Síðastliðið ár hefur verið gert hlé á ýmsu því sem áður taldist til almennra mannréttinda vegna veirufaraldurs. Það var talið nauðsynlegt. En á sama tíma leggur ríkisstjórnin nú fram sérstakt frumvarp um lögleiðingu annars faraldurs sem er ekki síður hættulegur. Það er frumvarp um lögleiðingu fíkniefna. Verði frumvarpið samþykkt verður Ísland í sérflokki á heimsvísu hvað varðar leyfi frá ríkinu til að fara með og neyta eiturlyfja.
Málið er hið nýjasta frá ríkisstjórninni úr flokki „nýaldarstjórnmála“. Í slíkum stjórnmálum eru hlutir jafnan endurskírðir á þann hátt sem best var lýst í skáldsögum Orwells. Enda snýst allt um umbúðirnar. Fyrir vikið tala stjórnvöld nú ekki um lögleiðingu fíkniefna. Þess í stað hafa þau tekið upp orðskrípið „af-glæpa-væðing“.
Raunveruleikinn
Raunin er hins vegar sú að hér er um að ræða einhverja róttækustu lögleiðingu fíkniefna sem fyrirfinnst. Talsmenn lögleiðingar hafa vísað til þess að baráttan við eiturlyf hafi ekki unnist þrátt fyrir langa baráttu og því sé baráttan tilgangslaus.
Þessi „rök“ hafa alltaf verið sérkennileg í því ljósi að frá fornu fari þekkjum við mennirnir ótal viðfangsefni þar sem endanlegur sigur mun aldrei vinnast en þó augljóst að ekki megi hætta baráttunni gegn hinu illa. Sjúkdómar eru nærtækt dæmi. Þeim verður seint útrýmt en það þýðir ekki að við eigum að hætta að berjast gegn þeim. Það sama má segja um glæpi.
Aðdragandinn
Eftir áratuga umræðu hafa stjórnvöld á nokkrum stöðum lögleitt fíkniefni í mismiklum mæli. Jafnan eru þetta stjórnvöld sem aðhyllast nýaldarpólitíkina. En nú ætlar ríkisstjórn Íslands að ganga lengra en flestir eða allir aðrir eftir mjög litla umræðu og í skjóli heimsfaraldurs.
Frumvarp ríkisstjórnarinnar er upprunið hjá pírötum eins og heilbrigðisráðherra játar og píratarnir þreytast ekki á að minna á. Það er því svo komið að ríkisstjórn Vg, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur tekið að sér að innleiða stefnu sem píratar geta kynnt sem alheimsmet á næsta heimsþingi anarkista.
Með leyfi ríkisins
Með því að banna eiturlyf senda stjórnvöld skilaboð um að þau séu hættuleg. Það að eitthvað sé ólöglegt er sterk hindrun.
Með lögleiðingu fíkniefna eru stjórnvöld í raun að gefa leyfi til að prófa. Í ótal samkvæmum á námsárunum og á ólíkum vinnustöðum varð ég aldrei var við eiturlyf. Eflaust voru þau stundum skammt undan en fólk var ekki að flíka þeim vegna þess að þau voru ólögleg.
Því væri öðruvísi farið ef ríkisvaldið legði blessun sína yfir meðferð „neysluskammta“. Eftir það munu ungmenni ekki hika við að mæta með slík efni í samkvæmi enda gera þau það með leyfi stjórnvalda. Það verður þá freisting fyrir aðra að prófa og jafnvel erfitt að fylgja ekki ef vinirnir gera það. Það verður aukin hætta á „smiti“ í hverju bekkjarpartíi („hvað er‘idda maður, þetta er löglegt“). Fjöldi fólks sem ella hefði ekki komist í tæri við slíka freistingu eða hópþrýsting mun eiga á hættu að komast í kynni við fíkniefni og margir ánetjast þeim.
Hvað er neysluskammtur?
