01/27/16

Heilbrigðismál hér og þar

Ég sá að pennavinur minn, Kári Stefánsson mannvinur, tók það óstinnt upp að ég væri sammála honum um mikilvægi stórfelldrar eflingar heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Eins og menn þekkja er Kára tamt að úthúða þeim sem eru ósammála honum en ég hafði ekki gert mér grein fyrir að það sama ætti við um þá sem tala máli hans (án þess þó að vera lögmenn). Líklega gerði það útslagið að ég lét fylgja vinsamlega ábendingu um að ef til vill væri ekki best að ná markmiðinu um eflda heilbrigðisþjónustu með því að einblína eingöngu á hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu.

Kári virtist telja að með því hefði ég verið að gera grín að sér (reyna að vera fyndinn). Ég skal viðurkenna að ég þykist ekki skilja skilgreiningu Kára Stefánssonar á húmor en ég á bágt með að sjá að nokkuð í tölfræðinni sem ég benti á hafi verið til þess fallið að gera grín að Kára eða grín yfir höfuð.

Einnig virtist hinn miskunnsami samfélagsrýnir telja að ég hefði gert lítið úr fátækum ríkjum eins og Síerra Leóne með því að hafa í rökstuðningi mínum bent á að heilbrigðismál væru stærri hluti landsframleiðslu þar en á Norðurlöndum. Stjórnvöld í Síerra Leóne áttu að mati Kára hrós skilið fyrir að vera reiðubúin til að fórna hlutfallslega meiru en Íslendingar til að hlúa að þeim sem minna mega sín. Þetta sýndi að stjórnvöld í Síerra Leone væru, rétt eins og hann sjálfur, betri en annað fólk og þá auðvitað betri en íslensk stjórnvöld sem ættu að taka sér stjórnmálamenn í Síerra Leóne til fyrirmyndar.

Ætli sé ekki óhætt að gefa sér að Kári hafi ekki allt í einu tekið upp á því að kynna sér staðreyndir mála áður en hann útskýrði að Síerra Leóne stæði sig í raun betur í heilbrigðismálum en Ísland (hlutfallslega) og sannaði þannig að best væri að líta til hlutfalls af landsframleiðslu. Alþjóðlegu mannúðarsamtökin ODI gætu upplýst Kára um að stór hluti íbúa landsins nýtur ekki heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa aðgang að þjónustu sem ætti að vera ókeypis eru oftast látnir borga fyrir hana þ.a. í raun greiðir almenningur hátt í 90% af kostnaðinum við heilbrigðiskerfið. Það er miklu hærra hlutfall en í grannríkjunum (sem þó verja lægra hlutfalli landsframleiðslu til heilbrigðismála).

Síerra leóne

Hið háa hlutfall heilbrigðisþjónustu í landsframleiðslu í fyrirmyndarríki VLF-leiðar Kára helgast því af lágri landsframleiðslu (fátækt) og heilbrigðiskerfi þar sem hinir fátæku íbúar landsins þurfa sjálfir að greiða óvenju mikinn kostnað vegna þjáninga sinna.

Það þarf ekki að skoða þróunarríki til að átta sig á því að varasamt getur verið að miða bara við hlutfall af landsframleiðslu. Hlutfall heilbrigðismála af landsframleiðslu er einna hæst í Bandaríkjunum (þrátt fyrir mikil hernaðarútgjöld). Ætli megi ekki gefa sér að jafnvel Kári Stefánsson væri tregur til að halda því fram að bandaríska heilbrigðiskerfið væri betra og og fæli í sér meiri manngæsku en það íslenska.

Ef litið er eingöngu til hlutfalls opinberra útgjalda til heilbrigðismála lítur dæmið öðruvísi út en sú mynd sem Kári dregur upp. Þá stendur Ísland enn betur í samanburðinum bæði fyrr og nú. Ísland var raunar efst allra landa fyrir fáeinum árum eins og sjá má af þessu súluriti fjármálaráðuneytisins frá 2006 (þá voru íslensk stjórnvöld, í kvalaþorsta sínum, búin að svelta heilbrigðiskerfið í a.m.k. fimmtán ár að mati Kára):

vlf h206

Þegar sýnt var fram á það í sjónvarpsþætti að Kári færi rangt með tölur og að bæði samanburðurinn og viðmiðin voru röng voru viðbrögðin hefðbundinn fúkyrðaflaumur með fullyrðingum um að fólki sem gagnrýndi hann væri sama um þá sem minna mega sín eða vildi viðhalda þjáningum.  Að lokum upplýsti hann þó að þetta byggðist ekkert á þessum prósentutölum.

Semsagt átak um að tiltekin prósenta af landsframleiðslu færi í heilbrigðismál byggðist ekki á tölum. Sjálfsagt er það rétt að átakið snúist ekki um prósentutölur. Enda má velta fyrir sér um hvað undirskriftasöfnun snýst þar sem fólki býðst að skrifa nafnið sitt undir gríðarstóra framboðsmynd af Kára Stefánssyni?

Líti menn hins vegar svo á að undirskriftasöfun Kára Stefánssonar snúist bara almennt um vilja til að efla heilbrigðiskerfið þá er hver slík undirskrift krafa um að menn finni bestu leiðina til að láta það gerast. Þá ættu menn að fagna umræðu um málið og jafnvel láta sig hafa það að fá ábendingar.

Hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála af landsframleiðslu rauk upp á Íslandi, sem hlutfall af VLF, við efnahagshrunið en hrundi svo vegna niðurskurðar.

Varla vilja menn þó halda því fram að besta leiðin til að bæta heilbrigðisþjónustu sé efnahagshrun. Í stað þess að sveiflast eftir landsframleiðslu þurfa heilbrigðisútgjöld að vera næg og nógu vel fjármögnuð til að veita nauðsynlega þjónustu óháð efnahagssveiflum.

Það þarf yfirvegaða umræðu og skynsamlegar ráðstafanir svo vel takist til við eflingu heilbrigðiskerfisins. Þá verða menn að þola umræðu um hvað snýr upp og niður og hvaða leiðir séu bestar til að halda áfram hinni miklu uppbyggingu síðustu ára.

01/10/16

Frankfurt – Reykjavík

Verðlaunatillaga fyrir miðbæ Frankfurt 2005. Áformaðar framkvæmdir í miðbæ Reykjavíkur áratug seinna.

Verðlaunatillaga fyrir miðbæ Frankfurt 2005. Áformaðar framkvæmdir í miðbæ Reykjavíkur áratug seinna.

