06/12/17

Fjármálakerfið vann kosningarnar

Nú eru tvö ár liðin frá því þáverandi ríkisstjórn kynnti áform um losun hafta og aðgerðir því samhliða. Á þeim tíma sem liðinn er hafa þær sannað gildi sitt. Í ljós hefur komið að aðgerðir sem hvergi höfðu verið reyndar áður, og flestir töldu óframkvæmanlegar, gjörbreyttu stöðu samfélagsins til hins betra. Útfærslan sem fólst í svokölluðum stöðugleikaframlögum hefur líka sannað sig, því með batnandi efnahag (sem leiddi ekki hvað síst af aðgerðunum) hefur verðmæti framlaganna vaxið jafnt og þétt. Ekkert ríki hefur í seinni tíma sögu náð eins miklum efnahagslegum viðsnúningi á eins skömmum tíma og Ísland gerði eftir að áformunum var hrint í framkvæmd.

Ný reynsla

Hagsmunirnir sem tekist var á um voru því meiri en menn áttu að venjast á Íslandi og aðferðirnar sem beitt var við hagsmunagæsluna voru ólíkar því sem við höfum átt að venjast. Nýr veruleiki blasti við landsmönnum eins og komið hefur í ljós, þótt margir hafi efast í fyrstu.

Síðan þá hafa málin skýrst og Íslendingar fengið aukna innsýn í hversu miklið var undir og hvaða aðferðum aðilar eins og þeir sem hugðust hagnast á efnahagslegum óförum Íslands beita. Það fór ekki leynt að þessir aðilar, einkum vogunarsjóðir í New York og London, vildu nýjan forsætisráðherra, nýja ríkisstjórn og nýja stefnu. Öllu þessu náðu þeir.

Langt komið en ekki lokið

Sem betur fer var sigur Íslands að mestu í höfn áður en þetta gerðist en það breytir því ekki að gífurlegir almannahagsmunir fólust í því að fylgja málinu eftir til enda, eins og ég rakti í apríl í fyrra. Það sem út af stóð var einkum tvennt:

I. Að klára að leysa aflandskrónuvandann (aflandskrónur eru krónur í eigu erlendra fjárfesta sem lokuðust inni í höftum og voru að langmestu leyti keyptar af vogunarsjóðum eftir að höftin voru sett á).

II. Að nýta það tækifæri sem haftalosunin og stöðugleikaframlögin sköpuðu til að ráðast í endurskipulagningu íslenska fjármálakerfisins svo það þjóni betur hagsmunum almennings og atvinnulífs.

Þetta eru ekki lítil verkefni en allt var til reiðu svo klára mætti þau á tiltölulega skömmum tíma. Raunin varð því miður allt önnur og það gremst mér mjög af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að aðferðirnar sem við beittum virkuðu sem skyldi og til varð einstakt sögulegt tækifæri til að leysa það sem út af stóð. Í öðru lagi, eins og ég lýsti sjálfur á sínum tíma, taldi ég þetta það mikilvægt að ég var reiðubúinn til að stíga til hliðar ef það mætti verða til að skapa frið til að ljúka málinu hindranalaust. Í þriðja lagi vegna þess að það er afleitt fordæmi að setja að leyfa vogunarsjóðum að ná sínu fram með misjöfnum aðferðum á Íslandi.

Lítum nú nánar á ókláruðu verkefnin tvö. Byrjum á aflandskrónunum.

Nei, nú er okkur alvara

Tímaáætlun framkvæmdahóps um haftalosun var virt og lítið gerðist í málinu fyrr en síðastliðið haust þegar haldið var útboð til að leysa aflandskrónuvandann. Þar gafst eigendum aflandskróna kostur á að skipta krónunum í gjaldeyri og fara með hann úr landi gegn því að gefa »afslátt« af skráðu virði krónunnar. Þetta var frá upphafi liður í heildarplaninu sem gekk út á að allir skiptu með sér kostnaðinum við að rétta efnahag landsins af. Enginn átti að hagnast á því að taka ekki þátt. Þess vegna var útskýrt að þeir sem ekki vildu taka þátt í útboðinu myndu sitja fastir með krónurnar sínar um fyrirsjáanlega framtíð á lágum sem engum vöxtum.

Þátttaka í útboðinu var lítil. Af ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar hættu nokkrir af stærstu krónueigendunum við að taka þátt í útboðinu rétt fyrir lokun. Þó var ljóst að íslensk stjórnvöld höfðu misst trúverðugleikann. Fulltrúar vogunarsjóðanna höfðu séð með eigin augum að hægt væri að brjóta þau á bak aftur.

Lítið gerðist svo í málinu þar til ný ríkisstjórn tilkynnti óvænt í mars síðastliðnum að samið hefði verið við vogunarsjóði um að þeim yrði hleypt út með krónurnar sínar á mun hagstæðara gengi en stóð til boða í útboðinu í fyrra.

Samningurinn náði til 90 milljarða króna af þeim 200 sem eftir stóðu af »snjóhengjunni«. Sama dag var tilkynnt að þeir sem ekki hefðu þegar skrifað upp á tilboðið (þeir sem héldu á 110 milljörðum) hefðu »næstu tvær vikurnar« til að ganga inn í samninginn. Ella sætu þeir eftir.

En nú voru vogunarsjóðirnir búnir að sjá svo ekki varð um villst að hægt væri að brjóta, eða að minnsta kosti beygja, íslensk stjórnvöld. Nýja kostaboðið frá Íslandi var því ekki lengur nógu gott og áhuginn á þátttöku lítill eða enginn

Skemmst er frá því að segja að vikurnar tvær sem hófust í mars eru enn að líða því stjórnvöld hafa ítrekað framlengt frestinn vegna áhugaleysis vogunarsjóðanna. Nú stendur til að hann klárist næstkomandi fimmtudag, þann 15. júní.

Stjórnvöldum er þó væntanlega alvara með dagsetninguna 15. júní eða hvað? Ekki miðað við það að fjármálaráðuneytið er þegar búið að tilkynna Reuters að næsta haust sé von á frumvörpum frá ríkisstjórninni um að losa höft af aflandskrónum.

Dettur einhverjum í hug að áhugi á þátttöku í sérstökum »krónusölu-díl« nýrrar ríkisstjórnar sé mikill þegar krónan er búin að styrkjast jafnt og þétt og stjórnvöld hafa stöðugt gefið meira eftir og loks tilkynnt að þau hyggist gefa alveg eftir næsta haust?

Fjármálakerfið

Þá að hinu atriðinu sem hefur verið óklárað frá því í apríl í fyrra, þ.e. slitabúunum og framtíð fjármálakerfisins.

Óþarfi er að rekja hér í smáatriðum þá furðulegu atburði sem tengjast sölu Arion banka. Eins og sakir standa er útlit fyrir að vogunarsjóðir fái að selja sjálfum sér bankann á lægsta mögulega verði (og e.t.v. enn lægra en það) og komast þannig hjá því að láta ríkissjóð fá eðlilega hlutdeild í verðmæti bankans (í samræmi við stöðugleikaskilyrðin).

Það vakti athygli þegar ég benti á að einn kaupendanna hefði verið látinn greiða hundruð milljóna Bandaríkjadala í sektir vegna mútumála í Afríku. Það hefði þó ekki átt að koma verulega á óvart miðað við starfsaðferðir sumra þeirra vogunarsjóða sem hafa gert sig gildandi á Íslandi. Sjóða sem sérhæfa sig í að kaupa kröfur í ríkjum í vanda og innheimta þær upp í topp með öllum tiltækum ráðum. Sektir vogunarsjóðsins, eins himinháar og þær voru, eru auk þess skiptimynt í samanburði við það sem fjárfestingabankinn Goldman Sachs (samstarfsaðili Íslandsvinarins og vogunarsjóðsstjórans Sorosar) var dæmdur til að greiða vegna undirmálslánanna og vafninganna sem settu alþjóðafjármálakrísuna af stað.

