12/1/14

Fögnum fullveldi Íslands

Á síðustu áratugum hafa Íslendingar fagnað sjálfstæði lands og þjóðar að sumri, á þjóðhátíðardaginn 17. júní. En á sama tíma hefur það fallið í skuggann hve mikilvæg tímamót fullveldisdagurinn 1. desember táknar.

Flestir landsmenn þekkja í stórum dráttum sögu sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld, sem segja má að hafi fyrir alvöru borist Íslendingum með tímariti Baldvins Einarssonar, Ármann á Alþingi árið 1829, sem Tómas Sæmundsson sagði í fyrsta hefti Fjölnis að hefði verið „ætlað til að vekja andann í þjóðinni, og minna hana á, að meta sig réttilega“.

Þrátt fyrir það hefur sigurinn sem fólst í fullveldi Íslands 1. desember 1918 ekki hlotið þann sess sem honum ber hin síðari ár. Barátta þjóðarinnar fyrir auknum réttindum og aukinni sjálfsstjórn, sem skilaði endurreisn Alþingis, afhendingu stjórnarskrárinnar árið 1874 og heimastjórninni 1904 leiddi að sambandslagasamningnum við Dani árið 1918.

Með setningunni stuttu, „Danmörk og Ísland eru frjáls og fullvalda ríki í sambandi við einn og sama konung“, var loks sigur unninn í baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir frelsi og sjálfsákvörðunarrétti, eftir tæpra sjö alda yfirráð annarra ríkja.

Fullveldisdagurinn markar því mikilvæg tímamót í sögu þjóðarinnar, ekki síður en lýðveldisdagurinn, og honum ber okkur því að halda á lofti og minnast þeirrar baráttu og tímamóta sem hann táknar.

Í dag eru 96 ár liðin frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki og þegar við lítum til baka er árangur íslensku þjóðarinnar mikill. Fáar þjóðir, ef einhverjar, geta státað af því að færast á jafn skömmum tíma frá því að vera eitt fátækasta bændasamfélag Evrópu til þess að vera eitt þróaðasta og best stæða samfélag heims. Því er ekki hvað síst fyrir að þakka skynsamlegri nýtingu á gæðum lands og hafs og framvaravilja og uppbyggingarhug þjóðarinnar sjálfrar.

Fyrir þá framsýni og uppbyggingarhug fyrri kynslóða getum við verið þakklát og einnig tekið okkur hann til fyrirmyndar. Trúin á tækifæri og framtíð lands og þjóðar er jafn mikilvæg í dag og næstu 96 ár inn í framtíðina eins hún hefur reynst okkur í fortíðinni.

Því er ekki að neita að úrlausnarefnin sem við Íslendingar og heimurinn allur stendur frammi fyrir nú dag eru um margt ólík því sem þau voru fyrir 96 árum. En tæknin, tækifærin og möguleikarnir sem við stöndum frammi fyrir hafa einnig aukist gríðarlega. Þá þurfum við að nálgast á skynsamlegan hátt, með það að markmiði að samfélagið allt njóti góðs af til framtíðar.

 

Það er engin nýjung að það skapist umræða og jafnvel hörð pólitísk átök um stór samfélagsmál. Stjórnmál snúast um stefnu, og frjáls rökræða um stefnu er því mikilvæg. Rökræðan skilar hins vegar ekki tilætluðum árangri nema hún byggist á staðreyndum.

Á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru frá því að ríkisstjórnin tók til starfa er margt sem færst hefur til betri vegar. Í grein á ársafmæli ríkisstjórnarinnar fór ég yfir marga slíka þætti og nú er ljóst að sú jákvæða þróun hefur haldið áfram af krafti.

Uppbygging heilbrigðiskerfisins eftir erfiðan niðurskurð síðasta kjörtímabils er nú kröftuglega hafin, þó að öllum sé ljóst að það verkefni mun taka nokkurn tíma. Eins og forstjóri Landsspítalans hefur bent á hefur ríkisstjórnin forgangsraðað í þágu heilbrigðismála í fjárlagafrumvarpi komandi árs og verða framlög til Landsspítalans á árinu 2015 meiri en þau hafa nokkru sinni áður verið.

Því er við að bæta að tæpum milljarði króna verður varið til að flýta fyrir byggingu nýs landsspítala og að greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði minnkar auk þess sem lyf lækka í verði með lækkun efra þreps virðisaukaskatts.

Þá hafa framlög til almannatrygginga aldrei verið hærri, og þar má nefna sérstaklega að þær skerðingar á lífeyrisgreiðslum til aldraðra og öryrkja sem settar voru á árið 2009 hafa að fullu verið afnumdar, eins og boðað var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í efnahagslífinu eru horfurnar í raun enn betri en nokkur gat þorað að vona. Verðbólgan, sem hefur oft á tíðum reynst launafólki afar þungbær, er nú aðeins 1% og hefur aldrei verið lægri á þessari öld. Í raun hefur ríkt einstakt stöðugleikatímabil undanfarna tíu mánuði þar sem verðbólga hefur haldist fyrir neðan verðbólgumarkmið Seðlabankans og kaupmáttur hefur aukist um nærri 5%.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 er enn bætt í þessa þróun þar sem samanlögð áhrif skattkerfisbreytinga og afnáms vörugjalda leiða til rúmlega 6 milljarða króna hækkunar á ráðstöfunartekjum heimilanna og sérstaklega hefur verið leitast við að tryggja að allir tekjuhópar komi best út úr breytingunum.

Heimili með verðtryggð húsnæðislán, sá hópur sem lengst hefur setið eftir óbættur, hafa loks fengið leiðréttingu eftir fimm ára bið, leiðréttingu á allri verðbólgu áranna 2008 0g 2009 fyrir ofan 4% vikmörk Seðlabankans. Þar er sérstaklega hugað að því að þak sé á leiðréttingarfjárhæð svo fjármagnið dreifist fremur á hina tekjulægri, nokkuð sem ekki var hugsað fyrir í 110% leið bankanna og fyrri ríkisstjórnar.