Í viðtali við Morgunblaðið benti ég á að það stefndi í skipulagsslys (er hægt að tala um slys ef það sem gerist hefur beinlínis verið skipulagt?) við norðurenda Kvosarinnar í Reykjavík. Ég hafði lýst sömu viðhörfum þegar fyrst birtust teikningar af áformuðum byggingum. Reyndar hef ég gagnrýnt skipulagsáform á svæðinu í mörg ár, m.a. í viðtölum og skrifum fyrir meira en áratug, og það gerðu fleiri. Þessi vann t.d. hugmyndasamkeppni Landsbankans 2004 með tillögum sem fjölluðu um svæðið og ítrekaði svo afstöðu sína í grein fimm árum seinna: http://www.andrisnaer.is/frettir/2009/02/hvad-a-ad-gera-vid-midborgina/

Viðbrögð borgarstjórans vöru þau sömu og síðast þegar ég viðraði gagnrýni. Í stað þess að ræða innihald málsins hnýtti hann í mig og hélt því fram að ég hefði komið að því að samþykkja skipulagið sem varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkur. Það er ekki satt. Skipulagið var samþykkt í maí 2006 undir stjórn þáverandi formanns skipulagsráðs, Dags B. Eggertssonar. Breytingar voru svo gerðar á skipulaginu í október 2010, eftir að ég fór úr ráðinu. Með breytingunum var þó dregið úr byggingarmagninu. Það er því heldur ekki rétt sem borgarstjórinn hélt fram að núverandi tillögur geri ráð fyrir minna byggingarmagni en upphaflega var áformað.

2006 skipulagið.

2006 skipulagið.

 

Upphafleg tillaga gerði ráð fyrir um 25.000 fermetrum. 2010 breytingin færði magnið niður í 22.700. Nú er verið að tala um 30.000. Það er aukning sem nemur nokkrum fjölbýlishúsum. Á þeim tíma sem ég sat í skipulagsráði ræddi ég áformin við höfnina oft og það gerði aðrir fulltrúar í ráðinu líka. Rúmum mánuði eftir að ég settist í ráðið hrundi fjármálakerfi landsins og almennt gerðu menn ráð fyrir að áformin væru úr sögunni.

Það er samt engin ástæða til að skammast út í þá sem samþykktu tilllöguna 2006. Í millitíðinni hefur margt komið í ljós, bæði um þensluhvetjandi skipulag og mikilvægi þess að huga að sögu og menningu í miðbænum. Ræðum því hvernig hægt er að finna sem besta lausn á málinu út frá staðreyndum.

Oft er auðveldara að meta hluti eftir á en fram í tímann. Þess vegna getur verið gagnlegt að ímynda sér að maður sé í framtíðinni að líta aftur. Telur einhver að ef fallið verður frá áformum um stóra tískukassa, anno 2015, í miðbæ Reykjavíkur muni menn eftir 50 ár segja: „Bara að menn hefðu nú byggt stóru fjölbýlis og skrifstofuhúsin í Kvosinni á sínum tíma.“

Pósthússtræti

Pósthússtræti

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að rífa ráðhús Frankfurtborgar. Húsið var stór brútalistabygging frá áttunda áratugnum svo áformin mæltust vel fyrir meðal borgarbúa. Ætlunin var að færa meira líf í gamla miðbæinn en ráðhúsið hafði staðið steinsnar frá hinum gamla miðpunkti Frankfurt, Römertorgi. Þar höfðu nokkur bindingsverkshús verið endurreist í kringum 1984 og strax orðið helsta kennileiti borgarinnar. Haldin var arkitektasamkeppni um framkvæmdir á byggingareitnum. Myndin sem birtist efst í þessari grein er af sigurtillögunni auk fleiri mynda hér að neðan.

„Gamla ráðhúsið“ í Frankfurt. Byggt 1974. Rifið fyrir nokkrum árum.

„Gamla ráðhúsið“ í Frankfurt. Byggt 1974. Rifið fyrir nokkrum árum.

Hin endurreistu bindingsverkshús við Römertorg.

Hin endurreistu bindingsverkshús við Römertorg.

Vinningstillagan í Frankfurt.

Vinningstillagan í Frankfurt.

Borgarbúar voru hins vegar ekki sáttir. Hvers vegna mátti ekki byggja slíkar byggingar einhvers staðar annars staðar í þessari stórborg þar sem menn horfðu upp á sambærilegar framkvæmdir um allt? Það sem borgin þurfti á að halda var að styrkja gamla bæinn og yfirbragð hans. Fólk hafði séð hvað endurbyggingin við Römertorg hafði skipt miklu máli fyrir borgina og styrkt ímynd hennar. Í þeim efnum gátu bankaturnarnir í Frankfurt, hæstu byggingar Evrópu, ekki keppt við timburhúsin frá 1984.

Það varð úr að farið var að vilja íbúanna. Horfið var frá því að byggja samkvæmt tísku ársins 2005 og þess í stað ráðist í að endurheimta meira af hinni sögulegu, sérstæðu og fallegu Frankfurt. Framkvæmdir standa nú yfir en árangurinn hefur verið framar vonum, þ.a. ákveðið var að fjölga hinum „sögulegu“ húsum. Hér er hægt að kynna sér málið, skoða myndir og fylgjast með framkvæmdunum í vefmyndavélum: http://www.domroemer.de/

Hluti nýframkvæmdanna í Frankfurt.

Hluti nýframkvæmdanna í Frankfurt.

Íslendingar eiga minna af klassískum byggingum en aðrar Evrópuþjóðir, ekki bara í fjölda heldur hlutfallslega líka. Aðrar Evrópuþjóðir gerðu sér þó grein fyrir mikilvægi samhengisins og sögunnar fyrir mörgum áratugum síðan.

Það er mikið byggt á Íslandi þessa dagana og það er ekkert því til fyrirstöðu að tíska ársins 2016 og næstu ára fái að njóta sín í þúsundum bygginga. En þegar kemur að því að nýta mikilvægasta byggingarreit í elstu byggð Reykjavíkur gæti þá ekki verið ráð að huga að samhenginu?

