06/12/17

Fjármálakerfið vann kosningarnar

Nú eru tvö ár liðin frá því þáverandi ríkisstjórn kynnti áform um losun hafta og aðgerðir því samhliða. Á þeim tíma sem liðinn er hafa þær sannað gildi sitt. Í ljós hefur komið að aðgerðir sem hvergi höfðu verið reyndar áður, og flestir töldu óframkvæmanlegar, gjörbreyttu stöðu samfélagsins til hins betra. Útfærslan sem fólst í svokölluðum stöðugleikaframlögum hefur líka sannað sig, því með batnandi efnahag (sem leiddi ekki hvað síst af aðgerðunum) hefur verðmæti framlaganna vaxið jafnt og þétt. Ekkert ríki hefur í seinni tíma sögu náð eins miklum efnahagslegum viðsnúningi á eins skömmum tíma og Ísland gerði eftir að áformunum var hrint í framkvæmd.

Ný reynsla

Hagsmunirnir sem tekist var á um voru því meiri en menn áttu að venjast á Íslandi og aðferðirnar sem beitt var við hagsmunagæsluna voru ólíkar því sem við höfum átt að venjast. Nýr veruleiki blasti við landsmönnum eins og komið hefur í ljós, þótt margir hafi efast í fyrstu.

Síðan þá hafa málin skýrst og Íslendingar fengið aukna innsýn í hversu miklið var undir og hvaða aðferðum aðilar eins og þeir sem hugðust hagnast á efnahagslegum óförum Íslands beita. Það fór ekki leynt að þessir aðilar, einkum vogunarsjóðir í New York og London, vildu nýjan forsætisráðherra, nýja ríkisstjórn og nýja stefnu. Öllu þessu náðu þeir.

Langt komið en ekki lokið

Sem betur fer var sigur Íslands að mestu í höfn áður en þetta gerðist en það breytir því ekki að gífurlegir almannahagsmunir fólust í því að fylgja málinu eftir til enda, eins og ég rakti í apríl í fyrra. Það sem út af stóð var einkum tvennt:

I. Að klára að leysa aflandskrónuvandann (aflandskrónur eru krónur í eigu erlendra fjárfesta sem lokuðust inni í höftum og voru að langmestu leyti keyptar af vogunarsjóðum eftir að höftin voru sett á).

II. Að nýta það tækifæri sem haftalosunin og stöðugleikaframlögin sköpuðu til að ráðast í endurskipulagningu íslenska fjármálakerfisins svo það þjóni betur hagsmunum almennings og atvinnulífs.

Þetta eru ekki lítil verkefni en allt var til reiðu svo klára mætti þau á tiltölulega skömmum tíma. Raunin varð því miður allt önnur og það gremst mér mjög af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að aðferðirnar sem við beittum virkuðu sem skyldi og til varð einstakt sögulegt tækifæri til að leysa það sem út af stóð. Í öðru lagi, eins og ég lýsti sjálfur á sínum tíma, taldi ég þetta það mikilvægt að ég var reiðubúinn til að stíga til hliðar ef það mætti verða til að skapa frið til að ljúka málinu hindranalaust. Í þriðja lagi vegna þess að það er afleitt fordæmi að setja að leyfa vogunarsjóðum að ná sínu fram með misjöfnum aðferðum á Íslandi.

Lítum nú nánar á ókláruðu verkefnin tvö. Byrjum á aflandskrónunum.

Nei, nú er okkur alvara

Tímaáætlun framkvæmdahóps um haftalosun var virt og lítið gerðist í málinu fyrr en síðastliðið haust þegar haldið var útboð til að leysa aflandskrónuvandann. Þar gafst eigendum aflandskróna kostur á að skipta krónunum í gjaldeyri og fara með hann úr landi gegn því að gefa »afslátt« af skráðu virði krónunnar. Þetta var frá upphafi liður í heildarplaninu sem gekk út á að allir skiptu með sér kostnaðinum við að rétta efnahag landsins af. Enginn átti að hagnast á því að taka ekki þátt. Þess vegna var útskýrt að þeir sem ekki vildu taka þátt í útboðinu myndu sitja fastir með krónurnar sínar um fyrirsjáanlega framtíð á lágum sem engum vöxtum.