Ábyrg stjórn ríkisrjármála hefur skilað hallalausum fjárlögum tvö ár í röð og hafist hefur verið handa við að lækka skuldabyrði ríkisins. Við þetta bætist að hagspár fyrir næstu ár eru mjög jákvæðar og ástæða til að ætla að þessi ánægjulega þróun geti haldið áfram.

 

Árið 1918 var eitt mesta hörmungaár í sögu landsins okkar þar sem eldgos, frosthörkur og banvæn farsótt lagði þungar byrðar á landsmenn. En þrátt fyrir það var það einnig ár gleðilegra tímamóta þar sem árangur náðist loks eftir erfiða þrautagöngu.

Það er hollt að hafa í huga þegar við lítum fram á veginn á þessum merkisdegi. Því þó það sé að sönnu margt sem taka þarf á og lagfæra í samfélagi okkar nú á dögum er einnig margt sem gengur vel og horfir til enn betri vegar. Fullveldisdagurinn er í Íslandssögunni lýsandi kyndill árangurs eftir áratuga þrotlausa baráttu. Hann minnir okkur á að með samstilltu átaki, trú á okkur sjálf og landið okkar og framsýnni stefnu getum við náð markmiðum okkar og búið komandi kynslóðum betra samfélag.

Til hamingju með fullveldisdaginn Íslendingar.

 

11/26/14

Staðið við fyrirheitin

Ræða á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á Höfn, 22. nóvember 2014.

 

Fundarstjórar, kæru félagar

Nú er liðið eitt og hálft ár frá því að við hittumst á miðstjórnarfundi til að staðfesta stjórnarsáttmálann. Þá var ég mjög bjartsýnn á tækifærin sem við stæðum frammi fyrir og þá vinnu sem framundan væri.

Þó hefði ég ekki getað talið raunhæft þá að aðeins einu og hálfu ári seinna væri búinn að nást sá árangur sem þó hefur náðst, og raunar algjör viðsnúningur á fjölmörgum sviðum, viðsnúningur sem mun gera okkur betur kleift að leysa úr þeim vanda sem eftir stendur og bæta hag allra í íslensku samfélagi.

Á innan við einu og hálfu  ári er skuldaleiðréttingin komin til framkvæmda. – Mál sem við framsóknarmenn höfum barist fyrir frá því í upphafi árs 2009. Mál sem við töldum svo mikilvægt að við vorum reiðubúin til að gefa öðrum flokkum tækifæri til að stjórna í minnihlutastjórn gegn því skilyrði að ráðist yrði í aðgerðina.

Við þekkjum hvernig fór með þau fyrirheit og um tíma leit út fyrir að einstöku tækifæri hefði endanlega verið kastað á glæ.

En með hjálp góðra manna tókst að gera það besta úr stöðunni sem hafði virst vonlaus um tíma. Með því stóðum við að öllu leiti við fyrirheit sem við gáfum fyrir síðustu kosningar, loforð sem andstæðingar okkar kölluðu stærsta kosningaloforð allra tíma.

Öllum heimilum með verðtryggð fasteignalán var með því veittur réttur á leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2008 og 2009. Leiðréttingarhluti stjórnvalda nemur allri verðbólgu umfram 4,0% eða vikmörk verðbólgu markmiðs Seðlabankans.

Það er því leiðrétt fyrir öllu sem kallast gæti forsendubrestur og raunar töluvert meiru en reikna hefði mátt með miðað við meðaltalsverðbólgu. Við það bætist sá séreignasparnaður sem fólk getur nýtt til að lækka skuldir sínar eða safna fyrir húsnæði.

Aðgerðin mun hafa veruleg áhrif á stöðu stórs hluta íslenskra heimila og áhrifin verða langvarandi.

Til dæmis mun fólk sem tók 40 ára verðtryggð fasteignalán í aðdraganda fjármálahrunsins enn njóta góðs af aðgerðinni með lægri greiðslubyrði og auknum ráðstöfunartekjum árið 2046, og það í auknum mæli eftir því sem tíminn líður.

Það er kjarabót í meira en þrjátíu ár, og að minnsta kosti átta kjörtímabil.

 

Við lítum þó ekki svo á að með þessu sé verið að gefa fólki peninga heldur aðeins að rétta hlut þess á sanngjarnan hátt.

Þó er ánægjulegt að sjá að aðgerðin nýtist fyrst og fremst milli- og lágtekjufólki, dæmigerðum íslenskum fjölskyldum með dæmigerð lán.

Svo stór aðgerð nýtist svo samfélaginu öllu því að heimilin eru hornsteinn samfélagsins og efnahagslífsins. Ef hlutur heimilanna er réttur nýtist það efnahagslífinu öllu og samfélaginu öllu.

Það þýðir hins vegar ekki að litið verði framhjá stöðu þeirra sem ekki njóta aðgerðanna beint. Leiðréttingin gerir stjórnvöldum hins vegar auðveldara, ekki erfiðara, að bæta stöðu þeirra hópa.

 

Það hefur verið furðulegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar við því að sjá fyrirheit ríkisstjórnarinnar verða að veruleika.

Frumvarp sem nær beint til stærri hóps en dæmi eru um í seinni tíð, hóps sem hafði sérstaklega verið sniðgenginn á undanförnum árum, er gagnrýnt fyrir að það nái ekki til allra! – Þá sé væntanlega betur heima setið en af stað farið.

Það er gagnrýnt að einhverjir sem hefðu komist af án leiðréttingar fái leiðréttingu og þá talið betra að allir fái ekkert.

Hvað fælist í því ef almennt ætti að fylgja slíkri stefnu?

Ef lögreglan finnur tapaða hluti á hún þá að byrja á því að spyrja eigandann að því hvort hann þurfi nokkuð á því að halda að endurheimta hlutinn.

Reiðhjólið þitt fannst en áður en þú færð það aftur fer fram mat á því hvort þú þurfir á því að halda að endurheimta hjólið eða hvort þú komist af án þess.