Forsætis- og fjármálaráðherra hafa enn ekki fengist til að svara spurningum um hvort samningar um losun hafta á aflandskrónur var liður í kaupum vogunarsjóðanna á Arion banka, né hvers vegna forkaupsréttur ríkisins að bankanum var gefinn eftir. Engu hefur verið svarað um samskipti stjórnvalda við vogunarsjóðina sem þó viðurkenna sjálfir að þeir hafi tekið ákvarðanir að undangengnum samskiptum við íslensk stjórnvöld. Enda væri annað óhugsandi.

Niðurstaðan er sú að stjórnvöld hafa tekið algjöra U-beygju gagnvart hinum aðgangshörðu vogunarsjóðum og eru að missa tækifærið til að laga íslenska fjármálakerfið úr höndunum. Óljóst er hvað vogunarsjóðirnir ætla að gera við Arion banka. Ekkert liggur fyrir um hvað stjórnvöld ætla sér með Landsbankann, en í millitíðinni mun bankinn einbeita sér að því að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni verðmætustu lóð landsins. Staða hins ríkisbankans, Íslandsbanka, er svo algjör ráðgáta. Á meðan er vöxtum haldið tuttugu sinnum hærri en í Bretlandi á sama tíma og pundið fellur og íslenska krónan styrkist.

Það eina sem liggur fyrir er að sigurvegarar síðustu alþingiskosninga voru vogunarsjóðirnir og fjármálakerfið.

 

Greinin birtist í morgunblaðinu 12. júní 2017

 

12/29/16

Bréf til útvarpsstjóra

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem fylgist með umfjöllun um stjórnmál á hlutlægan hátt, að frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir átta árum síðan hefur hópur starfsmanna og verktaka í Efstaleiti 1 haft eitt og annað við mig og Framsóknarflokkinn að athuga umfram flesta (alla) aðra stjórnmálamenn og -flokka.

Þegar ég vísa til Ríkisútvarpsins, eða RÚV hér að neðan, er það gert til einföldunar. Mikilvægt er að taka fram að með því er ég síður en svo að vísa til allra starfsmanna stofnunarinnar enda hefur RÚV á að skipa mörgu af besta fólki sem ég hef kynnst í störfum mínum, fyrst sem starfsmaður Ríkisútvarpsins og svo sem stjórnmálamaður.

Innan Ríkisútvarpsins er þó hópur sem hefur sterkar skoðanir á pólitík og samfélagsmálum almennt og er ófeiminn við að sýna það í störfum sínum. Það væri synd að segja að umræddur hópur hafi haft samúð með áherslumálum mínum í stjórnmálum, svo ekki sé meira sagt. Þennan hóp hef ég kallað SDG-RÚV-hópinn eftir áhugasviðinu en læt sem fyrr segir nægja að tala um RÚV til einföldunar.

Áður en ég kem að meginerindinu leyfi ég mér, samhengisins vegna, að rifja upp nokkur dæmi. 

Fyrstu dagarnir

Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar féll í byrjun árs 2009 hófust viðræður um myndun minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vg til bráðabirgða eða fram að kosningum þremur mánuðum seinna. Slík stjórnarmyndun var háð því skilyrði að stjórnin nýtti það einstaka tækifæri sem þá var til staðar til að lækka skuldir almennings (m.a. með því að yfirtaka kröfur bankanna á hrakvirði og færa þær niður).

Því er ekki að neita að Ríkisútvarpið hafði verið liðtækt við að fella ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en ætlaðist greinilega ekki til að Framsóknarflokkurinn eða nýr formaður hans (og fyrrverandi starfsmaður stofnunarinnar) hefðu miklu hlutverki að gegna í framhaldinu.

Það er að minnsta kosti ekki hægt að halda því fram að stofnunin hafi haft miklar áhyggjur af því hvort eða hvernig minnihlutastjórnin myndi uppfylla skilyrði um skuldaniðurfærslu. Þess í stað var lögð ofuráhersla á að þrýsta á um að stjórninni yrði komið á koppinn.

Á meðan ég var að reyna að knýja á um að forystumenn Samfylkingarinnar og Vg staðfestu með hvaða hætti þeir ætluðu að uppfylla skilyrðin var stöðugt þrýst á mig að lýsa því yfir að Framsókn myndi verja minnihlutastjórnina. Í tilfinningahitanum, sem þá ríkti, spurði grátandi fréttamaður mig hvað ég væri eiginlega að gera, hvort ég ætlaði ekki að fallast á myndun ríkisstjórnar áður en allt færi til fjandans?

Að bæta enn skuldum á almenning

Í Icesave-stríðunum bar ekki mikið á að Ríkisútvarpið sýndi samstöðu með íslenskum almenningi. Erfitt eða ómögulegt var að koma á framfæri fréttum af staðreyndum sem studdu réttarstöðu og vígstöðu Íslands. Hins vegar voru endalaust kallaðir til »fræðimenn« sem útskýrðu að Íslendingum bæri að taka kröfurnar á sig. Ýmist vegna þess að það væri lagaleg skylda, efnahagsleg nauðsyn eða jafnvel að Íslendingar hefðu bara gott af því að borga þetta. Þeir sem þar gengu harðast fram eru enn þann dag í dag fengnir til að leggja mat á mig og stöðu mína á RÚV.

Eftir að forsetinn synjaði Icesave-lögunum staðfestingar í fyrra skiptið fór ekki á milli mála að margir innan stofnunarinnar töldu ábyrgð mína mikla. Ég fékk t.d. skilaboð um að hringja í fréttamann á Útvarpinu til að svara spurningum um málið. Ég hringdi og þegar fréttamaðurinn svaraði heilsaði hann með því að segja: »Hvað segir þú skíthæll?« Svo var ég beðinn að koma í Efstaleiti í viðtal þar sem ég fékk ekki mikið betri móttökur. Æstur starfsmaður fréttastofunnar (sem greinilega trúði eigin áróðri) spurði mig: »Hvað ert þú eiginlega búinn að gera, nú hrynur allt!«

Þegar forsetinn synjaði svo í seinna skiptið var ég staddur erlendis en fékk símtal frá fréttastofu RÚV og ekki í þeim tilgangi að flytja mér hamingjuóskir. Eftir að ég hafði lýst því að þetta væri góð niðurstaða var skellt á mig.

Kosningar

Fyrir kosningar 2009 var enginn skortur á viðmælendum sem útskýrðu að skuldalækkun og forsendur hennar væru eintómur popúlismi. Það sama var upp á teningnum 2013. Þá fengu menn stöðugt að heyra að ég væri með óábyrgar og óframkvæmanlegar hugmyndir og væri að skapa óraunhæfar væntingar. Enginn skortur var á sérfræðingum til að útskýra hversu vitlaust þetta væri allt saman og reglulega var minnt á eignarrétt kröfuhafa.

Viðtekin venja

Að ofan hef ég aðeins nefnt örfá dæmi. Við þau bætast meðal annars ótal pistlar fastráðinna starfsmanna og verktaka, umfjöllun í umræðuþáttum og jafnvel barnaefni. Í viðtalsþáttum í útvarpi og sjónvarpi hef ég svo fengið sérstakar trakteringar, jafnvel frá þeim sem að öllu jöfnu gera út á að vera »laufléttir« og lausir við pólitík.

Það er svo sem ekki eins og viðhorf þessa fólks til mín og annarra stjórnmálamanna séu sérstakt leyndarmál. Um það bera vott yfirlýsingar á mannamótum og jafnvel í viðtölum. Svo ekki sé minnst á facebook, twitter og blogg þar sem sama fólk lýsir skoðunum sínum á mér og öðrum stjórnmálamönnum. Það eitt fyllir tvær þykkar möppur.

