09/10/14

Aukinn kaupmáttur og lægra verðlag

Gagnrýni mín á hugmyndir um hækkun virðisaukaskatts á matvæli í tíð síðustu ríkisstjórnar var, eins og ég tók þá fram, í samhengi við aðrar skattahækkanir á þeim tíma – ekki hvað síst með vísun í að efra þrepið væri orðið óeðlilega hátt. Slíkar hækkanir hefðu þá verið viðbót við stöðugar hækkanir annarra skatta, gjalda og verðlags og þannig rýrt enn kaupmátt heimilanna. Í því lágu áhyggjur mínar og í því liggja þær enn, að hækkun virðisaukaskatts á matvæli geti skert kaupmátt.

Frá því að umræða hófst, meðal annars með hliðsjón af reynslu annarra þjóða, um að æskilegt gæti verið að draga úr muninum á efra og neðra virðisaukaskattsþrepinu hefur orðið grundvallarbreyting á þeim hugmyndum sem hafa verið til skoðunar. Gert er ráð fyrir minni hækkun neðra þrepsins en áður og það sem mestu máli skiptir; innleiddar hafa verið tvær grundvallarforsendur. Þ.e. að með lækkun annars verðlags (m.a. lækkun efra vsk þrepsins) og auknum stuðningi við fólk með lægri- og millitekjur eiga breytingarnar í heild að:

a)    Auka ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa, þar sem sérstaklega verður hugað að því að þeir sem eru með lægri- og millitekjur fái aukinn kaupmátt með breytingunum. Skýr dæmi um áhrifin á ráðstöfunartekjur eftir mismunandi fjölskylduhögum má finna í frumvarpinu.

b)    Áhrifin á vísitölu neysluverðs og þar með á skuldir heimilanna eiga að verða til lækkunar, ekki hækkunar og lækka þar með skuldir heimilanna frekar en að hækka þær.

Í stað þess að skerða kjör heimilanna eiga þau að batna um leið og skattkerfið verður skilvirkara. Menn geta svo haft mismunandi skoðanir á því hvort sú aðferð sem lagt er upp með í fjárlagafrumvarpinu dugi til að ná þessum grundvallarmarkmiðum.

Ég, aðrir framsóknarmenn, og eflaust sjálfstæðismenn líka, vilja hafa sem mesta vissu fyrir því að sú verði raunin. Þess vegna hefur fjármálaráðherra sagt að komi í ljós við þinglega meðferð að einhver vanhöld séu á því að breytingarnar nái markmiðunum um aukinn kaupmátt fyrir alla og lægra verðlag, verði gerðar hverjar þær breytingar sem þurfa þykir til að ná því markmiði.

Allir hljóta að geta verið sammála um að ef hægt er að fara í breytingar sem auka almennan kaupmátt, lækka verðlag og bæta stöðu lág- og millitekjuhópa sé það æskilegt.

Það var lengi svo á Íslandi að aðeins sá hluti þjóðarinnar sem hafði tiltölulega háar tekjur eða átti kost á að ferðast til útlanda gat eignast ýmis konar raftæki og aðrar vörur sem voru skattlagðar svo mikið innanlands að allt að 70-80% verðsins var opinber gjöld. Einhverjir virðast reyndar enn vera þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að verð sumra vara, t.d. tölvubúnaðar og heimilistækja sé svo hátt að aðeins hluti þjóðarinnar hafi efni á að kaupa slíkar vörur. En ef menn vilja raunverulega vinna að jöfnuði í samfélaginu verðum við að stefna að því að öllum verði kleift að búa við nútíma þægindi og jafnvel geta leyft sér að fylgja þróun samfélagsins og tækninnar með því að eignast nútíma raftæki eða kaupa ný föt á börnin sín fyrir skólann og veita þeim þann búnað sem þau þurfa til að geta fylgt félögunum eftir í námi eða tómstundum.

