02/8/13

Horfum til framtíðar, horfum til framfara! Ræða við setningu 32. flokksþings framsóknarmanna

Kæru vinir, velkomin til þings.

Þakka ykkur fyrir hlýjar móttökur.

Það er sannarlega uppörvandi að sjá ykkur, þessa miklu og vösku sveit, sem fórnar bæði tíma og fjármagni til að mæta hér í dag.

Þið komið á flokksþing vegna þess að þið eigið erindi, – erindi við íslenskt samfélag – þið viljið hafa áhrif á hvernig brýn verkefni samtímans eru leyst og tryggja komandi kynslóðum gott líf í þessu landi.

Ég vil þakka ykkur sérstaklega fyrir það.

Umboð okkar sem verðum í framboði í komandi kosningum er frá ykkur komið og án ykkar næst enginn árangur.

Eitt meginverkefni okkar á næsta kjörtímabili verður að leggja fram raunhæfar tillögur um hvernig leysa megi, eða létta mjög, vanda þeirra sem eru í fjötrum skulda og vonleysis.

Það verður ekki létt verk, en það skal verða okkar meginmál.

Það er loforð.

Framsóknarflokkurinn getur alls ekki unað því að stórir hópar í samfélaginu búi við þessi ömurlegu skilyrði.

Þetta er aðalmálefni komandi kosninga og mikilvægasta úrlausnarefni næsta kjörtímabils.

Ríkisstjórnin hefur brugðist þessu fólki. Það munum við ekki gera.

—–

Á þeim 96 árum sem liðin eru frá stofnun Framsóknarflokksins hefur íslenskt samfélag tekið stakkaskiptum.

Framfarasaga Íslands og sú hugmyndafræði sem Framsóknarflokkurinn byggir á, frjálslyndi, framsækni, samvinna og rökhyggja tengjast órjúfanlegum böndum.

Þessi grundvöllur Framsóknarstefnunnar var líka kjarninn í framfarahreyfing-unum sem á undan komu.

Í ræðum hef ég oft vitnað í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, Fjölnismenn, Jón Sigurðsson og Baldvin Einarsson, sem gaf út Ármann á Alþingi, en tilgangur þess var sagður sá ,,að vekja andann í þjóðinni, og minna hana á, að meta sig réttilega”.

Á morgun verða 180 ár liðin frá því að Baldvinn lést af slysförum aðeins 31 árs gamall. Þá hafði hann þegar haft svo mikil áhrif á landa sína að mikinn harm setti að þjóðinni allri.

Bjarni Thorarensen hugðist minnast vinar síns með saknaðarkvæði sem hófst á setningunni frægu, ,,Íslands óhamingju verður allt að vopni”. Bjarni var svo harmi sleginn að hann lauk aldrei við kvæðið en baráttan fyrir framförum hélt áfram.

Framfarir á Íslandi voru engin tilviljun. Þær voru ekki sjálfsagðar og enn síður óhjákvæmileg þróun.

Í sexhundruð sumur hafði landið búið við erfiðleika og stöðnun. Á nítjándu öld voru íbúar Íslands færri en á þjóðveldisöld.Enn þann dag í dag búa því miður flestar þjóðir heims við bág kjör.

Framfarir koma ekki af sjálfum sér.

Þær verða vegna þess að fólk horfir markvisst til framtíðar, leitar skynsamlegra lausna með samvinnu og rökræðu, tekst á við erfið úrlausnarefni í sameiningu og vinnur á þeim bug.

Það er ekki langt síðan ferðalög milli landshluta voru Íslendingum lífshættuleg nema rétt yfir hásumarið.Sveitir voru einangraðar og mörg aðskilin samfélög í landinu. En framsýnt fólk byggði vegi og brúaði ár og smám saman breyttist samfélagið. Í dag þykja góðar samgöngur sjálfsagt mál en samt þurfum við enn að gera betur í þeim efnum.

Það er innan við mannsævi síðan sjúkdómar eins og berklar og inflúensa lögðu fólk í gröfina fyrir aldur fram og ekki mikið lengra síðan ungbarnadauði var algengur á Íslandi. En á síðustu öld byggðu Íslendingar markvisst upp almennt heilbrigðiskerfi og breyttu samfélagi okkar svo um munar. Og enn stöndum við frammi fyrir því verkefni að tryggja, að í framtíðinni fái allir landsmenn notið góðrar heilbrigðisþjónustu.

Fyrir rúmum 60 árum árum réðu Íslendingar litlu um nýtingu auðlinda sjávar við landið. Þorskastríðin voru Íslendingum erfið. En með samstöðu og óbilandi trú á rétt og hagsmuni þjóðarinnar, og vegna þess að Íslendingar voru tilbúnir til að standa á fullveldisrétti sínum gegn ofurefli stórþjóða, hafðist fullnaðarsigur að lokum.

Árangur okkar í gegnum tíðina hefur ekki náðst af tilviljun.

Árangur náðist vegna þess að framsýnir Íslendingar tóku meðvitaðar ákvarðanir um að breyta samfélaginu til hins betra. Þeir börðust svo fyrir breytingunum þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti. Og með trú á eigin mátt að vopni náði þjóðin árangri.

Það sama þurfum við að gera nú. Því að markmiðið um að bæta samfélagið er enn brýnt.

Okkar bíða erfið úrlausnarefni.

Samfélag okkar er á margan hátt brotið og þarfnast þess að við tökum höndum saman til að bæta það.

Þá vegferð getur enginn stjórnmálamaður og enginn stjórnmálaflokkur gengið einn. Þann veg verður öll þjóðin að ganga í sameiningu, samhent og staðföst.

Það er skylda okkar að horfa ávallt til framtíðar og horfa ávallt til framfara. Það sem við gerum í dag getur lagt grunn að framförum samfélagsins til framtíðar.

Og á sama hátt mun samfélag okkar hnigna ef við köstum tækifærunum á glæ, og látum hjá líða að takast á við verkefnin í dag, sama hversu erfið þau virðast.

Framsókn samfélagsins byggir á því að ákvarðanir samtímans miði alltaf að því að bætta hag þeirra sem á eftir koma.

Það er fróðlegt fyrir Íslendinga að skoða aðstæður fyrri kynslóða og finna til samkenndar með þeim sem á undan okkur komu. Sem betur fer þekkjum við sögu okkar vel. Bæði samfélagsins í heild og einstaklinganna.

Fyrir skömmu hitti ég framsóknarkonu sem reyndist vera frænka mín. Það varð til þess að ég kynnti mér sögu sameiginlegs langa-langafa okkar.

Hann fæddist árið 1829, sama ár og Baldvin Einarsson hóf að gefa út Ármann á Alþingi til þess að telja Íslendingum kjark í brjóst og sýna þeim fram á að lífið gæti orðið miklu betra á Íslandi.

Ég komst að því að þessi forfaðir minn var fyrsta barn foreldra sinna. Þau eignuðust sjö börn til viðbótar. Sex þeirra dóu á fyrsta ári. Ein systirin lifði af frumbernsku en náði ekki nema 28 ára aldri.

Þetta er því miður aðeins eitt dæmi af ótal mörgum um þá erfiðleika sem fólk í þessu landi bjó við, lengst af. Þeir sem lifðu af drógu fram lífið við erfiðar aðstæður.

En svo fór þetta að breytast, ekki af sjálfu sér, heldur vegna framfarastefnu, með framförum í tækni og vísindum, aukinni þekkingu á heilbrigðismálum, aukinni verðmætasköpun og efnahagslegum vexti, fræðslu og trúnni á réttlátara samfélag, ekki hvað síst trúnni á að samstaða og samvinna væru forsenda framfara fyrir alla.

Eftir að Íslendingar endurheimtu yfirráð yfir eigin málum hófst mesta framfarasaga nokkurs samfélags á tuttugustu öld. Þess vegna er okkur Íslendingum svo umhugað um að aðrar þjóðir fái að nýta eigin tækifæri í þágu framfara.

Sá maður sem ekki hefur trú á sjálfum sér nær ekki árangri.

Það sama á við um samfélögin sem einstaklingarnir mynda. Þjóð verður að trúa á sjálfa sig og að hægt sé að geri hlutina öðruvísi og betur. Það er forsenda árangurs.

Fólkið sem leiddi sókn til framfara sýndi Íslendingum sem bjuggu við kröpp kjör, og erlend yfirráð, fram á að þannig þyrftu hlutirnir ekki að vera með því að vísa til sögunnar.

Jónas Hallgrímsson hóf ljóð sitt „Ísland“ á áminningu um þetta:

Ísland, farsældafrón

og hagsælda, hrímhvíta móðir!

Hvar er þín fornaldarfrægð,

frelsið og manndáðin bezt?

Allt er í heiminum hverfult,

og stund þíns fegursta frama

lýsir sem leiftur um nótt

langt fram á horfinni öld.