Allir sem hafa orðið fíklar hafa byrjað á einum skammti. En hvað á ríkisstjórnin við þegar hún talar um neysluskammta? Hún virðist ekki vita það sjálf því samkvæmt frumvarpinu á að fela ráðherra að skilgreina það síðar í reglugerð. Það er með öðrum orðum verið að fara fram á að þingmenn samþykki eitthvað sem hvorki þeir né ríkisstjórnin vita hvað er. Í umræðu um frumvarpið kom fram að ráðherrann sem flytur málið veit ekki sjálfur hvað neysluskammtur er. Það stendur víst til að komast að því meðal annars með samtölum við fíkniefnaneytendur. En neysluskammtur eins getur verið banabiti annars. Þekkt eru dæmi um að ungmenni hafi látist eftir að hafa reynt eiturlyf í fyrsta skipti.
Hvað gerist þegar einhver deyr af „ráðlögðum neysluskammti“ samkvæmt reglugerð ráðherra? Hver verður ábyrgð stjórnvalda þá?
Svo bætist það við að í raun er ekki bara um einn neysluskammt að ræða. Ráðherrann skýrði það í umræðunni að e.t.v. mætti miða við að 10 daga birgðir væru neysluskammtur og óheimilt verður að gera fíkniefni upptæk hjá 18 ára og eldri ef þau eru „til eigin neyslu“.
Þannig verður komin upp sú staða að lögreglan getur tekið bjórdós af 18 ára ungmenni en ef sami einstaklingur er með 10 poka af kókaíni getur viðkomandi sagt löggunni að hypja sig.
Auðveldara að selja, erfiðara að hjálpa
Menn geta svo rétt ímyndað sér hvort þetta muni ekki auðvelda fíkniefnasölum starfið og þar með þeim sem halda utan um skipulagða glæpastarfsemi sem liggur þar að baki. Lögreglunni verður í raun gert ókleift að grípa inn í. Sölumenn dauðans geta starfað fyrir opnum tjöldum á meðan þeir gæta þess að ganga ekki með allan lagerinn á sér (sem þeir hafa væntanlega ekki gert hvort eð er).
Með lögleiðingunni er komið í veg fyrir möguleika lögreglu eða aðstandenda á að grípa inn í til að hjálpa fíkniefnasjúklingi. Eftir að áform ríkisstjórnarinnar voru kynnt ræddi ég við foreldra sem sögðu mér að það hefði bjargað lífi sonar þeirra að hægt hefði verið að grípa inn í þegar hann var tekinn með neysluskammt.
Bent hefur verið á að ekki eigi að refsa veiku fólki fyrir veikindin. Eflaust eru flestir sammála því en raunin er sú að fólk er ekki dæmt til fangelsisvistar á Íslandi fyrir að vera tekið með neysluskammt af fíkniefnum. Það er hins vegar sjálfsagt að endurskoða skráningu slíkra brota í sakaskrá. Það er ástæðulaust að láta fólk sitja uppi með mistök til langrar framtíðar eftir að viðkomandi hefur tekið sig á.
Kristjanía heimsins
Síðastliðið ár hefur stjórnmálaumræða verið í lamasessi vegna veirufaraldurs. Við þær aðstæður hafa stór mál runnið í gegn án eðlilegrar opinberrar umræðu. En værukærð má ekki verða til þess að á Íslandi verði gengið lengra en nánast alls staðar annars staðar í lögleiðingu eiturlyfja og þar með aukið á smithættu skæðasta faraldurs Vesturlanda.
Í frumvarpinu er vísað til reynslu annarra landa og meintra fordæma sem eru þó allt annars eðlis ef að er gáð. Raunin er sú að verði frumvarpið að lögum verður Ísland sér á parti varðandi frelsi til eiturlyfjaneyslu. Lög landsins munu þá ganga langt umfram það sem viðgengst í Kristjaníu í Kaupmannahöfn, hvort sem litið er til formlegra reglna eða raunverulegrar framkvæmdar þeirra.
Vonandi ná menn áttum áður en Ísland gerist leiðandi í lögleiðingu eiturlyfja. Annars verða gerð stórkostleg mistök í máli sem er raunverulega upp á líf og dauða.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17.4.2021