Þátttaka í útboðinu var lítil. Af ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar hættu nokkrir af stærstu krónueigendunum við að taka þátt í útboðinu rétt fyrir lokun. Þó var ljóst að íslensk stjórnvöld höfðu misst trúverðugleikann. Fulltrúar vogunarsjóðanna höfðu séð með eigin augum að hægt væri að brjóta þau á bak aftur.

Lítið gerðist svo í málinu þar til ný ríkisstjórn tilkynnti óvænt í mars síðastliðnum að samið hefði verið við vogunarsjóði um að þeim yrði hleypt út með krónurnar sínar á mun hagstæðara gengi en stóð til boða í útboðinu í fyrra.

Samningurinn náði til 90 milljarða króna af þeim 200 sem eftir stóðu af »snjóhengjunni«. Sama dag var tilkynnt að þeir sem ekki hefðu þegar skrifað upp á tilboðið (þeir sem héldu á 110 milljörðum) hefðu »næstu tvær vikurnar« til að ganga inn í samninginn. Ella sætu þeir eftir.

En nú voru vogunarsjóðirnir búnir að sjá svo ekki varð um villst að hægt væri að brjóta, eða að minnsta kosti beygja, íslensk stjórnvöld. Nýja kostaboðið frá Íslandi var því ekki lengur nógu gott og áhuginn á þátttöku lítill eða enginn

Skemmst er frá því að segja að vikurnar tvær sem hófust í mars eru enn að líða því stjórnvöld hafa ítrekað framlengt frestinn vegna áhugaleysis vogunarsjóðanna. Nú stendur til að hann klárist næstkomandi fimmtudag, þann 15. júní.

Stjórnvöldum er þó væntanlega alvara með dagsetninguna 15. júní eða hvað? Ekki miðað við það að fjármálaráðuneytið er þegar búið að tilkynna Reuters að næsta haust sé von á frumvörpum frá ríkisstjórninni um að losa höft af aflandskrónum.

Dettur einhverjum í hug að áhugi á þátttöku í sérstökum »krónusölu-díl« nýrrar ríkisstjórnar sé mikill þegar krónan er búin að styrkjast jafnt og þétt og stjórnvöld hafa stöðugt gefið meira eftir og loks tilkynnt að þau hyggist gefa alveg eftir næsta haust?

Fjármálakerfið

Þá að hinu atriðinu sem hefur verið óklárað frá því í apríl í fyrra, þ.e. slitabúunum og framtíð fjármálakerfisins.

Óþarfi er að rekja hér í smáatriðum þá furðulegu atburði sem tengjast sölu Arion banka. Eins og sakir standa er útlit fyrir að vogunarsjóðir fái að selja sjálfum sér bankann á lægsta mögulega verði (og e.t.v. enn lægra en það) og komast þannig hjá því að láta ríkissjóð fá eðlilega hlutdeild í verðmæti bankans (í samræmi við stöðugleikaskilyrðin).

Það vakti athygli þegar ég benti á að einn kaupendanna hefði verið látinn greiða hundruð milljóna Bandaríkjadala í sektir vegna mútumála í Afríku. Það hefði þó ekki átt að koma verulega á óvart miðað við starfsaðferðir sumra þeirra vogunarsjóða sem hafa gert sig gildandi á Íslandi. Sjóða sem sérhæfa sig í að kaupa kröfur í ríkjum í vanda og innheimta þær upp í topp með öllum tiltækum ráðum. Sektir vogunarsjóðsins, eins himinháar og þær voru, eru auk þess skiptimynt í samanburði við það sem fjárfestingabankinn Goldman Sachs (samstarfsaðili Íslandsvinarins og vogunarsjóðsstjórans Sorosar) var dæmdur til að greiða vegna undirmálslánanna og vafninganna sem settu alþjóðafjármálakrísuna af stað.