Furðulegust var þó að sjá tilraun til að gagnrýna það samtímis að aðgerðirnar kostuðu of mikið og of lítið og reyna, eins og í örvæntingu, að halda því fram enn eina ferðina að framsóknarmenn hefðu gert það að sérstöku markmiði að aðgerðin ætti að kosta 300 milljarða.

 

Við sem árum saman höfðum reynt í hverju viðtalinu og blaðagreininni eftir aðra að útskýra að þessi mikilvæga aðgerð væri ekki eins dýr og núverandi stjórnarandstöðuflokkar héldu fram.

Það er heldur langt til seilst að reyna að kalla það svik að við skulum hafa staðið við eigin loforð í stað þess að uppfylla rangfærslur andstæðinganna.

Svigrúmið margumrædda vegna uppgjörs slitabúa bankanna, sem eru í eigu kröfuhafanna margumræddu, er þegar byrjað að myndast með skattlagningu sem nemur tugum milljarða á ári og telja má líklegt að það dragi enn frekar til tíðinda í haftamálum áður en langt um líður.

Næstu dagar munu hins vegar að mestu snúast um fjárlagavinnuna sem nú er í fullum gangi

- og ég ætla að fara aðeins yfir stöðu þeirra mála,

en áður en að því kemur er ekki úr vegi að rifja upp hvernig staða efnahagsmála hefur þróast að öðru leyti nú þegar ríkisstjórnin hefur setið í eitt og hálft ár.

Hagvöxtur tók kipp þegar síðast liðið haust um leið og merkja mátti aukna bjartsýni og trú á að ný stefna gerði fólki og fyrirtækjum óhætt að fjárfesta. –Óhætt væri orðið að líta til framtíðar, skipueggja og byggja upp.

Hagvöxtur á síðasta ári varð því mun meiri en spáð hafði verið eða 3,3%. Gert er ráð fyrir sambærilegum vexti á þessu ári og enn meiri á því næsta. Þetta gerist á sama tíma og stöðnun ríkir í Evrópu og efnahagshorfur er dökkar á evrusvæðinu.

Atvinnuleysi á Íslandi er með því minnsta í Evrópu eða um 3%. Um 6.000 ný heils-ársstörf hafa orðið til frá því að ný ríkisstjórn tók við eftir stöðnun áranna á undan.

 

Þrátt fyrir vöxt og aukna fjárfestingu hefur verðbólga haldist lág lengur en sést hefur í meira en áratug og af því leiðir, það sem skiptir kannski mestu máli, kaupmáttur hefur aukist um 4,3% síðast liðið ár og við stöndum frammi fyrir því tækifæri til að halda áfram að auka kaupmáttinn.

 

Vísbendingar eru um að kaupmáttaraukningin nú hafi ekki orðið til að auka misskiptingu eins og stundum getur gerst við hraða kaupmáttaraukningu, þvert á móti.

Hins vegar er mjög mikilvægt að gæta þess að engir hópar í samfélaginu verði útundan og efnahagsbatinn nýtist ekki hvað síst til að bæta stöðu þeirra sem standa höllum fæti en skapi þó um leið hvata til vinnu.

Ríkisstjórnin hefur þegar staðið við fyrirheit um að afnema þær skerðingar sem eldriborgarar og öryrkjar voru látnir sæta um mitt ár 2009. Framlög til félagsmála eru nú meiri en þau hafa nokkurn tímann verið í sögu landsins. -Hafa aukist verulega frá því að ríkisstjórnin tók við. Ég geri þó ekki lítið úr því að enn er brýn þörf víða og að því er hugað við þá fjárlagavinnu sem nú fer fram.

Það hefur mikið verið rætt um heilbrigðismál að undanförnu en þar hefur athyglin að miklu leyti beinst að Landsspítalanum og stöðu hans.

Þar birtast nú afleiðingarnar af gríðarlegum niðurskurði á síðasta kjörtímabili.

Síðasta ríkisstjórn skar niður framlög til spítalans um hátt í 20% frá því sem þau voru árið 2008. 20% er gríðarlega mikið þar sem kostnaður er að mestu leyti fastur kostnaður, einkum laun.

Á sama tíma var ríkissjóður rekinn með tug- og hundruða milljarða halla og fyrirheit gefin um gríðarlegar lántökur til að greiða skuldir fjármálafyrirtækja.

Uppsafnaður niðurskurður upp á hátt í 30 milljarða á einu kjörtímabili hefur auðvitað áhrif. Þau áhrif sjáum við nú í fréttum á hverju kvöldi.

Fyrir nærri 30 milljarða má gera við mörg hús, skúra mörg gólf, laga margar lyftur, kaupa margar tölvur eða losna við marga maura. Ekki hefði verið úr vegi að leggja jafnmikið í að vekja athygli á vandanum á meðan á niðurskurðinum stóð og gert er nú þegar verulega er verið að bæta í og fjármagn til spítalans aukið.

En vandamál eru vissulega til staðar.

Á þeim þarf að taka og á þeim eru stjórnvöld að taka.

Við erum að komast í stöðu til að bæta í og halda áfram endurreisn heilbrigðiskerfisins.

Það er þó mikilvægt að ekki gleymist í þeirri umræðu allri að þótt Landsspítalinn sé gríðarlega mikilvæg stoð í heilbrigðiskerfinu er hann ekki heilbrigðiskerfið allt.

 

Það þarf líka að hafa hugfast að vandinn safnaðist upp víðar á niðurskurðarárunum. Þótt heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni séu ekki með almannatengslafulltrúa til að koma daglega á framfæri fréttum af hinum ýmsu erfiðleikum má ekki gleyma því að þær stofnanir þurftu margar að sæta gríðarlega miklum niðurskurði.

Nú er gert ráð fyrir að á næsta ári verði framlög til Landsspítalans þau mestu sem þau hafa verið frá 2008, ekki aðeins í krónutölu heldur að raunvirði.