Nú tekur við vinna í þinginu þar sem markmiðið er að tryggja að breytingar í fjárlagafrumvarpinu auki kaupmátt, lækki verðlag, dragi úr svartri atvinnustarfsemi, efli innlenda framleiðslu og færi okkur yfir í þær leiðir sem reynst hafa best til að auka jöfnuð í samfélaginu. Það hljóta að vera markmið sem flestir geta sameinast um.

Þessar aðgerðir er ætlaðar til að hafa þveröfug áhrif við skattahækkanir síðasta kjörtímabils og hækkun virðisaukaskatts á matvæli ef hún hefði orðið á þeim tíma.

Þá var tilgangur hækkunarinnar að auka tekjur ríkissjóðs. Áhrif skattkerfisbreytinganna nú á ríkissjóð eru hins vegar neikvæð um nærri fjóra milljarða þegar allt er talið saman. Það er allt önnur mynd en blasti við árið 2011 í tíð fyrri ríkisstjórnar sem taldi sig geta búið til verðmæti með skattlagningu.

Ég nefndi stundum á síðasta kjörtímabili að ekki væri gert nóg af því að bera upp á ráðherra hvað þeir hefðu sagt og hver afstaða þeirra hefði verið áður en þeir tóku við völdum. Nú er þetta ekki lengur vandamál. Menn eru mjög duglegir við að leita að einhverju sem ráðherrar hafi sagt á liðnum árum sem hugsanlega samræmist ekki umræðu samtímans. Það er ekkert út á slíkt aðhald að setja en þó hlýtur að vera eðlilegt að tekið sé tillit til samhengis hlutanna. Skattkerfisbreytingar sem bæta hag heimilanna eru allt annars eðlis en þær sem skerða hag þeirra.

05/23/14

Á aðeins einu ári

Í dag er liðið eitt ár frá því að ný ríkisstjórn hóf sókn í þágu lands og þjóðar eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu hennar. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagar heimilanna í landinu og efling atvinnulífs með aukinni verðmætasköpun í almannaþágu. Á aðeins einu ári hafa orðið gríðarmiklar framfarir á fjölmörgum sviðum.

Hagþróun og atvinnumál

• 4.000 ný störf (heil ársverk) hafa orðið til frá því að ný ríkisstjórn tók við. Það eru að jafnaði 11 störf á dag eða 16 hvern virkan dag.

• Hagvöxtur tók mikinn kipp síðast liðið haust. Hinn aukni hagvöxtur seinni hluta ársins var langt umfram spár og með því mesta sem þekkist meðal iðnvæddra þjóða. Þess er nú vænst að hagvöxtur aukist enn á þessu ári og því næsta. Verðbólga er komin niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans í aðeins annað skipti í heilan áratug og í fyrsta skipti hefur verðbólga haldist undir viðmiðunarmörkum í nokkra mánuði í röð. Afleiðingin er aukinn kaupmáttur.

• Kaupmáttur hefur aukist meira á tímabilinu en nokkru sinni frá árinu 2007. Ætla má að kaupmáttur, það hvað fólk getur keypt fyrir launin sín, aukist nú hraðar á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi.

• Atvinnuleysi fer enn minnkandi og er nú í kringum 4% á sama tíma og meðaltals atvinnuleysi á Evrusvæðinu er búið að ná nýjum hæðum í 12 prósentum.

• Ferðamönnum fjölgaði um 34% fyrstu 4 mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Ný ríkisstjórn ákvað að hverfa frá áformum síðustu ríkisstjórnar um að hækka skatta á ferðaþjónustu. Áformin voru talin ótímabær því þau myndu draga úr vexti greinarinnar og skerða tekjur þeirra sem selja ferðamönnum vörur og þjónustu og þar með tekjur ríkisins. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu eru orðnar meiri en af sjávarútvegi.

• Fjárfesting hefur aukist, ekki hvað síst meðal smærri og meðalstórra fyrirtækja. Byggingariðnaðurinn sem gengið hefur í gegnum miklar þrengingar er að taka við sér. Samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins nema þekkt verkefni, bara á sviði hótelbygginga í Reykjavík á næstu þremur árum um 45 milljörðum króna.