Forsætis- og fjármálaráðherra hafa enn ekki fengist til að svara spurningum um hvort samningar um losun hafta á aflandskrónur var liður í kaupum vogunarsjóðanna á Arion banka, né hvers vegna forkaupsréttur ríkisins að bankanum var gefinn eftir. Engu hefur verið svarað um samskipti stjórnvalda við vogunarsjóðina sem þó viðurkenna sjálfir að þeir hafi tekið ákvarðanir að undangengnum samskiptum við íslensk stjórnvöld. Enda væri annað óhugsandi.

Niðurstaðan er sú að stjórnvöld hafa tekið algjöra U-beygju gagnvart hinum aðgangshörðu vogunarsjóðum og eru að missa tækifærið til að laga íslenska fjármálakerfið úr höndunum. Óljóst er hvað vogunarsjóðirnir ætla að gera við Arion banka. Ekkert liggur fyrir um hvað stjórnvöld ætla sér með Landsbankann, en í millitíðinni mun bankinn einbeita sér að því að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni verðmætustu lóð landsins. Staða hins ríkisbankans, Íslandsbanka, er svo algjör ráðgáta. Á meðan er vöxtum haldið tuttugu sinnum hærri en í Bretlandi á sama tíma og pundið fellur og íslenska krónan styrkist.

Það eina sem liggur fyrir er að sigurvegarar síðustu alþingiskosninga voru vogunarsjóðirnir og fjármálakerfið.

 

Greinin birtist í morgunblaðinu 12. júní 2017

 

04/18/17

Lausn húsnæðisvandans II

Í síðustu grein nefndi ég fimm atriði sem þyrfti að laga til að koma húsnæðismálum í horf á Íslandi. Þau sneru flest að fjárhagslegum þáttum en þar eru vaxtamál að sjálfsögðu veigamest og minna á að til að fá heilbrigðan húsnæðismarkað þarf heilbrigt fjármalakerfi.

En fleira þarf til. Skipulagsmál og samspil þeirra við fjármálin skipta gríðarlega miklu máli. Hér í seinni greininni er haldið áfram þar sem frá var horfið en áhersla lögð á skipulagstengd mál.

 

Þétting byggðar

Augljóst er að þegar mikil umframeftirspurn er eftir húsnæði kallar það á aukið framboð. En í stað þess að liðka fyrir nýframkvæmdum hafa borgaryfirvöld í Reykjavík í raun gert hið gagnstæða með  öfgakenndri innleiðingu stefnunnar um þéttingu byggðar.

Margt er til í kenningum um hagkvæmni þéttrar byggðar. Sá sem býr í miðborg Kaupmannahafnar kemst vel af án þess að eiga bíl, almenningssamgöngur eru skilvirkari, landrými nýtist betur osfrv.

Miðbær Kaupmannahafnar byggðist áður en bílar komust í almannaeigu. Reykjavík byggðist hins vegar fyrst og fremst sem úthverfaborg og er hönnuð sem slík. Það er ekki hægt að breyta borginni eftir á í ítalska endurreisnarborg. Þegar reynt er að breyta eðli borgar eftir á getur það leitt til þess að hún virki hvorki sem úthverfaborg né sem þétt byggð. Ég skal taka dæmi:

 

a + b = c

a) Hverfin voru tengd stofnæðum gatnakerfisins, og íbúðagötur safngötum út frá ákveðnum forsendum um umferðarálag. Ef farið er að troða nýrri byggð inn í gróin hverfi ráða tengingarnar ekki lengur við  að anna umferðinni og til verða tappar sem geta haft áhrif í marga kílómetra í nokkrar áttir (fráflæðisvandi).