Það tekur tíma að vinna upp hinn gríðarlega niðurskurð síðasta kjörtímabils. En sú vinna er hafin og sá árangur sem þegar er byrjaður að skila sér vegna breyttrar stefnu í efnahagsmálum þýðir að við getum enn bætt í.

 

Eins og ég nefndi áðan stendur nú yfir vinna við fjárlög ársins 2015 og eftir helgi verða kynntar tillögur um breytingar vegna annarrar umræðu. Þar er að vænta góðra frétta og ekki bara á sviði heilbrigðismála.

Sá agi sem ný ríkisstjórn innleiddi í ríkisfjármálunum er þegar byrjaður að skila sér.

Aukinn trúverðugleiki í ríkisfjármálum skilar sér meðal annars í lægri vaxtagreiðslum.

Ríkið skuldar um 1.500 milljarða króna.

Árlegar vaxtagreiðslur hafa numið um það bil tvöföldum rekstrarkostnaði Landsspítalans undanfarin ár.

Það er því augljóst að á þessum vanda verður að vinna og það er gert annars vegar með því að greiða niður skuldir og hins vegar með því að lækka vextina á þeim skuldum sem eftir standa.

Aukin trú á stjórn efnahagsmála er þegar byrjuð að lækka vextina og ýta undir fjárfestingu og verðmætasköpun og þar með auka tekjur ríkisins.

Afleiðingin er sú að við erum, einu og hálfu ári eftir að ríkisstjórnin tók við, komin í aðstöðu til að bæta enn í fjárlög sem þó fólu þegar í sér 40 milljarða endurgjöf til heimilanna miðað við álögur síðasta kjörtímabils (og þá er ekki tekið tillit til hraðari fjármögnunar vegna skuldaleiðréttingarinnar).

Nú í byrjun nýrrar viku munum við sjá að traustari stoðum verður rennt undir fjölmörg mikilvæg verkefni og stofnanir ríkisins.

Þannig munu heilbrigðis- og menntastofnanir fá aukin framlög en einnig aðrar grunnstoðir eins og Landhelgisgæslan og mikilvæg verkefni á borð við lýðheilsuátak og byggðamál.

 

Öll þekkjum við umræðuna um breytingar á virðisaukaskattskerfinu og allir höfum við, framsóknarmenn, viljað fá vissu fyrir því að þær breytingar sem ráðist verður í muni örugglega bæta stöðu almennings, sérstaklega fólks með tekjur undir meðaltali.

 

Skattkerfisbreytingunum var ætlað að draga úr skattaundanskotum ekki hvað síst í virðisaukaskattskerfinu með því að, fækka undanþágum, leysa úr flækjum og minnka bilið milli skattþrepa.

Við framsóknarmenn settum það sem skilyrði að tryggt yrði að afleiðingin af aðgerðunum yrði sú að verðlag í landinu myndi lækka (og þar með vísitalan sem hefur áhrif á lánin) og að ráðstöfunartekjur allra hópa, en þó sérstaklega fólks með millitekjur og lágar tekjur, myndu aukast.

Að sjálfsögðu er það líka vilji samstarfsflokksins að ná þessum áhrifum og eftir helgi verða kynntar breytingar sem eiga að tryggja þessi markmið.

Þegar allt er talið á matvælaverð ekki að hækka vegna breytinganna um nema í mesta lagi um 1,4% og helst ekki neitt. Flestar vörur munu lækka í verði og nauðsynleg lyf alveg sérstaklega. Heildaráhrif breytinganna þýða að neysluskattar lækka verulega og, það sem er mikilvægast, áhrifin verða mest hjá þeim tekjulægstu.

Sé fólki skipt í tíu hópa eftir tekjum munu fjórir tekjulægstu hóparnir fá mestan ávinning af breytingunum.

Takist okkur svo að varðveita verðlagsstöðugleikann með kaupmáttarsamningum á vinnumarkaði getur kaupmáttur haldið áfram að vaxa hraðar á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi og við tryggt að jöfnuður verði áfram einhver sá mesti í Evrópu en nú er Ísland það land þar sem fæstir eru undir lágtekjumörkum eða 12,7% en meðaltalið í Evrópusambandinu er 25%.

 

Hvers vegna er mikilvægt að hafa þetta hugfast og hvers vegna er mikilvægt að við tökum mið af þeim ótrúlega árangri sem hefur náðst og ræðum tækifærin sem bíða?

Það er ekki svo að við getum státað okkur af árangrinum og lagt svo hendur í skaut.

Nei, það er vegna þess að það hve staðan er góð þýðir að við getum gert enn betur.

Það að hagvöxtur og kaupmáttur aukist og atvinnuleysi sé jafnlítið og raun ber vitni sýnir okkur að við eigum að geta tekið á undantekningunum.

Það að við séum með lægsta hlutfall fátæks fólks í Evrópu segir okkur að við séum í aðstöðu til að lækka hlutfallið enn meira. Það sýnir okkur að við eigum ekki að sætta okkur við fátækt á Íslandi.

Þetta er ástæða þess að við eigum að meta þann mikla árangur sem getur náðst með skynsamlegu stjórnarfari …svo að við vitum hversu miklu máli það skiptir að stjórna af skynsemi.

Það að viðurkenna hversu góð staðan er á Íslandi og hversu miklar framfarir hafa orðið felur ekki í sér að við sættum okkur við það sem vantar uppá, þvert á móti það minnir okkur á að við getum leyst vandamálin, við getum gert enn betur.

 

Þess vega eigum við líka að hafa trú á tækifærum Íslands.

Forsenda þess að nýta tækifæri Íslands og efla kosti íslensks samfélags er að við trúum á landið og þá framtíð sem það getur skapað. Þjóð sem hefur ekki trú á sjálfri sér nær ekki árangri.

Árið 1938 gaf dagblaðið Tíminn út sérstakt blað í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Þá hafði heimskreppa ríkt í átta ár og horfur í alþjóðamálum voru ógnvænlegar.