 

 

 

 

 

08/28/15

Sérstaðan blæs lífi í miðbæinn

Áður en lengra er haldið langar mig að þakka þeim sem sendu mér hvatningarorð vegna greinar sem ég birti í gær um stöðu skipulagsmála í Reykjavík. Greinina birti ég vegna þess að ég ef verulegar áhyggjur af þróun mála og þá er gott að heyra að margir deila þeim áhyggjum og vilji sjá breytingar. Vonandi líta borgaryfirvöld á skrifin sem uppbyggilega gagnrýni í stað þess að hrökkva í varnarstöðu.

Einhvers staðar sá ég haft eftir borgarstjóra að ekki væri langt síðan miðborginni hefði verið spáð “dauða”. Merkja mátti af orðum borgarstjórans að fyrir vikið ættu menn að gleðjast yfir hinni miklu ásókn í að byggja og fjölga fermetrum í miðbænum.

Það er rétt að fyrir ekki svo mörgum árum voru sumir svartsýnir á framtíð miðbæjarins og það var einmitt á grundvelli þeirrar svartsýni sem ráðist var í skipulag sem gerði ráð fyrir gríðarmiklu niðurrifi og stórum nýbyggingum í staðinn. Fullyrt var að miðbæinn skorti fyrst og fremst stórt verslunarrými til að geta keppt við verslunarmiðstöðvarnar og annað verslunarhúsnæði í öðrum borgarhlutum og nágrannasveitarfélögum.

Á þeim tíma benti ég á að miðbærinn gæti aldrei keppt við Smáralind eða Kringluna í fjölda bílastæða eða fermetrum stórverslana, hvað þá veðurfari. Miðbærinn þyrfti að keppa á eigin forsendum, ekki með því að reyna að verða aðeins meira eins og verslunarmiðstöðvarnar heldur með því að nýta og efla eigin styrkleika. Hann ætti að byggja aðdráttarafl sitt á sérstöðu sinni og auka hana til að verða betri útgáfa af sjálfum sér en ekki draga úr henni til að verða lakari útgáfa af einhverju öðru.

Reynslan hefur svo sýnt að það líf sem færst hefur í miðbæinn stafar einmitt af sérstöðu hans. Ferðamenn flykkjast í gamla bæinn, fólk vill búa þar, ekki vegna þess að þar hafi verið reistar stórar verslanir eða skrifstofuhúsnæði heldur vegna hinnar sögulegu byggðar, vegna þess að “karakterinn” hefur varðveist. Með öðrum orðum, miðbærinn í Reykjavík bjargaðist frá “dauða” – ekki vegna áforma um stórfellt niðurrif og uppbyggingu heldur vegna þess að þau áform urðu ekki að veruleika.

Mýtan um að það þyrfti fyrst og fremst stærra verslunarrými afsannaðist. Eins og ég benti á á sínum tíma er eðli gamals miðbæjar slíkt að hann ætti að sérhæfa sig í smærri sérverslunum, í því lægju styrkleikar hans. Hvernig fór svo með stærsta og nútímalegasta verslunarrýmið í miðbænum? Helstu dæmin eru verslun 17 og hið nýbyggða, stóra, verslunar- og íbúðarhús á svo kölluðum Stjörnubíósreit, auk stórs og “nútímalegs rýmis á Laugaveg 7, þar sem áður voru söluskrifstofur Flugleiða.

IMG_3617

Allt stóð þetta mikla og nútímalega verslunarrými autt mánuðum ef ekki árum saman þar til því var skipt upp í minni rými. Í Flugleiðahúsinu varð eitt stórt rými að fjórum minni og sömu sögu var að segja af stærstu framkvæmdinni til að bjarga miðbænum frá “dauða”, Stjörnubíóshúsinu, því var skipt upp í fjórar minni verslanir.

Svo getur það gerst þegar miðbær fer að virka sem skyldi, og ásókn í hæfilega stórt verslunarrými eykst, að verlsanirnar verði of einsleitar og reynt sé að bola burt gamalgrónum búðum sem þraukað hafa í gegn um þykkt og þunnt. Þá er það lúxusvandamál borgarstjórnenda að leysa úr slíku. Það er hins vegar vandamál engu að síður, sem ekki má líta framhjá.

08/27/15

Uggvænleg þróun í skipulagsmálum borgarinnar

Það er sláandi að sjá þróun skipulagsmála og framkvæmda í miðborg Reykjavíkur þessa dagana. Líklega hefur gamli bærinn í Reykjavík ekki staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og nú frá því fyrir deiluna um Bernhöftstorfuna fyrir hátt í hálfri öld.

Iðnaðarbankahúsið við Lækjargötu hefur í hugum margra verið nokkurs konar tákn um hugarfarið sem ríkti í skipulagsmálum hér á landi og víðar á fyrstu áratugunum eftir seinni heimsstyrjöld. Á því tímabili skorti ekki aðeins virðingu fyrir sögulegri byggð og sígildum arkitektúr heldur mætti slík byggð oft hreinum fjandskap og niðurlægingu. Svo kölluð fagurfræði, árþúsundagömul fræði í byggingarlist, varð bannorð og allt sem var lítið og gamalt átti að víkja fyrir hinu nýja og stóra.

Iðnaðarbankahúsið var reist árið 1962, sama ár og nýtt aðalskipulag tók gildi þar sem áformað var að stór hluti gömlu byggðarinnar í Reykjavík viki fyrir kössum sem raðað yrði meðfram breiðum vegum.

Iðnaðarbankahúsið var reist árið 1962, sama ár og nýtt aðalskipulag tók gildi þar sem áformað var að stór hluti gömlu byggðarinnar í Reykjavík viki fyrir kössum sem raðað yrði meðfram breiðum vegum.

 

Augljóst má vera hversu miklu máli það myndi skipta fyrir borgar-myndina ef í stað Iðnaðarbankahússins kæmi hús sem félli vel að Iðnaðarmannahúsinu (turnhúsinu), og öðrum nálægum húsum, og blasti við þegar fólk nálgaðist Kvosina meðfram Tjörninni.

Augljóst má vera hversu miklu máli það myndi skipta fyrir borgar-myndina ef í stað Iðnaðarbankahússins kæmi hús sem félli vel að Iðnaðarmannahúsinu (turnhúsinu), og öðrum nálægum húsum, og blasti við þegar fólk nálgaðist Kvosina meðfram Tjörninni.

Iðnaðarbankahúsið hefði hentað ágætlega sem skrifstofubygging við Ármúla en húsið gerir lítið til að styrkja heildarmynd gamla miðbæjarins. Um áratuga skeið höfðu margir velt því fyrir sér hvort ekki mætti gera eitthvað í málinu, það væri mikið til þess vinnandi að laga horn Lækjargötu og Vonarstrætis, hornið sem blasir við þegar fólk nálgast Kvosina frá Tjörninni.