+

b) Svo er eru það áhrif nýbygginganna sem troðið er inn í grónu svæðin, á svo kallaða þéttingarreiti. Þær laða til sín fólk í ýmsum erindagjörðum. En vegna þess að þéttingarreitirnir eru í Reykjavík en ekki í borg þar sem tugir þúsunda geta gengið þangað á sandölum, hjólað eða nýtt þétt net almenningssamgangna, fara flestir á bíl að sinna erindum sínum á þéttingarreitunum. En þá eru göturnar í kring ekki til þess hannaðar að anna því. Það sama á við um bílastæði hverfisins sem flest eru horfin undir nýbyggingarnar. Bílafjöldinn hefur þá aukist en umferðaræðarnar haldist óbreyttar eða jafnvel verið þrengdar og bílastæðum fækkað (aðflæðisvandi).

=

c) Þannig tvöfaldast vandinn og það verður bæði erfiðara að koma og fara. Ekki tekist að ná fram kostum þéttrar byggðar en kostir rýmri byggðar hafa verið eyðilagðir.

Besta dæmið um þetta er auðvitað glórulaus áform um að troða megninu af heilbrigðisþjónustu landsins á umferðareyju við Hringbraut.

Kostnaður, tafir og bólumyndun

Svo er það kostnaðurinn. Það er miklum mun dýrara og seinvirkara að byggja á þéttingarreitum en í nýjum hverfum. Hvað það varðar eru Landspítalaáformin reyndar líka besta dæmið um hversu skaðleg stefnan er, en það er önnur saga.

Loks hefur útfærsla Reykjavíkurborgar á þéttingarstefnunni leitt af sér stóraukið ójafnvægi á markaðnum þar sem menn keppast um að fá að henda til gömlum húsum eða rífa þau í miðbænum til að geta svo kreist út úr borginni eins marga fermetra byggingarmagns og hægt er að troða á lóðir á þéttingarsvæðinu 101 Reykjavík.

Afleiðingin er stórskaðleg fasteignabóla miðsvæðis í Reykjavík en á sama tíma nýtist hin mikla eftirspurn ekki til að koma af stað góðum nýbyggingarverkefnum annars staðar vegna þess að þar skortir vilja borgaryfirvalda.

Reyndar var mikið þéttbýli í miðbæ Reykjavíkur fyrir. Þar eru töluvert fleiri íbúar á hektara en í miðbæ Kaupmannahafnar (þótt byggingarmagn sé minna). Í 101 eirir samt þéttingarstefnan engu. Hugsunin er þessi: Hvers vegna að leyfa gömlu bárujárnshúsi með eitt bílastæði að standa þegar hægt er að rífa það og byggja sex íbúðir með ekkert bílastæði? Til hvers að halda í sextíu ára gamla verslun fyrir íbúa svæðisins þegar hægt er að byggja hótelkassa með lundabúð á jarðhæðinni?

 

Hver er lausnin?

Í stað þess að raska ró fólks í grónum hverfum með sprengingum og örðum hamagangi til þess eins að auka á bílastæðaskort ætti Reykjavík að hverfa frá skaðlegri útfærslu sinni á þéttingu byggðar. Borgin fær að þróast þrátt fyrir það. Hlutverk svæða eins og Skeifunnar og uppfyllinganna við norðurströndina getur breyst og svo munu ný hverfi veita tækifæri til að innleiða nýja stefnu.

Stórauka þarf lóðaframboð á nýbyggingarsvæðum og bjóða upp á fjölbreytilega uppbyggingarmöguleika. Vilji menn nýta kosti þéttrar byggðar og svara eftirspurn eftir íbúðum í slíkri byggð, sem full ástæða er til, ætti að skipuleggja slík hverfi og byggja þau þannig frá grunni.

