Elon Musk (vísindamaður, framfarasinni, stofnandi Tesla, SpaceX ofl.) hefur miklar áhyggjur af hömlulausri þróun gervigreindar. Hann hefur rætt mikið um áhyggjur sínar síðast liðin þrjú ár og er nú farinn að kaupa hlut í fyrirtækjum á þessu sviði til að geta betur vaktað þróunina. Margir deila áhyggjum Musks, þeirra á meðal Stephen Hawking og Bill Gates (og Karl Bretaprins).
Áhyggjurnar þeirra sem telja mikilvægt að setja alþjóðareglur um þróun tækninnar snúa einkum að tvennu.
- Vélar munu geta unnið flest störf betur en fólk. Það getur gert stóran hluta fólks atvinnulausan og veitt þeim sem ráða yfir tækjunum gríðarleg völd.
- Þegar gervigreindartæki verða búin að fá að þróa önnur slík tæki um hríð gætu vélarnar tekið völdin (sjá Terminator-myndirnar, The Matrix, Westworld, 2001: A Space Odessey osfrv.)
Við bætast alls konar hættur sem þegar eru farnar að gera vart við sig eins og ritskoðunarróbótar sem hafa „skoðanir“ og geta haldið ákveðnum upplýsingum að fólki en látið aðrar hverfa.
Þeir sem reka fyrirtækin sem leiða þróun tækninnar telja þó flestir áhyggjurnar óþarfar. Þeirra á meðal eru Zuckerberg Facebook-forstjóri sem deilir nú við Musk um málið.
En fyrir nokkrum dögum lenti Facebook í uppákomu með tvo „gervigreindar-róbota“. Þetta voru spjallróbótar (tæki sem geta átt samtöl við fólk í gegnum tölvu, stundum án þess að það viti af því). Róbotarnir voru látnir ræða saman til að læra samningatækni. Áður en langt um leið voru þeir búnir að þróa sitt eigið tungumál og ræddu saman á því máli fremur en ensku. Sumir þóttust sjá að þeir væru farnir að skipuleggja sig fram í tímann. Þó var erfitt að segja til um það því engin leið var að þýða dulmálið sem róbotarnir notuðu. Þeir voru því teknir úr sambandi.
Hvort sem Elon Musk eða Mark Zuckerberger hefur rétt fyrir sér um hætturnar af gervigreind verður óhjákvæmilegt að ræða þessa þróun á sviði stjórnmála og vera undir hana búin þannig að hún nýtist til framfara fyrir mannkynið en ógni því ekki.
Hér er stutt kynningarmyndband þar sem íslenski leikarinn Tómas Lemarquis ræðir við vélmennið Soffíu. Þótt þetta sé leikin mynd er vélmennið raunverulegt. Soffía sér og heyrir, getur rætt við fólk og lært af samskiptunum eins og sjá má í öðru myndbandi.