Fjármálakerfið vann kosningarnar

Nú eru tvö ár liðin frá því þáverandi ríkisstjórn kynnti áform um losun hafta og aðgerðir því samhliða. Á þeim tíma sem liðinn er hafa þær sannað gildi sitt. Í ljós hefur komið að aðgerðir sem hvergi höfðu verið reyndar áður, og flestir töldu óframkvæmanlegar, gjörbreyttu stöðu samfélagsins til hins betra. Útfærslan sem fólst í svokölluðum stöðugleikaframlögum hefur líka sannað sig, því með batnandi efnahag (sem leiddi ekki hvað síst af aðgerðunum) hefur verðmæti framlaganna vaxið jafnt og þétt. Ekkert ríki hefur í seinni tíma sögu náð eins miklum efnahagslegum viðsnúningi á eins skömmum tíma og Ísland gerði eftir að áformunum var hrint í framkvæmd.

Ný reynsla

Hagsmunirnir sem tekist var á um voru því meiri en menn áttu að venjast á Íslandi og aðferðirnar sem beitt var við hagsmunagæsluna voru ólíkar því sem við höfum átt að venjast. Nýr veruleiki blasti við landsmönnum eins og komið hefur í ljós, þótt margir hafi efast í fyrstu.

Síðan þá hafa málin skýrst og Íslendingar fengið aukna innsýn í hversu miklið var undir og hvaða aðferðum aðilar eins og þeir sem hugðust hagnast á efnahagslegum óförum Íslands beita. Það fór ekki leynt að þessir aðilar, einkum vogunarsjóðir í New York og London, vildu nýjan forsætisráðherra, nýja ríkisstjórn og nýja stefnu. Öllu þessu náðu þeir.

Langt komið en ekki lokið

Sem betur fer var sigur Íslands að mestu í höfn áður en þetta gerðist en það breytir því ekki að gífurlegir almannahagsmunir fólust í því að fylgja málinu eftir til enda, eins og ég rakti í apríl í fyrra. Það sem út af stóð var einkum tvennt:

I. Að klára að leysa aflandskrónuvandann (aflandskrónur eru krónur í eigu erlendra fjárfesta sem lokuðust inni í höftum og voru að langmestu leyti keyptar af vogunarsjóðum eftir að höftin voru sett á).

II. Að nýta það tækifæri sem haftalosunin og stöðugleikaframlögin sköpuðu til að ráðast í endurskipulagningu íslenska fjármálakerfisins svo það þjóni betur hagsmunum almennings og atvinnulífs.

Þetta eru ekki lítil verkefni en allt var til reiðu svo klára mætti þau á tiltölulega skömmum tíma. Raunin varð því miður allt önnur og það gremst mér mjög af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að aðferðirnar sem við beittum virkuðu sem skyldi og til varð einstakt sögulegt tækifæri til að leysa það sem út af stóð. Í öðru lagi, eins og ég lýsti sjálfur á sínum tíma, taldi ég þetta það mikilvægt að ég var reiðubúinn til að stíga til hliðar ef það mætti verða til að skapa frið til að ljúka málinu hindranalaust. Í þriðja lagi vegna þess að það er afleitt fordæmi að setja að leyfa vogunarsjóðum að ná sínu fram með misjöfnum aðferðum á Íslandi.

Lítum nú nánar á ókláruðu verkefnin tvö. Byrjum á aflandskrónunum.

Nei, nú er okkur alvara

Tímaáætlun framkvæmdahóps um haftalosun var virt og lítið gerðist í málinu fyrr en síðastliðið haust þegar haldið var útboð til að leysa aflandskrónuvandann. Þar gafst eigendum aflandskróna kostur á að skipta krónunum í gjaldeyri og fara með hann úr landi gegn því að gefa »afslátt« af skráðu virði krónunnar. Þetta var frá upphafi liður í heildarplaninu sem gekk út á að allir skiptu með sér kostnaðinum við að rétta efnahag landsins af. Enginn átti að hagnast á því að taka ekki þátt. Þess vegna var útskýrt að þeir sem ekki vildu taka þátt í útboðinu myndu sitja fastir með krónurnar sínar um fyrirsjáanlega framtíð á lágum sem engum vöxtum.

Þátttaka í útboðinu var lítil. Af ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar hættu nokkrir af stærstu krónueigendunum við að taka þátt í útboðinu rétt fyrir lokun. Þó var ljóst að íslensk stjórnvöld höfðu misst trúverðugleikann. Fulltrúar vogunarsjóðanna höfðu séð með eigin augum að hægt væri að brjóta þau á bak aftur.

Lítið gerðist svo í málinu þar til ný ríkisstjórn tilkynnti óvænt í mars síðastliðnum að samið hefði verið við vogunarsjóði um að þeim yrði hleypt út með krónurnar sínar á mun hagstæðara gengi en stóð til boða í útboðinu í fyrra.

