Aldrei að víkja!

Virðulegi forseti.

Ísland hefur unnið fullnaðarsigur í Icesave málinu þrátt fyrir að við ofurefli hafi verið að etja. Tvær af valdamestu alþjóðastofnunum heims beittu sér gegn Íslendingum á oft á tíðum ósvífinn og algerlega óásættanlegan hátt. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var að hluta misnotaður til að reyna að þvinga Íslendinga til að gefa eftir í málinu. Og Evrópusambandið tók ákvörðun um það í fyrsta skipti í sögu sinni að gerast aðili að málaferlum fyrir EFTA dómstólnum til að veita ESA fulltingi í því að reyna að knésetja Íslendinga. Og gengu býsna hart fram í því, það var hátt reitt til höggs. Fulltrúi Evrópusambandsins sagði við málsmeðferðina að dómstóllinn mætti ekki komast að annarri niðurstöðu en að sakfella Íslendinga, vegna þess að ef það gerðist ekki þá færi allt í kaldakol.

EFTA dómstóllinn lét ekki þvínga sig og komst að niðurstöðu í samræmi við það sem er lagalega rétt.  Og það var mikið undir. Við sjáum það nú, á útreikningum frá fjármálaráðuneytinu sjálfu, að ef að fyrsti Icesave samningurinn hefði verið samþykktur þá næmi kostnaður við hann í maí á síðasta ári 250 milljörðum.  Síðan þá hefur krónan veikst og kostnaðurinn aukist enn.

250 milljörðum króna hefði kostnaðurinn numið í erlendri mynt. Erlendri mynt sem við vitum nú að er ekki til í landinu. Ísland hefði ekki getað staðið undir þessum kröfum. Og til að setja þetta í samhengi þá eru framlög til Landsspítalans á þessu ári 38,2 milljaðrar. Megnið af því skilar sér aftur til ríkisins, þetta eru laun sem eru greidd hér innanlands og skila sér aftur til ríkisins með sköttum. Svo að ef að nettó rekstrarkostnaður spítalans er um 20 milljarðar þá átti hér að gefa eftir að ósekju það sem að kostar að reka Landsspítalann í áratug. Peninga sem við áttum ekki til og hefði hér valdið neikvæðri keðjuverkun, veikt gengi krónunnar enn og gert ómögulegt að vinna okkur út úr þeirri efnahagsstöðu sem við vorum komin í.

Það er rétt að neyðarlögin björguðu miklu. Nú eina ferðina enn er það staðfest. En við skulum þá líka hafa í huga að enn er ekki búið að klára neyðarlögin. Enn er ekki búið að huga að hinni hliðinni, skuldahliðinni. Það tókst að verja eignir með neyðarlögunum en enn hefur ekki verið brugðist við skuldahliðinni og það er ágætt að setja tölurnar sem sparast með því að hafa ekki gert Icesave samningana í samhengi við hvað myndi kosta að leiðrétta skuldir heimilanna, jafnvel þótt ríkið ákvæði að taka allan kostnaðinn á sig, eins og ríkisstjórnin hefur stundum haldið fram ranglega að myndi leiða af skuldaleiðréttingu. Með öðrum orðum: Það myndi kosta minna að leiðrétta skuldir heimilanna á Íslandi en kostnaðurinn af Icesave samningunum.

Það er rétt að málsvarnarteymi Íslands stóð sig með afbrigðum vel.  En það byggði á rökum sem hópar sjálfboðaliða hafa barist fyrir að koma á framfæri árum saman.  Fólk sem að hafði þá samfélagslegu ábyrgð að það vildi ekki sætta sig við það þegar það sá að stjórnvöld voru að gera stór og alvarleg mistök. Þetta er fólk sem hefur af fórnfýsi unnið sjálfboðastarf árum saman vegna þess að það trúði á réttlætið. Og nú hefur réttlætið náð fram að ganga.