Aukin velferð

• Jöfnuður hefur aukist þrátt fyrir hraðan hagvöxt. Útlit er fyrir að Ísland haldi stöðu sinni sem það land Evrópu sem er með lægst hlutfall landsmanna undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun. Samkvæmt síðustu mælingu var hlutfallið 12,7% á Íslandi en meðaltalið í ESB var 25%. Hvað varðar jafna tekjudreifingu mælda með Gini-stuðlinum var Ísland komið í þriðja sæti árið 2013, einkum vegna hlutfallslegrar lækkunar hæstu launa en nú er útlit fyrir að við getum styrkt stöðu okkar með hækkun lægri- og meðallauna.

• Barnabætur hækkuðu úr 7,5 milljörðum í 10,2 milljarða króna milli ára. Það er þriðjungs aukning.

• Tekjuskattur lækkaði um 5 milljarða, mest hjá millitekjufólki.

• Framlög til velferðarmála hafa verið aukin til mikilla muna. Skerðingar á greiðslum til öryrkja og eldriborgara sem teknar voru upp árið 2009 voru afnumdar og framlög til almannatrygginga aukin um 9 milljarða eða 11%. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei sett jafnmikið fjármagn til félagsmála og á árinu 2014.

• Framlög til heilbrigðismála voru aukin um 6,8 milljarða að raunvirði og ráðist í brýnar úrbætur á húsa- og tækjakosti Landsspítalans. Það var ekki gert með auknum lántökum heldur sparnaði annars staðar í ríkiskerfinu, einkum í ráðuneytum. Unnið er að undirbúningi uppbyggingar þjóðarsjúkrahúss og eflingu heilbrigðisþjónustu um allt land. Með verkefninu „Betri heilbrigðisþjónusta“ er ætlunin að tryggja aðgang allra Íslendinga að heilsugæslulækni.

• Endurskoðun menntakerfisins hefur þegar leitt til þess að hægt var að hækka laun kennara í grunn- og framhaldsskólum umtalsvert.

• Þrátt fyrir þetta var skilað hallalausum fjárlögum í fyrsta skipti frá árinu 2007.

Nýsköpun, uppbygging og byggðamál

• Ný byggðaáætlun mun jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla verður lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

• Veiðigjaldinu var breytt til að hlífa minni og meðalstórum fyrirtækjum. Ljóst var að ef fylgt hefði verið gjaldtökuaðferðum fyrri ríkisstjórnar hefði mikill fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja um allt land komist í þrot og fótunum verið kippt undan byggð í mörgum. Um leið hefði aukin hagræðingarþörf valdið mikilli samþjöppun í greininni. Þrátt fyrir breytingarnar hefur sjávarútvegur aldrei skilað samfélaginu jafnmiklum tekjum og á síðasta ári og fjárfesting og vöruþróun hefur tekið við sér.

• Unnið hefur verið að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins með það að markmiði að hámarka tekjur samfélagsins af greininn um leið og rekstrarumhverfi er tryggt og grundvöllur sjávarbyggðanna er styrktur.

• Áhersla ríkissjórnarinnar á nýtingu tækifæra á norðurslóðum og gerð fríverslunarsamninga hefur þegar sannað gildi sitt. Eitt stærsta hafnafyrirtæki heims, Bremenports, hefur undirritað samning um rannsóknir í Finnafirði með það að markmiði að byggja þar nýja heimshöfn. Um allt norðanvert og austanvert landið er verið að undirbúa framkvæmdir til að nýta tækifæri komandi ára.

• Ráðist hefur verið í endurskoðun regluverks með það að markmiði að einfalda líf fólks, nýsköpun í atvinnulífinu og rekstur fyrirtækja.

• Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilaði 111 tillögum um hvernig spara mætti í ríkiskerfinu. Nú er unnið eftir þeim og öðrum hagræðingaráformum ríkisstjórnarinnar í öllum ráðuneytum.

• Samkeppnishæfni Íslands eykst nú hröðum skrefum. Í nýbirtri mælingu á samkeppnishæfni þjóða fór Ísland upp um 4 sæti.