Fyrir fáeinum árum var svo skipulagi reitsins breytt svo að hægt yrði að fjarlægja Iðnaðarbankahúsið og reisa í staðinn nýbyggingar sem féllu betur að umhverfinu eða væru jafnvel til þess fallnar að styrkja það. Til þess að stuðla að slíkri framkvæmd var byggingarmagn reitsins tvöfaldað, hvorki meira né minna, og leyft niðurrif gömlu brjóstsykursverksmiðjunnar sem átti að fá að standa samkvæmt gamla skipulaginu. Með því varð byggingarmagn reitsins meira en æskilegt hefði verið en það var talið þolanlegt svo hægt yrði að losna við bankakassann.

 

Skýringarmyndir með nýju deiliskipulagi þar sem byggingarmagn á reitnum var tvöfaldað en í staðinn gert ráð fyrir byggingu sem félli að umhverfinu.

Skýringarmyndir með nýju deiliskipulagi þar sem byggingarmagn á reitnum var tvöfaldað en í staðinn gert ráð fyrir byggingu sem félli að umhverfinu.

 

Hornhús á borð við þetta hús í Kaupmannahöfn er það sem margir sáu fyrir sér þegar fallist var á að breyta skipulagi lóðarinnar á horni Lækjargötu og Vonarstrætis.

Hornhús á borð við þetta hús í Kaupmannahöfn er það sem margir sáu fyrir sér þegar fallist var á að breyta skipulagi lóðarinnar á horni Lækjargötu og Vonarstrætis.

Ég og fleiri vorum reyndar þeirrar skoðunar að það gæfi augaleið að byggja fallegt turnhús sem færi vel við hlið Iðnaðarmannahússins (turnhússins á horninu). T.d. mætti endurreisa Hótel Ísland eða Uppsali á lóðinni eða byggja fallegt steinhús sem félli vel að öllum nálægum byggingum.

Hótel Ísland stóð þar sem nú er suðurendi Ingólfstorgs. Vilji menn ekki endurreisa hótelið á upprunalegum stað mætti vel hugsa sér að endurbyggja það á horni Lækjargötu og Vonarstrætis.

Hótel Ísland stóð þar sem nú er suðurendi Ingólfstorgs. Vilji menn ekki endurreisa hótelið á upprunalegum stað mætti vel hugsa sér að endurbyggja það á horni Lækjargötu og Vonarstrætis.

Hið glæsilega og sögufræga hús Uppsalir var rifið til að rýma fyrir stofnbraut sem aldrei kom. Húsið færi mjög vel við hlið Iðnaðarmannahússins.

Hið glæsilega og sögufræga hús Uppsalir var rifið til að rýma fyrir stofnbraut sem aldrei kom. Húsið færi mjög vel við hlið Iðnaðarmannahússins.

Þegar svo birtust teikningar af áformaðri nýbyggingu reyndust þær hrópandi dæmi um þá uggvænlegu þróun sem orðið hefur í skipulagsmálum borgarinnar á síðustu misserum. Gamla minnismerkið um skipulagshugmyndir eftirstríðsáranna átti að víkja fyrir enn stærri áminningu um að nú, árið 2015 væri ástandið allt í einu orðið verra en árið 1960. Það gerist eftir að við höfum öðlast meira en hálfrar aldar reynslu til að læra af og séð hvernig óheft sókn í fermetra og fjármagn getur farið með borgir.

Eftir að leyfilegt byggingarmagn var tvöfaldað svo hægt yrði að rífa Iðnaðarbankahúsið og byggja eitthvað sem félli betur að hinu sögulega umhverfi varð þetta niðurstaðan.

Eftir að leyfilegt byggingarmagn var tvöfaldað svo hægt yrði að rífa Iðnaðarbankahúsið og byggja eitthvað sem félli betur að hinu sögulega umhverfi varð þetta niðurstaðan.

Hinn endinn

Mörgum mun eflaust bregða í brún þegar þeir kynna sér byggingaráform við hinn enda Lækjargötunnar. Þar sem áður stóð aðlaðandi byggð fjölbreytilegra timburhúsa, sem tengdu Kvosina við sjóinn, stendur nú til að byggja gríðarstór skrifstofu- og verslunarhús sem gína munu yfir gamla bænum og leysa Esjuna af sem bakgrunnur miðborgarinnar.

fjarki 1

Efri myndirnar tvær sýna svæðið norðan við Lækjartorg og Hafnarstræti þar sem nú stendur til að byggja. Það sem á að koma í staðinn gæti staðið hvar sem er og styrkir vart bæjarbrag miðbæjarins. Byggingaráformin sjást á neðri myndunum. Til að sýna um hversu mikið byggingarmagn er að ræða hafa húsin tvö sem sjást á tölvugerðu myndinni verið lituð gul á líkaninu. Rauðlitaða húsið er svo hinar áformuðu höfuðstöðvar Landsbankans.

 

Aftur til ´62

En stórbyggingaáformin eru ekki bundin við óbyggðar lóðir. Um allan miðbæ eru nú uppi áform, eða framkvæmdir hafnar við stórbyggingar í anda sjöunda áratugarins. Megin munurinn er sá að áformin eru nú töluvert stórkarlalegri.

Aðalskipulagið frá 1962 varð alræmt. Á grundvelli þess voru sum af fegurstu húsum bæjarins brotin niður. Sums staðar risu stórhýsi en annars staðar stóðu lóðir auðar áratugum saman.

Amtmannshúsið við Ingólfsstræti (t.v.) var rifið til að rýma fyrir akbraut í gegnum hinn nýja miðbæ. Akbrautin kom sem betur fer aldrei og hin nýja miðborg ekki nema að litlu leyti. (Morgunblaðshöllin er einn kassanna vinstra megin á hægri myndinni.)

Amtmannshúsið við Ingólfsstræti (t.v.) var rifið til að rýma fyrir akbraut í gegnum hinn nýja miðbæ. Akbrautin kom sem betur fer aldrei og hin nýja miðborg ekki nema að litlu leyti. (Morgunblaðshöllin er einn kassanna vinstra megin á hægri myndinni.)