Sagan lýsti Íslendingum leið. Sýndi að örbyrgð og helsi væru ekki lögmál sem Íslendingar ættu að sætta sig við.

Jónas og samherjar hans fengu fimmtíuþúsund manna þjóð, í heimi þar sem ekki voru nema um það bil tuttugu sjálfstæð ríki, sem flestum var stjórnað af konungum sem ríktu yfir milljónum manna, til að trúa því að hún ætti að vera sjálfstæð og að vald þeirrar sjálfstæðu þjóðar ætti ekki að koma ofanfrá heldur frá almenningi.

Sjálfstæðisbaráttan fjallaði ekki síst um mikilvægi þess að þjóðin nýtti sjálfstæðið til að innleiða framfarir í landinu til að gera hlutina betur. Bæta líf og heilsu landsmanna, auka framleiðslu, ná fram réttlæti í samfélaginu.

Sjálfstæðisbaráttan snerist um framfarir, um það hvernig hægt væri að sækja fram í þágu allra íbúa landsins. Það var trúin á að Ísland hefði að geyma vannýtt tækifæri, Íslendingar þyrftu bara að fá frelsi til að nýta þau tækifæri til að byggja upp landið og virkja þann kraft sem blundaði með þjóðinni.

Eftir langt framfaraskeið hér á landi, og annars staðar, hættir fólki til að telja að hlutirnir séu sjálfgefnir. Að við þurfum ekki lengur að huga að því hvernig framfarirnar náðust eða þeim stoðum sem þær byggja á.

Við megum aldrei falla í þá gryfju að líta á stöðuna í samfélagi nútímans sem gefinn eða óbreytanlegan hlut, megum aldrei líta svo á að ekkert geti breyst eða að allt verði áfram nokkurn veginn eins og það er.

Saga Íslands og reynsla þjóðarinnar sýna að þannig er það ekki.

Til eru þeir sem þykir óviðeigandi að tala um árangur fortíðar, og hallærislegt að minnast þeirra krafta sem byggðu upp nútímasamfélagið.

Sumir gera jafnvel lítið úr afrekum fortíðarinnar og halda því fram að staða þjóða sé bara afleiðing af tilviljanakenndri atburðarás eða utanaðkomandi áhrifum.

Þetta er hættulegt viðhorf vegna þess að hlutirnir gerast ekki af sjálfum sér.

Við megum aldrei glata umbótaþránni og þeim kröftum sem gera okkur kleift að sækja fram.

Slíkt viðhorf eru ekki aðeins til þess fallið að hefta framfarasóknina og leiða til stöðnunar, nei, slíkur hroki veldur afturför.

Jónas nefnir þetta reyndar í ljóðinu sem ég vitnaði í áðan. Hann segir:

Það er svo bágt að standa í stað,

og mönnunum munar

annaðhvort aftur á bak

ellegar nokkuð á leið.

Ef við ímyndum okkur að framfarir komi af sjálfum sér munum við ekki aðeins standa í stað heldur færast aftur á bak.

Staða okkar nú er lík þeirri sem Roosevelt Bandaríkjaforseti lýsti þegar hann tók við embætti í heimskreppunni miklu, að því leyti að við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan.

Tækifæri Íslendinga hafa aldrei verið jafnmikil og nú, en við nýtum þau ekki, nema við trúum á okkur sjálf, trúum á landið og þjóðina og framtíð hennar.

Það er ekki langt síðan Íslendingar voru bláfátæk þjóð. En eftir áratuga baráttu hefur Ísland skipað sér á bekk meðal farsælustu þjóða heims.

Við megum aldrei gleyma því að þótt efnahagsástandið sé erfitt um þessar mundir þá er Ísland ríkt af auðlindum og tækifærum, af þekkingu og mannuði og af fólki sem er tilbúið að gefa vinnu sína og tíma til að berjast saman fyrir því að bæta samfélagið okkar.

Og það er einmitt stærsta verkefni okkar næstu árin: Að horfa til framtíðar og horfa til framfara.

Að berjast saman fyrir því að nýta auðlindirnar, tækifærin, þekkinguna og mannauðinn á skynsamlegan hátt, til að skapa það samfélag velferðar, jöfnuðar, atvinnu og réttlætis sem við viljum búa í.

Samfélag þar sem enginn á að þurfa að líða skort.

—–

Kæru félagar

Sjálfstæð þjóð verður alltaf að vera reiðubúin til að verja rétt sinn út á við.

Samskipti þjóða eiga að snúast um gagnkvæma virðingu og samstarf, en þegar traðkað er á rétti sjálfstæðrar þjóðar verður hún að vera reiðubúin að verja sig.

Íslendingar eru, og verða vonandi alltaf, herlaus þjóð. En við sættum okkur ekki við yfirgang.

Við heyjum baráttu okkar á grundvelli laga og réttar, vegna þess að við vitum að með lögum skal land byggja. Við megum aldrei láta undan ofríki sama hversu mikið ofurefli kann að vera við að etja.

Framsóknarflokkurinn var stofnaður til að virkja framfaraaflið í þjóðinni og verja hagsmuni landsins út á við. Flokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að verja rétt Íslands og það mun hann alltaf gera.

Nú er nýlokið deilu sem flestir virðast sammála um að hafi verið ein stærsta milliríkjadeila í seinnitímasögu landsins. Að minnsta kosti sú stærsta frá því í landhelgisdeilunum.

Það er engin tilviljun að Framsóknarflokkurinn hafði forgöngu í baráttunni gegn því óréttlæti sem Íslendingar voru beittir …ásamt hópum fólks sem var reiðubúið að leggja á sig óhemju vinnu til að verja hagsmuni samborgaranna.

Eftir að Íslendingar unnu fullnaðarsigur í Icesave-deilunni hafa menn haldið því fram að eftirgjöf í því máli hafi einungis komið til vegna nauðungar. Vegna þess að Norðurlöndin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið hafi beitt okkur þvingunum.

Það er að vísu rétt að við vorum beitt þvingunum. En það réttlætti ekki eftirgjöf.

Það sem er hins vegar verra er að baráttan fyrir því að látið yrði undan þvingunum var fyrst og fremst rekin hér heima.

Í stað þess að bregðast hart við þegar alþjóðlegar stofnanir voru misnotaðar, í andstöðu við lög og rétt, var látið hjá líða að andmæla af krafti.

Þess í stað var mögnuð upp hræðsla hér heima og settar fram endalausar heimsendaspár, algjörlega úr samræmi við raunveruleikann.

Hinir erlendu kúgarar þurftu í raun ekki að láta til sín taka. Þá skorti ekki málsvara hér heima sem voru reiðubúnir að ganga ótrúlega langt við að reyna að koma klyfjum á Íslendinga.

Ólíkt því sem nú er haldið fram voru þeir margir hér heima sem sögðu að okkur bæri skylda til að borga, og enn fleiri sem héldu því fram að lagaleg staða okkar væri að minnsta kosti mjög veik.

Aðrir sögðu að okkur bæri siðferðisleg skylda til að taka á okkur klyfjarnar og jafnvel að börnin okkar hefðu gott af því að greiða himinháa vexti á skuldir gjaldþrota einkabanka.

Þessu var fylgt eftir með því að reyna út í ystu æsar að halda nauðsynlegum gögnum leyndum, birta alrangar tölur um stöðu þjóðarbúsins og teyma fram innlenda og erlenda álitsgjafa til að segja Íslendingum að borga.

Svo var okkur sagt, nánast daglega, hvers konar efnahagslegar hörmungar myndu dynja yfir okkur ef við létum ekki undan.

Það virðist nánast grátbroslegt núna að minnast þess að svokallaðir sérfræðingar og stjórnmálamenn sögðu okkur hvað eftir annað að lífskjör myndu færast aftur um marga áratugi, hér yrði nokkurs konar efnahagslegur kjarnorkuvetur og landið yrði í hópi með einangruðustu og frumstæðustu ríkjum heims ef við neituðum að borga.

En það var ekkert broslegt við það á sínum tíma, þegar þessi áróður var notaður til að reyna að þvinga þjóðina til að taka á sig skuldir, sem nú liggur fyrir að hefðu verið efnahagslega óbærilegar.

Alþjóðastofnanir og grannaríki beittu Ísland skefjalausum þvingunum.

Jafnvel sumar helstu vinaþjóðir okkar tóku þátt í að þrýsta á Íslendinga, þótt rétt sé að geta þess að framsóknarmenn nutu stuðnings nokkurra bandamanna úr systurflokkum á Norðurlöndum.

Einn sendiherra erlendrar vinaþjóðar, þó ekki Finnlands, kallaði til mig dæmis á fund til að segja mér að Finnar hefðu ekki haft efni á að flytja inn bíla eða borða banana fyrr en á áttunda áratugnum vegna stríðsskaðabóta til Sóvíetríkjanna, svo að Íslendingar væru ekkert of góðir til að borga Icesave kröfurnar þótt það gæti valdið lífskjaraskerðingu.