En blaðið var gefið út til að minna á þann gríðarlega árangur sem hafði náðst, þær stórtæku framfarir sem höfðu orðið á Íslandi frá því að landið varð sjálfstætt.

Þar er rakin hreint ótrúleg framfarasaga á erfiðum og viðsjárverðum tímum, saga framfara sem varð að raunveruleika vegna þess að þjóðin trúði á hugmyndina um sjálfstætt Ísland og óþrjótandi tækifæri þess.

Þeirri trú megum við aldrei glata, og það væri hrein fásinna að gera það nú, þegar við erum aftur að ná okkur á strik og höfum sýnt fram á árangur sem sker sig úr í Evrópu allri.

 

Þó eru þeir til, sem hafa hátt þessa dagana, sem trúa ekki á þessa hugmynd sem reyndist okkur svo vel á 20. öldinni.

Þetta eru þeir sem litu á fall fjármálakerfisins, bankahrunið, sem staðfestingu þess að hugmyndin hefði ekki gengið upp. Þeir töldu áfallið vera einhvers konar réttlætingu á sjálfum sér og því viðhorfi að Ísland væri og hefði alltaf verið vonlaust. Nú, sex árum seinna óttast þeir hins vegar að draumurinn um vonlausa Ísland sé að fjara út.

Viðbrögðin birtast oft sem furðuleg heift og því miður hefur þessi heift og neikvæðni fengið meiri athygli og verið meira ráðandi í umræðunni en eðlilegt, hvað þá æskilegt, getur talist.

Aldrei hefur verið jafn mikill munur á raunverulegri stöðu mála í íslensku samfélagi og framtíðarhorfum okkar góða lands og birtingarmynd stöðunnar í umræðu og væntingum um framtíðina.

Og þótt umræða um þjóðfélagsmál hafi oft verið óbilgjörn á Íslandi hefur hún líklega sjaldan eða aldrei náð því marki sem við sjáum nú.

Illmælgi, sleggjudómar og niðurrifstal hefur aldrei átt jafngreiða leið að almennri umræðu og nú.

Að mestu leyti verður þetta til hjá fámennum hópi fólks sem er alls ekki er lýsandi fyrir samfélagið en tíðarandinn er þó slíkur að þessi brenglaða sýn nær athyglinni og gefur tóninn fyrir umræðuna.

Það getur haft raunveruleg og mjög neikvæð áhrif fyrir samfélagið.

Nýlega var kynnt rannsókn Guðbjartar Guðjónsdóttur á högum Íslendinga sem flust hafa til Noregs á síðastliðnum árum og ástæður þess að þeir fluttu.

Það kemur ekki á óvart að margir fóru í leit að vinnu á meðan ekki urðu til ný störf á Íslandi og margir fóru til að bæta kjör sín en það sem vakti sérstaka athygli var hversu margir fóru vegna þess að það var orðið svo leiðinlegt og þrúgandi andrúmsloft á Íslandi.

Umræðan væri svo neikvæð og illskeytt.

Það er því spurning um þjóðarhag að við lærum að meta það sem er gott á Íslandi, viðhöldum trúnni á landið og framtíðina og temjum okkur að ræða samfélagsmálin af yfirvegun og með rökum.

 

Það eru nefnilega svo gríðarlega mikil tækifæri sem bíða okkar.

Búast má við mikilli uppbyggingu iðnaðar víða um land á næstu misserum, íslenskur sjávarútvegur skilar nú meiri verðmætum til samfélagsins en nokkurn tímann áður og nýjum lögum um stjórn fiskveiða er ætlað að veita greininni stöðugleika og virkja nýsköpunarmöguleika í sjávarútvegi en um leið tryggja hámarks samfélagslegan ávinning.

Landbúnaður, atvinnugrein framtíðarinnar eins og menn eru nú farnir að kalla það, getur vaxið mikið á komandi árum og aukin áhersla á rannsóknir og vísindi, auk nýrra hvata, mun gera það að verkum að enn fleiri nýsköpunarfyrirtæki munu spretta upp á Íslandi en á undanförnum árum.

 

En við höfum séð að stjórnarfarið skiptir miklu máli.

Með skynsamlegri nálgun eins og við lögðum upp með á flokksþinginu fyrir síðustu kosningar og í stjórnarsáttmálanum sem samþykktur var á miðstjórnarfundi hefur náðst ótrúlegur viðsnúningur.

Tugum milljarða er skilað til heimilanna í fjárlögum m.a. í formi lægri gjalda og skatta og aukinna stuðnings- og bótagreiðslna.

Verið er að bæta í framlög til heilbrigðis og félagsmála þ.a. þau hafa nú náð þeirri stöðu sem var á útgjaldaárunum miklu 2007 og 2008.

Ný störf verða til í landinu í stað þess að flytjast úr því, skuldir hafa verið leiðréttar og á sama tíma er Ísland rekið án halla, skuldir greiddar niður en ekki aukið við þær.

Þetta er gert með aukinni verðmætasköpun að hætti okkar framsóknarmanna, það hefur aftur verið tengt milli velferðar og verðmætasköpunar.

Við vitum öll að það er gríðarlega mikið verk óunnið. Við vitum að margt fólk stendur enn höllum fæti í íslensku samfélagi og við vitum að kjörin þurfa að batna meira.

 

En við vitum líka, og höfum séð, hvers konar árangri er hægt að ná með því að trúa að við séum í aðstöðu til að ná lengra, trúa að hægt sé að gera betur.

Þess vegna getum við leyft okkur að vera enn bjartsýnni á framhaldið en við vorum fyrir einu og hálfu ári síðan og þess vegna eigum við að leyfa okkur að gleðjast.

Ísland er frábært land, íslenska þjóðin er frábær þjóð og ef hún nýtir tækifærin og hefur trú á sér og því að framtíðin á Íslandi verði enn betri, þá verður hún það.