 

I. Nýir aðlaðandi miðbæir

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ættu að skipuleggja nýja byggðarkjarna þar sem saman fara þétt íbúðabyggð, verslanir og þjónusta. Tilraunir hafa áður verið gerðar til að byggja nýja miðbæi, einkum með tilkomu Kringlunnar. Þar var reyndar fyrst og fremst um að ræða þjónustu- og verslunarmiðbæ. Þó er útlit fyrir að það taki breytingum á næstu árum og til verði byggðarkjarni íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Það sama má segja um byggðina við Smáralind og nokkur minni dæmi mætti nefna.

Þessir byggðarkjarnar hafa ýmsa kosti. Það er hins vegar líka þörf fyrir nýja byggðarkjarna sem hafa aðdráttarafl út á umhverfið og hönnun bygginganna fremur en fyrst og fremst það sem er inni í húsunum. Í því liggur aðdráttarafl gamla miðbæjarins þótt hratt sé gengið á það þessa dagana.

 

II. Fjölbreytileg úthverfi

Það er líka þörf fyrir fjölbreytileg úthverfi. Úthverfi með einbýlishúsum, raðhúsum og fjölbýlishúsum eru eðlilegur hluti nútíma borga. Sterkir byggðarkjarnar munu hins vegar gera úthverfin verðmætari og þar með fjárfestingu í byggingu úthverfahúsa hagstæðari. Aftur má nota Kaupmannahöfn sem dæmi: Þar eru hefðbundnar nýjar blokkir við Íslandsbryggju og víðar miklum mun verðmætari en ella vegna þess að þær eru í grennd við fallegan miðbæ.

Sama lögmál gildir í þorpum og bæjum um allt land. Sérstæður og fallegur byggðarkjarni gerir bæinn allan verðmætari.

 

III. Leyfa ætti samtök um stór verkefni

Sveitarfélög ættu að gefa byggingarfyrirtækjum tækifæri til að taka sig saman um að hanna og byggja húsaþyrpingar eða hverfi. Þannig geta menn fjárfest í sameiginlegri framtíðarsýn sem viðkomandi aðilar hafa trú á. Líkur eru á að slík framtíðarsýn væri betur löguð að þörfum markaðarins (sem sagt vilja almennings) en sundurlaus uppbygging eða eitthvað sem „kerfið“ telur að fólkið eigi að vilja.

 

IV. Byggingarsamvinnufélög

Sveitarfélög ættu að stuðla að því að fjölbreytilegri rekstrarform nýtist við byggingarframkvæmdir. Þannig mætti útdeila fleiri lóðum til byggingarsamvinnufélaga svo að hópar geti tekið sig saman um að reisa aðlaðandi byggingar á hagkvæman hátt. Fyrst hægt er að reka slíkar fasteignir á Manhattan hlýtur það að vera hægt í Kópavogi og á Akureyri

 húsnæði01V. Atvinnurekendahúsnæði

Nýleg dæmi eru um að atvinnurekendur á Íslandi hafi ákveðið að ráðast í byggingu húsnæðis fyrir starfsmenn. Ástæða er til að hvetja til slíks, ekki hvað síst á landsbyggðinni. Þar getur samfélagslega mikilvægur atvinnurekandi (eða samtök þeirra) tekið þátt í að leysa húsnæðisskort á starfssvæði sínu og laðað að það vinnuafl sem skortir.

Sem sterkur bakhjarl uppbyggingarinnar geta fyrirtækin líka leyst þann vanda sem felst í takmörkuðu veðhæfi og auk þess náð fram aukinni hagkvæmni með því að byggja nokkur hús samtímis. Þannig næst líka heildarmynd sem vonandi hjálpar til við að gera byggðina alla meira aðlaðandi.