En hvað sem líður slíkum þrýstingi var áróðurinn fyrst og fremst rekinn hér heima og sá áróður stóðst enga skoðun, hann var órökréttur og rangur.

Það er alþekkt að þegar ríki gengur í gegnum hremmingar eins og Íslendingar máttu þola þurfa þau að grípa til róttækra ráða til að verja stöðu sína.

Evrópusambandið hefur t.d. þverbrotið eigin sáttmála í tilraunum sínum til að takast á við evrukrísuna.

Hér var hins vegar einungis um það að ræða að farið yrði að lögum og þau viðbrögð sem lengst gengu, neyðarlögin, bættu stórlega hag Breta og Hollendinga.

En hvers vegna þróaðist þá málið eins og það gerði í íslenskum stjórnmálum? Hvers vegna var margfallt meiri kraftur settur í að keyra kröfurnar áfram hér heima fyrir en að verjast út á við?

Ástæðan er sú að ríkisstjórnin taldi sig vera búna að leggja sjálfa sig að veði og treysti sér aldrei til að draga í land sama hvaða upplýsingar komu fram um alvarleika málsins.

Í staðinn var bætt í áróðurinn, allt snerist um að vinna pólitískan sigur heima fyrir fremur en að verja réttlætið út á við.

Það er því ekki hægt að álasa þeim 40 prósentum sem vildu fallast á síðasta Icesavesamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem höfðu þá afstöðu byggðu ákvörðun sína á upplýsingum frá stjórnvöldum.

Ábyrgðina verða þau stjórnvöld að bera sem veittu rangar upplýsingar, beittu hræðsluáróðri til að verja pólitísk mistök og tóku eigin stöðu fram yfir hagsmuni heildarinnar.

Við höfum ekki velt ríkisstjórninni mikið upp úr málinu eftir að niðurstaða lá fyrir. Ég hef þó nefnt hvort ekki væri rétt að ríkisstjórnin bæðist afsökunar á framgöngu sinni, þó ekki væri nema í ljósi þeirrar kröfu sem hún hefur gert til annarra um að axla ábyrgð.

En eftir að Íslendingar unnu sigur er forsætisráðherra helst umhugað um að ekki verði leitað sökudólga í málinu. Einu svörin sem berast umfram það eru þau að EF málið hefði farið öðruvísi hefðu þeir sem börðust gegn samningunum aldeilis fengið að heyra það.

Semsagt, við skulum ekki leita sökudólga, fyrst málið fór svona en ekki hinsegin.

Í raun ætti ríkisstjórnin að þakka þeim sem komu í veg fyrir að henni tækist að gera hin afdrifaríku mistök. Enda var með því komið í veg fyrir að Íslenskt efnahagslíf lenti í nýjum og alvarlegum ógöngum á kjörtímabilinu.

Það kom aldrei upp sú staða í þessu máli að það væri réttlætanlegt að gefa eftir rétt Íslendinga. Og það vissi þjóðin.

Og nú þurfum við að læra það af reynslunni að þegar kemur að því að verja hagsmuni Íslands, þá verða allir að standa saman og hvergi að kvika.

Sjálfstætt ríki getur aldrei leyft sér að gefa eftir rétt sinn. Þegar réttlæti er annars vegar ættu menn að hafa í huga kjörorð Jóns Sigurðssonar: Eigi víkja. Þegar réttlætið er annars vegar má ekki víkja.

Ísland hefur nú fengið uppreist æru, því að þjóðin sem var beitt hryðjuverkalögum, og fjárkúgunum í framhaldinu, stóð á rétti sínum.

Fyrir vikið er staðan miklu betri nú.

Fyrir vikið er Ísland enn efnahagslega sjálfstætt.

Fyrir vikið getum við hafið sóknina.

Það þarf að nýta þá stöðu vel og hefja sóknina fyrir Íslendinga ekki seinna en að morgni 28. apríl næstkomandi.

Rétt eins og við vitum að það má aldrei kvika frá því að verja rétt þjóðarinnar útávið vitum við framsóknarmenn að það má heldur aldrei kvika frá því að verja rétt einstaklinganna sem þjóðina mynda innávið.

Skjaldborgin um heimilin sneri öfugt, og skjaldborg sem snýr öfugt kallast umsátur. Við þurfum að leiða sóknina til að rjúfa umsátrið um heimilin. Þau mál snúast um réttlæti inn á við og þar þurfum við að sýna sömu festu og í baráttunni fyrir réttlæti út á við.

Megnið af kröfunum á hendur íslenskum bönkum eru ekki lengur í eigu þeirra sem töpuðu gríðarháum upphæðum á að lána íslensku bönkum fjármagn.

Þær voru keyptar af vogunarsjóðum sem í flestum tilvikum hafa hagnast gríðarlega á þeim.

Við getum ekki leyft erlendum vogunarsjóðum að tefla framtíð íslensks efnahagslífs, heimilanna og fyrirtækjanna, í voða.

Fullnaðarsigur í Icesave málinu gefur nú aukin tækifæri til að taka á þeim ógnum sem vofa yfir íslensku efnahagslífi og heimilum. Í þeirri baráttu munum við sýna sömu festu og áður.

—–

Ef nefna ætti eitthvað eitt umfram annað sem hefur einkennt framsóknarmenn um allt land á kjörtímabilinu sem nú er að líða, þá er það staðfesta í mikilvægum málum sem varða hagsmuni þjóðarinnar.

Allt þetta kjörtímabil hefur það verið hlutverk okkar framsóknarmanna að verja almannahagsmuni fyrir ríkisstjórn sem hvað eftir annað hefur reynt að troða lögum í gegn um Alþingi í beinni andstöðu við álit sérfræðinga og jafnvel í andstöðu við þjóðina sjálfa.

Þegar umturna átti undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum, með vanhugsuðum lögum sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar líktu sjálfir við bílslys bárust Alþingi fjölmargar alvarlegar viðvaranir um skaðsemi laganna.

Þær bárust frá sveitarfélögum Alþýðusambandinu, hagsmunasamtökum sjómanna, og sérfræðingum í auðlindamálum og mörgum öðrum.

Þegar framsóknarmenn bentu á þá hættu sem varað var við í tugum sérfræðiálita vorum við úthrópuð fyrir málþóf. Þrátt fyrir það tókst að takmarka skaðann.

Þegar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni var stefnt í voða börðumst við gegn niðurskurðaráformum ríkisstjórnarinnar. Þótt skaðinn hafi orðið umtalsverður varð hann ekkert í líkingu við það sem stefndi í.

En þær eru ekki síður mikilvægar lausnirnar sem við höfum talað fyrir.

Tíminn hefur leitt í ljós að þær tillögur sem við lögðum fram fyrir fjórum árum um leiðréttingu á skuldum heimilanna voru raunhæfar og nauðsynlegar. En vegna pólitískrar andstöðu ríkisstjórnarflokkanna var því tækifæri kastað á glæ.

Við vöruðum við því að bönkunum yrði skipt upp með þeim hætti sem raun varð. Æskilegra hefði verið að hafa nýju bankana minni og útlánasöfn þeirra betri.

Í stað stefnu stjórnvalda um að setja mörghundruð milljarða inn í allt of stóra nýja banka töldum við æskilegra að kaupa skuldabréf bankanna sem þá voru seld á hrakvirði.

Þessar kröfur á bankana tífölduðust margar í verði.

Það þarf því ekki að hafa mörg orð um það hvaða áhrif það hefði haft á efnahag ríkisins og möguleikana á skuldaleiðréttingu heimila og fyrirtækja ef þau hundruð milljarða sem ríkið var reiðubúið að leggja bönkunum til hefðu verið sett í að kaupa kröfurnar á hrakvirði í stað þess að eftirláta þær vogunarsjóðum.

Við vöruðum við því að myntkörfulán kynnu að verða dæmd ólögmæt og þess vegna mætti ríkið ekki taka þau til sín í nýju bankana. Fyrrverandi viðskiptaráðherra taldi eftir dóminn að tap ríkisins af þeirri aðgerð næmi yfir eitthundrað milljörðum.

Nefnd um afnám verðtryggingarinnar var sett á stofn að kröfu framsóknarmanna. Síðan þá höfum við lagt fram fjölmargar tillögur til að taka á þeim vanda sem verðtryggingin veldur íslenskum heimilum.

Það er skemmst frá því að segja að allar þessar tillögur hafa ríkisstjórnarflokkarnir svæft markvisst í nefndum Alþingis eða hafnað algerlega. Sú staðreynd sýnir hver raunverulegur vilji þeirra er til að létta áhrifum verðtryggingarinnar af íslenskum heimilum.

