04/7/14

Kvalir amerískra hvala

Það kom á daginn að sumum fannst ekki við hæfi að kalla Bandaríkjamenn mestu hvalveiðiþjóð heims (og sjá ekkert að því að þeir amist við takmörkuðum hvalveiðum Íslendinga). Þeim finnst ekki við hæfi að telja með hvali sem veiddir eru af frumbyggjum. Þau 2.760 tonn sem Bandaríkjamenn veiddu árið 2012 teljast þannig léttvægari en 260 tonn Íslendinga, enda Íslendingar einhverra hluta vegna ekki taldir frumbyggjar. Þetta eru þó bara hinar „formlegu veiðar“. Jafnframt er litið framhjá þeim hvalveiðum þar sem hræjunum er hent fremur en að verka þau og nýta.

Höfrungar eiga það til að elta túnfiskstorfur. Þetta hafa Bandaríkjamenn nýtt sér um áratugaskeið og veitt ógrynni höfrunga í von um að túnfiskur slæddist með. Á seinni hluta tuttugustu aldar voru 6 til 7 milljónir höfrunga drepnir í vestanverðu Kyrrahafi. Til samanburðar nam öll atvinnuhvalveiði allra þjóða alla tuttugustu öldina um 2 milljónum dýra, eða innan við þriðjungi „brottkastsins“ í túnfiskveiðinni. Eins og nærri má geta hrundi höfrungastofninn í Kyrrahafi og nú hefur dregið mjög úr slíkum veiðum. Sé litið til fjölda dýra eru þó árlega margfalt fleiri höfrungar drepnir á þennan hátt en nemur hvalveiðum Norðmanna, svo ekki sé minnst á Íslendinga.

Þá er þó ekki allt upp talið. Náttúruverndarsamtök í Bandaríkjunum hafa undanfarin ár safnað undirskriftum gegn því að þarlend yfirvöld veiti bandaríska hernum „kvóta“ til að sprengja og  höfrunga og önnur dýr af ættbálki hvala. Á þessu ári mun sjóherinn hefja nýjar tilraunir með neðansjávarsprengjur og önnur hergögn. Tilraunirnar munu standa til 2019. Bandaríski sjóherinn áætlar að 341 hvalur drepist, 13.306 særist alvarlega, 3,75 milljónir hljóti minniháttar tjón á borð við tímabundið heyrnarleysi og í 27,7 milljónum tilvika geti tilraunirnar truflað atferli dýranna.

Íslendingar munu meta hvort rétt sé að veiða hval út frá hagsmunum landsins. Þar verður tekið mið af sjálfbærni, efnahagslegum forsendum og áhrifum á aðrar atvinnugreinar, t.a.m. hvalaskoðun. Afstaðan mun hins vegar ekki ráðast af umvöndunum þeirra sem telja að aðrar reglur eigi að gilda um okkur en þá sjálfa.

12/31/13

Horfum bjartsýn til framtíðar

Áramót eru hrífandi tími, stund friðar með fjölskyldu og vinum þar sem tækifæri gefst til að líta yfir farinn veg, meta hvernig til hefur tekist, læra af mistökum jafnt sem sigrum, með þá ósk í brjósti að nýtt ár verði gæfuríkt.

Áramót gefa líka gott tækifæri til að velta því fyrir sér hvernig landsmálin hafa þróast og hvort hægt sé að gera hlutina öðruvísi og betur á vettvangi stjórnmálanna.

Það er og á að vera markmið stjórnmálamanna að vinna að því að veita þjóð sinni það öryggi og velferð sem allir þrá og þó að stjórnmálabarátta virðist oft illvíg þá er það engu að síður svo að flestir sem taka þátt í stjórnmálastarfi vinna að sameiginlegu markmiði. Því að auka hagsæld og hamingju þjóðarinnar.