 

09/10/14

Aukinn kaupmáttur og lægra verðlag

Gagnrýni mín á hugmyndir um hækkun virðisaukaskatts á matvæli í tíð síðustu ríkisstjórnar var, eins og ég tók þá fram, í samhengi við aðrar skattahækkanir á þeim tíma – ekki hvað síst með vísun í að efra þrepið væri orðið óeðlilega hátt. Slíkar hækkanir hefðu þá verið viðbót við stöðugar hækkanir annarra skatta, gjalda og verðlags og þannig rýrt enn kaupmátt heimilanna. Í því lágu áhyggjur mínar og í því liggja þær enn, að hækkun virðisaukaskatts á matvæli geti skert kaupmátt.

Frá því að umræða hófst, meðal annars með hliðsjón af reynslu annarra þjóða, um að æskilegt gæti verið að draga úr muninum á efra og neðra virðisaukaskattsþrepinu hefur orðið grundvallarbreyting á þeim hugmyndum sem hafa verið til skoðunar. Gert er ráð fyrir minni hækkun neðra þrepsins en áður og það sem mestu máli skiptir; innleiddar hafa verið tvær grundvallarforsendur. Þ.e. að með lækkun annars verðlags (m.a. lækkun efra vsk þrepsins) og auknum stuðningi við fólk með lægri- og millitekjur eiga breytingarnar í heild að:

a)    Auka ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa, þar sem sérstaklega verður hugað að því að þeir sem eru með lægri- og millitekjur fái aukinn kaupmátt með breytingunum. Skýr dæmi um áhrifin á ráðstöfunartekjur eftir mismunandi fjölskylduhögum má finna í frumvarpinu.

b)    Áhrifin á vísitölu neysluverðs og þar með á skuldir heimilanna eiga að verða til lækkunar, ekki hækkunar og lækka þar með skuldir heimilanna frekar en að hækka þær.

Í stað þess að skerða kjör heimilanna eiga þau að batna um leið og skattkerfið verður skilvirkara. Menn geta svo haft mismunandi skoðanir á því hvort sú aðferð sem lagt er upp með í fjárlagafrumvarpinu dugi til að ná þessum grundvallarmarkmiðum.

Ég, aðrir framsóknarmenn, og eflaust sjálfstæðismenn líka, vilja hafa sem mesta vissu fyrir því að sú verði raunin. Þess vegna hefur fjármálaráðherra sagt að komi í ljós við þinglega meðferð að einhver vanhöld séu á því að breytingarnar nái markmiðunum um aukinn kaupmátt fyrir alla og lægra verðlag, verði gerðar hverjar þær breytingar sem þurfa þykir til að ná því markmiði.

Allir hljóta að geta verið sammála um að ef hægt er að fara í breytingar sem auka almennan kaupmátt, lækka verðlag og bæta stöðu lág- og millitekjuhópa sé það æskilegt.

Það var lengi svo á Íslandi að aðeins sá hluti þjóðarinnar sem hafði tiltölulega háar tekjur eða átti kost á að ferðast til útlanda gat eignast ýmis konar raftæki og aðrar vörur sem voru skattlagðar svo mikið innanlands að allt að 70-80% verðsins var opinber gjöld. Einhverjir virðast reyndar enn vera þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að verð sumra vara, t.d. tölvubúnaðar og heimilistækja sé svo hátt að aðeins hluti þjóðarinnar hafi efni á að kaupa slíkar vörur. En ef menn vilja raunverulega vinna að jöfnuði í samfélaginu verðum við að stefna að því að öllum verði kleift að búa við nútíma þægindi og jafnvel geta leyft sér að fylgja þróun samfélagsins og tækninnar með því að eignast nútíma raftæki eða kaupa ný föt á börnin sín fyrir skólann og veita þeim þann búnað sem þau þurfa til að geta fylgt félögunum eftir í námi eða tómstundum.

Nú tekur við vinna í þinginu þar sem markmiðið er að tryggja að breytingar í fjárlagafrumvarpinu auki kaupmátt, lækki verðlag, dragi úr svartri atvinnustarfsemi, efli innlenda framleiðslu og færi okkur yfir í þær leiðir sem reynst hafa best til að auka jöfnuð í samfélaginu. Það hljóta að vera markmið sem flestir geta sameinast um.

Þessar aðgerðir er ætlaðar til að hafa þveröfug áhrif við skattahækkanir síðasta kjörtímabils og hækkun virðisaukaskatts á matvæli ef hún hefði orðið á þeim tíma.

Þá var tilgangur hækkunarinnar að auka tekjur ríkissjóðs. Áhrif skattkerfisbreytinganna nú á ríkissjóð eru hins vegar neikvæð um nærri fjóra milljarða þegar allt er talið saman. Það er allt önnur mynd en blasti við árið 2011 í tíð fyrri ríkisstjórnar sem taldi sig geta búið til verðmæti með skattlagningu.

Ég nefndi stundum á síðasta kjörtímabili að ekki væri gert nóg af því að bera upp á ráðherra hvað þeir hefðu sagt og hver afstaða þeirra hefði verið áður en þeir tóku við völdum. Nú er þetta ekki lengur vandamál. Menn eru mjög duglegir við að leita að einhverju sem ráðherrar hafi sagt á liðnum árum sem hugsanlega samræmist ekki umræðu samtímans. Það er ekkert út á slíkt aðhald að setja en þó hlýtur að vera eðlilegt að tekið sé tillit til samhengis hlutanna. Skattkerfisbreytingar sem bæta hag heimilanna eru allt annars eðlis en þær sem skerða hag þeirra.

05/23/14

Á aðeins einu ári

Í dag er liðið eitt ár frá því að ný ríkisstjórn hóf sókn í þágu lands og þjóðar eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu hennar. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagar heimilanna í landinu og efling atvinnulífs með aukinni verðmætasköpun í almannaþágu. Á aðeins einu ári hafa orðið gríðarmiklar framfarir á fjölmörgum sviðum.