Hann er enginn.

En framsóknarmenn gefast ekki upp þegar málstaðurinn er réttlátur.

Raunar eru tilraunir framsóknarmanna til að benda á lausnir vegna skuldavanda heimilanna og atvinnumála á kjörtímabilinu miklu fleiri en hægt er að rekja í einni ræðu.

Á þessu flokksþingi munum við í sameiningu móta enn fleiri tillögur um lausnir. Ef við komumst svo í aðstöðu til að framfylgja þeim munum við að sjálfsögðu beita okkur af sömu einurð og festu og einkennt hefur baráttu okkar til þessa.

Við höfum enda fylgt þeirri stefnu að leggja ekki til neitt sem við treystum okkur ekki til að standa við og hrinda í framkvæmd.

Á sama tíma erum við meðvituð um að við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir þurfa stjórnvöld að vera reiðubúin til að hrinda í framkvæmd róttækum lausnum.

—–

Á síðustu fjórum árum höfum við lagt mikla áherslu á að hugsa fram á veginn og hvetja til þess að strax verði byrjað á því að undirbúa nýtingu tækifæra framtíðarinnar.

Til að geta nýtt tækifæri Íslands á morgun verðum við að hugsa til framtíðar í dag.

Við höfum meðal annars sýnt fram á þau tækifæri  sem felast í opnun siglingaleiða yfir norðurskautið og bent á að þau muni gefast fyrr en menn áttu von á.

Það voru sagðar óraunhæfar yfirlýsingar, slíkt yrði ekki að veruleika fyrr en eftir áratugi. En hvað hefur gerst á aðeins fjórum árum?

Nú hafa Kínverjar sent skip yfir norðurskautið til Íslands,  fjallað hefur verið um mikilvægi Íslands í fjölmiðlum um allan heim og erlend skipafyrirtæki og ríkisstjórnir hafa sýnt áhuga á aðstöðu hér á landi vegna þessara siglinga.

Þegar við bentum á mikilvægi þess að taka olíuleit, og þjónustu við hana, föstum tökum var talað um óraunhæfar væntingar og fjarlæga framtíðardrauma.

Nú, aðeins fjórum árum síðar, hafa rannsóknir staðfest að olíu og gas er að finna í íslenskri lögsögu. Gefin hafa verið út leyfi til olíuleitar og vinnslu og norskir sérfræðingar fullyrða að jarðlögin á Jan Mayen-hryggnum séu líkleg til að geyma vinnanlegar lindir í sama mæli og í Noregshafi.

Þegar við bentum á að breytt loftslag, mannfjölda- og búsetuþróun í heiminum gerði það að verkum að við þyrftum að efla íslenska matvælaframleiðslu vorum við sökuð um sérhagsmunagæslu.

En á síðustu fjórum árum hefur það gerst í fyrsta sinn í sögunni að fleira fólk í heiminum býr nú í borgum en í dreifbýli, matvælaverð er tekið að hækka í stað þess að lækka og sérfræðingar spá því að það muni hækka stöðugt í framtíðinni. Það er því ljóst að mikilvægi landbúnaðar og innlendrar matvælaframleiðslu eykst nú með hverjum deginum sem líður.

Síðustu misseri höfum við svo bent ítrekað á að hagvöxturinn sem ríkisstjórnin hefur hreykt sér hátt af og sagt helsta merkið um árangur sinn í efnahagsmálum, er borinn uppi af eyðslu séreignarsparnaðar landsmanna og miklum makrílveiðum.

Og fyrir tveimur dögum staðfesti Seðlabankinn þetta í fréttatilkynningu þar sem sagt var að allt benti til að hagvöxtur í fyrra hafi verið minni en áður var talið og að horfur séu á hægari hagvexti í ár en áður var spáð.

Á þennan hátt mætti lengi telja. Barátta framsóknarmanna fyrir almannahagsmunum, aðvaranir og ígrundaðar tillögur okkar hafa aftur og aftur sannað gildi sitt.

Það hafa þær gert vegna þess að framsóknarstefnan er byggð á skynsemi og rökhyggju.

Stefna sem leitar skynsömustu lausnarinnar á hverjum vanda. Stefna sem horfir til framtíðar og horfir til framfara.

Sú skynsemisstefna sem framsóknarmenn hafa staðið fyrir í nærri heila öld átti stóran þátt í því að gera sögu Íslands að einni mestu framfarasögu heimsins á tuttugustu öldinni.

Og við ætlum að berjast fyrir því að hún nái sama árangri á þeirri tuttugustu og fyrstu. 

—–

Sú staða sem næsta ríkisstjórn tekur við verður á margan hátt erfið. Fyrst og fremst vegna þess að stærstu tækifærum síðustu fjögurra ára hefur verið kastað á glæ.

En vegna þeirrar baráttu sem framsóknarmenn hafa háð í stjórnarandstöðu getum við enn sótt hratt fram þegar skynsemisstefnan kemst til áhrifa á ný.

Ef það tekst munu markmið okkar um raunverulega endurreisn Íslands nást.

Ég segi raunverulega endurreisn því að vandi okkar er ekki leystur þó að nokkrir hagfræðingar ríkisstjórnarinnar segi efnahagstölur hafa batnað eða ráðherrar berji sér á brjóst og segi landið tekið að rísa.

Vandi íslensku þjóðarinnar er ekki leystur fyrr en fólkið sjálft finnur það í sínu daglega lífi, fyrr en fjölskyldurnar geta náð endum saman um mánaðarmót, öryrkjar geta lifað mannsæmandi lífi og óhóflegar tekjutengingar hætta að koma í veg fyrir að eldriborgarar fái notið afraksturs ævistarfsins.

Vandi okkar er ekki leystur fyrr en allir eiga jafna möguleika á menntun og heilbrigðisþjónustu og langtíma atvinnuleysi heyrir fortíðinni til.

Vandinn er ekki leystur fyrr en Íslendingar sjálfir trúa á framtíð Íslands, trúa því að hér verði gott að búa eftir tíu eða tuttugu ár.

Vanda samfélagsins er ekki hægt að fela með vafasömum prósentureikningum og línuritum.

Til að leysa vandann þarf skynsemi og rökhyggju, samvinnu, staðfestu og óbilandi trú á samtakamáttinn sem býr í íslensku þjóðinni.

Næstu ríkisstjórnar bíður það verkefni að vinna á skuldavanda ríkisins og gjaldeyrishöftunum, gera atvinnulífinu kleift að ráða fleira fólk til starfa á betri kjörum og auka verðmætasköpunina sem samfélagið þarf á að halda til að standa undir velferð fyrir alla.

 

Við verðum að fara að reka Ísland eins og stórt heimili, taka upp heimilisbókhald í rekstri ríkisins og skapa verðmæti innanlands, greina að fjárfestingu og útgjöld, meta langtímaáhrif og heildaráhrif fjárlaga.

 

Stjórnvöld þurfa að hvetja til fjárfestingar og atvinnusköpunar í stað þess að reisa hindranir.

Þar skiptir sköpum að hér komist á pólitískur stöðugleiki, stjórnvöld sem leitast við að draga úr óvissu í stað þess að ýta undir hana.

Liggja þarf fyrir fljótlega á næsta kjörtímabili hvernig starfsumhverfi fyrirtækja muni þróast til næstu ára.

Einhverja skatta þarf að lækka en fyrst og fremst þarf að byrja á að einfalda skattkerfið og skapa hvata til fjárfestingar.

Langflest störf verða til hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Stjórnvöld eiga að gera fólki kleift að stofna og reka fyririrtæki án þess að það þurfi að verja megninu af tíma sínum og orku í að fást við kerfið.

Í því skyni þarf að einfalda regluverkið og helst að gera litlum atvinnurekendum kleift að nálgast öll opinber leyfi á einum stað.

Til að Íslendingar eygi von um farsæla framtíð í heimalandi sínu þarf næsta ríkisstjórn að tryggja að fólk hafi atvinnu, að það geti lifað af þeim launum sem það fær greidd fyrir vinnu sína og að fólk fái þá þjónustu sem það þarf á að halda.

Um leið þarf að gæta þess að skattkerfið tryggi tekjujöfnun, meðal annars með hækkun skattleysismarka.

Við verðum að fara að þora að fjárfesta í framtíðinni.

Og það er einmitt lykilatriðið: Við verðum að þora.

Undanfarin fjögur ár höfum við haft stjórnvöld sem hafa ekki þorað.

Ekki þorað að leiðrétta skuldir heimilanna, ekki þorað að veita fyrirtækjum hvata til að skapa störf, ekki þorað að styðja nauðsynleg fjárfestingarverkefni, ekki þorað að auka orkunýtingu til að byggja upp atvinnu á landsbyggðinni, ekki þorað að segja „hingað og ekki lengra“ við fjárkúgun stórþjóða og alþjóðastofnana.