Samningurinn náði til 90 milljarða króna af þeim 200 sem eftir stóðu af »snjóhengjunni«. Sama dag var tilkynnt að þeir sem ekki hefðu þegar skrifað upp á tilboðið (þeir sem héldu á 110 milljörðum) hefðu »næstu tvær vikurnar« til að ganga inn í samninginn. Ella sætu þeir eftir.

En nú voru vogunarsjóðirnir búnir að sjá svo ekki varð um villst að hægt væri að brjóta, eða að minnsta kosti beygja, íslensk stjórnvöld. Nýja kostaboðið frá Íslandi var því ekki lengur nógu gott og áhuginn á þátttöku lítill eða enginn

Skemmst er frá því að segja að vikurnar tvær sem hófust í mars eru enn að líða því stjórnvöld hafa ítrekað framlengt frestinn vegna áhugaleysis vogunarsjóðanna. Nú stendur til að hann klárist næstkomandi fimmtudag, þann 15. júní.

Stjórnvöldum er þó væntanlega alvara með dagsetninguna 15. júní eða hvað? Ekki miðað við það að fjármálaráðuneytið er þegar búið að tilkynna Reuters að næsta haust sé von á frumvörpum frá ríkisstjórninni um að losa höft af aflandskrónum.

Dettur einhverjum í hug að áhugi á þátttöku í sérstökum »krónusölu-díl« nýrrar ríkisstjórnar sé mikill þegar krónan er búin að styrkjast jafnt og þétt og stjórnvöld hafa stöðugt gefið meira eftir og loks tilkynnt að þau hyggist gefa alveg eftir næsta haust?

Fjármálakerfið

Þá að hinu atriðinu sem hefur verið óklárað frá því í apríl í fyrra, þ.e. slitabúunum og framtíð fjármálakerfisins.

Óþarfi er að rekja hér í smáatriðum þá furðulegu atburði sem tengjast sölu Arion banka. Eins og sakir standa er útlit fyrir að vogunarsjóðir fái að selja sjálfum sér bankann á lægsta mögulega verði (og e.t.v. enn lægra en það) og komast þannig hjá því að láta ríkissjóð fá eðlilega hlutdeild í verðmæti bankans (í samræmi við stöðugleikaskilyrðin).

Það vakti athygli þegar ég benti á að einn kaupendanna hefði verið látinn greiða hundruð milljóna Bandaríkjadala í sektir vegna mútumála í Afríku. Það hefði þó ekki átt að koma verulega á óvart miðað við starfsaðferðir sumra þeirra vogunarsjóða sem hafa gert sig gildandi á Íslandi. Sjóða sem sérhæfa sig í að kaupa kröfur í ríkjum í vanda og innheimta þær upp í topp með öllum tiltækum ráðum. Sektir vogunarsjóðsins, eins himinháar og þær voru, eru auk þess skiptimynt í samanburði við það sem fjárfestingabankinn Goldman Sachs (samstarfsaðili Íslandsvinarins og vogunarsjóðsstjórans Sorosar) var dæmdur til að greiða vegna undirmálslánanna og vafninganna sem settu alþjóðafjármálakrísuna af stað.

Forsætis- og fjármálaráðherra hafa enn ekki fengist til að svara spurningum um hvort samningar um losun hafta á aflandskrónur var liður í kaupum vogunarsjóðanna á Arion banka, né hvers vegna forkaupsréttur ríkisins að bankanum var gefinn eftir. Engu hefur verið svarað um samskipti stjórnvalda við vogunarsjóðina sem þó viðurkenna sjálfir að þeir hafi tekið ákvarðanir að undangengnum samskiptum við íslensk stjórnvöld. Enda væri annað óhugsandi.

Niðurstaðan er sú að stjórnvöld hafa tekið algjöra U-beygju gagnvart hinum aðgangshörðu vogunarsjóðum og eru að missa tækifærið til að laga íslenska fjármálakerfið úr höndunum. Óljóst er hvað vogunarsjóðirnir ætla að gera við Arion banka. Ekkert liggur fyrir um hvað stjórnvöld ætla sér með Landsbankann, en í millitíðinni mun bankinn einbeita sér að því að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni verðmætustu lóð landsins. Staða hins ríkisbankans, Íslandsbanka, er svo algjör ráðgáta. Á meðan er vöxtum haldið tuttugu sinnum hærri en í Bretlandi á sama tíma og pundið fellur og íslenska krónan styrkist.

Það eina sem liggur fyrir er að sigurvegarar síðustu alþingiskosninga voru vogunarsjóðirnir og fjármálakerfið.

 

Greinin birtist í morgunblaðinu 12. júní 2017