Með slíkri uppbyggingu eykst líka tryggð fyrirtækisins við byggðarlagið. Það virkar líka á hinn veginn. Starfsmannavelta minnkar því starfsmenn sjá sér hag í að búa í fyrirtækisíbúð. Vel mætti hugsa sér að starfsmenn fengju kauprétt að íbúðunum t.d. eftir að hafa starfað fyrir fyrirtækið í fimm ár.

Á árum áður var algengt að fyrirtæki í verksmiðjurekstri, t.d. í Bretlandi, byggðu heilu hverfin fyrir starfsmenn sína. Þótt fyrirtækin hafi síðan í mörgum tilvikum liðið undir lok og húsin verið seld hafa hverfin yfirleitt reynst vinsæl enda hönnuð til að laða að fólk.

húsnæði02

VI. Fallegt félagslegt húsnæði

Mesta tilraunastarfsemin í byggingaframkvæmdum á sér jafnan stað þegar byggðir eru spítalar, fangelsi, stúdentagarðar eða félagslegt húsnæði. Að manni læðist sá grunur að það sé vegna þess að allt eru þetta hús sem fólk neyðist til að dvelja í.

En þótt tilraunastarfsemi í byggingarlist sé mikilvæg er ekki endilega heppilegt að gera slíkar tilraunir hjá þeim sem þurfa að reiða sig á félagslegt húsnæði. Tilraunastarfsemi með slíkt húsnæði um og upp úr miðri tuttugustu öld hafði skelfilegar afleiðingar. Byggja ætti félagslegt húsnæði sem ýtir undir samkennd íbúanna, ábyrgðartilfinningu og viljann til að taka þátt í að viðhalda húsunum og umhverfinu.

Í Brugge í Belgíu eru félagslegt húsnæði sem gegnt hefur því hlutverki frá því á 14. öld. Húsin voru upphaflega byggð af trúræknum kaupmönnum fyrir fátækt fólk í borginni og enn þann dag eru þau heimili fólks sem ekki hefur efni á að leigja annars staðar. Það þykir hins vegar heiður að fá að búa í húsunum enda umhverfið einkar notalegt og allir taka þátt í að viðhalda því. Helsti gallinn við húsnæðið er líklega ferðamenn eins og ég sem koma til að skoða húsin. Þau eru vinsæll ferðamannastaður en mér vitanlega hafa borgaryfirvöld í Brugge enn ekki fengið ábendingu frá kollegum sínum í Reykjavík um að hægt væri að rífa húsin og byggja hótel með ferðamannaverslun á jarðhæð.

 

húsnæði03

Húsnæðisstefna

Þótt mikilvægt sé að stórauka framboð á ólíku húsnæði fyrir ólíkar þarfir (búsetuúrræði heitir það á stofnanamáli) er líka mikilvægt að missa ekki sjónar af því að sú stefna sem lengi hefur verið rekin á Íslandi, sú að gera fólki kleift að eignast eigið húsnæði, hefur á heildina litið reynst vel. Leiguverð verður nánast alltaf hærra en kostnaðurinn við að borga inn á eigið húsnæði. Ástæðan er sú að sá sem legir þarf ekki bara að fjármagna vexti og afborganir eigandans heldur líka hagnað eigandans og áhættuna sem hann ber.

Undantekning væri t.d. ef fjárfestar á borð við lífeyrissjóði byggðu húsnæði á hagkvæman hátt til að leigja út með það að markmiði að ná einungis sömu ávöxtun á fjármagnið eins og ef það hefði verið lánað til fasteignakaupa (sjá fyrri grein).

Þess vegna er eðlilegt að bankar endurskoði reglur um greiðslumat og stjórnvöld taki til endurskoðunar lög um neytendalán frá 2013 nú þegar komin er reynsla á þau.

Stjórnvöld, bæði ríkið og sveitarfélög, eiga með löggjöf, efnahagsstefnu og skipulagi að skapa þær aðstæður sem gera sem flestum kleift að eignast eigið húsnæði á sem hagkvæmastan hátt. Forsendurnar til þess hafa aldrei verið betri enn nú. Það hvernig til tekst veltur annars vegar á því að finna réttu stefnuna og hins vegar á viljanum og getunni til að hrinda henni í framkvæmd.