Ísland þarf stjórnvöld sem þora að taka ákvarðanir sem leysa raunveruleg vandamál fólksins í landinu.

Næsta ríkisstjórn þarf umfram allt að koma til móts við skuldsett heimili og skapa jákvæða hvata fyrir fólk að vinna sig út úr vandanum.

Þar má ekki bara horfa í það hvað kostar að taka á vandanum, því það er enn dýrara fyrir samfélagið að gera ekkert. Það yrði dýrt ef íslensk heimili yrðu áfram föst í  heljargreipum skulda og atvinnuleysis.

Enn í dag hefur mikill fjöldi íslenskra heimila með verðtryggð lán enga lausn fengið á vanda sínum, á meðan aðrir geta þakkað Hæstarétti fyrir leiðréttingu gengistryggðra lána.

Næstum heil kynslóð er orðin eignalaus, á minna en ekki neitt.

Eigið fé ungra barnafjölskyldna er horfið í hít húsnæðislánanna,

séreignarsparnaður millistéttarinnar er horfinn í viðleitni til að standa skil á lánum eða brenndur upp til að fjármagna lífsbaráttuna frá degi til dags. Þennan vítahring verður að stöðva.

Okkur ber skylda til að viðurkenna þá staðreynd að ef ekkert meira er gert mun samfélagið staðna og fjölskyldurnar sundrast.

Í slíku ástandi verðum við að finna lausnir sem virka.

Fyrir fjórum árum síðan mistókst ríkisstjórninni að nýta upplagt tækifæri til að létta á skuldavanda heimilanna. Það er beinlínis óskiljanlegt hvers vegna leiðréttingarleiðin var ekki farin. Leið sem flestir viðurkenna nú að var bæði raunhæf og framkvæmanleg.

Við þessi afglöp varð til mikið ranglæti í samfélaginu. Það bíður okkar að taka á því ranglæti.

Það þarf að takast á við vanda heimilanna á þrennum vígstöðvum.

Í fyrsta lagi er það uppsafnaði vandinn, sá sem ekki var leiðréttur eftir efnahagshrunið, í öðru lagi þarf að koma í veg fyrir að sams konar stökkbreyting eigi sér stað aftur með því að taka á verðtryggingunni og loks þarf að tryggja fólki betri lífskjör, fleiri og betur launuð störf.

Það verður aðeins gert með aukinni verðmætasköpun, og þar þarf að tryggja að allir fái notið ágóðans.

Því að samfélag er samvinnuverkefni. Hin ólíku störf eru nauðsynleg til að halda samfélaginu gangandi og þess vegna eiga allir að fá að njóta ávinningsins þegar vel gengur.

—–

Nú er því haldið stíft fram að nýr gjaldmiðill veiti töfralausn á vanda heimilanna.

En sama hvort menn vilja halda í íslensku krónuna, taka upp erlendan gjaldmiðil einhliða eða tvíhliða eða ganga í Evrópusambandið mun í öllum tilvikum þurfa að byrja á að leysa sömu vandamálin …og það mun taka tíma.

Ljóst er að íslenska krónan mun verða gjaldmiðill Íslands um fyrirsjáanlega framtíð.

Alþýðusamband Íslands er á meðal þeirra sem hafa bent á að sú sé raunin og þessa staðreynd viðurkenndu fulltrúar allra stjórnmálaflokka í nýlegri skýrslu nefndar um gjaldmiðilsmál.

Jafnvel þótt Ísland gengi í Evrópusambandið uppfyllum við ekki skilyrði til að taka upp evru fyrr en eftir mörg ár.

Við munum því alltaf þurfa að byrja á að renna stoðum undir krónuna, og það mun taka tíma, hvað sem aðrir sjá fyrir sér í framtíðinni.

Eftir að gallar evrukerfisins komu í ljós með evrukrísunni er ljóst að hvergi verður kvikað frá skilyrðum aðildar. Og svo er spurning hversu eftirsóknarverð slík aðild væri.

Ljóst er að Ísland hefði orðið gjaldþrota ef við hefðum verið búin að taka upp evru þegar efnahagshrunið reið yfir. Á þetta hafa margir heimsþekktir hagfræðingar bent. Almenningur hefði verið látinn bjarga bönkunum með tilkostnaði sem hefði verið óbærilegur.

Sleppum Grikklandi. Samanburðurinn við Írland er nógu sláandi.

Nú er atvinnuleysi á Írlandi um 15% og skuldir ríkisins meiri en það mun ráða við vegna þess að Írar voru neyddir til að nota almannafé í að bjarga bönkunum. Fasteignaverð hefur hrunið og þurrkað út eigið fé heimila en á sama tíma hafa vextir hækkað og mánaðarlegar greiðslur orðið mörgum fjölskyldum ofviða.

Laun þeirra sem halda vinnunni hafa að jafnaði verið lækkuð um á bilinu 20-30%. Á Spáni er atvinnuleysi nú komið í 26% og 62% í yngstu aldurshópunum. 62%!

Þrátt fyrir þessar staðreyndir og fleiri sem við okkur blasa í erlendum fjölmiðlum er stjórnmálafylking í þessu landi sem býður nú fram undir mismunandi nöfnum og heldur því fram að innganga í Evrópusambandið, og upptaka evru, sé ekki aðeins lausn alls heldur sé það eina lausnin.

Því er haldið fram að matvælaverð muni lækka þótt nýjustu kannanir tölfræðistofnunar ESB sýni að matvælaverð sé nú víðast hvar orðið hærra í ESB en á Íslandi.

Því er haldið fram að vextir muni lækka til samræmis við það sem gerist í Þýskalandi þótt meginlærdómur evrukrísunnar sé líklega sá að sami gjaldmiðill geti ekki tryggt sömu vexti í ólíkum löndum, vextir þurfi að ráðast af því hversu vel lönd eru rekin en ekki af því hvað gjaldmiðillinn heitir.

Það er óþarfi að rífast um þetta. Við vitum að við verðum með krónu áfram um sinn og þurfum að taka höndum saman til að efla hana.

Til þess að svo megi verða verðum við að auka framleiðslu, greiða niður skuldir og efla íslenskt efnahagslíf.

En krónan hefur vissulega sína galla.

Stærsti gallinn er sá sem leiddi af verðtryggingunni þegar skuldir íslenskra heimila ruku upp vegna falls gjaldmiðilsins.

En á því var hægt að taka einmitt vegna þess að við höfðum enn vald á eigin efnahagsmálum. Við vorum okkar eigin gæfu smiðir. Neyðarlögin vörðu eignir en hinu eðlilega framhaldi þeirra var ekki hrint í framkvæmd.

Lánin voru ekki leiðrétt þótt það hafi verið framkvæmanlegt, réttlætanlegt, hagkvæmt og umfram allt sanngjarnt. Tjónið af því fyrir íslenskt efnahagslíf og heimili er gríðarlegt.

En þar er ekki við mælikvarðann, krónuna, að sakast, þar er um að kenna stjórnvöldunum sem nýttu ekki það tækifæri sem yfirráð yfir eigin peningamálum gaf til að hlífa almenningi við stökkbreytingu lána eftir efnahagshrunið.

Það bíður okkar því enn það stóra verkefni að koma til móts við skuldsett íslensk heimili.

Það er orðið flóknara og miklu dýrara en það hefði þurft að vera en það þarf að gerast, og kostnaðurinn við að taka ekki á vandanum getur orðið miklu meiri en kostnaðurinn við að leysa hann.

—–

Umræða íslenskra stjórnmála um annan gjaldmiðil er nátengd enn-stærra máli.

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu hefur í raun orðið að sjálfstæðu vandamáli í íslenskum stjórnmálum vegna þess hvernig á henni var haldið.

Nánast öll mál eru mæld og viktuð á vog aðildarumsóknarinnar. Einn flokkur og fylgitungl hans byggja alla sína stefnu á því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.

Þessi trú skekkir umræðu um nánast öll aðkallandi mál og stendur jafnvel í vegi fyrir raunverulegum lausnum, því að fremur skal bíða eftir lausnum Evrópusambandsins.

Og þetta gerist æ ofan í æ þrátt fyrir að kannanir sýni að mikill meirihluti Íslendinga hafi ekki áhuga á aðild að Evrópusambandinu.

Um mitt ár 2011 setti ég því fram tillögu um aðildarviðræðurnar sem ég tel að geti hentað fólki með ólíkar skoðanir á Evrópusambandinu.

Við núverandi aðstæður megum við nefnilega ekki láta öll stjórnmál á Íslandi, innan flokka og á milli þeirra, snúast um afstöðu fólks til ESB.

Tillagan gengur í meginatriðum út á að aðildarviðræðum verði frestað og þær ekki hafnar að nýju nema þjóðin gefi skýrt umboð til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fjölmargir hafa á síðustu misserum fallist á kosti þessarar leiðar.