Vald án ábyrgðar

Ríkisútvarpinu er falið mikið vald í lögum en því valdi eiga líka að fylgja ábyrgð og skyldur. Það var göfug hugmynd að stofna ríkisútvarp til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að fróðleik, afþreyingu og hlutlægum fréttum. Þegar lögð er sú kvöð á almenning að hann greiði fyrir slíka þjónustu hvort sem mönnum líkar betur eða verr er sjálfsögð krafa að stofnunin fari að lögum. Það getur varla talist ásættanlegt að pólitískir aktívistar fái gagnrýnilaust að nota slíka ríkisstofnun til að reka eigin áróður.

Þrátt fyrir að vald lýðræðislega kjörinna fulltrúa fari stöðugt minnkandi er ætlast til að þeir taki allri gagnrýni, helst án þess að svara fyrir sig. Meðferð Ríkisútvarpsins á valdi virðist hins vegar hafin yfir gagnrýni, og ekki bara það, það er beinlínis talið óviðeigandi að gagnrýna stofnunina.

Það er reyndar nokkuð almenn regla á fjölmiðlum, og hefur lengi verið, að játa aldrei mistök og biðjast aldrei afsökunar (nema það snúi að einhverjum sem tilheyrir þóknanlegum og ógagnrýniverðum hópi fólks). Þetta var löngu orðið ríkjandi viðhorf á RÚV þegar ég starfaði þar. Nú er hins vegar svo komið að gagnrýni flokkast nánast sem afbrot.

Refsing við afbrotum

Þeir sem fremja slíkt brot eru gjarnan sagðir hafa vegið að starfsheiðri RÚV-arans. Það virðist hins vegar ekki vera til neitt sem kallast að vega að starfsheiðri stjórnmálamanna. Þó eiga þeir vinnu sína undir starfsheiðri sínum á fjögurra ára fresti, í mesta lagi.

Svo er það sem ætti að valda enn meiri áhyggjum: Í seinni tíð hefur stofnunin talið sér sæmandi að gerast allt í senn, ákærandi, rannsakandi, saksóknari, dómari og böðull í tilteknum málum. Í stað þess að segja fréttir og lýsa atburðarás eru fréttir búnar til og atburðarás hönnuð.

Fólk sem lendir í því að stofnunin taki afstöðu gegn því má sín yfirleitt ekki mikils. Það er ekki aðeins vegna þess að RÚV getur stýrt túlkuninni og mótað afstöðu með því að beita öllu frá fréttum að skemmtiefni. Þeir sem voga sér að gera athugasemd eiga líka á hættu að kalla yfir sig enn meiri neikvæða umfjöllun því viðbrögðin eru oft þau að bæta í til að reyna að réttlæta fyrri ásakanir og sýna að meðferðin á viðkomandi hafi ekki verið tilhæfulaus. Við þessar aðstæður er ekki að undra að margir veigri sér við því að standa á rétti sínum.

Erindið

Þrátt fyrir ofangreinda hættu á refsingum get ég ekki annað en gert athugasemdir við að Ríkisútvarpið skuli á árinu 2016 hafa stigið það skref að leita samráðs við utanaðkomandi og erlenda aðila um að steypa ríkisstjórn Íslands af stóli. Þar notast ég við skilgreiningu sænsks samstarfsmanns RÚV sem sagðist síðastliðið vor vera á leið til Íslands til að framkvæma „coup“.

Þátttaka RÚV í verkefninu tók á sig ýmsar myndir. Áður en dæmalaus Kastljóssþáttur var sýndur var til að mynda hringt í tvígang í þingmenn stjórnarflokkanna til að fá álit þeirra á stöðu minni og ríkisstjórnarinnar. Mér vitanlega var ekki birt ein frétt, ekki einn viðtalsbútur við þá sem vörðu forsætisráðherrann og ríkisstjórnina. Aðeins ef tókst að ná í setningar sem hægt var að túlka sem gagnrýni voru svörin birt. Einn þingmanna stjórnarliðsins sem lenti í slíku sá þann kostinn vænstan að senda frá sér tilkynningu til að reyna að leiðrétta túlkun RÚV.

Svo var það hinn ótrúlegi Kastljóssþáttur. Þáttur sem var auglýstur dagana á undan eins og glæpamynd. Eins og komið hefur fram voru væntingarnar það miklar eða samstarfið það gott að mótmæli voru undirbúin og skipulögð dagana áður en þátturinn var sýndur.

Ég mun síðar fjalla betur um þá atburðarás alla en helstu staðreyndir ættu að vera flestum kunnar, þ.m.t. útvarpsstjóra. Þátturinn byggðist að sögn þeirra sem að honum komu á margra mánaða undirbúningsvinnu og gögnum sem sjónvarpsmönnum var skammtað af einhverjum dularfullum mönnum í útlöndum. Með fylgdu spurningar sem átti að spyrja. Úr þessu var búin til óskiljanleg moðsuða sem gekk út á að gefa til kynna að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu framið afbrot með því að fela eignir í skattaskjólum.

Ýmiss konar þvættingi öðrum var blandað inn í frásögnina og loks stuðst við falsað viðtal við mig. Viðtal sem menn höfðu beinlínis æft hvernig mætti láta koma sem verst út fyrir viðmælandann og rugla hann sem mest í ríminu um hvað verið væri að ræða. Viðtal sem var tekið á fölskum forsendum og í framhaldi af samskiptum sem að öllu leyti byggðust á hreinni lygi af hálfu starfsmanna og samstarfsmanna RÚV. Viðtal sem svo var klippt sundur og úr samhengi og svörtum fílter og öðrum tæknibrellum beitt í ofanálag. Á allan hátt óheiðarlega að verki staðið af hálfu samstarfsmanna Ríkisútvarpsins.

Á þessu byggði RÚV umfjöllun sína og eftirfylgni næstu daga og mánuði.

Skýringar og staðreyndir skiptu engu

Ekkert tillit var tekið til þeirra skýringa sem veittar höfðu verið. Vikum saman höfðum við hjón þó leitast við að svara öllu sem hægt var að svara og það blindandi því að sjónvarpsmennirnir vildu ekki sýna um hvaða gögn þeir voru að spyrja. Þess var reyndar getið í fréttum RÚV að ég og kona mín hefðum sent frá okkur greinargerð um málið en það sem þótti helst fréttnæmt var hversu löng greinargerðin var.

Allt sem ekki studdi við hina fyrir fram skrifuðu sögu var virt að vettugi. Þannig hringdu sjónvarpsmennirnir t.d. í bankamenn erlendis og fengu þar þau svör að skýringar okkar hjóna á tilurð fyrirtækisins væru líklega réttar. Bankamennirnir fengu að heyra að þetta væru ekki þau svör sem leitað væri eftir og að sjálfsögðu var ekkert með þau gert frekar en annað sem ekki studdi við handritið.

Ef tekið hefði verið tillit til skýringanna hefði líka fallið um sjálfa sig undarleg samsæriskenning um að ég hefði selt eiginkonu minni hundraða milljóna eignir til að komast hjá einhvers konar skráningu. Tilgáta sem sjónvarpsmennirnir höfðu bitið í sig vegna þess að þeir skildu ekki gögnin sem þeim voru send og gátu svo ekki hugsað sér að draga í land.

Framganga Ríkisútvarpsins var öll með mestu ólíkindum og á engan hátt skyld því sem mér var á sínum tímum kennt að væru grundvallarreglur fréttamennsku.

Eins og erlendis?

Nokkuð hefur borið á því að RÚV hafi reynt að afsaka framgöngu sína í málinu með því að vísa til þess að hún hafi verið í samræmi við umfjöllun erlendra fjölmiðla. Það er fjarri lagi.