 

04/15/17

Lausn húsnæðisvandans

Efnahagsástand landsins hefur aldrei verið jafngott. Það er ótækt að á sama tíma séu húsnæðismál í ólestri á Íslandi. Á næstunni mun ég fjalla töluvert um hvernig hægt sé að ráða bót á því en hér að neðan fylgir yfirlit yfir nokkur atriði sem þarf að laga til að leysa vandann. Þannig er hægt að nýta það einstaka tækifæri sem nú gefst til að halda áfram að bæta lífskjör í landinu.

Það kemur varla nokkrum á óvart að megin forsendan snúist um vexti og starfsemi fjármálakerfisins. Það var enda ekki að ástæðulausu sem ég lýsti því síðast liðið vor að það þyrfti umfram allt að verjast því að rof yrði á vinnu við að koma á heilbrigðu fjármálakerfi á Íslandi samhliða losun hafta. Af sömu ástæðu hafa þessi mál hafa verið mér eins hugleikin og raun ber vitni að undanförnu, þegar við blasir viðsnúningur í þeirri stefnu sem mörkuð hafði verið.

Fjármálakerfið hefur enda gríðarleg áhrif á flesta þætti þjóðlífsins, lífskjör, möguleika á hvers konar uppbyggingu og ekki hvað síst húsnæðismál. Á næstunni mun ég halda fundi þar sem ég fjalla nánar um fjármálakerfið, vaxtamálin og nauðsynlegar aðgerðir í þeim efnum. Það er framhald umræðu sem ég hóf á miðstjórnarfundi og flokksþingi í fyrra. En fyrst, í tilefni páskanna, koma tíu ráð til að lagfæra húsnæðismarkaðinn á Íslandi. Fimm þeirra birtast hér að neðan og fimm til viðbótar í næstu grein:

 

1. Lækkun vaxta

Þetta segir sig eiginlega sjálft en það er vart hægt að ofmeta hversu mikilvægt þetta atriði er. Það hefur áhrif á öllum stigum vandans. Háir vextir hækka verð á byggingarvörum, tilboð verktaka, kostnað þess sem byggir og þess sem kaupir eða leigir. Vextirnir hafa fyrir vikið áhrif á hvort menn sjái sér yfir höfuð hag í að byggja fyrir sjálfa sig eða aðra og það hvort eða hversu stórt húsnæði fólk hefur efni á að kaupa eða leigja.

Fullyrt er það vanti um 5.000 íbúðir á fasteignamarkaðinn til að koma honum í jafnvægi. Það má taka dæmi um hversu mikil áhrif mishátt vaxtastig hefði á kostnaðinn við þá framkvæmd. Lítum fram hjá þeirri staðreynd að hærri vextir hækka byggingarkostnaðinn og gefum okkur að hann sé í öllum tilfellum 300.000 krónur á fermetra. Segjum svo að meðalstærð nýju íbúðanna sé aðeins 100 fermetrar. Alls þarf þá að byggja 500.000 fermetra af íbúðarhúsnæði og það myndi kosta 150 milljarða. Segjum svo að gatnagerð og ýmis frágangur í kring kosti 25 milljarða í viðbót. Alls eru þetta þá 175 milljarðar króna.

3% vextir af 175 milljörðum nema 5.250 milljónum en 7% vextir á sömu upphæð 12.250 milljónum. Munurinn, 7.000 milljónir á ári, rynni þá í að borga hærri vexti af framkvæmdinni í stað annarra verkefna. Eða hitt, að of fáir hafi efni á að fjármagna þessar auka 7.000 milljónir til að hægt sé að ráðast í verkefnið. Mánaðarlegur vaxtakostnaður á meðalíbúðina væri 87.500 kr. m.v. 3% og 204.200 kr. m.v. 7%.