Áframhaldandi viðræður fela í sér yfirlýsingu Íslands um vilja til að ganga í ESB. Slíka yfirlýsingu er ekki hægt að gefa án aðkomu þjóðarinnar.

—–

Þegar grannt er skoðað eru verkefnin sem við er að etja oftar en ekki þau sömu og hafa verið viðfangsefni stjórnmála um áraraðir.

Mikilvægasta eign hvers einstaklings er góð heilsa.

En heilbrigðiskerfið er fjársvelt, læknar og hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk í heilbrigðisþjónustu hverfur úr landi í leit eftir betri aðstöðu og betri kjörum og deildum er lokað.

Kostnaður við heilsugæslu og læknisþjónustu er vissulega mikill hér eins og í öðrum vestrænum ríkjum en það er ekki til lengdar hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að þeir sem vinna að heilsugæslu eru alþjóðlega eftirsóttur starfskraftur.

Ísland verður að vera samkeppnishæft um stöf þessa fólks.

Okkur er ljóst að það verður ekki auðvelt að snúa þessari þróun við, en það er hægt og það verður að gera.

Öflugt forvarnaátak í samvinnu ríkisins, sveitarstjórna og frjálsra félagasamtaka getur verið mikilvægur liður í slíkri áætlun og fjármunir sem lagðir eru í forvarnir myndu vinnast til baka með betri heilsu, auknum lífsgæðum og minni kostnaði við heilbrigðiskerfið.

Það er gríðarlega mikilvægt að  byggja upp heilbrigðiskerfið á ný með öllum tiltækum ráðum og það sama á við um menntakerfið.

Við skuldum kynslóðunum sem lögðu landið í hendur okkar að þau geti notið traustrar heilbrigðisþjónustu og átt góð efri ár.

Og kynslóðin sem tekur við af okkur, börn og barnabörn okkar, verður að eiga kost á  menntun sem jafnast á við það besta sem gerist annars staðar.

—–

 Ég hef áður lagt áherslu á það höfuðgildi framsóknarstefnunnar að öll okkar barátta og allt okkar starf verður að grundvallast á því að við séum að að vinna að velferð fólksins í landinu.

Áhersla á verðmætasköpun og framleiðslu má aldrei verða til þess að við gleymum hinu mannlega.

Áhersla á efnahagstölur og  má aldrei verða til þess að við gleymum því að á bak við þær stendur fólk, fjölskyldur í lífsbaráttu, einstaklingar sem vilja að stjórnvöld skapi þeim heilbrigt og jákvætt umhverfi sem getur hjálpað þeim að uppfylla drauma sína og vonir.

Við viljum búa í margbreytilegu samfélagi þar sem allir eru metnir að verðleikum án tillits til kyns, uppruna eða stöðu, samfélagi þar sem við horfum á það sem sameinar okkur en ekki það sem skilur okkur að.

Við viljum búa í samfélagi þar sem allir eru jafnir fyrir lögum, allir hafa jöfn tækifæri og allir eru ábyrgir gjörða sinna.

Samfélagi sem hlúir að sjúkum af alúð, og býr eldri kynslóðum mannsæmandi líf á efri árum.

Samfélagi þar sem ekki ríkir sundurþykkja og öfund og allir eiga rétt á að vera sýnd nærgætni og virðing.

Við viljum öll lifa í samfélagi sem byggir á væntumþykju gagnvart öðru fólki þar sem samhjálp er sjálfsagður hlutur.

Við eigum að vera óhrædd við að sýna hvert öðru kærleika og umburðarlyndi og berjast fyrir mannréttindum og réttlæti.

Við eigum að virða og meta drifkraft og frelsi einstaklingsins til að móta eigið líf en um leið að byggja upp samfélag þar sem enginn er skilinn eftir.

Og þó að margt hafi áunnist á liðnum árum þá er enn gríðarlegt verk óunnið í þessum efnum.

Tilgangurinn með starfi okkar verður alltaf fyrst og fremst að vera sá að hafa áhrif á samfélagið til framfara.

Þau gildi sem við munum leggja áherslu á við lausn viðfangsefna næstu ára og uppbyggingu samfélagsins á næsta kjörtímabili mótast af þessari sýn.

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur því við beitum okkur fyrir því sem er æskilegast fyrir heildina en gerum okkur um leið grein fyrir því að einstaklingsfrelsi er einn af drifkröftunum fyrir hagsmunum heildarinnar.

Jafnrétti, samvinna, velferð, atvinna, lýðræði, persónufrelsi, mannréttindi, valddreifing og samfélagsleg ábyrgð eru gildi sem við höfum í hávegum í grunnstefnu Framsóknarflokksins.

Á grundvelli þessara gilda sækjumst við eftir því að stýra landinu.

Og það er grunnskylda þeirra sem stýra landinu að blása þjóðinni kjark í brjóst, að veita leiðsögn og skýra framtíðarsýn sem varðar leiðina til betra samfélags fyrir komandi kynslóðir.

Það er með þessi grunngildi framsóknarstefnunnar að leiðarljósi, og einbeittan vilja til að berjast af heilum hug fyrir hagsmunum lands og þjóðar, sem ég óska eftir endurnýjuðu umboði ykkar kæru félagar, til að leiða Framsóknarflokkinn áfram inn í næsta kjörtímabil.

—–

Kæru vinir

Bjartsýni, kjarkur og þor eru forsendur framfara og árangurs.

Ísland byggðist vegna þess að fólkið sem stofnaði hér nýtt samfélag var reiðubúið að taka áhættu.

Það sætti sig ekki við ofríkið sem það bjó við og vildi byggja upp eitthvað nýtt og betra.

Íslendingar munu aldrei sætta sig við þvinganir og þeir munu aldrei gefast upp þegar tækifæri er til að bæta samfélagið.

Það eina sem Íslendingar eru reiðubúnir að gefast upp á eru stjórnvöld sem halda aftur af framsækni þeirra og krafti.

Hlutverk stjórnvalda er að telja kjark í þjóðina. Að skapa og benda á tækifæri til sóknar, nýsköpunar og uppbyggingar.

Rétt eins og í upphafi sjálfstæðisbaráttunnar veitir saga Íslands okkur innblástur til áræðni og framfara.

Saga sem lýsir sem leiftur um nótt langt fram á horfinni öld.

Við vitum að saga Íslands á tuttugustu öldinni var ein mesta framfarasaga heims og við vitum að tækifærin sem við stöndum frammi fyrir í dag eru risavaxin og ógnirnar smávægilegar miðað við það sem íslenska þjóðin horfði fram á við upphaf þeirrar aldar.

Þess vegna blasir það við að ef við tökum höndum saman um að stefna einbeitt til framsóknar og framfara munu vonir okkar um að tuttugasta og fyrsta öldin veiti okkur réttlátara og farsælla samfélag rætast.

Sagan sýnir okkur að ef við túum á okkur sjálf, þjóðina og landið eru okkur allir vegir færir.

Það er hlutverk okkar að vísa veginn að þessu Íslandi framtíðarinnar. “Vilji er allt sem þarf.”

Kosningarnar næstu verða í vorbyrjun. Megi “vorboðinn ljúfi” verða ríkisstjórn með nýjar áherslur.

Ríkisstjórn með kjark og þor. Ríkisstjórn með réttlæti að leiðarljósi.

Kæru vinir, megi vorið marka birtingu nýrrar vonar og upphafið að framsókn á öllum sviðum íslensks mannlífs. Framsókn fyrir heimilin. Framsókn fyrir atvinnulífið. Framsókn fyrir Ísland.

01/28/13

Aldrei að víkja!

Virðulegi forseti.

Ísland hefur unnið fullnaðarsigur í Icesave málinu þrátt fyrir að við ofurefli hafi verið að etja. Tvær af valdamestu alþjóðastofnunum heims beittu sér gegn Íslendingum á oft á tíðum ósvífinn og algerlega óásættanlegan hátt. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var að hluta misnotaður til að reyna að þvinga Íslendinga til að gefa eftir í málinu. Og Evrópusambandið tók ákvörðun um það í fyrsta skipti í sögu sinni að gerast aðili að málaferlum fyrir EFTA dómstólnum til að veita ESA fulltingi í því að reyna að knésetja Íslendinga. Og gengu býsna hart fram í því, það var hátt reitt til höggs. Fulltrúi Evrópusambandsins sagði við málsmeðferðina að dómstóllinn mætti ekki komast að annarri niðurstöðu en að sakfella Íslendinga, vegna þess að ef það gerðist ekki þá færi allt í kaldakol.