Í fyrsta lagi byggðist umfjöllun erlendra miðla, að því leyti sem hún var á skjön við raunveruleikann, einkum á upplýsingum frá RÚV og samverkamönnum þess. Þannig bárust undarlegar fullyrðingar og fyrirspurnir frá allmörgum erlendum miðlum og þegar sýnt var fram á að fullyrðingarnar væru alrangar viðurkenndu sumir hinna erlendu fréttamanna að þeir hefðu fengið efnið sent frá Íslandi. Með öðrum orðum; RÚV og samverkamenn þess voru ekki að fylgja fordæmi erlendra miðla heldur að mata þá til að reyna að beita þeim fyrir sig í íslenskri pólitík.

Enda er ólíku saman að jafna þegar framganga RÚV er borin saman við erlenda miðla. Ég bendi útvarpsstjóra t.d. á að bera saman umfjöllun breskra miðla um forsætisráðherra Breta vegna Panama-skjalanna við það hvernig stofnunin sem hann stýrir vann úr því að finna nafn mitt í sömu skjölum.

Breska pressan er ekki rómuð fyrir miskunnsemi og sanngirni en umfjöllun um mál Camerons var þó á allan hátt yfirvegaðri en framganga RÚV hér heima. Breski forsætisráðherrann hafði þó ólíkt þeim íslenska hagnast á að hafa fjölskyldueignir í skattaskjóli. En auðvitað er það aukaatriði þegar markmiðið er að fella ríkisstjórn.

Breska dagblaðið Guardian, sem fylgir sömu pólitísku stefnu og RÚV og var hluti af þeim hópi fjölmiðla sem létu skammta sér Panama-upplýsingarnar, tók þó sérstaklega fram að blaðið hefði ekki séð neinar upplýsingar sem bentu til lögbrota eða óheiðarlegs ávinnings íslenska forsætisráðherrans eða konu hans.

Meira að segja sænska útgáfa Kastljóssþáttarins, sem stýrt var af samverkamanni RÚV, sem mér var síðar gert ljóst að þætti alræmdur “fauti” í sinni stétt, komst ekki í hálfkvisti við útgáfu RÚV. Fautinn hafði auk þess á orði að hann hefði haft efasemdir um hvort forsvaranlegt væri að ganga eins langt og gert var.

Eftirmálin

Eftir því sem frá leið þurfti enginn að efast um hvert væri megin skotmarkið. Þegar ég hafði stigið til hliðar hvarf skyndilega allur áhugi á Panama-skjölum og því hvaða nöfn hefðu birst þar og hvers vegna. Við tóku áhyggjur nokkurra RÚV-aktívista af því að ég kynni að halda áfram í stjórnmálum. Þær áhyggjur leyndu sér ekki á mannamótum og samfélagsmiðlum. Eftir fylgdu afar sérstæð afskipti af málefnum Framsóknarflokksins, köllum það einlægan áhuga. Sá áhugi birtist m.a. í beinum útsendingum frá hverjum Framsóknarfundinum á eftir öðrum auk reglubundinna viðtala við fólk sem menn vissu hvar þeir hefðu.

Meira að segja í kosningasjónvarpi RÚV sáu þáttastjórnendur ástæðu til að hefja þáttinn á geðvonskuathugasemdum um mig og spurningu um hvort ég ætlaði ekki að biðjast afsökunar. Það var svo sem ágætt að fá tækifæri til að svara hinum undarlegu athugasemdum en þó hefur ekki verið venjan á Íslandi að menn séu krafðir um afsökunarbeiðni fyrir að á þá hafi verið ráðist. Slíkt þekkist vissulega sums staðar í heiminum þar sem fólk er látið biðjast afsökunar, jafnvel refsað fyrir að á það hafi verið ráðist ef það tilheyrir ekki réttum þjóðfélagshópi. Í menningarbyltingunni í Kína var þetta t.d. viðtekin venja. En þetta hefur ekki verið siður á Íslandi.

Varla þarf að taka fram að áhugi Kosninga-RÚV á öðrum Panama-málum var svo gott sem enginn.

Staðreyndirnar

Víkur þá sögunni að nokkrum staðreyndum um málið sem RÚV nýtti á þann hátt sem ég lýsti hér að ofan.

1. Skattar greiddir eins fyrir íslenskt félag

Hvorki ég né eiginkona mín áttum eignir í skattaskjóli. Eignir eiginkonu minnar hafa verið í fjárstýringu hjá erlendum banka, frá því við vorum búsett erlendis. Erlent félag, sem þáverandi viðskiptabanki skráði og gaf nafnið Wintris, hélt utan um eignirnar. Því fyrirkomulagi var ekki á nokkurn hátt komið á til að draga úr skattgreiðslum á Íslandi. Enda hafa eignirnar í skattframtölum verið taldar fram sem eignir eiginkonu minnar og tekjur af þeim sem tekjur hennar. Kona mín sýndi þannig einbeittan vilja til að greiða til samfélagsins og enga tilburði til að nýta tækifæri til annars.

2. Aldrei reynt að fela það

Enda sá hún aldrei ástæðu til að fela tilvist félagsins eða skráningarlands þess. Það hefur birst á skattframtölum frá upphafi, nafn, skráningarland og eignir. Auk þess hafði ég löngu ákveðið með ríkisstjórninni að kaupa gögn um félög erlendis (sömu gögn og Ríkisútvarpið byggði umfjöllun sína á) og afhenda skattrannsóknarstjóra. Það skipti mig engu hvaða upplýsingar væri að finna í þeim “Panama-skjölum” enda aldrei reynt að fela tilvist félagsins.

3. Ekki bara samviskusöm heldur fórnfús

Ekki aðeins sýndi kona mín einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu og afþakkaði auk þess alla möguleika á að fresta eða draga úr skattlagningu á Íslandi. Hún sýndi líka að hún var reiðubúin til að fórna eins miklu og þurfa þætti svo að samfélagið gæti komist á réttan kjöl. Hún hafði átt eignir í hinum föllnu bönkunum í formi skuldabréfa sem lagalega voru eins og hverjar aðrar innistæður. Flestar af þessum eignum töpuðust eða voru teknar til að gera að fullu upp við þá sem áttu sams konar eignir skráðar sem innistæður eða í peningamarkaðssjóðum (sem eru skuldabréf). Samt studdi hún mig í þeirri baráttu að ganga enn á það sem eftir var af eignunum hennar svo hægt væri að koma til móts við skuldsett heimili og rétta af efnahagslíf landsins.

Ég hafði ekki kunnað við að stæra mig af þessu en Kastljós sneri því á hvolf og gaf í skyn að það væri stórkostlega grunsamlegt að vera reiðubúinn til að fórna eigin hagsmunum. Ekkert hefur farið fyrir umræðu um hagsmunatengsl þeirra sem tóku ákvörðun um að verja innistæður og eignir einstaklinga í peningamarkaðssjóðum upp á hundruð milljóna eða milljarða (og það á kostnað konu minnar og annarra).

Réttlæti RÚV felst í að níða þá í svaðið sem eru tilbúnir að fórna eigin hagsmunum en líta fram hjá því þegar menn verja eigin hagsmuni. Það er sitt hvað réttlæti og RÚV-læti

4. Nýtti ekki tækifæri til að hagnast á íslenskum aðstæðum

Efnaðasta fólk á Íslandi eru þeir sem áttu peninga erlendis eftir hrun og nýttu þá til að kaupa á brunaútsölunni á Íslandi. Þeim sem áttu fjármagn í útlöndum bauðst að kaupa íslenskar krónur af Seðlabankanum á afslætti. Vextir voru settir í hæstu hæðir, jafnvel þótt um verðtryggðar eignir væri að ræða. Eiginkona mín ákvað hins vegar að á meðan ég væri í stjórnmálum kæmi ekki til greina að nýta slík tækifæri til að hagnast á aðstæðum á Íslandi enda hætt við að það hefði þótt orka tvímælis.