• Rannsókna og nýsköpunarstarf mun stóreflast með nýsamþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og Vísinda- og tækniráðs. Þar er gert ráð fyrir verulegri aukningu ríkisframlags til nýsköpunar og rannsókna (aukning upp á allt að 2,8 milljarða) og innleiðingu hvata fyrir atvinnulífið sem skila muni tvöfaldri þeirri upphæð til viðbótar. Með því kemst Ísland í hóp þeirra fáu ríkja sem verja yfir 3% af landsframleiðslu til vísinda og nýsköpunar.

Heimilin

• Fyrirheit ríkisstjórnarflokkanna um aðgerðir í skuldamálum heimilanna eru komin til framkvæmda. Búið er að ljúka öllum liðunum 10 í þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

• Sérfræðihópur ríkisstjórnarinnar hefur skilað tillögum að því hvernig afnema megi verðtryggingu á nýjum neytendalánum og ríkisstjórnin hefur samþykkt að hrinda áætluninni í framkvæmd.

• Skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar hefur verið hrint í framkvæmd. Með því er komið til móts við fólk með stökkbreytt verðtryggð fasteignalán eftir fimm ára bið. Á síðasta kjörtímabili stóð til að skattleggja heimilin til að greiða skuldir gjaldþrota einkabanka. Nú er heimilunum hjálpað að takast á við skuldir sínar og á sama tíma greiða slitabú hinna föllnu banka loks skatt eins og eðlilegt er.

• Með skattleysi séreignasparnaðar gefst fólki tækifæri til að greiða lán sín niður enn meira. Þegar aðgerðirnar koma saman má gera ráð fyrir að fólk geti fært niður lán sín sem nemur allri verðbólgu umfram 2-3% á árunum í kringum hrun.

• Með tillögum að nýju húsnæðiskerfi er markmiðið að lækka húsnæðiskostnað heimilanna og auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði. Sérstök áhersla er lögð á að bæta stöðu leigjenda og húsnæðissamvinnufélaga, með bættri réttarstöðu, auknu framboði leiguhúsnæðis, skattalegum hvötum, hagkvæmari fjármögnun og þar með lægri leigu auk nýrra húsnæðisbóta sem komi í stað vaxtabóta og taki mið af tekjum en ekki búsetuformi til að auka jafnræði.

Sumar

Það er ákaflega ánægjulegt að geta sagt frá öllum þessum breytingum sem hafa orðið til batnaðar á síðustu tólf mánuðum. Þess má svo geta að bætt vinnubrögð í þinginu urðu til þess að stjórnarmeirihlutanum tókst að afgreiða óvenju mikinn fjölda mála á tilsettum tíma og aldrei hafa jafnmörg þingmannamál fengið afgreiðslu, þar á meðal mikill fjöldi stjórnarandstöðumála.

Við göngum því inn í sumarið ánægð með veturinn um leið og við búum okkur undir að gera enn betur á næsta ári og hlökkum til að fagna saman 70 ára afmæli lýðveldisins þann 17. júní. Ég óska landsmönnum öllum góðs og heilladrjúgs sumars.

 

 

04/7/14

Kvalir amerískra hvala

Það kom á daginn að sumum fannst ekki við hæfi að kalla Bandaríkjamenn mestu hvalveiðiþjóð heims (og sjá ekkert að því að þeir amist við takmörkuðum hvalveiðum Íslendinga). Þeim finnst ekki við hæfi að telja með hvali sem veiddir eru af frumbyggjum. Þau 2.760 tonn sem Bandaríkjamenn veiddu árið 2012 teljast þannig léttvægari en 260 tonn Íslendinga, enda Íslendingar einhverra hluta vegna ekki taldir frumbyggjar. Þetta eru þó bara hinar „formlegu veiðar“. Jafnframt er litið framhjá þeim hvalveiðum þar sem hræjunum er hent fremur en að verka þau og nýta.