Hagþróun og atvinnumál

• 4.000 ný störf (heil ársverk) hafa orðið til frá því að ný ríkisstjórn tók við. Það eru að jafnaði 11 störf á dag eða 16 hvern virkan dag.

• Hagvöxtur tók mikinn kipp síðast liðið haust. Hinn aukni hagvöxtur seinni hluta ársins var langt umfram spár og með því mesta sem þekkist meðal iðnvæddra þjóða. Þess er nú vænst að hagvöxtur aukist enn á þessu ári og því næsta. Verðbólga er komin niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans í aðeins annað skipti í heilan áratug og í fyrsta skipti hefur verðbólga haldist undir viðmiðunarmörkum í nokkra mánuði í röð. Afleiðingin er aukinn kaupmáttur.

• Kaupmáttur hefur aukist meira á tímabilinu en nokkru sinni frá árinu 2007. Ætla má að kaupmáttur, það hvað fólk getur keypt fyrir launin sín, aukist nú hraðar á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi.

• Atvinnuleysi fer enn minnkandi og er nú í kringum 4% á sama tíma og meðaltals atvinnuleysi á Evrusvæðinu er búið að ná nýjum hæðum í 12 prósentum.

• Ferðamönnum fjölgaði um 34% fyrstu 4 mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Ný ríkisstjórn ákvað að hverfa frá áformum síðustu ríkisstjórnar um að hækka skatta á ferðaþjónustu. Áformin voru talin ótímabær því þau myndu draga úr vexti greinarinnar og skerða tekjur þeirra sem selja ferðamönnum vörur og þjónustu og þar með tekjur ríkisins. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu eru orðnar meiri en af sjávarútvegi.

• Fjárfesting hefur aukist, ekki hvað síst meðal smærri og meðalstórra fyrirtækja. Byggingariðnaðurinn sem gengið hefur í gegnum miklar þrengingar er að taka við sér. Samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins nema þekkt verkefni, bara á sviði hótelbygginga í Reykjavík á næstu þremur árum um 45 milljörðum króna.

Aukin velferð

• Jöfnuður hefur aukist þrátt fyrir hraðan hagvöxt. Útlit er fyrir að Ísland haldi stöðu sinni sem það land Evrópu sem er með lægst hlutfall landsmanna undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun. Samkvæmt síðustu mælingu var hlutfallið 12,7% á Íslandi en meðaltalið í ESB var 25%. Hvað varðar jafna tekjudreifingu mælda með Gini-stuðlinum var Ísland komið í þriðja sæti árið 2013, einkum vegna hlutfallslegrar lækkunar hæstu launa en nú er útlit fyrir að við getum styrkt stöðu okkar með hækkun lægri- og meðallauna.

• Barnabætur hækkuðu úr 7,5 milljörðum í 10,2 milljarða króna milli ára. Það er þriðjungs aukning.

• Tekjuskattur lækkaði um 5 milljarða, mest hjá millitekjufólki.

• Framlög til velferðarmála hafa verið aukin til mikilla muna. Skerðingar á greiðslum til öryrkja og eldriborgara sem teknar voru upp árið 2009 voru afnumdar og framlög til almannatrygginga aukin um 9 milljarða eða 11%. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei sett jafnmikið fjármagn til félagsmála og á árinu 2014.

• Framlög til heilbrigðismála voru aukin um 6,8 milljarða að raunvirði og ráðist í brýnar úrbætur á húsa- og tækjakosti Landsspítalans. Það var ekki gert með auknum lántökum heldur sparnaði annars staðar í ríkiskerfinu, einkum í ráðuneytum. Unnið er að undirbúningi uppbyggingar þjóðarsjúkrahúss og eflingu heilbrigðisþjónustu um allt land. Með verkefninu „Betri heilbrigðisþjónusta“ er ætlunin að tryggja aðgang allra Íslendinga að heilsugæslulækni.

• Endurskoðun menntakerfisins hefur þegar leitt til þess að hægt var að hækka laun kennara í grunn- og framhaldsskólum umtalsvert.

• Þrátt fyrir þetta var skilað hallalausum fjárlögum í fyrsta skipti frá árinu 2007.

Nýsköpun, uppbygging og byggðamál

• Ný byggðaáætlun mun jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla verður lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

• Veiðigjaldinu var breytt til að hlífa minni og meðalstórum fyrirtækjum. Ljóst var að ef fylgt hefði verið gjaldtökuaðferðum fyrri ríkisstjórnar hefði mikill fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja um allt land komist í þrot og fótunum verið kippt undan byggð í mörgum. Um leið hefði aukin hagræðingarþörf valdið mikilli samþjöppun í greininni. Þrátt fyrir breytingarnar hefur sjávarútvegur aldrei skilað samfélaginu jafnmiklum tekjum og á síðasta ári og fjárfesting og vöruþróun hefur tekið við sér.

• Unnið hefur verið að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins með það að markmiði að hámarka tekjur samfélagsins af greininn um leið og rekstrarumhverfi er tryggt og grundvöllur sjávarbyggðanna er styrktur.

• Áhersla ríkissjórnarinnar á nýtingu tækifæra á norðurslóðum og gerð fríverslunarsamninga hefur þegar sannað gildi sitt. Eitt stærsta hafnafyrirtæki heims, Bremenports, hefur undirritað samning um rannsóknir í Finnafirði með það að markmiði að byggja þar nýja heimshöfn. Um allt norðanvert og austanvert landið er verið að undirbúa framkvæmdir til að nýta tækifæri komandi ára.

• Ráðist hefur verið í endurskoðun regluverks með það að markmiði að einfalda líf fólks, nýsköpun í atvinnulífinu og rekstur fyrirtækja.

• Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilaði 111 tillögum um hvernig spara mætti í ríkiskerfinu. Nú er unnið eftir þeim og öðrum hagræðingaráformum ríkisstjórnarinnar í öllum ráðuneytum.

• Samkeppnishæfni Íslands eykst nú hröðum skrefum. Í nýbirtri mælingu á samkeppnishæfni þjóða fór Ísland upp um 4 sæti.