Hvað ætli Kastljós hefði sagt ef eiginkona mín hefði keypt krónur á afslætti og ávaxtað þær á háum verðtryggðum vöxtum á Íslandi eða notað þær til að kaupa t.d. hlutabréf í Icelandair?

Niðurstaða

Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu, þrátt fyrir að engu hafi verið haldið leyndu um hið erlenda félag og þrátt fyrir óþrjótandi vilja konu minnar til að fórna meiru fyrir samfélagið í stað þess að nýta sér neyð þess, hefur hún mátt þola að verða skotmark Ríkisútvarpsins og samverkamanna þess í þeim tilgangi að ná á mig höggi.

Við það var beitt aðferðum sem standast hvorki siðferðilegt, faglegt né lagalegt mat.

Því spyr ég útvarpsstjóra:

Eru þessi vinnubrögð samboðin þeirri stofnun sem þú stýrir og í samræmi við hlutverk hennar?

En ég spyr líka spurningarinnar sem við vitum líklega flest svarið við:

Ert þú reiðubúinn til að biðja mig afsökunar fyrir hönd Ríkisútvarpsins og ef ekki mig þá eiginkonu mína, konu sem átti svo sannarlega ekki skilið að fá þá meðferð sem hún hlaut af hálfu Ríkisútvarpsins á árinu 2016?

 

Textinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 29.12.2016

11/15/16

Hvert stefna stjórnmálin?

Frá því að ég hóf, nokkuð óvænt, þátttöku í pólitík hefur mér orðið tíðrætt um eðli stjórnmála og hvað betur mætti fara í þeim efnum. Stundum hef ég vitnað til orða sem Winston Churchill lét falla í breska þinginu tveimur árum eftir seinni heimsstyrjöldina: „Sagt hefur verið að lýðræði sé versta stjórnkerfið fyrir utan öll hin sem reynd hafa verið við og við.“

Lýðræði hefur vissulega aldrei verið gallalaust en síðustu misseri hafa þær miklu grundvallarbreytingar sem eru að verða á stjórnmálum á Vesturlöndum verið mér hugleiknar. Auk þess að flytja allmörg erindi um þessa þróun á undanförnum árum skrifaði ég grein fyrir erlend blöð síðastliðið vor en birti hana svo á heimasíðu minni nýverið.

Viðfangsefnið líka útgangspunkturinn í ræðum mínum á miðstjórnarfundi og flokksþingi Framsóknarmanna. Ástæðan er sú að ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn og -flokkar verði að gera sér grein fyrir þessari þróun og eiga svör við henni ef ekki á að fara illa.

Trump

Stærsta afleiðing þessara miklu breytinga til þessa er kjör Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna. Nokkuð sem flestir virtust telja óhugsandi þar til aðfaranótt síðastliðins miðvikudags.

Afskipti Trumps af stjórnmálum hafa verið óviðurkvæmileg frá því að hann gekk til liðs við hóp fólks sem krafðist þess að Obama forseti sannaði að hann hefði fæðst í Bandaríkjunum. Sami hópur hélt því svo fram að enginn kannaðist við að forsetinn hefði verið nemandi í Columbia-háskóla auk annarra tilrauna til að gera hann tortryggilegan.

Allt var þetta pólitík á sérlega lágu plani. Síðan þá hefur Trump sagt ýmislegt sem ekki hefur verið til þess fallið að lyfta stjórnmálaumræðu á hærra plan. Óþarfi er að rekja það hér, enda búið að gera því öllu góð skil í fjölmiðlum undanfarna mánuði og ræða það margfalt meira en nokkuð sem við kemur æðstu stjórn Bandaríkjanna.

Augljóslega er ég ekki einn um að hafa efasemdir um framgöngu Donalds Trumps en mikilvægt er að átta sig á því að það er gagnslaust að ætla að skýra niðurstöðu forsetakosninganna með því að Bandaríkin séu full af heimsku fólki, byssuóðum rasistum og einangrunarsinnum. Það eru Bandaríkjamenn almennt ekki, hvorki kjósendur Demókrata né Repúblikana. Langflestir þeirra sem kusu Trump gerðu það ekki vegna, heldur þrátt fyrir, framgöngu hans og talsmáta.

Kjósendur Trumps töldu hann einu vonina um að hrist yrði upp í kerfi sem er hætt að virka sem skyldi fyrir almenning. Ekki hjálpaði það heldur til að framboð fulltrúa miðju- og vinstrimanna var fjármagnað af „Íslandsvinum“ á borð við fjárfestingabankann Goldman Sachs og hópi vogunarsjóðastjóra með George Soros í fararbroddi.

Þetta gerist ekki að ástæðulausu

Sú sögulega breyting sem við verðum nú vitni að kom ekki til að ástæðulausu. Stjórnmálamenn á Vesturlöndum voru margir orðnir of meðvirkir með þróuninni, of líkir innbyrðis og of einsleitir í nálgun sinni. Óskrifaðar rétthugsunarreglur voru orðnar allsráðandi um það með hvaða hætti stjórnmálamenn ættu að haga sér og tjá sig. Hægt var að gefa sér fyrirfram hverju stjórnmálamenn myndu svara nánast hvaða spurningu sem þeir voru spurðir, hvort sem þeir skilgreindu sig til vinstri eða hægri.

Rökræða um grundvallaratriði og leitin að nýjum og frumlegum hugmyndum hafði látið undan fyrir óttanum við að vera umdeildur, segja eitthvað sem félli ekki að rétthugsuninni eða storkaði ráðandi kerfi, jafnvel bara óttanum við að segja eitthvað sem gæti þurft að útskýra. Í staðinn reiddu menn sig á frasa um sjálfsagða hluti sem enginn gat verið á móti og storkuðu þannig engum en vöktu heldur enga umræðu og engar nýjar hugsanir.

Á sama tíma var „kerfinu“ í auknum mæli eftirlátið að stjórna. Embættismenn, stofnanir og innvígðir sérfræðingar kerfisins, auk ytri kerfa eins og fjármálageirans og samtaka á vinnumarkaði, lögðu línurnar og gera enn. Stöðugt er dregið úr valdi kjörinna fulltrúa almennings og það fært annað en ábyrgðin þó skilin eftir hjá pólitíkusunum. Úr því verður hættuleg skekkja, vald án ábyrgðar og ábyrgð án valds. Það sem er þó verst er að með því er valdið tekið af almenningi og fært til ólýðræðislegs kerfis. Kerfisræði tekur við af lýðræði.

Þessu er almenningur á Vesturlöndum að átta sig á, meðvitað og ómeðvitað, og um leið átta menn sig á því að hið ráðandi kerfi er í takmörkuðum tengslum við almenning. Kerfið telur það fremur vera hlutverk sitt að segja fólki hvernig hlutirnir þurfi og eigi að vera en að hlusta á og lúta vilja almennings.

Fyrir vikið er þeim stjórnmálamönnum og flokkum sem láta þetta viðgangast refsað, eins og eðlilegt er. Hættan er þó sú að ef hefðbundnir stjórnmálamenn og flokkar bregðast ekki við muni aðeins öfgamenn gera það.

Hvað er til ráða?

Hefðbundnir stjórnmálaflokkar þurfa að rifja upp hlutverk sitt. Þeir þurfa að geta rætt mál sem almenningur lætur sig varða. Flokkarnir þurfa að bjóða upp á lausnir á því hvernig hægt sé að laga gallað fjármálakerfi, þeir þurfa að þora að ræða viðkvæm en stór mál eins og innflytjendamál.