Flestir geta verið sammála um að á Íslandi eigum við að stefna að því að reka heilbrigðiskerfi á við það sem best gerist í heiminum og að allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Við viljum búa við menntakerfi sem við getum treyst til þess að veita börnum okkar, hverju og einu, menntun sem stenst samanburð við það sem best gerist í öðrum löndum. Öll viljum við búa við lagalegt öryggi þar sem réttur einstaklingsins er virtur án þess að skaða aðra og flest viljum við samfélag þar sem óskorað traust ríkir til löggæslu og dómstóla.

Margir velta því eðlilega fyrir sér hvers vegna mismunandi stjórnmálastefnur geti þá ekki lagfært það sem upp á vantar, án frekari umræðu, ef endamarkið er hið sama? Svo eru þeir til sem telja að litlu skipti hvaða stefna verður ofaná, engin þeirra sé til þess fallin að skila árangri. Slíkar vangaveltur eru eðlilegar en raunveruleikinn er engu að síður sá að þjóðfélag er flókið fyrirbæri þar sem óteljandi kraftar virka hver á annan. Fyrir vikið verða álitaefnin óteljandi líka.

Sagan sýnir hins vegar, svo ekki verður um villst, að það skiptir sköpum um velferð þjóða hvaða stjórnmálastefna ræður för. Öfgakennd stefna er iðulega boðuð með því að vísa til knýjandi þarfar til að ná góðum markmiðum. En pólitísk bókstafstrú hefur aldrei reynst vel til þess fallin að ná hinum góðu markmiðum. Þar reynast skynsemi og rökhyggja best. Stefna sem byggir jafnt og þétt upp þá innviði, áþreifanlega og óáþreifanlega, sem veita kröftum einstaklinganna og þjóðarinnar bestan farveg.

Stefna sem nýtir það afl sem liggur í framtakssemi og hugkvæmni einstaklinganna en einnig þá miklu verðmætasköpun sem leiðir af samvinnu þeirra og hámarkar með því ávinning samfélagsins alls. Samfélags þar sem öll hin ólíku störf skipta máli. Það er undirstaða framfara.

Þegar vandamálin sem samfélag stendur frammi fyrir eru óhefðbundin getur þurft að fara óhefðbundnar leiðir til að leysa þau og þegar vandinn er stór getur það kallað á róttækar lausnir. Í slíkum tilvikum getur hið róttæka verið hið rökrétta og skynsamlega.

Ný ríkisstjórn vinnur eftir þessu.

Fyrstu mánuðirnir eftir kosningar voru nýttir til að koma á stöðugleika og undirbúa skynsamlegar og rökréttar aðgerðir. Við erfiðar aðstæður í rekstri ríkisins hefur verið forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og annarra velferðarmála en um leið er unnið að því að skapa skilyrði sem geta af sér aukna verðmætasköpun, fleiri störf og betri kjör. Árangurinn er þegar farinn að koma í ljós þótt mikið verk sé enn óunnið. Á síðustu mánuðum ársins 2013 jókst hagvöxtur verulega, meðal annars með aukinni fjárfestingu sem mun skila sér í aukinni verðmætasköpun til framtíðar.

Um leið er ríkið hætt að safna skuldum svo að á næstu árum verður hægt að fjárfesta í auknum mæli á öllum þeim fjölmörgu sviðum sem gefa lífinu í þessu landi gildi.

Skuldafargið sem haldið hefur aftur af íslenskum heimilum og þar með samfélaginu öllu í mörg ár kallaði á umfangsmiklar aðgerðir. Í því tilviki var róttæk lausn skynsamleg og nauðsynleg.

Nú liggur fyrir að verðtryggð húsnæðislán verða færð niður sem nemur öllum þeim verðbótum sem talist gátu ófyrirséðar á árunum í kringum bankahrunið. Auk þess munu skattaafsláttur og önnur úrræði nýtast til að létta enn frekar á skuldum heimilanna, skuldum sem hafa staðið efnahagslegum framförum fyrir þrifum.

