfum á bankana voru keyptar upp af slíkum sjóðum. Sumir kalla þessa sjóði hrægammasjóði vegna þess að þeir ganga út á að hagnast á óförum annarra. Kona mín keypti hins vegar aldrei kröfur eftir hrun, þvert á móti, hún tapaði á því sem hún lánaði bönkunum fyrir hrun.
Þegar jafnvel þeir sem hafa verið skæðustu andstæðingar mínir í baráttunni fyrir því að tryggja að tap fjármálafyrirtækja færðist ekki yfir á íslenskan almenning finna sig svo í því að stökkva fram nú og reyna að ná höggi á mig með því að ráðast á konu mína læt ég það ekki gerast athugasemdalaust.
Ég skal viðurkenna að það hvarflaði að mér í kosningabaráttunni árið 2013 að ræða um að ég væri að berjast fyrir því að tekin yrði upp stefna sem myndi auka á tap eiginkonu minnar af bankahruninu. Að athuguðu máli sá ég að það væri ekki forsvaranlegt og skammaðist mín reyndar fyrir að hafa látið mér detta í hug að nota fjárhagslegt tap eiginkonu minnar í pólitískri baráttu.
En nú þegar fjármál eiginkonu minnar hafa verið gerð að opinberu umræðuefni finnst mér rétt að gera grein fyrir þessu. Um leið bendi ég á að þessi umræða hefur einkum leitt tvennt í ljós. Í fyrsta lagi þá staðreynd að konan mín hefur greitt alla skatta af eignum sínum og ekki nýtt tækifæri til að fela nokkurn hlut. Reyndar hefur hún ekki einu sinni nýtt heimildir laga til að fresta skattgreiðslum. Í öðru lagi að hún hefur í eigin fjármálum eins og öðru tekið hagsmuni annarra fram yfir sína eigin.
Og varðandi hrægamma: Hrægammar eru þeir sem koma aðvífandi og reyna að gera sér mat úr ógæfu annarra og kroppa þá inn að beini. Hvað er þá andstæða hrægamma? Það eru þeir sem tapa en eru samt til í að fórna meiru sjálfir í þágu annarra.
Vonandi skilja þeir sem þetta lesa hvers vegna mér þykir lítið til þeirra koma sem kenna konu mína við hrægamma.