Flokkar þurfa að geta rætt umdeild mál og vera reiðubúnir að verja hagsmuni ólíkra hópa samfélagsins. Þora að ræða bæði kosti og galla stórra breytinga á borð við alþjóðavæðingu, benda á að henni fylgi miklir kostir en líka gallar. Hún eigi t.d. ekki að þýða undirboð á vinnumarkaði eða undirboð á vörum eins og matvöru (af hverju leyfa menn sér að kalla það sérhagsmunagæslu ef reynt er að bæta starfsaðstæður bænda en ekki ef það sama er gert fyrir háskólakennara?).

Flokkarnir þurfa svo eftir rökræðu byggða á staðreyndum að þora að taka afstöðu. Hvernig má það t.d. vera að enginn flokkur á Íslandi þorir að segja að hann vilji ganga í Evrópusambandið, jafnvel ekki flokkar sem voru stofnaðir út á það eitt? Í staðinn er talað í kringum hlutina með innihaldslausum frösum.

Umfram allt þurfa stjórnmálaflokkar að endurheimta kjark. Þora að standa fyrir eitthvað þótt því fylgi að vera umdeildir. Stjórnmálamenn vinna beinlínis við að vera umdeildir. Það er hlutverk þeirra að gefa fólki val og láta það finna að valið skipti máli.

Augljóslega þurfa menn svo oft að geta miðlað málum til að ná meirihluta en svo kölluð samræðustjórnmál eru í raun ekki annað en samsæri stjórnmálamanna gegn kjósendum. Ef það á að vera hlutverk stjórnmálamanna að sameinast helst allir um lægsta samnefnarann í hverju máli er lýðræðislegur vilji fyrir borð borinn og á meðan fer kerfið sínu fram. Það er hættuleg og ólýðræðisleg þróun.

Síðar mun ég fjalla um þær miklu hindranir sem stjórnmálamenn og flokkar mæta við það að takast á við kerfið og hvernig bregðast megi við þeim. Auk þess mun ég svo fjalla um þau stóru álitaefni sem bíða okkar Íslendinga og leggja til lausnir.

10/27/16

Politics in Interesting Times

It is becoming clear to anyone concerned with politics and history that we live in interesting times. Close to a decade after the start of the international financial crisis antiestablishment sentiment has by no means receded. There is a growing distrust in traditional institutions, political parties and politicians and everything to do with finance and commerce is increasingly seen as suspicious activity at best.

It is important to note that this is not happening without reason. Politicians in Western societies had to a large extent become complacent, too much like each other and relying on unwritten politically correct guidelines on what a politician should say and do. Ideological debate and the search for novel ideas had given way to an ever growing fear of controversy and an inclination to leave the running of our societies to bureaucrats, thereby disconnecting the electorate from the decision making.

The power of the people has been curtailed and they know it. The result can now be seen all over Europe and in the United States with a continuing growth of new anti-establishment parties and politicians.

I can hardly be considered a traditional politician although I am the leader of Iceland’s oldest political party (100 years old this year). I became leader of the party in 2009, two weeks after becoming a member. I had strong opinions on what needed to be done and what had to be avoided. I fought for a radical shake up of the financial system and proposals on how the failed banks could finance a write down of household debt  and the resurgence of the Icelandic economy, along with various other measures designed to tackle our particular situation.

At the same time I emphasised the rule of law in the almost revolutionary atmosphere that characterised Icelandic politics after the crises. Three years ago I got the chance to implement my ideas as Prime Minister of Iceland. They proved to be even more successful than I had anticipated.

But a few weeks ago I stepped aside and asked the vice chairman of my party to relieve me in the role of Prime Minister. This was not because of a lack of results. In fact I challenge anyone to point to a Western government that has yielded better results for its country in the last three years. Iceland’s economic situation has been transformed through a mixture of traditional, sensible, economic measures such as following through on a pledge to balance the budget year on year and implementing incentives for economic growth along with radical measures without precedent.

These measures included making creditors of the failed banks – primarily hedge funds that bought claims after the fact – finance the lifting of capital controls. The result is the highest GDP growth in Europe and biggest primary surplus, the lowest unemployment rate, a dramatic fall in public and private debt measured by dozens of % of GDP, a stronger currency, lasting price stability and a 24% growth in purchasing power in just three years.

These results were achieved in the face of strong opposition from opposing political parties and much of the civic establishment, not to mention the hedge funds who intended to make a killing on Iceland’s financial crisis. As I am sure most people are aware, the hedge funds of Wall Street and the City of London are not without influence, neither political nor financial. In a short period of time they spent the equivalent of over 100 million pounds guarding their interests in Iceland. I experienced everything from repeated threats to attempts to buy ‘an acceptable conclusion’.

Carrying on with the plan I often got to hear that making the hedge funds pay for resurrecting the Icelandic economy could not go unpunished. Such a precedent could not be allowed to stand. In addition many could not forgive us for stopping a plan for EU membership with an expected EU ‘bailout’. Nevertheless we finished the job yielding results that Lee Buchheit, a leading authority on international debt resolution (and advisor to the Icelandic government) called “unprecedented in the financial history of the World”.

So why did I step aside as Prime Minister? A short look at international media coverage will give you quite varied reasons. The truth of the matter is that my name was found in the so called Panama papers in connection with a company registered in the British Virgin Islands and owned by my wife. This alone was sufficient to create a range of theories and news stories about a Prime Minister´s ‘hidden funds’. Such stories were helped by the willful distribution of fallacies and even a bogus interview and news report intended to create the sense that I had something to hide.

I am writing this now because it has been confirmed that all of the accusations were untrue. It may come as a surprise to those that remember some of the reports that were published at the time that in fact there were no hidden funds or assets, no attempt to evade taxes and no question of a conflict of interest. My wife’s company, its country of registration, and all its assets are declared on our tax return and full Icelandic taxes have been paid with no attempt to use off shore status to limit payments. Still, none of these facts mattered when it came to making use of the ‘Panama Papers’ in a political attack that had been in preparation for 7 months. In the current political climate a story about a prime minister hiding funds is too good for some to bother with the facts of the matter and for many ‘a means to justify an end’.

Which brings me to my main points: Things aren’t looking to good economically, socially or politically in Western societies these days. As the experience of Iceland shows it is possible to implement real and radical change to politics and dramatically improve the lives of people in our societies. But that alone will not ensure political stability and future progress. What is needed now, more than ever, is reasoned political debate.The internet and social media have changed the way information is distributed and consumed, creating new opportunities and dangers. Over 300 years ago Jonathan Swift wrote: “Falsehood flies and the truth comes limping after it”. Never has that been more true than in the interesting times we live in.

The model of Liberal Democracies has been an unparalleled success in human history. It is now under threat. In order to  preserve it we must look to the foundations of its success. We must further logical debate based on facts, or at least the search for facts. In that regard traditional political  parties have a role to play but also traditional media.

The media still plays an enormously important part in our democratic process. In living up to its role it must provide restraint and a commitment to the facts when it is lacking elsewhere. Western democracies need to rediscover their roots, the roots that lay in reasoned debate, a willingness to defend the right of people to express controversial views, but at the same time acknowledging that the aim should always be to get closer to the truth. And when debate helps rational solutions triumph over creed we need to be willing and able to implement them. What we need is radical rationalism.

 

The article was written in May 2016 and describes the situation in Icelandic politics at the time.

10/26/16

Stefnan tekin í Norðaustur

Eftir flokksþing Framsóknarmanna og atburði sem því tengdust lýsti ég því yfir að ég myndi helga mig málefnum Norðausturkjördæmis og því að kjördæmið fengi notið þeirra tækifæra sem þar liggja. Það er enda hagur landsins alls að Norðausturkjördæmi gangi vel.