Síldin hvarf og það dró úr framkvæmdum. Smám saman breyttust viðhorfin til hins betra þótt það  gerðist hægar en í flestum löndum Evrópu. En í byrjun þessarar aldar var svo skipulag miðbæjarins endurskoðað á nýjan leik og með því var horfið fjörtíu ár aftur í tímann, aftur til 1962.

Áformin kynntu þensluna og „byggingarréttur“ gekk kaupum og sölu þar sem stöðugt var leitast við að auka byggingarmagnið þar til farið var að gera ráð fyrir hreint ótrúlegum framkvæmdum víða í gamla miðbænum. Gríðarstór og framúrstefnuleg hús áttu að ryðja gamalli byggð úr vegi. Hvergi tók efnahagsbólan á sig áþreifanlegri mynd en í skipulagsáformum í Reykjavík.

Áformað var að Laugavegurinn tæki við ótrúlegu byggingarmagni, m.a. Listaháskóla sem hefði notið sín betur í öðru umhverfi. Gríðarstór verslunarmiðstöð átti svo að liggja frá Laugavegi að Skúlagötu í formi skriðjökuls. Jökullinn átti að ryðja burt fjölda gamalla húsa. Myndin (t.h.) er af skriðjökulsverslunarmiðstöð í Póllandi.

Áformað var að Laugavegurinn tæki við ótrúlegu byggingarmagni, m.a. Listaháskóla sem hefði notið sín betur í öðru umhverfi. Gríðarstór verslunarmiðstöð átti svo að liggja frá Laugavegi að Skúlagötu í formi skriðjökuls. Jökullinn átti að ryðja burt fjölda gamalla húsa. Myndin (t.h.) er af skriðjökulsverslunarmiðstöð í Póllandi.

 

Framhald Listaháskólans neðan við Hverfisgötu. Takið eftir timburhúsinu sem stendur eftir lengst til hægri á myndinni.

Framhald Listaháskólans neðan við Hverfisgötu. Takið eftir timburhúsinu sem stendur eftir lengst til hægri á myndinni.

 

Áherslubreytingin í skipulagsmálum miðbæjarins vakti viðbrögð og umræðu um skipulagsmál og eftir efnahagslegar vendingar á árinu 2008 var horfið frá hinum miklu áformum…að sinni. Um tíma virtist vora á ný í skipulagsmálum á Íslandi. Virðing fyrir vernd og hófsemi, í bland við minni þrýstingi frá fjármagni í leit að fermetrum, veitti tækifæri til að skoða hlutina upp á nýtt. Möguleiki gafst á að vinda ofan af vitleysunni á meðan lóðir voru lágt metnar.

Sá möguleiki var ekki nýttur og nú blasir við að vorið breyttist skyndilega í ótíð. Ástæðan fyrir því að gamla byggðin í Reykjavík hefur líklega aldrei staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og nú er sú staðreynd að nú fara saman skeytingarleysi, stundum jafnvel andúð á því litla og gamla, og blind dýrkun á hinu nýja og stóra á sama tíma og ekki skortir fjármagn til að raungera það viðhorf. Allt er svo rökstutt með gömlum öfugmælum á borð við „borgir mega ekki staðna“ eða að miðbærinn megi ekki vera einhvers konar Disneyland.

Hættulegir hvatar

Allt það versta við skipulagsnálgun eftirstríðsáranna skýtur nú upp kollinum á ný. Eitt af því er sá neikvæði hvati sem skipulagið og framkvæmd þess fela í sér. Skilaboðin eru þessi: Eigendur gamalla húsa sem fjárfesta í húsunum sínum og gera þau fallega upp með ærnum tilkostnaði, fá ekkert fyrir það. En eigendur húsa sem láta þau drabbast niður og eyðileggjast geta vænst þess að fá leyfi til að rífa þau og byggja ný og stærri hús í staðinn. Því stærra sem húsið er, og því ódýrara, þeim mun meiri verður hagnaðurinn. Þess vegna eru kríaðir út eins margir fermetrar og mögulegt er og þar sem fæst leyfi fyrir nýbyggingum er iðulega öll lóðin grafin út og stundum jafnvel grafið undan garði nágrannans (eins og dæmi eru um). Svo er byggt alveg að lóðarmörkunum.

Afleiðingin er sú að sá sem fjárfesti í að fegra húsið sitt ber ekki aðeins kostnaðinn á meðan nágranninn hagnast á að rífa sitt hús, hann lendir auk þess í að umhverfisgæði hans eru skert og verðmæti eignarinnar rýrnar. Honum er með öðrum orðum refsað. Þetta er ákaflega hættulegt hvatakerfi sem hefur leikið margar borgir grátt og setur mark sitt á miðborg Reykjavíkur þessa dagana.

Hér má sjá eitt margra dæma um hvernig húsum í miðbæ Reykjavíkur hefur verið leyft að skemmast þar til leyfi fæst fyrir niðurrifi.   Takið eftir því að nýlega var búið að skipta um þak á húsinu vinstra megin á myndinni þegar önnur stefna tók við.

Hér má sjá eitt margra dæma um hvernig húsum í miðbæ Reykjavíkur hefur verið leyft að skemmast þar til leyfi fæst fyrir niðurrifi. Takið eftir því að nýlega var búið að skipta um þak á húsinu vinstra megin á myndinni þegar önnur stefna tók við.

Á myndinni vinstra megin er augljóst hvaða þróun er hafin. Heimild hefur fengist til að fjarlægja nokkur gömul hús og byggja stærra í staðin. Hvatinn fyrir eigendur næstu húsa er augljós og þannig heldur þróunin áfram eins og sjá má á myndinni hægra megin.

Á myndinni vinstra megin er augljóst hvaða þróun er hafin. Heimild hefur fengist til að fjarlægja nokkur gömul hús og byggja stærra í staðinn. Hvatinn fyrir eigendur næstu húsa er augljós og þannig heldur þróunin áfram eins og sjá má á myndinni hægra megin.

Þessi hluti Njálsgötu (t.h.) hefði getað þróast eins og vesturendi götunnar (t.v.) en gerir það ekki því hvatinn er í öfuga átt. Athugið að þeir sem eiga íbúðir í nýjum húsum eins og þeim sýnd eru á myndinni t.h. hafa líka hag af því að þróunin haldi ekki áfram. Það væri eim í óhag ef gatan yrði öll eins og nýbyggði hlutinn.