• Rannsókna og nýsköpunarstarf mun stóreflast með nýsamþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og Vísinda- og tækniráðs. Þar er gert ráð fyrir verulegri aukningu ríkisframlags til nýsköpunar og rannsókna (aukning upp á allt að 2,8 milljarða) og innleiðingu hvata fyrir atvinnulífið sem skila muni tvöfaldri þeirri upphæð til viðbótar. Með því kemst Ísland í hóp þeirra fáu ríkja sem verja yfir 3% af landsframleiðslu til vísinda og nýsköpunar.

Heimilin

• Fyrirheit ríkisstjórnarflokkanna um aðgerðir í skuldamálum heimilanna eru komin til framkvæmda. Búið er að ljúka öllum liðunum 10 í þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

• Sérfræðihópur ríkisstjórnarinnar hefur skilað tillögum að því hvernig afnema megi verðtryggingu á nýjum neytendalánum og ríkisstjórnin hefur samþykkt að hrinda áætluninni í framkvæmd.

• Skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar hefur verið hrint í framkvæmd. Með því er komið til móts við fólk með stökkbreytt verðtryggð fasteignalán eftir fimm ára bið. Á síðasta kjörtímabili stóð til að skattleggja heimilin til að greiða skuldir gjaldþrota einkabanka. Nú er heimilunum hjálpað að takast á við skuldir sínar og á sama tíma greiða slitabú hinna föllnu banka loks skatt eins og eðlilegt er.

• Með skattleysi séreignasparnaðar gefst fólki tækifæri til að greiða lán sín niður enn meira. Þegar aðgerðirnar koma saman má gera ráð fyrir að fólk geti fært niður lán sín sem nemur allri verðbólgu umfram 2-3% á árunum í kringum hrun.

• Með tillögum að nýju húsnæðiskerfi er markmiðið að lækka húsnæðiskostnað heimilanna og auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði. Sérstök áhersla er lögð á að bæta stöðu leigjenda og húsnæðissamvinnufélaga, með bættri réttarstöðu, auknu framboði leiguhúsnæðis, skattalegum hvötum, hagkvæmari fjármögnun og þar með lægri leigu auk nýrra húsnæðisbóta sem komi í stað vaxtabóta og taki mið af tekjum en ekki búsetuformi til að auka jafnræði.

Sumar

Það er ákaflega ánægjulegt að geta sagt frá öllum þessum breytingum sem hafa orðið til batnaðar á síðustu tólf mánuðum. Þess má svo geta að bætt vinnubrögð í þinginu urðu til þess að stjórnarmeirihlutanum tókst að afgreiða óvenju mikinn fjölda mála á tilsettum tíma og aldrei hafa jafnmörg þingmannamál fengið afgreiðslu, þar á meðal mikill fjöldi stjórnarandstöðumála.

Við göngum því inn í sumarið ánægð með veturinn um leið og við búum okkur undir að gera enn betur á næsta ári og hlökkum til að fagna saman 70 ára afmæli lýðveldisins þann 17. júní. Ég óska landsmönnum öllum góðs og heilladrjúgs sumars.

 

 

04/7/14

Kvalir amerískra hvala

Það kom á daginn að sumum fannst ekki við hæfi að kalla Bandaríkjamenn mestu hvalveiðiþjóð heims (og sjá ekkert að því að þeir amist við takmörkuðum hvalveiðum Íslendinga). Þeim finnst ekki við hæfi að telja með hvali sem veiddir eru af frumbyggjum. Þau 2.760 tonn sem Bandaríkjamenn veiddu árið 2012 teljast þannig léttvægari en 260 tonn Íslendinga, enda Íslendingar einhverra hluta vegna ekki taldir frumbyggjar. Þetta eru þó bara hinar „formlegu veiðar“. Jafnframt er litið framhjá þeim hvalveiðum þar sem hræjunum er hent fremur en að verka þau og nýta.

Höfrungar eiga það til að elta túnfiskstorfur. Þetta hafa Bandaríkjamenn nýtt sér um áratugaskeið og veitt ógrynni höfrunga í von um að túnfiskur slæddist með. Á seinni hluta tuttugustu aldar voru 6 til 7 milljónir höfrunga drepnir í vestanverðu Kyrrahafi. Til samanburðar nam öll atvinnuhvalveiði allra þjóða alla tuttugustu öldina um 2 milljónum dýra, eða innan við þriðjungi „brottkastsins“ í túnfiskveiðinni. Eins og nærri má geta hrundi höfrungastofninn í Kyrrahafi og nú hefur dregið mjög úr slíkum veiðum. Sé litið til fjölda dýra eru þó árlega margfalt fleiri höfrungar drepnir á þennan hátt en nemur hvalveiðum Norðmanna, svo ekki sé minnst á Íslendinga.

Þá er þó ekki allt upp talið. Náttúruverndarsamtök í Bandaríkjunum hafa undanfarin ár safnað undirskriftum gegn því að þarlend yfirvöld veiti bandaríska hernum „kvóta“ til að sprengja og  höfrunga og önnur dýr af ættbálki hvala. Á þessu ári mun sjóherinn hefja nýjar tilraunir með neðansjávarsprengjur og önnur hergögn. Tilraunirnar munu standa til 2019. Bandaríski sjóherinn áætlar að 341 hvalur drepist, 13.306 særist alvarlega, 3,75 milljónir hljóti minniháttar tjón á borð við tímabundið heyrnarleysi og í 27,7 milljónum tilvika geti tilraunirnar truflað atferli dýranna.

Íslendingar munu meta hvort rétt sé að veiða hval út frá hagsmunum landsins. Þar verður tekið mið af sjálfbærni, efnahagslegum forsendum og áhrifum á aðrar atvinnugreinar, t.a.m. hvalaskoðun. Afstaðan mun hins vegar ekki ráðast af umvöndunum þeirra sem telja að aðrar reglur eigi að gilda um okkur en þá sjálfa.