Höfrungar eiga það til að elta túnfiskstorfur. Þetta hafa Bandaríkjamenn nýtt sér um áratugaskeið og veitt ógrynni höfrunga í von um að túnfiskur slæddist með. Á seinni hluta tuttugustu aldar voru 6 til 7 milljónir höfrunga drepnir í vestanverðu Kyrrahafi. Til samanburðar nam öll atvinnuhvalveiði allra þjóða alla tuttugustu öldina um 2 milljónum dýra, eða innan við þriðjungi „brottkastsins“ í túnfiskveiðinni. Eins og nærri má geta hrundi höfrungastofninn í Kyrrahafi og nú hefur dregið mjög úr slíkum veiðum. Sé litið til fjölda dýra eru þó árlega margfalt fleiri höfrungar drepnir á þennan hátt en nemur hvalveiðum Norðmanna, svo ekki sé minnst á Íslendinga.

Þá er þó ekki allt upp talið. Náttúruverndarsamtök í Bandaríkjunum hafa undanfarin ár safnað undirskriftum gegn því að þarlend yfirvöld veiti bandaríska hernum „kvóta“ til að sprengja og  höfrunga og önnur dýr af ættbálki hvala. Á þessu ári mun sjóherinn hefja nýjar tilraunir með neðansjávarsprengjur og önnur hergögn. Tilraunirnar munu standa til 2019. Bandaríski sjóherinn áætlar að 341 hvalur drepist, 13.306 særist alvarlega, 3,75 milljónir hljóti minniháttar tjón á borð við tímabundið heyrnarleysi og í 27,7 milljónum tilvika geti tilraunirnar truflað atferli dýranna.

Íslendingar munu meta hvort rétt sé að veiða hval út frá hagsmunum landsins. Þar verður tekið mið af sjálfbærni, efnahagslegum forsendum og áhrifum á aðrar atvinnugreinar, t.a.m. hvalaskoðun. Afstaðan mun hins vegar ekki ráðast af umvöndunum þeirra sem telja að aðrar reglur eigi að gilda um okkur en þá sjálfa.

12/31/13

Horfum bjartsýn til framtíðar

Áramót eru hrífandi tími, stund friðar með fjölskyldu og vinum þar sem tækifæri gefst til að líta yfir farinn veg, meta hvernig til hefur tekist, læra af mistökum jafnt sem sigrum, með þá ósk í brjósti að nýtt ár verði gæfuríkt.

Áramót gefa líka gott tækifæri til að velta því fyrir sér hvernig landsmálin hafa þróast og hvort hægt sé að gera hlutina öðruvísi og betur á vettvangi stjórnmálanna.

Það er og á að vera markmið stjórnmálamanna að vinna að því að veita þjóð sinni það öryggi og velferð sem allir þrá og þó að stjórnmálabarátta virðist oft illvíg þá er það engu að síður svo að flestir sem taka þátt í stjórnmálastarfi vinna að sameiginlegu markmiði. Því að auka hagsæld og hamingju þjóðarinnar.

Flestir geta verið sammála um að á Íslandi eigum við að stefna að því að reka heilbrigðiskerfi á við það sem best gerist í heiminum og að allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Við viljum búa við menntakerfi sem við getum treyst til þess að veita börnum okkar, hverju og einu, menntun sem stenst samanburð við það sem best gerist í öðrum löndum. Öll viljum við búa við lagalegt öryggi þar sem réttur einstaklingsins er virtur án þess að skaða aðra og flest viljum við samfélag þar sem óskorað traust ríkir til löggæslu og dómstóla.

Margir velta því eðlilega fyrir sér hvers vegna mismunandi stjórnmálastefnur geti þá ekki lagfært það sem upp á vantar, án frekari umræðu, ef endamarkið er hið sama? Svo eru þeir til sem telja að litlu skipti hvaða stefna verður ofaná, engin þeirra sé til þess fallin að skila árangri. Slíkar vangaveltur eru eðlilegar en raunveruleikinn er engu að síður sá að þjóðfélag er flókið fyrirbæri þar sem óteljandi kraftar virka hver á annan. Fyrir vikið verða álitaefnin óteljandi líka.