Þessi hluti Njálsgötu (t.h.) hefði getað þróast eins og vesturendi götunnar (t.v.) en gerir það ekki því hvatinn er í öfuga átt. Athugið að þeir sem eiga íbúðir í nýjum húsum eins og þeim sýnd eru á myndinni t.h. hafa líka hag af því að þróunin haldi ekki áfram. Það væri þeim í óhag ef gatan yrði öll eins og nýbyggði hlutinn.

Eigendur gula hússins gátu gert húsið sitt upp í góðri trú því að á sínum tíma var gert ráð fyrir að timburhúsabyggð á reitnum fengi að standa. Svo var horfið frá því og byrjað með því að ráðast í byggingu gráu stúdentagarðanna vestan við húsið. Þá var talað um „glæsilega uppbyggingu í miðbænum“. Þótt eflaust sé gott að fá herbergi á stúdentagörðunum væri það líklega lakara efumhverfið væri allt í sama stíl.

Eigendur gula hússins gátu gert húsið sitt upp í góðri trú því að á sínum tíma var gert ráð fyrir að timburhúsabyggð á reitnum fengi að standa. Svo var horfið frá því og byrjað með því að ráðast í byggingu gráu stúdentagarðanna vestan við húsið. Þá var talað um „glæsilega uppbyggingu í miðbænum“. Þótt eflaust sé gott að fá herbergi á stúdentagörðunum væri það líklega lakara ef umhverfið væri allt í sama stíl.

 

Sérstaða Reykjavíkur

Sívaxandi fjöldi ferðamanna kemur til Íslands ár frá ári og ekki hvað síst til Reykjavíkur. Flestir þessara ferðamanna koma hingað vegna þess að landið hefur sérstöðu, hér sjá þeir og upplifa eitthvað sem þeir upplifa ekki heima hjá sér. Það sama á við um borgina. Það er margt áhugavert við Reykjavík en það sem ferðamenn skoða yfirleitt helst er það sama og einkennir borgir umfram annað, þ.e. hin sögulega gamla byggð.

Nú er víða verið að byggja ný stórhýsi á Íslandi. Þau eru misvel hönnuð eins og gengur en flest eru þau þess eðlis að þau gætu verið byggð nánast hvar sem er í heiminum. Módernismi í arkitektúr er enda jöfnum höndum kallaður „internasionalismi“ (e. International Style) á mörgum tungumálum. Ástæðan er sú að söguleg eða svæðisbundin einkenni eiga ekki við.

Við getum ekki keppt við Dubai eða Shanghai eða bara Hannover og Lyon, eða hvaða meðalstóra borg sem er, í því að byggja hús samkvæmt nýjustu tísku úr gleri og stáli. Sérstaða okkar liggur í hinu sögulega og oftar en ekki smáa. Lítil hús geta verið merkilegri en þau stóru einmitt vegna þess að þau eru lítil.

Um allan heim má finna stórar byggingar, fjölbreytilegan arkitektur, nægt verslunar- og skrifstofurými o.s.frv. Þótt þörf sé á slíkum byggingum hér eins og annars staðar komum við okkur ekki á kortið eða verjum sérstöðu borgarinnar og aðdráttarafl með nýtísku stórhýsum. Þess vegna er best að þetta fari saman. Lögð sé rækt við sögulegan miðbæ á eigin forsendum en nýju stórhýsin byggð annars staðar.

Um allan heim má finna stórar byggingar, fjölbreytilegan arkitektur, nægt verslunar- og skrifstofurými o.s.frv. Þótt þörf sé á slíkum byggingum hér eins og annars staðar komum við okkur ekki á kortið eða verjum sérstöðu borgarinnar og aðdráttarafl með nýtísku stórhýsum. Þess vegna er best að þetta fari saman. Lögð sé rækt við sögulegan miðbæ á eigin forsendum en nýju stórhýsin byggð annars staðar.

Við munum að sjálfsögðu áfram byggja hús samkvæmt tísku hvers tíma, hér eins og annars staðar, en það eru ekki þau sem gera okkur sérstök. Þau koma okkur ekki á kortið. Það gerir byggðin sem er sérstæð og öðruvísi en annars staðar. Enda leggja menn víða mikið upp úr því að passa upp á menningararfinn, það sem gerir staði sérstaka.

Við Íslendingar eigum lægsta hlutfall allra Evrópuþjóða af sögulegri byggð. Auk þess erum við ein fámennasta þjóð Evrópu svo að við eigum ekki mikið af sérstæðum byggingum í samanburði við önnur lönd. Það er því sorgleg staðreynd að við höfum lengst af staðið nágrannaþjóðunum að baki hvað varðar vernd sögulegrar byggðar.

Sérkenni Reykjavíkur eru lítil hús, oft bárujárnsklædd, og rýmið milli húsanna. Þ.e. auk húsanna sjálfra eru það bakgarðarnir og það hvernig húsum er raðað á milli gatna sem gefa gamla bænum í Reykjavík sinn sérstaka og aðlaðandi blæ. En þessu er nú markvisst verið að eyða. Það er eins og að hvar sem finnst bil milli húsa vilji menn fylla í það og auka nýtingarhlutfallið. Byggja alveg út að lóðarmörkum og sem mest upp í loft þ.a. ef allir gerðu slíkt hið sama myndi byggðin samanstanda af samfelldum steypuklumpum sem næðu frá einni götu til annarrar.

 

Þótt byggðin í gamla bænum samanstandi að miklu leyti af tiltölulega litlum húsum þá langt fra því að það þurfi að teljast galli. Það er æskilegt að vernda þessa aðlaðandi byggð sem einkennir Reykjavík. Fráleitt er að fórna því til að þétta byggð. Raunar er miðbærinn í Reykjavík þéttbýlli en miðborg Kaupmannahafnar, þ.e.a.s. það eru fleiri íbúar á hektara.

Þótt byggðin í gamla bænum samanstandi að miklu leyti af tiltölulega litlum húsum þá er langt fra því að það þurfi að teljast galli. Það er æskilegt að vernda þessa aðlaðandi byggð sem einkennir Reykjavík. Fráleitt er að fórna því til að þétta byggð. Raunar er miðbærinn í Reykjavík þéttbýlli en miðborg Kaupmannahafnar, þ.e.a.s. það eru fleiri íbúar á hektara.

mynd 22a

Á myndunum að ofan má sjá hvernig leitast er við að grafa út lóðirnar og byggja út að lóðarmörkum tll að „fullnýta“ lóðirnar þegar búið er að fjarlægja gömlu húsin. Með því skapast enn ríkari ástæða fyrir nágrannana til að gera slíkt hið sama fremur en að viðhalda gömlu húsunum.