EFTA dómstóllinn lét ekki þvínga sig og komst að niðurstöðu í samræmi við það sem er lagalega rétt.  Og það var mikið undir. Við sjáum það nú, á útreikningum frá fjármálaráðuneytinu sjálfu, að ef að fyrsti Icesave samningurinn hefði verið samþykktur þá næmi kostnaður við hann í maí á síðasta ári 250 milljörðum.  Síðan þá hefur krónan veikst og kostnaðurinn aukist enn.

250 milljörðum króna hefði kostnaðurinn numið í erlendri mynt. Erlendri mynt sem við vitum nú að er ekki til í landinu. Ísland hefði ekki getað staðið undir þessum kröfum. Og til að setja þetta í samhengi þá eru framlög til Landsspítalans á þessu ári 38,2 milljaðrar. Megnið af því skilar sér aftur til ríkisins, þetta eru laun sem eru greidd hér innanlands og skila sér aftur til ríkisins með sköttum. Svo að ef að nettó rekstrarkostnaður spítalans er um 20 milljarðar þá átti hér að gefa eftir að ósekju það sem að kostar að reka Landsspítalann í áratug. Peninga sem við áttum ekki til og hefði hér valdið neikvæðri keðjuverkun, veikt gengi krónunnar enn og gert ómögulegt að vinna okkur út úr þeirri efnahagsstöðu sem við vorum komin í.

Það er rétt að neyðarlögin björguðu miklu. Nú eina ferðina enn er það staðfest. En við skulum þá líka hafa í huga að enn er ekki búið að klára neyðarlögin. Enn er ekki búið að huga að hinni hliðinni, skuldahliðinni. Það tókst að verja eignir með neyðarlögunum en enn hefur ekki verið brugðist við skuldahliðinni og það er ágætt að setja tölurnar sem sparast með því að hafa ekki gert Icesave samningana í samhengi við hvað myndi kosta að leiðrétta skuldir heimilanna, jafnvel þótt ríkið ákvæði að taka allan kostnaðinn á sig, eins og ríkisstjórnin hefur stundum haldið fram ranglega að myndi leiða af skuldaleiðréttingu. Með öðrum orðum: Það myndi kosta minna að leiðrétta skuldir heimilanna á Íslandi en kostnaðurinn af Icesave samningunum.

Það er rétt að málsvarnarteymi Íslands stóð sig með afbrigðum vel.  En það byggði á rökum sem hópar sjálfboðaliða hafa barist fyrir að koma á framfæri árum saman.  Fólk sem að hafði þá samfélagslegu ábyrgð að það vildi ekki sætta sig við það þegar það sá að stjórnvöld voru að gera stór og alvarleg mistök. Þetta er fólk sem hefur af fórnfýsi unnið sjálfboðastarf árum saman vegna þess að það trúði á réttlætið. Og nú hefur réttlætið náð fram að ganga.

Og þó við einbeitum okkur fyrst og fremst í dag að því að fagna sigri í málinu, fagna sigri Íslands, þá er ekki hægt annað en að líta um öxl, þó ekki væri til annars en að læra af mistökum sem gerð hafa verið í málinu. Það er ekki hægt annað en að minnsta kosti spyrja fulltrúa þessarar ríkisstjórnar, sem í tvígang hefur reynt að setja himinháar kröfur sem ekki var innistæða fyrir á herðar íslensks almennings, tvisvar verið gerð afturreka með þær í atkvæðagreiðslu og nú tapað dómsmáli, það er ekki hægt að spyrja að öðru en því hvort að menn ætli að biðjast afsökunar.

Tapað dómsmáli segi ég, því að við höfum fengið að heyra það oft hér, ekki síst af vörum hæstvirts atvinnuvegaráðherra, þegar bent hefur verið á hvaða afleiðingar það hefði haft að samþykkja Icesave samningana að við skyldum bara bíða og sjá, við skyldum bara bíða og sjá þegar niðurstaðan kæmi í janúar. Og nú er niðurstaðan komin. Hún er tap fyrir málstað Evrópusambandsins, málstað ESA, málstað Breta og Hollendinga og þann málstað sem að ríkisstjórnin hélt hér á lofti árum saman.

Vegna þess að þó að það sé rétt sem hæstvirtur utanríkisráðherra segir, að við höfum verið beitt þvingunum í þessu máli, þá kom megnið af hræðsluáróðrinum – hættulegasti hræðsluáróðurinn – héðan: Að heiman.

Hér var því haldið fram að Ísland myndi breytast í einhvers konar Kúbu norðursins eða Norður-Kóreu vestursins, ef við gæfum ekki eftir í þessu máli, hvað sem liði réttlætinu. Og ef það er rétt sem hæstvirtur utanríkisráðherra segir, sem ég tel vera rétt, að við höfum verið beitt þvingunum af alþjóðastofnunum til að greiða það sem okkur ber ekki að greiða samkvæmt lögum eins og staðfest var í dag, nú hvað er þá hægt að kalla það annað en fjárkúgun? Hæstvirtur utanríkisráðherra er að segja að við höfum verið beitt fjárkúgun. Og ætlum við að láta það óátalið? Við hljótum að ætlast til þess af ríkisstjórninni, að hún bregðist við þegar það hefur verið staðfest að aðþjóðastofnanir, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn að hluta til og Evrópusambandið, hafi reynt að beita okkur fjárkúgun.

Það kom aldrei upp sú staða í þessu máli að það væri réttlætanlegt að gefa upp rétt Íslendinga. Og það vissi þjóðin. Þjóðin lét ekki hræða sig til að gefa eftir rétt sinn.

Og nú skulum við vona að menn læri af reynslunni, læra að það geti verið gagnlegt að leita samráðs, vinna saman. En það samráð vel að merkja verður að vera á grundvelli staðreynda og rökræðu. Það hefði ekki verið æskilegt ef stjórnarandstaðan eða Framsóknarmenn hefðu ákveðið að fara einhverja millileið í þessu máli. Samráð verður að byggja á staðreyndum og rökræðu.

Og við vonandi lærum það líka að þegar kemur að því að verja hagsmuni Íslands út á við þá verða allir að standa saman og ekki að hika. Það má aldrei gefa eftir rétt þjóðarinnar. Sjálfstætt ríki getur aldrei leyft sér að gefa eftir rétt sinn. Þegar réttlæti er annars vegar ættu menn að hafa í huga kjörorð Jóns Sigurðssonar sem eru letruð við styttuna hér í Alþingishúsinu: Aldrei að víkja. Þegar réttlætið er annars vegar má ekki víkja.

Ísland hefur nú unnið fullnaðarsigur með því að standa á rétti sínu. Við höfum fengið uppreist æru, landið sem var beitt hryðjuverkalögum og fjárkúgunum í framhaldinu. Látum þetta verða til þess að það hvarfli aldrei að okkur annað í framtíðinni en að standa ávallt öll saman þegar kemur að því að verja hagsmuni Íslands! 

01/26/13

Nokkrar staðreyndir um Icesave og EFTA dóm

Á mánudaginn tilkynnir EFTA dómstóllinn um niðurstöðu sína í Icesave-málinu. Flestir muna þann gengdarlausa hræðsluáróður sem rekinn var fyrir undirritun Icesave-samninganna og átti ekki við nein haldbær rök að styðjast. Þrátt fyrir þann áróður gaf íslenska þjóðin skýr skilaboð í málinu í tvígang. Nú þegar niðurstaða er á næsta leiti er farið að bera á sams konar orðræðu. Í fréttum birtast tilvitnanir úr skýrslum frá AGS og lánshæfismatsfyrirtækjum sem eins og áður hóta ógurlegum skuldum með refsivöxtum verði niðurstaða dómstólsins óhagstæð.

Rétt er að staldra stuttlega við þessar tölur sem nú sveima um fréttamiðla um hugsanlegan „kostnað Íslands af Icesave málinu“. Tölurnar eru teknar upp úr skýrslu AGS, en þar stendur að þær séu byggðar á upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum. Því miður virðist enginn hafa bent fulltrúum AGS á þá staðreynd að upplýsingar sem íslensk stjórnvöld hafa látið frá sér fara um Iceasve málið hafa oft á tíðum reynst í litlu samhengi við staðreyndir málsins. Nægir þar að rifja upp mat Seðlabanka Íslands á skuldastöðu ríkisins sem notað var til að réttlæta samþykkt Icesave 2 fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, en tók skyndilega dramatískum breytingum til hins verra eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því eðlilegt að velta fyrir sér á hvaða forsendum frá stjórnvöldum mat AGS er byggt nú?

Hvað gerist eftir mánudaginn?

