Hvert stefna stjórnmálin?

Frá því að ég hóf, nokkuð óvænt, þátttöku í pólitík hefur mér orðið tíðrætt um eðli stjórnmála og hvað betur mætti fara í þeim efnum. Stundum hef ég vitnað til orða sem Winston Churchill lét falla í breska þinginu tveimur árum eftir seinni heimsstyrjöldina: „Sagt hefur verið að lýðræði sé versta stjórnkerfið fyrir utan öll hin sem reynd hafa verið við og við.“

Lýðræði hefur vissulega aldrei verið gallalaust en síðustu misseri hafa þær miklu grundvallarbreytingar sem eru að verða á stjórnmálum á Vesturlöndum verið mér hugleiknar. Auk þess að flytja allmörg erindi um þessa þróun á undanförnum árum skrifaði ég grein fyrir erlend blöð síðastliðið vor en birti hana svo á heimasíðu minni nýverið.

Viðfangsefnið líka útgangspunkturinn í ræðum mínum á miðstjórnarfundi og flokksþingi Framsóknarmanna. Ástæðan er sú að ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn og -flokkar verði að gera sér grein fyrir þessari þróun og eiga svör við henni ef ekki á að fara illa.

Trump

Stærsta afleiðing þessara miklu breytinga til þessa er kjör Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna. Nokkuð sem flestir virtust telja óhugsandi þar til aðfaranótt síðastliðins miðvikudags.

Afskipti Trumps af stjórnmálum hafa verið óviðurkvæmileg frá því að hann gekk til liðs við hóp fólks sem krafðist þess að Obama forseti sannaði að hann hefði fæðst í Bandaríkjunum. Sami hópur hélt því svo fram að enginn kannaðist við að forsetinn hefði verið nemandi í Columbia-háskóla auk annarra tilrauna til að gera hann tortryggilegan.

Allt var þetta pólitík á sérlega lágu plani. Síðan þá hefur Trump sagt ýmislegt sem ekki hefur verið til þess fallið að lyfta stjórnmálaumræðu á hærra plan. Óþarfi er að rekja það hér, enda búið að gera því öllu góð skil í fjölmiðlum undanfarna mánuði og ræða það margfalt meira en nokkuð sem við kemur æðstu stjórn Bandaríkjanna.

Augljóslega er ég ekki einn um að hafa efasemdir um framgöngu Donalds Trumps en mikilvægt er að átta sig á því að það er gagnslaust að ætla að skýra niðurstöðu forsetakosninganna með því að Bandaríkin séu full af heimsku fólki, byssuóðum rasistum og einangrunarsinnum. Það eru Bandaríkjamenn almennt ekki, hvorki kjósendur Demókrata né Repúblikana. Langflestir þeirra sem kusu Trump gerðu það ekki vegna, heldur þrátt fyrir, framgöngu hans og talsmáta.

Kjósendur Trumps töldu hann einu vonina um að hrist yrði upp í kerfi sem er hætt að virka sem skyldi fyrir almenning. Ekki hjálpaði það heldur til að framboð fulltrúa miðju- og vinstrimanna var fjármagnað af „Íslandsvinum“ á borð við fjárfestingabankann Goldman Sachs og hópi vogunarsjóðastjóra með George Soros í fararbroddi.

Þetta gerist ekki að ástæðulausu

Sú sögulega breyting sem við verðum nú vitni að kom ekki til að ástæðulausu. Stjórnmálamenn á Vesturlöndum voru margir orðnir of meðvirkir með þróuninni, of líkir innbyrðis og of einsleitir í nálgun sinni. Óskrifaðar rétthugsunarreglur voru orðnar allsráðandi um það með hvaða hætti stjórnmálamenn ættu að haga sér og tjá sig. Hægt var að gefa sér fyrirfram hverju stjórnmálamenn myndu svara nánast hvaða spurningu sem þeir voru spurðir, hvort sem þeir skilgreindu sig til vinstri eða hægri.