Á myndunum að ofan má sjá hvernig leitast er við að grafa út lóðirnar og byggja út að lóðamörkum tll að „fullnýta“ lóðirnar þegar búið er að fjarlægja gömlu húsin. Með því skapast enn ríkari ástæða fyrir nágrannana til að gera slíkt hið sama fremur en að viðhalda gömlu húsunum.

 

Mikilvægi stefnunnar

Þetta er ógnvænleg þróun og hún á sér stað fyrir augum okkar í miðbæ Reykjavíkur. Að vísu er rétt að geta þess að eitt og annað hefur tekist vel á undanförnum árum en það er þá ýmist vegna þess að menn voru látnir standa frammi fyrir því að þannig ættu þeir að gera hlutina (stefnan myndaði jákvæða hvata) eða vegna þess að fjárfestarnir höfðu sjálfir nægan metnað til að sýna umhverfinu virðingu og leggja til þess í stað þess að rýra það.

Meðal dæma um það sem vel hefur tekist er endurbygging eftir brunann á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Þótt það sé synd hvernig farið var með svokallaðan Hljómalindarreit, þar sem byggð margra fallegra timburhúsa og einn elsti steinbær landsins voru rifin, er ekki hægt að kvarta undan því hvernig framhliðar sumra húsanna hafa verið gerðar upp. Það er til fyrirmyndar. Einnig er til fyrirmyndar að til standi að endurgera tvö hús við Tryggvagötu og endurheimta turninn á Fiskhöllinni, þótt það sé synd ef menn telja nauðsynlegt að rífa húsin sem enn standa.

 

Á efri myndinni hægra megin sjást Laugavegur 17 og 19. Framhliðar húsanna hafa verið gerðar upp en byggt aftan við þau. Þetta er hluti framkvæmda á svo kölluðum Hljómalindarreit. Annars staðar hafa framkvæmdirnar hins vegar rutt sér út að götu sem stór kassi (uppi t.h.). Á neðri myndunum eru teikningar sem ég gerði til að sýna húsin í upprunalegri mynd þegar til stóð að rífa a.m.k. annað þeirra.

Á efri myndinni hægra megin sjást Laugavegur 17 og 19. Framhliðar húsanna hafa verið gerðar upp en byggt aftan við þau. Þetta er hluti framkvæmda á svo kölluðum Hljómalindarreit. Annars staðar hafa framkvæmdirnar hins vegar rutt sér út að götu sem stór kassi (uppi t.h.). Á neðri myndunum eru teikningar sem ég gerði til að sýna húsin í upprunalegri mynd þegar til stóð að rífa a.m.k. annað þeirra.

Hús við Tryggvagötu. Núverandi útlit á neðri myndinni og áformað útlit (líklega nýrra húsa) á efri myndinni. Þar hefur Fiskhöllinn verið endurbyggð afar glæsilega í upprunalegri mynd m.a. með turninum sem húsið missti fyrir mörgum áratugum.

Hús við Tryggvagötu. Núverandi útlit á neðri myndinni og áformað útlit (líklega nýrra húsa) á efri myndinni. Þar hefur Fiskhöllinn verið endurbyggð afar glæsilega í upprunalegri mynd m.a. með turninum sem húsið missti fyrir mörgum áratugum.

Hús við Tryggvagötu. Núverandi útlit á neðri myndinni og áformað útlit (líklega nýrra húsa) á efri myndinni. Þar hefur Fiskhöllinn verið endurbyggð afar glæsilega í upprunalegri mynd m.a. með turninum sem húsið missti fyrir mörgum áratugum.

Áfram verða langflestar byggingar á Íslandi hannaðar í samtímastíl (módernisma). Það er hins vegar fráleitt að halda því fram að ekki megi byggja í hefðbundnum stíl þar sem það á við, t.d. til að styrkja heildarmyndina. Allt er þetta spurning um samhengi. Það væri jafnfráleitt að byggja bárujárnsklætt turnhús í Ármúla eins og það er að byggja gráa kassabyggingu í gamla bænum.

Það er hlutverk borgaryfirvalda að leggja línurnar í skipulagsmálum á þann hátt að það skapi jákvæða hvata en ekki neikvæða, ýti undir fegrun umhverfisins og vernd menningararfsins, þess sem tengir okkur við sögu borgarinnar og gerir gamla bæinn að sérstæðum og aðlaðandi stað. Yfirvöld þurfa að gæta jafnræðis og umfram allt forðast að menn séu verðlaunaðir fyrir að ganga á umhverfisgæði nágrannans en refsað fyrir að leggja til umhverfisins.

Ef borgaryfirvöld vanrækja það hlutverk þarf þar til gerð stofnun að grípa inn í á sama hátt og fjármálaeftirlitið á að passa upp á að menn fari ekki út af sporinu á fjármálamarkaði og heilbrigðiseftirlit fylgist með því að matur og umhverfi séu ekki hættuleg.

Fornleifar sem fundust á lóðinni við hlið Iðnaðarbankahússins verða friðaðar sem og hafnargarðurinn við hinn enda Lækjargötunnar. Það er mikilvægt að menn noti tækifærið sem í því felst til að skoða hvernig byggingaráform á þessum stöðum geta bætt umhverfið og aukið verðmæti þess.

Það má þó ljóst vera að áfram verður mikil þörf fyrir að þar til gerð stjórnvöld gæti þess að þau miklu verðmæti sem liggja í sögulegri byggð glatist ekki.

 

12/1/14

Fögnum fullveldi Íslands

Á síðustu áratugum hafa Íslendingar fagnað sjálfstæði lands og þjóðar að sumri, á þjóðhátíðardaginn 17. júní. En á sama tíma hefur það fallið í skuggann hve mikilvæg tímamót fullveldisdagurinn 1. desember táknar.

Flestir landsmenn þekkja í stórum dráttum sögu sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld, sem segja má að hafi fyrir alvöru borist Íslendingum með tímariti Baldvins Einarssonar, Ármann á Alþingi árið 1829, sem Tómas Sæmundsson sagði í fyrsta hefti Fjölnis að hefði verið „ætlað til að vekja andann í þjóðinni, og minna hana á, að meta sig réttilega“.