Nú þegar von er á niðurstöðu EFTA dómstólsins er gott að rifja upp nokkur grunnatriði málsins og minna á hverju er við að búast þegar dómur hefur verið kveðinn upp. Við skulum byrja á nokkrum mikilvægum staðreyndum:

 1. Íslensku neyðarlögin tryggðu Bretum og Hollendingum mun meiri heimtur úr þrotabúi Landsbankans en þeir hefðu annars getað vonast eftir. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda bættu þannig rétt Icesave innistæðueigenda mikið.
 2. Þrotabú Landsbankans hefur þegar greitt út rúmlega 600 milljarða króna til kröfuhafa, Breta og Hollendinga. Það er 50% af öllum forgangskröfum í þrotabúið, helmingurinn af öllum Icesave innistæðunum.
 3. Bretar og Hollendingar hafa fengið upphæð lágmarkstryggingarinnar vegna Icesave (upphæðina sem samningarnir snerust um) greidda út hraðar heldur en ef Icesave samningar hefðu verið í gildi. Sú tala er nú nálægt 70% lágmarkstryggingarinnar.
 4. Nú virðist loks öruggt að þrotabú Landsbankans muni geta greitt allar forgangskröfur í búið, þar á meðal allar kröfur vegna Icesave, einnig kröfur breskra sveitarfélaga og annarra lögaðila.
 5. Þrotabú Landsbankans mun greiða þessa upphæð út hver sem niðurstaða EFTA dómstólsins  verður. Það er því ljóst að Bretar og Hollendingar munu fá allar Icesave innistæðurnar greiddar að fullu án þess að íslenskir skattgreiðendur þurfi að veita ríkisábyrgð fyrir einni einustu krónu.

Hvað með fullyrðinguna „Við munum þurfa að borga meira ef við töpum“?

Eftir að þriðja Icesave samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu reis upp mikill örlagakór (sem enn lætur á sér kræla) og hélt því fram að ef Ísland tapaði málinu myndi það kosta íslenska skattgreiðendur helmingi meira en Icesave kröfur Breta og Hollendinga hljóðuðu upp á til að byrja með. Því var haldið fram að „Íslendingar yrðu þá að borga 1300 milljarða“, allar Icesave innistæður upp í topp í stað lágmarkstryggingarinnar sem var um helmingur þeirrar upphæðar. 

Þessi hræðsluáróður hefur því miður ekki enn verið kveðinn alveg niður. Enn er til fólk sem heldur þessu blákalt fram. Því er mikilvægt að minna á að þetta er rangt. Við skulum rifja upp nokkrar staðreyndir um það hvaða þýðingu það hefur í raun og veru fyrir Ísland ef EFTA dómstóllinn dæmir Íslandi í óhag:

 1. Engin greiðsluskylda felst í slíkum dómi. EFTA dómstóllinn mun aðeins skera úr um það hvort Ísland hafi brotið gegn EES samningnum, þ.e. hvort tilskipun ESB um innistæðutryggingar hafi verið uppfyllt. 
 2. Ef dómurinn kemst að því að um brot hafi verið að ræða kemur málið aftur á borð íslenskra stjórnvalda sem þá þurfa að bregðast við. 
 3. Einfaldasta leiðin fyrir íslenska ríkið til að bregðast við er að benda á að Bretar og Hollendingar muni fá allar Icesave innistæðurnar greiddar úr þrotabúi Landsbankans, ekki aðeins lágmarksupphæðina.
 4. Vilji Bretar og Hollendingar láta reyna á skaðabótarétt sinn, t.d. til að knýja fram vexti, geta þeir höfðað skaðabótamál gegn íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
 5. Í slíku máli þyrftu Bretar og Hollendingar hins vegar að sýna fram á að aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafi valdið þeim tjóni. Það er hins vegar vandséð hvernig sýnt verður fram á slíkt tjón, því eins og bent var á hér í upphafi bættu aðgerðir íslenskra stjórnvalda rétt Breta og Hollendinga umtalsvert með setningu neyðarlaganna.
 6. Allar hugsanlegar kostnaðartölur sem settar eru fram um slíkt skaðabótamál er gott að skoða í samhengi við kostnað Icesave samninganna. Samkvæmt mati sem fjármálaráðuneytið vann fyrir Svavar Gestsson og miðast við 7. maí 2012 (miðað við gengi krónunnar 1. mars 2012) var heildarvaxtakostnaður íslenska ríkisins vegna Icesave 3 samningsins, hefði hann verið samþykktur, kominn í um 80 milljarða. Vaxtakostnaður af Icesave 2 (vaxtahlé) var kominn í 182 milljarða og Icesave 1 í 248 milljarða. Allt auðvitað í erlendri mynt sem ekki er til þ.a. gengið hefði veikst enn meira og kostnaðurinn orðið enn meiri. 

Mikilvægast að stjórnvöld haldi ró sinni

Það sem er mikilvægast í Icesave málinu nú er að íslensk stjórnvöld haldi ró sinni hver sem niðurstaðan verður. Tíminn hefur alltaf unnið með Íslendingum í Icesave málinu. Hann mun gera það áfram.

Íslensk stjórnvöld hafa því miður haldið frámunalega illa á Icesave málinu frá upphafi þess, hundsað faglegar og fræðilegar ráðleggingar, leynt efnisatriðum samninga og ítrekað reynt að þvinga málið í gegn á allt of miklum hraða, svo eitthvað sé nefnt. Þessi vinnubrögð mega ekki endurtaka sig.  

Þegar niðurstaða EFTA dómstólsins liggur fyrir þurfa íslensk stjórnvöld að sýna það í verki að þau hafi lært af mistökunum. Ef niðurstaðan verður Íslandi í óhag mega stjórnvöld ekki hlaupa upp til handa og fóta í von um að Bretar og Hollendingar „leyfi“ þeim að skrifa undir fjórða Icesave samninginn sem veiti ríkisábyrgð á himinháum vaxtagreiðslum. Staðreyndir málsins og tvístaðfestur vilji íslensku þjóðarinnar leyfir ekki slík vinnubrögð.

Nú, eins og áður, er mikilvægt að umræða og umfjöllun um Icesave málið byggi á staðreyndum. Og staðreyndirnar gefa Íslendingum ekki tilefni til að óttast niðurstöðu málsins.

11/17/12

Verkefni framtíðarinnar: Ræða á miðstjórnarfundi 17. nóvember 2012

Kæru félagar

Bestu þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til að mæta til þessa mikilvæga miðstjórnarfundar þrátt fyrir erfiða færð og veður.

Verkefni okkar er að undirbúa flokksþing og aðdraganda einhverra mikilvægustu þingkosninga sem fram hafa farið á Íslandi.

Kosningar eru alltaf mikilvægar og oft hefur verið tekist á um stór mál í alþingiskosningum.

En nú verður kosið um hvernig íslenskt samfélag eigi að þróast, ekki aðeins til næstu ára heldur áratuga og jafnvel allrar framtíðar.

Landið stendur núna samtímis frammi fyrir gríðarstórum efnahagslegum ógnum og stórkostlegum tækifærum.

Á næsta kjörtímabili ræðst hvort vandamálin verða leyst eða hvort þau verða óviðráðanleg. Hvort tækifærin verða nýtt eða þeim sólundað.

Við framsóknarmenn höfum að undanförnu lagt áherslu á að benda á tækifærin og hvernig megi nýta þau.

Á síðasta þingi fyrir kosningar hefur þingflokkurinn einbeitt sér að því að ræða hvernig rétt sé að gera hlutina í næstu ríkisstjórn fremur en að ræða mistök þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr.

Hér á síðasta miðstjórnarfundi fyrir kosningar er hins vegar óhjákvæmilegt að fara yfir kjörtímabilið sem er að klárast, gera upp framgöngu ríkisstjórnarinnar og ræða feril okkar í stjórnarandstöðu. – En jafnframt mun ég ræða hvernig við ætlum að nýta hin fjölmörgu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á næsta kjörtímabili.

Continue reading

06/4/12

Pöntuð heimsendaspá um skuldaleiðréttingu. Muna menn heimsendaspárnar um Icesave?

Nú hefur ríkisstjórnin látið skrifa fyrir sig enn eina skýrsluna um skuldaleiðréttingu og enn á ný á sömu forsendum. Til að vera viss um að fá sömu niðurstöðu og áður voru m.a. sömu aðilar og skiluðu sams konar skýrslu fyrir nokkrum mánuðum fengnir í verkið.

Enn sem fyrr er einkum litið á aðra hlið málsins og ekkert mat lagt á hvað það kostar samfélagið að ráðast EKKI í aðgerðir vegna skuldavandans. Jafnframt er í meginniðurstöðum gert ráð fyrir að allt myndi innheimtast upp í topp þótt skuldir yrðu ekki lækkaðar og gert ráð fyrir að ríkið tæki allan kostnaðinn á sig.

Þess er að vísu getið í skýrslunni að eins og sakir standi sé ólíklegt að allt myndi innheimtast og því sé kostnaðurinn ofáætlaður. Það er hins vegar ekki gert meira með þá staðreynd og hennar hefur hvergi verið getið í fréttum.

Continue reading