Takist svo að auka kaupmátt launa samhliða aðgerðum til að draga úr skuldavandanum mun staða íslenskra heimila taka stakkaskiptum til hins betra. Við sjáum nú að full ástæða er til að ætla að sú geti orðið raunin.

Kjarasamningar sem voru undirritaðir í lok ársins voru hugsaðir sem grundvöllur stöðugleika svo að hægt yrði að auka kaupmátt og bæta lífskjör jafnt og þétt næstu árin. Það þurfa aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld að gera í sameiningu og í þeirri vinnu þarf að huga sérstaklega að kjörum þeirra lægstlaunuðu og því að millitekjuhópar njóti ávinningsins af betri tíð eftir þær miklu fórnir sem sá hópur var látinn færa á síðast liðnum árum.

Að þessu sinni gefa áramótin okkur Íslendingum tilefni til að vera bjartsýn.

Ísland er sannarlega land tækifæranna, hvort sem litið er til þróunarinnar á norðurslóðum, gríðarmikilla og verðmætra auðlinda eða sterkra innviða og samfélagsgerðar sem er til þess fallin að skapa verðmæti á nánast öllum sviðum.

Okkar bíður það verkefni að tryggja annars vegar að það takist að nýta tækifærin og hins vegar að afraksturinn gagnist samfélaginu öllu. Það ætti að vera okkur góð hvatning í þeim efnum að þetta tvennt fer jafnan vel saman. Þjóðskipulag sem stuðlar að jafnræði og almennri velferð er best til þess fallið að nýta tækifærin og skapa verðmætin sem standa undir velferðinni.

Við Íslendingar eigum að baki óvenjulega tíma. En eins og Sveinn Björnsson, forseti, sagði í innsetningarávarpi sínu árið 1945 þá er mannlífið sem betur fer svo „auðugt að tilbrigðum, að ekkert er til sem mætti nefna „venjulega tíma“. Ýmsir eru bölsýnir á það sem framundan er, aðrir bjartsýnir.“ Forsetinn benti svo á að við fáum ekki varðveitt trúna á land og þjóð nema nokkurrar bjartsýni gæti. Það að hafa trú á landi og þjóð er svo forsenda þess að bjartsýnin eigi rétt á sér.

Sá sem ekki hefur trú á sjálfum sé nær ekki árangri og það sama á við um samfélögin sem einstaklingarnir mynda. Þjóð verður að trúa á sjálfa sig og að hægt sé að gera hlutina öðruvísi og betur.

Við Íslendingar höfum fulla ástæðu til að hafa trú á landið og þjóðina og vera bjartsýn á framtíðina við áramótin sem nú ganga í garð.

Kæru landsmenn, ég óska ykkur öllum gleðilegs árs, farsældar og friðar á nýju ári.

06/25/13

Fyrsti mánuður loftárása

Það er ekki langt síðan fyrsta hreina vinstristjórnin fór frá völdum eftir sögulegt tap í kosningum. Á meðan sú ríkisstjórn var að gera sínar bommertur leið varla sá dagur að við sem þá vorum í stjórnarandstöðu spyrðum ekki hvort annað „hvernig væri umfjöllun fjölmiðla ef ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði gert annað eins?“ Svo var brosað að tilhugsuninni um hvers konar „loftárásir“ slík ríkisstjórn hefði fengið yfir sig vegna sambærilegra mála.

Nú hafa fyrrum stjórnarandstöðuflokkar myndað ríkisstjórn. Það hefur verið óskrifuð regla hér og annars staðar að ný ríkisstjórn fengi sæmilegan frið í upphafi kjörtímabils til að setja sig inn í mál og innleiða svo nýja stefnu. Það var aldrei við því að búast að núverandi ríkisstjórn fengi þess háttar grið. Þó var helst til langt seilst þegar farið var að saka ríkisstjórnina um að hafa svikið kosningaloforð áður en hún var tekin til starfa. Rétt eftir að nýir ráðherrar tóku við lyklum að ráðuneytunum varð svo ljóst hvert stefndi með umfjöllun.