Þrátt fyrir það hefur sigurinn sem fólst í fullveldi Íslands 1. desember 1918 ekki hlotið þann sess sem honum ber hin síðari ár. Barátta þjóðarinnar fyrir auknum réttindum og aukinni sjálfsstjórn, sem skilaði endurreisn Alþingis, afhendingu stjórnarskrárinnar árið 1874 og heimastjórninni 1904 leiddi að sambandslagasamningnum við Dani árið 1918.

Með setningunni stuttu, „Danmörk og Ísland eru frjáls og fullvalda ríki í sambandi við einn og sama konung“, var loks sigur unninn í baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir frelsi og sjálfsákvörðunarrétti, eftir tæpra sjö alda yfirráð annarra ríkja.

Fullveldisdagurinn markar því mikilvæg tímamót í sögu þjóðarinnar, ekki síður en lýðveldisdagurinn, og honum ber okkur því að halda á lofti og minnast þeirrar baráttu og tímamóta sem hann táknar.

Í dag eru 96 ár liðin frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki og þegar við lítum til baka er árangur íslensku þjóðarinnar mikill. Fáar þjóðir, ef einhverjar, geta státað af því að færast á jafn skömmum tíma frá því að vera eitt fátækasta bændasamfélag Evrópu til þess að vera eitt þróaðasta og best stæða samfélag heims. Því er ekki hvað síst fyrir að þakka skynsamlegri nýtingu á gæðum lands og hafs og framvaravilja og uppbyggingarhug þjóðarinnar sjálfrar.

Fyrir þá framsýni og uppbyggingarhug fyrri kynslóða getum við verið þakklát og einnig tekið okkur hann til fyrirmyndar. Trúin á tækifæri og framtíð lands og þjóðar er jafn mikilvæg í dag og næstu 96 ár inn í framtíðina eins hún hefur reynst okkur í fortíðinni.

Því er ekki að neita að úrlausnarefnin sem við Íslendingar og heimurinn allur stendur frammi fyrir nú dag eru um margt ólík því sem þau voru fyrir 96 árum. En tæknin, tækifærin og möguleikarnir sem við stöndum frammi fyrir hafa einnig aukist gríðarlega. Þá þurfum við að nálgast á skynsamlegan hátt, með það að markmiði að samfélagið allt njóti góðs af til framtíðar.

 

Það er engin nýjung að það skapist umræða og jafnvel hörð pólitísk átök um stór samfélagsmál. Stjórnmál snúast um stefnu, og frjáls rökræða um stefnu er því mikilvæg. Rökræðan skilar hins vegar ekki tilætluðum árangri nema hún byggist á staðreyndum.

Á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru frá því að ríkisstjórnin tók til starfa er margt sem færst hefur til betri vegar. Í grein á ársafmæli ríkisstjórnarinnar fór ég yfir marga slíka þætti og nú er ljóst að sú jákvæða þróun hefur haldið áfram af krafti.

Uppbygging heilbrigðiskerfisins eftir erfiðan niðurskurð síðasta kjörtímabils er nú kröftuglega hafin, þó að öllum sé ljóst að það verkefni mun taka nokkurn tíma. Eins og forstjóri Landsspítalans hefur bent á hefur ríkisstjórnin forgangsraðað í þágu heilbrigðismála í fjárlagafrumvarpi komandi árs og verða framlög til Landsspítalans á árinu 2015 meiri en þau hafa nokkru sinni áður verið.

Því er við að bæta að tæpum milljarði króna verður varið til að flýta fyrir byggingu nýs landsspítala og að greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði minnkar auk þess sem lyf lækka í verði með lækkun efra þreps virðisaukaskatts.

Þá hafa framlög til almannatrygginga aldrei verið hærri, og þar má nefna sérstaklega að þær skerðingar á lífeyrisgreiðslum til aldraðra og öryrkja sem settar voru á árið 2009 hafa að fullu verið afnumdar, eins og boðað var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í efnahagslífinu eru horfurnar í raun enn betri en nokkur gat þorað að vona. Verðbólgan, sem hefur oft á tíðum reynst launafólki afar þungbær, er nú aðeins 1% og hefur aldrei verið lægri á þessari öld. Í raun hefur ríkt einstakt stöðugleikatímabil undanfarna tíu mánuði þar sem verðbólga hefur haldist fyrir neðan verðbólgumarkmið Seðlabankans og kaupmáttur hefur aukist um nærri 5%.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 er enn bætt í þessa þróun þar sem samanlögð áhrif skattkerfisbreytinga og afnáms vörugjalda leiða til rúmlega 6 milljarða króna hækkunar á ráðstöfunartekjum heimilanna og sérstaklega hefur verið leitast við að tryggja að allir tekjuhópar komi best út úr breytingunum.

Heimili með verðtryggð húsnæðislán, sá hópur sem lengst hefur setið eftir óbættur, hafa loks fengið leiðréttingu eftir fimm ára bið, leiðréttingu á allri verðbólgu áranna 2008 0g 2009 fyrir ofan 4% vikmörk Seðlabankans. Þar er sérstaklega hugað að því að þak sé á leiðréttingarfjárhæð svo fjármagnið dreifist fremur á hina tekjulægri, nokkuð sem ekki var hugsað fyrir í 110% leið bankanna og fyrri ríkisstjórnar.

Ábyrg stjórn ríkisrjármála hefur skilað hallalausum fjárlögum tvö ár í röð og hafist hefur verið handa við að lækka skuldabyrði ríkisins. Við þetta bætist að hagspár fyrir næstu ár eru mjög jákvæðar og ástæða til að ætla að þessi ánægjulega þróun geti haldið áfram.

 

Árið 1918 var eitt mesta hörmungaár í sögu landsins okkar þar sem eldgos, frosthörkur og banvæn farsótt lagði þungar byrðar á landsmenn. En þrátt fyrir það var það einnig ár gleðilegra tímamóta þar sem árangur náðist loks eftir erfiða þrautagöngu.

Það er hollt að hafa í huga þegar við lítum fram á veginn á þessum merkisdegi. Því þó það sé að sönnu margt sem taka þarf á og lagfæra í samfélagi okkar nú á dögum er einnig margt sem gengur vel og horfir til enn betri vegar. Fullveldisdagurinn er í Íslandssögunni lýsandi kyndill árangurs eftir áratuga þrotlausa baráttu. Hann minnir okkur á að með samstilltu átaki, trú á okkur sjálf og landið okkar og framsýnni stefnu getum við náð markmiðum okkar og búið komandi kynslóðum betra samfélag.

Til hamingju með fullveldisdaginn Íslendingar.