Eins og flestum má vera ljóst gramdist mér mjög að menn skyldu taka þá ákvörðun að flýta kosningum og hætta við að leggja fram fjárlög. Mér mislíkaði þetta af mörgum ástæðum. Ein var sú að ég hafði vikið úr embætti forsætisráðherra um tíma, á meðan mál væru að skýrast, einmitt svo að ríkisstjórnin gæti komist hjá slíkum útspilum. Þess í stað gæti hún þá einbeitt sér að því að klára þau verkefni sem útaf stóðu. Önnur ástæða er sú að með þessum ákvörðunum varð lítið úr þeirri sókn sem ég hafði boðað í byggðamálum enda þótt tekist hefði að skapa þær efnahagslegu aðstæður sem voru forsenda slíkrar sóknar.

Allt er til reiðu

Aðalatriðið er þó það að grunnurinn hefur verið lagður. Með blöndu hefðbundinna en oft erfiðra aðgerða í ríkisrekstrinum og óhefðbundinna aðgerða sem hvergi höfðu verið reyndar áður tókst að gjörbylta stöðu og framtíðarhorfum ríkissjóðs til hins betra. Það er því allt til reiðu svo ráðast megi í þær aðgerðir sem taldar verða upp hér að neðan. Það þarf að gera bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum.

Veiðigjöldunum skilað

Engin ríkisstjórn hefur skilað jafnmiklum veiðigjöldum í ríkiskassann og stjórnin sem starfaði frá 2013-2016. Það er nauðsynlegt að þessi gjöld og önnur auðlindagjöld sem kunna að vera lögð á skili sér aftur í byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er í raun nánast hreinn landsbyggðarskattur. Tugir milljarða eru teknir út úr samfélögum hringinn í kringum landið. Þessu þarf að breyta.

Þriðjungur veiðigjaldanna ætti að renna til sveitarfélaganna utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið, einkum nýsköpun á sviði atvinnumála og þriðjungur í sérstök sóknarverkefni sem gera byggðir landsins að eftirsóknarverðari stöðum til að búa, starfa og fjárfesta. Það á t.d. við um menningarmál og fegrun byggða m.a. í gegnum verkefnið „verndarsvæði í byggð“.

Dreifing ferðamanna um landið

Sú áætlun sem lýst er að ofan mun gera byggðir landsins, ekki hvað síst hina fögru bæi og náttúru Norðausturkjördæmis, að enn eftirsóknarverðari ferðamannastöðum. En til viðbótar þarf sértækar aðgerðir til að dreifa ferðamönnum betur um landið og nýta þar með betur þá auðlind sem í landinu liggur.

Bæta þarf samgöngumannvirki, t.d. með malbikun Dettifossvegar til að klára „demantshringinn“ sem yrði gríðarlega sterk söluvara í ferðaþjónustu. Flugþróunarsjóðurinn sem forsætisráðuneytið vann að því að koma á fyrr á kjörtímabilinu skiptir sköpum við að opna nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum. En meira þarf að koma til. Bæta þarf aðstöðu á flugvöllunum (fjárfesting í Keflavík nemur tugum milljarða) og jöfnun flutningskostnaðar á eldsneyti er nauðsynleg til að gera þessa flugvelli betur samkeppnishæfa við Keflavíkurvöll.
Sátt virðist hægt að ná um hækkun komugjalda. Rétt er að a.m.k. hluti þeirrar gjaldheimtu renni til sveitarfélaga. Á sama tíma og við hækkum komugjöld í Keflavík mætti halda komugjöldum á Akureyri og Egilsstöðum umtalsvert lægri til að skapa aukinn hvata fyrir flugfélög að nýta þá flugvelli.

Tekjustofnar sveitarfélaga

Sveitarfélög bera að miklu leyti hitann og þungann af fjölgun ferðamanna. Þau hafa ekki fengið auknar tekjur til samræmis við það. Að hluta til koma endurheimtur auðlindagjalda til móts við þann vanda en einnig þarf að færa sveitarfélögum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu. Þar þarf þó að huga að því að megnið af kostnaðinum við innviðauppbyggingu fellur til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum, t.d. gistináttagjöld, eru lögð á í borginni. Þess vegna þurfa komugjöld að renna til sveitarfélaganna svo að þau geti staðið straum af nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er líka eðlileg krafa í ljósi þess hversu mikið hallar á sveitarfélögin hvað varðar tekjuskiptingu.

Skattalegir hvatar

Lengi hefur verið rætt um að æskilegt gæti verið að veita skattalegar ívilnanir til fólks og fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi hefur m.a. verið litið til Noregs. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að innleiða slíka stefnu. Í henni felst að tryggingargjald verður lægra því fjær sem reksturinn er frá Reykjavík en einnig búsetustyrkir, þ.m.t. ferðastyrkir til þeirra sem þurfa að ferðast langa vegalengd til og frá vinnu. Einnig er ástæða til að líta til fyrirmynda í Noregi varðandi endurgreiðslu námslána þar sem fólk sem starfar utan höfuðborgarsvæðisins fær sérstaka niðurfærslu námslána.

Opinber störf

Við munum innleiða í stjórnkerfið hvata til að ný störf hjá hinu opinbera verði til á landsbyggðinni. Setja ætti reglu um að störfum hjá opinberum stofnunum fjölgi ekki á höfuðborgarsvæðinu. Vilji opinberar stofnanir, ráðuneyti osfrv. fjölga starfsfólki þurfa þær að búa til, eða auka við, starfsaðstöðu á landsbyggðinni og ráða fólk þar.

Innviðir

Fjölgun íbúa og starfa og aukin fjárfesting utan höfuðborgarsvæðisins er háð því að innviðirnir séu samkeppnishæfir. Ljósleiðaravæðing landsins alls verður forgangsverkefni á nýju kjörtímabili. Gagnrýni á að ekki skuli hafa verið gengið lengra í þeim efnum á kjörtímabilinu er réttmæt. Hins vegar er nú allt til reiðu, skipulag og fjármagn til að ráðast í ljósleiðaravæðingu landsins.
Samgöngumál hafa setið á hakanum í meira en áratug, fyrst vegna þenslu og svo vegna kreppu. Nú er tímabært og mögulegt að hefja átak í samgöngumálum. Losna við einbreiðar brýr af þjóðveginum, laga hættulega vegaspotta og ráðast í Fjarðarheiðargöng og fleiri mikilvægar samgönguúrbætur í kjördæminu.

Innanlandsflug

Fullreynt er að hægt sé að ná samstarfi við núverandi borgaryfirvöld um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Flugvöllurinn er þjóðareign og megnið af landinu sem hann stendur á í eigu ríkisins. Afsal ríkisins á landi undir þriðju flugbrautinni (neyðarflugbrautinni) stenst ekki lög.
Fullt tilefni er til að greiða niður ferðir íbúa landsbyggðarinnar í innanlandsflugi. Fordæmi frá Skotlandi munu reynast vel í því efni. Hins vegar þarf að tryggja aukið opinbert eftirlit, með fulltingi samkeppnisyfirvalda, til að tryggja að niðurgreiðslan nýtist í raun til verðlækkunar. Álagning á ákveðnum flugleiðum innanlands er nú þegar of mikil og nauðsynlegt að tryggja að niðurgreiðsla ríkisins hverfi ekki með enn aukinni álagningu.