Sagan sýnir hins vegar, svo ekki verður um villst, að það skiptir sköpum um velferð þjóða hvaða stjórnmálastefna ræður för. Öfgakennd stefna er iðulega boðuð með því að vísa til knýjandi þarfar til að ná góðum markmiðum. En pólitísk bókstafstrú hefur aldrei reynst vel til þess fallin að ná hinum góðu markmiðum. Þar reynast skynsemi og rökhyggja best. Stefna sem byggir jafnt og þétt upp þá innviði, áþreifanlega og óáþreifanlega, sem veita kröftum einstaklinganna og þjóðarinnar bestan farveg.

Stefna sem nýtir það afl sem liggur í framtakssemi og hugkvæmni einstaklinganna en einnig þá miklu verðmætasköpun sem leiðir af samvinnu þeirra og hámarkar með því ávinning samfélagsins alls. Samfélags þar sem öll hin ólíku störf skipta máli. Það er undirstaða framfara.

Þegar vandamálin sem samfélag stendur frammi fyrir eru óhefðbundin getur þurft að fara óhefðbundnar leiðir til að leysa þau og þegar vandinn er stór getur það kallað á róttækar lausnir. Í slíkum tilvikum getur hið róttæka verið hið rökrétta og skynsamlega.

Ný ríkisstjórn vinnur eftir þessu.

Fyrstu mánuðirnir eftir kosningar voru nýttir til að koma á stöðugleika og undirbúa skynsamlegar og rökréttar aðgerðir. Við erfiðar aðstæður í rekstri ríkisins hefur verið forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og annarra velferðarmála en um leið er unnið að því að skapa skilyrði sem geta af sér aukna verðmætasköpun, fleiri störf og betri kjör. Árangurinn er þegar farinn að koma í ljós þótt mikið verk sé enn óunnið. Á síðustu mánuðum ársins 2013 jókst hagvöxtur verulega, meðal annars með aukinni fjárfestingu sem mun skila sér í aukinni verðmætasköpun til framtíðar.

Um leið er ríkið hætt að safna skuldum svo að á næstu árum verður hægt að fjárfesta í auknum mæli á öllum þeim fjölmörgu sviðum sem gefa lífinu í þessu landi gildi.

Skuldafargið sem haldið hefur aftur af íslenskum heimilum og þar með samfélaginu öllu í mörg ár kallaði á umfangsmiklar aðgerðir. Í því tilviki var róttæk lausn skynsamleg og nauðsynleg.

Nú liggur fyrir að verðtryggð húsnæðislán verða færð niður sem nemur öllum þeim verðbótum sem talist gátu ófyrirséðar á árunum í kringum bankahrunið. Auk þess munu skattaafsláttur og önnur úrræði nýtast til að létta enn frekar á skuldum heimilanna, skuldum sem hafa staðið efnahagslegum framförum fyrir þrifum.

Takist svo að auka kaupmátt launa samhliða aðgerðum til að draga úr skuldavandanum mun staða íslenskra heimila taka stakkaskiptum til hins betra. Við sjáum nú að full ástæða er til að ætla að sú geti orðið raunin.

Kjarasamningar sem voru undirritaðir í lok ársins voru hugsaðir sem grundvöllur stöðugleika svo að hægt yrði að auka kaupmátt og bæta lífskjör jafnt og þétt næstu árin. Það þurfa aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld að gera í sameiningu og í þeirri vinnu þarf að huga sérstaklega að kjörum þeirra lægstlaunuðu og því að millitekjuhópar njóti ávinningsins af betri tíð eftir þær miklu fórnir sem sá hópur var látinn færa á síðast liðnum árum.

Að þessu sinni gefa áramótin okkur Íslendingum tilefni til að vera bjartsýn.

Ísland er sannarlega land tækifæranna, hvort sem litið er til þróunarinnar á norðurslóðum, gríðarmikilla og verðmætra auðlinda eða sterkra innviða og samfélagsgerðar sem er til þess fallin að skapa verðmæti á nánast öllum sviðum.