Rökræða um grundvallaratriði og leitin að nýjum og frumlegum hugmyndum hafði látið undan fyrir óttanum við að vera umdeildur, segja eitthvað sem félli ekki að rétthugsuninni eða storkaði ráðandi kerfi, jafnvel bara óttanum við að segja eitthvað sem gæti þurft að útskýra. Í staðinn reiddu menn sig á frasa um sjálfsagða hluti sem enginn gat verið á móti og storkuðu þannig engum en vöktu heldur enga umræðu og engar nýjar hugsanir.

Á sama tíma var „kerfinu“ í auknum mæli eftirlátið að stjórna. Embættismenn, stofnanir og innvígðir sérfræðingar kerfisins, auk ytri kerfa eins og fjármálageirans og samtaka á vinnumarkaði, lögðu línurnar og gera enn. Stöðugt er dregið úr valdi kjörinna fulltrúa almennings og það fært annað en ábyrgðin þó skilin eftir hjá pólitíkusunum. Úr því verður hættuleg skekkja, vald án ábyrgðar og ábyrgð án valds. Það sem er þó verst er að með því er valdið tekið af almenningi og fært til ólýðræðislegs kerfis. Kerfisræði tekur við af lýðræði.

Þessu er almenningur á Vesturlöndum að átta sig á, meðvitað og ómeðvitað, og um leið átta menn sig á því að hið ráðandi kerfi er í takmörkuðum tengslum við almenning. Kerfið telur það fremur vera hlutverk sitt að segja fólki hvernig hlutirnir þurfi og eigi að vera en að hlusta á og lúta vilja almennings.

Fyrir vikið er þeim stjórnmálamönnum og flokkum sem láta þetta viðgangast refsað, eins og eðlilegt er. Hættan er þó sú að ef hefðbundnir stjórnmálamenn og flokkar bregðast ekki við muni aðeins öfgamenn gera það.

Hvað er til ráða?

Hefðbundnir stjórnmálaflokkar þurfa að rifja upp hlutverk sitt. Þeir þurfa að geta rætt mál sem almenningur lætur sig varða. Flokkarnir þurfa að bjóða upp á lausnir á því hvernig hægt sé að laga gallað fjármálakerfi, þeir þurfa að þora að ræða viðkvæm en stór mál eins og innflytjendamál.

Flokkar þurfa að geta rætt umdeild mál og vera reiðubúnir að verja hagsmuni ólíkra hópa samfélagsins. Þora að ræða bæði kosti og galla stórra breytinga á borð við alþjóðavæðingu, benda á að henni fylgi miklir kostir en líka gallar. Hún eigi t.d. ekki að þýða undirboð á vinnumarkaði eða undirboð á vörum eins og matvöru (af hverju leyfa menn sér að kalla það sérhagsmunagæslu ef reynt er að bæta starfsaðstæður bænda en ekki ef það sama er gert fyrir háskólakennara?).

Flokkarnir þurfa svo eftir rökræðu byggða á staðreyndum að þora að taka afstöðu. Hvernig má það t.d. vera að enginn flokkur á Íslandi þorir að segja að hann vilji ganga í Evrópusambandið, jafnvel ekki flokkar sem voru stofnaðir út á það eitt? Í staðinn er talað í kringum hlutina með innihaldslausum frösum.

Umfram allt þurfa stjórnmálaflokkar að endurheimta kjark. Þora að standa fyrir eitthvað þótt því fylgi að vera umdeildir. Stjórnmálamenn vinna beinlínis við að vera umdeildir. Það er hlutverk þeirra að gefa fólki val og láta það finna að valið skipti máli.

Augljóslega þurfa menn svo oft að geta miðlað málum til að ná meirihluta en svo kölluð samræðustjórnmál eru í raun ekki annað en samsæri stjórnmálamanna gegn kjósendum. Ef það á að vera hlutverk stjórnmálamanna að sameinast helst allir um lægsta samnefnarann í hverju máli er lýðræðislegur vilji fyrir borð borinn og á meðan fer kerfið sínu fram. Það er hættuleg og ólýðræðisleg þróun.

Síðar mun ég fjalla um þær miklu hindranir sem stjórnmálamenn og flokkar mæta við það að takast á við kerfið og hvernig bregðast megi við þeim. Auk þess mun ég svo fjalla um þau stóru álitaefni sem bíða okkar Íslendinga og leggja til lausnir.