Heilbrigðisþjónusta
Á kjörtímabilinu hefur tugum milljarða verið bætt í heilbrigðismálin. Að mestu leyti hefur sú aukning fallið til á Landspítalanum. Á sama tíma hafa heilbrigðisstofnanir víða á landsbyggðinni ekki enn náð fyrri styrk. Þetta þarf að leiðrétta með því að hverfa frá áformum um aukna samþjöppun í heilbrigðisþjónustu. Byggja skal nýjan 21. aldar landspítala við Vífilsstaði en viðhalda um leið spítalarekstri í grennd við Reykjavíkurflugvöll í Fossvogi eða í nýrri húsum spítalans við Hringbraut. Um leið þarf að nýta betur innviði heilbrigðisþjónustunnar utan Reykjavíkur, stækka Sjúkrahúsið á Akureyri og veita heilbrigðisstarfsfólki hvata til að starfa á landsbyggðinni, annars vegar með betri starfsaðstöðu og hins vegar með fjárhagslegum hvötum á borð við niðurfærslu námslána.
Við fyrstu sýn virðist kosta meira að halda úti heilbrigðisþjónustu víða um land í stað þess að hafa hana á einum stað. En við mat á hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu hefur iðulega verið litið framhjá stórum hluta þess kostnaðar sem hlýst af slíkri breytingu. Það á m.a. við um ferðakostnað sjúklinga og vandamanna þeirra, dvalarkostnað, vinnutap og svo stærsta kostnaðarliðinn af öllum: Hann fellst í því að þegar heilbrigðisþjónusta er skert á einum stað skerðir það möguleika samfélagsins á að halda í fólk og fyrirtæki eða að laða að nýja íbúa og fjárfestingu. Fátt hefur meiri áhrif á ákvarðanir um staðarval en spurningin um hvort boðið sé upp á viðunandi heilbrigðisþjónustu.
Ekki má gleyma því að víða eru samgöngur mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu. Samgönguhindranir eins og Víkurskarð geta komið í veg fyrir að fólk geti nýtt þá heilbrigðisþjónustu sem því er ætlað. Það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að losna þarf við slíkar hindranir á Norður- og Austurlandi með framkvæmdum eins og Vaðlaheiðargöngum. Reyndar er álitamál hvort það sé forsvaranlegt að láta íbúa Norðausturlands greiða sérstaklega fyrir að komast leiðar sinnar innan sama atvinnu- og þjónustusvæðis.

Menntamál

Kostnaður á hvern nemanda í minni framhaldsskólum verður óhjákvæmilega meiri en í stóru framhaldsskólunum á höfuðborgarsvæðinu. Ávinningurinn af því að gera nemendum kleift að ljúka framhaldsnámi í, eða nærri, heimabyggð er þó miklu meiri en nemur kostnaði af því að reka framhaldsskóla hringinn í kringum landið. Það er því mikilvægt að fjárveitingar séu nægar til að gera skólunum kleift að rækja hlutverk sitt til fulls. Það á ekki hvað síst við um verkmenntaskólana.
Mikilvægi Háskólans á Akureyri er ótvírætt. Skólinn hefur sannað svo ekki verður um villst mikilvægi þess að taka stórar ákvarðanir um uppbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins og gera það með hliðsjón af heildaráhrifum og langtímaáhrifum en ekki bara kostnaði til eins árs. Með samkomulagi ríkisins við HA er hægt að gera skólanum kleift að auka við framboð á mikilvægum sérsviðum, t.d. nám í tæknigreinum, sem svo mun nýtast við vöxt atvinnulífs og verðmætasköpunar um allt land.

Sjávarútvegur

Samhliða þeirri nýsköpun sem ég hef lýst verður starfsumhverfi hefðbundinna undirstöðuatvinnugreina kjördæmisins styrkt. Einstakur árangur íslensks sjávarútvegs byggist á kerfi sem gerir honum kleift að gera langtímaáætlanir. Eigi sjávarútvegur áfram að geta skilað samfélaginu verulegum fjárhagslegum ávinningi, verið burðarstólpi í atvinnulífi byggðarlaga og staðið undir fjárfestingu og nýsköpun þarf greinin að búa við starfsöryggi. En einnig þarf að auka öryggi byggðarlaga sem hafa reitt sig á sjávarútveg. Það má gera með aukinni byggðatengingu.

Landbúnaður

Landbúnaður verður áfram ein af undirstöðuatvinnugreinum kjördæmisins. Fallandi afurðaverð kallar á aðlögun af hálfu stjórnvalda. Sé litið til heildaráhrifa er stuðningur við innlenda matvælaframleiðendur og þar með neytendur mikilvæg efnahagsleg aðgerð en einnig byggða- menningar- og lýðheilsumál.
Með stuðningi við landbúnað tryggjum við undirstöðu byggðar um allt land, leggjum grunn að uppbyggingu annarra greina á borð við ferðaþjónustu, viðhöldum þúsundum starfa, tryggjum heilnæm og góð íslensk matvæli og spörum sem nemur um 50 milljörðum króna í gjaldeyri á ári. Framsókn-NA mun standa með íslenskri matvælaframleiðslu.

Iðnaður 

Mikilvægt er að stjórnvöld hlutist til um að uppbygging á sviði iðnaðar eigi sér stað sem víðast á landinu. Eigi markaðurinn einn að ráða för mun slík uppbygging fyrst og fremst verða í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem mest framboð er af vinnuafli og veðhæfi fasteigna mest. En þegar verkefni eru komin af stað annars staðar hafa þau þeim mun meiri margfeldisáhrif og styrkja byggð og alla starfsemi til muna. Á slíkum stöðum er iðnaðaruppbygging til þess fallin að styðja við alla aðra starfsemi á atvinnusvæðinu.
Stjórnmálamenn þurfa því að hafa þor til að beita sér fyrir því að ríkisvaldið liðki fyrir uppbyggingu á sviði iðnaðar utan höfuðborgarsvæðisins. Slíkan hvata skortir ekki aðeins hjá hinum frjálsa markaði heldur líka í stjórnkerfinu. Þess vegna þurfa kjörnir fulltrúar almennings að vera óhræddir við að beita sér til að rétta þá skekkju af. Nýleg dæmi sýna að ekki aðeins hefur kerfið tilhneigingu til að þvælast fyrir því að slík verkefni fari af stað, það getur jafnvel gripið inn í til að stöðva stór og mikilvæg verkefni sem eru þegar farin af stað. Ríkisstjórnin þarf strax í þessari viku að setja bráðabirgðalög svo hægt sé að halda áfram vinnu við að tengja Þeistareiki við Kröflu og uppbygginguna á Bakka. Ella geta getur því mikilvæga verkefni verið stefnt í óvissu mánuðum saman og það jafnvel sett í uppnám fyrir vikið.

Forsendurnar – er þetta hægt?

Öll þau verkefni sem ég hef rakið í greinunum tveimur um Norðausturstefnu Framsóknarflokksins snúast um að tryggja heildarhagsmuni samfélagsins og gera það með því að líta til heildaráhrifa og langtímaáhrifa af þeirri stefnu sem unnið er eftir fremur en að horfa bara kostnaðar til eins árs.

Allt er þetta framkvæmanlegt og raunar nauðsynlegt. Á þremur árum höfum við gjörbreytt stöðu og horfum í rekstri ríkisins til hins betra. Grunnurinn hefur aldrei verið jafnsterkur. Nú þegar við hefjumst handa við að byggja ofan á þann grunn er grundvallaratriði að við fjárfestum í landinu öllu. Stórsókn í byggðamálum er einmitt það, fjárfesting til framtíðar. Þetta snýst ekki um eyðslu heldur fjárfestingu sem skila mun samfélaginu ávinningi til langrar framtíðar. Fyrir því mun ég nú berjast af sama krafti og ég barðist fyrir þeim breytingum sem gera sóknina nú mögulega.

Vegna árangurs stjórnarmeirihlutans á kjörtímabilinu erum við nú í stöðu til hverfa frá þeirri vörn sem staðið hefur áratugum saman og hefja sókn fyrir Ísland allt.

 

Greinarnar “Stefnan tekin í Norðaustur” og “Áfram í Norðaustur” birtust í Morgunblaðinu 15. og 24. október 2016