Þrátt fyrir yfirlýsingar fyrrum stjórnarflokka um mikilvægi þess að breyta stjórnmálunum og umræðuhefð fóru þeir af stað í stjórnarandstöðu af ótrúlegu offorsi sem virðist drifið áfram af hamslausri gremju yfir úrslitum kosninganna. Málþóf hófst í fyrsta máli á fyrsta degi sumarþings. Snúið er út úr nánast öllu sem stjórnarliðar segja og gera og einskis svifist í ómerkilegum pólitískum brellum. Framganga hinna nýju stjórnarandstæðinga, innan þings og utan, pirringurinn og ofleikurinn er augljós.

Það hefur því verið furðulegt að fylgjast með því að engin brella virðist svo aum og enginn útúrsnúningur svo augljós að hann verði ekki að stórfrétt. Látið er eins og það séu undur og stórmerki þegar núverandi ríkisstjórn hverfur frá stefnu fyrri ríkisstjórnar og framfylgir eigin stefnu. Ekkert af þessu á þó að koma á óvart.

Continue reading

06/10/13

Stefnuræða við upphaf 142. löggjafarþings

Virðulegi forseti, góðir Íslendingar.

Bjartsýni, kjarkur og þor eru forsendur framfara og árangurs. Fátt sýnir það betur en saga íslensku þjóðarinnar.

Það er ekki langt síðan Íslendingar bjuggu við þröngan kost. En þrátt fyrir það var þjóðin stórhuga og horfði til framfara og uppbyggingar.

Sjálfstæðisbaráttan snerist um framfarir, um það hvernig hægt væri að sækja fram með heill þjóðarinnar að leiðarljósi  og byggja upp á grundvelli nýrra og skynsamlegra hugmynda í þágu allra íbúa landsins.

Drifkrafturinn var trúin á að Ísland hefði að geyma vannýtt tækifæri, ótalin verðmæti, sem gætu bætt lífskjör fólks og byggt upp innviði samfélagsins.

Baráttan snerist um að Íslendingar fengju frelsi til að nýta þessi tækifæri og virkja þann ómælda kraft sem blundaði með þjóðinni.

Þegar heimskreppan skall á var Ísland nýlega orðið fullvalda ríki. Hér ríkti andi framfara og sannfæringar um tækifærin sem væri að finna á Íslandi. Menn brugðust því við  kreppunni með því að sækja fram.

Continue reading

06/2/13

Að berjast við eigin fuglahræður

Stjórnmál virka best ef þau skila skynsamlegustu niðurstöðunni í gegnum rökræðu. Vilji til að bæta stjórnmálastarf á Íslandi hefur verið talsverður í öllum flokkum. Það veldur því meiri vonbrigðum en ella að sjá nokkra stuðningsmenn flokka sem nú eru komnir í stjórnarandstöðu fara strax í hefðbundnar brellur gamaldags stjórnmála.

Ein slík brella er sú að reyna að endurskilgreina stefnu andstæðingsins og ráðast svo ekki á hina raunverulegu stefnu heldur eigin tilbúning. Þessi aðferð er svo þekkt og svo gömul að hún er á öllum listum yfir rökvillur og hefur sérstakt nafn, þetta er svo kölluð „strámanns-aðferð“. Þar sem búinn er til gerviandstæðingur og svo ráðist á hann, enda strámaðurinn auðveldari viðureignar en hinn raunverulegi andstæðingur.

Nokkrir nýir stjórnarandstæðingar hafa að undanförnu sótt hart fram gegn eigin strámönnum. Til að byrja með snerist þetta um að skilgreina algjörlega upp á nýtt stefnu framsóknarmanna í skuldamálum og skammast svo yfir því að ríkisstjórnin sé ekki á fyrsta degi búin að framfylgja hinni ímynduðu stefnu.

Continue reading