Okkar bíður það verkefni að tryggja annars vegar að það takist að nýta tækifærin og hins vegar að afraksturinn gagnist samfélaginu öllu. Það ætti að vera okkur góð hvatning í þeim efnum að þetta tvennt fer jafnan vel saman. Þjóðskipulag sem stuðlar að jafnræði og almennri velferð er best til þess fallið að nýta tækifærin og skapa verðmætin sem standa undir velferðinni.

Við Íslendingar eigum að baki óvenjulega tíma. En eins og Sveinn Björnsson, forseti, sagði í innsetningarávarpi sínu árið 1945 þá er mannlífið sem betur fer svo „auðugt að tilbrigðum, að ekkert er til sem mætti nefna „venjulega tíma“. Ýmsir eru bölsýnir á það sem framundan er, aðrir bjartsýnir.“ Forsetinn benti svo á að við fáum ekki varðveitt trúna á land og þjóð nema nokkurrar bjartsýni gæti. Það að hafa trú á landi og þjóð er svo forsenda þess að bjartsýnin eigi rétt á sér.

Sá sem ekki hefur trú á sjálfum sé nær ekki árangri og það sama á við um samfélögin sem einstaklingarnir mynda. Þjóð verður að trúa á sjálfa sig og að hægt sé að gera hlutina öðruvísi og betur.

Við Íslendingar höfum fulla ástæðu til að hafa trú á landið og þjóðina og vera bjartsýn á framtíðina við áramótin sem nú ganga í garð.

Kæru landsmenn, ég óska ykkur öllum gleðilegs árs, farsældar og friðar á nýju ári.

06/25/13

Fyrsti mánuður loftárása

Það er ekki langt síðan fyrsta hreina vinstristjórnin fór frá völdum eftir sögulegt tap í kosningum. Á meðan sú ríkisstjórn var að gera sínar bommertur leið varla sá dagur að við sem þá vorum í stjórnarandstöðu spyrðum ekki hvort annað „hvernig væri umfjöllun fjölmiðla ef ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði gert annað eins?“ Svo var brosað að tilhugsuninni um hvers konar „loftárásir“ slík ríkisstjórn hefði fengið yfir sig vegna sambærilegra mála.

Nú hafa fyrrum stjórnarandstöðuflokkar myndað ríkisstjórn. Það hefur verið óskrifuð regla hér og annars staðar að ný ríkisstjórn fengi sæmilegan frið í upphafi kjörtímabils til að setja sig inn í mál og innleiða svo nýja stefnu. Það var aldrei við því að búast að núverandi ríkisstjórn fengi þess háttar grið. Þó var helst til langt seilst þegar farið var að saka ríkisstjórnina um að hafa svikið kosningaloforð áður en hún var tekin til starfa. Rétt eftir að nýir ráðherrar tóku við lyklum að ráðuneytunum varð svo ljóst hvert stefndi með umfjöllun.

Þrátt fyrir yfirlýsingar fyrrum stjórnarflokka um mikilvægi þess að breyta stjórnmálunum og umræðuhefð fóru þeir af stað í stjórnarandstöðu af ótrúlegu offorsi sem virðist drifið áfram af hamslausri gremju yfir úrslitum kosninganna. Málþóf hófst í fyrsta máli á fyrsta degi sumarþings. Snúið er út úr nánast öllu sem stjórnarliðar segja og gera og einskis svifist í ómerkilegum pólitískum brellum. Framganga hinna nýju stjórnarandstæðinga, innan þings og utan, pirringurinn og ofleikurinn er augljós.

Það hefur því verið furðulegt að fylgjast með því að engin brella virðist svo aum og enginn útúrsnúningur svo augljós að hann verði ekki að stórfrétt. Látið er eins og það séu undur og stórmerki þegar núverandi ríkisstjórn hverfur frá stefnu fyrri ríkisstjórnar og framfylgir eigin stefnu. Ekkert af þessu á þó að koma á óvart.

Continue reading