Fjármálaráðherra stofnaði í fyrra tvö fjármálafyrirtæki til að taka við rekstri Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs eftir að kröfuhafar höfnuðu tillögum um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna. Það var gert án aðkomu Alþingis og í krafti laga sem sett voru haustið 2008 til að bregðast við þeim aðstæðum sem þá ríktu á fjármálamarkaði og átti að endurskoða fyrir lok árs 2009.
Fjármálaráðuneytið tók þá að sér að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðanna. Í mars á þessu ári yfirtók svo ríkisbankinn, Landsbankinn, SpKef undir handleiðslu fjármálaráðherra.
Nú hefur komið í ljós að staða SpKef var mun verri en áætlað var þegar bankinn var sameinaður Landsbankanum. Eigið fé bankans var þá sagt neikvætt um 11,4 milljarða króna en er nú talið neikvætt um 30 milljarða þ.a. bæta þurfi 38 milljörðum í bankann til að hann uppfylli skilyrði um eiginfjárhlutfall. Ljóst virðist að sækja þurfi það fjármagn til skattgreiðenda eða frá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum með því að nýta afskriftasvigrúm Landsbankans.
Á sama tíma fæst fjármálaráðherra ekki til að veita upplýsingar um söluna á Byr til Íslandsbanka, ekki einu sinni kaupverðið og kostnað ríkisins, hvað þá annað.
Jafnframt er mörgum spurningum ósvarað um tap ríkisins af inngripum í önnur fjármála- og tryggingafyrirtæki.
Alþingi var sniðgengið við stofnun nýju bankanna og við það gerð mistök sem varað hafði verið við, m.a. varðandi möguleikann á framkvæmd skuldaleiðréttingar, yfirtöku myntkörfulána og það hvernig staðið var að skiptingu í nýja og gamla banka.
Óvissan um rekstur bankanna og ríkisstuðning er óþolandi og á sama tíma gengur úrlausn skuldamála almennings og fyrirtækja allt of hægt.
Nú verður Alþingi að koma að þessum málum og fjármálaráðherra að gera grein fyrir stöðu þeirra og stefnu ríkisstjórnarinnar í framhaldinu. Það verður að gefa þinginu tækifæri til að rækja eftirlits- og stefnumótunarhlutverk sitt.
Þessu til viðbótar hafa komið upp stór, og raunar heimssöguleg, utanríkismál sem brýnt er að fjalla um á Alþingi en utanríkismálanefnd þingsins hefur enn ekki verið kölluð saman þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar um og þrátt fyrir 24. grein þingskapa þar sem segir: ,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.”
Auk þess gleymdu stjórnvöld að afgreiða nokkur aðkallandi mál fyrir lok þingstarfa í sumar eins og fram hefur komið í fréttum. Það er því full ástæða til að þingið komi saman sem fyrst.