Og þó við einbeitum okkur fyrst og fremst í dag að því að fagna sigri í málinu, fagna sigri Íslands, þá er ekki hægt annað en að líta um öxl, þó ekki væri til annars en að læra af mistökum sem gerð hafa verið í málinu. Það er ekki hægt annað en að minnsta kosti spyrja fulltrúa þessarar ríkisstjórnar, sem í tvígang hefur reynt að setja himinháar kröfur sem ekki var innistæða fyrir á herðar íslensks almennings, tvisvar verið gerð afturreka með þær í atkvæðagreiðslu og nú tapað dómsmáli, það er ekki hægt að spyrja að öðru en því hvort að menn ætli að biðjast afsökunar.

Tapað dómsmáli segi ég, því að við höfum fengið að heyra það oft hér, ekki síst af vörum hæstvirts atvinnuvegaráðherra, þegar bent hefur verið á hvaða afleiðingar það hefði haft að samþykkja Icesave samningana að við skyldum bara bíða og sjá, við skyldum bara bíða og sjá þegar niðurstaðan kæmi í janúar. Og nú er niðurstaðan komin. Hún er tap fyrir málstað Evrópusambandsins, málstað ESA, málstað Breta og Hollendinga og þann málstað sem að ríkisstjórnin hélt hér á lofti árum saman.

Vegna þess að þó að það sé rétt sem hæstvirtur utanríkisráðherra segir, að við höfum verið beitt þvingunum í þessu máli, þá kom megnið af hræðsluáróðrinum – hættulegasti hræðsluáróðurinn – héðan: Að heiman.

Hér var því haldið fram að Ísland myndi breytast í einhvers konar Kúbu norðursins eða Norður-Kóreu vestursins, ef við gæfum ekki eftir í þessu máli, hvað sem liði réttlætinu. Og ef það er rétt sem hæstvirtur utanríkisráðherra segir, sem ég tel vera rétt, að við höfum verið beitt þvingunum af alþjóðastofnunum til að greiða það sem okkur ber ekki að greiða samkvæmt lögum eins og staðfest var í dag, nú hvað er þá hægt að kalla það annað en fjárkúgun? Hæstvirtur utanríkisráðherra er að segja að við höfum verið beitt fjárkúgun. Og ætlum við að láta það óátalið? Við hljótum að ætlast til þess af ríkisstjórninni, að hún bregðist við þegar það hefur verið staðfest að aðþjóðastofnanir, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn að hluta til og Evrópusambandið, hafi reynt að beita okkur fjárkúgun.

Það kom aldrei upp sú staða í þessu máli að það væri réttlætanlegt að gefa upp rétt Íslendinga. Og það vissi þjóðin. Þjóðin lét ekki hræða sig til að gefa eftir rétt sinn.

Og nú skulum við vona að menn læri af reynslunni, læra að það geti verið gagnlegt að leita samráðs, vinna saman. En það samráð vel að merkja verður að vera á grundvelli staðreynda og rökræðu. Það hefði ekki verið æskilegt ef stjórnarandstaðan eða Framsóknarmenn hefðu ákveðið að fara einhverja millileið í þessu máli. Samráð verður að byggja á staðreyndum og rökræðu.

Og við vonandi lærum það líka að þegar kemur að því að verja hagsmuni Íslands út á við þá verða allir að standa saman og ekki að hika. Það má aldrei gefa eftir rétt þjóðarinnar. Sjálfstætt ríki getur aldrei leyft sér að gefa eftir rétt sinn. Þegar réttlæti er annars vegar ættu menn að hafa í huga kjörorð Jóns Sigurðssonar sem eru letruð við styttuna hér í Alþingishúsinu: Aldrei að víkja. Þegar réttlætið er annars vegar má ekki víkja.

Ísland hefur nú unnið fullnaðarsigur með því að standa á rétti sínu. Við höfum fengið uppreist æru, landið sem var beitt hryðjuverkalögum og fjárkúgunum í framhaldinu. Látum þetta verða til þess að það hvarfli aldrei að okkur annað í framtíðinni en að standa ávallt öll saman þegar kemur að því að verja hagsmuni Íslands!