Eins og ég nefndi að ofan mun ég fjalla nánar um vaxtamálin síðar.

 

2. Aðkoma lífeyrissjóða

Íslensku lífeyrissjóðirnir halda utan um það stóran hluta af fjármagni Íslendinga að þeir þurfa að vera þátttakendur framleiðslu nýrra verðmæta í landinu, taka þátt í að búa til framboð þar sem er skortur en forðast að taka þátt í bólumyndun. Sjóðirnir geta ekki gert þá kröfu til íslenskra heimila að þau tryggi þeim miklu hærri raunávöxtun af fjárfestingu í húsnæði en lífeyrissjóðir í öðrum löndum geta vænst af sínum íbúðafjárfestingum. Enda eru fáar fjárfestingar öruggari.

Samhliða því þurfa íslensku lífeyrissjóðirnir að fjárfesta miklu meira í nýsköpun á Íslandi (nýjum störfum og nýrri verðmætasköpun) og miklu meira erlendis í stað þess að hætta á bólumyndun með því að kaupa og selja sömu eignirnar. Á því sviði eru þeir auk þess aftur komnir í samkeppni við útlendinga í vaxtamunarviðskiptum.

Norski olíusjóðurinn nemur hátt í 900 milljörðum Bandaríkjadala og hefur meira en tvöfaldast frá 2012. Olíusjóðurinn er stærsti sjóður heims og eignir hans eru slíkar að það er erfitt að setja þær í samhengi. Sjóðurinn á um 1,3% af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum og um 2,5% evrópskra hlutabréfa. Árið 2014 námu eignir sjóðsins um 166% af landsframleiðslu Noregs. Það ár námu eignir íslensku lífeyrissjóðanna um 150% af landsframleiðslu Íslands. Síðan þá hefur dregið í sundur vegna falls norsku krónunnar en samanburðurinn er engu að síður áhugaverður.

Um 80% af eignum íslensku lífeyrissjóðanna eru innanlands. Ímyndið ykkur ástandið ef norski olíusjóðurinn ákvæði að í stað þess að eiga umtalsverðan hluta af skráðum fyrirtækjum á heimsvísu ætlaði hann fjárfesta fyrir megnið af eignum sínum innan lands í Noregi. Menn geta rétt ímyndað sér hvers konar vald sjóðurinn hefði yfir efnahagslífinu (og samfélaginu) og spurt sig hvort slíkt fyrirkomulag væri æskilegt fyrir norskt efnahagslíf.

Íslenskir lífeyrissjóðir geta ekki til framtíðar byggt ávöxtun sína á því að fjármagna hallarekstur ríkisins (verðtryggt) og því að kaupa og selja hlutabréf í sömu fyrirtækjunum. Sjóðirnir þurfa að fjárfesta mun meira erlendis, taka virkan þátt í að fjármagna nýsköpun og uppbyggingu um allt land á Íslandi og því að reisa íbúðarhúsnæði sem verður örugg og verðmæt fjárfesting til framtíðar. Með því myndu sjóðirnir auk þess stuðla að auknum stöðugleika gjaldmiðilsins og lægri vöxtum innanlands.

 

3. Heimild til að ráðstafa eigin sparnaði í eigið húsnæði.

Samhliða skuldaleiðréttingunni var veitt tímabundin heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst til húsnæðiskaupa (upp að vissu marki). Nú er ástæða til að rýmka heimild fólks til að nýta séreignarsparnað til að fjármagna kaup á heimili. Heimili hvers einstaklings eða fjölskyldu er í flestum tilvikum megin eign viðkomandi og megin sparnaður á efri árum. Það hlýtur því að vera eðlilegt að gefa fólki kost á að nýta sparnað sinn til að byggja þá eign hraðar upp og draga úr vaxtabyrði á meðan hún er hvað þyngst. Ella þarf fólk að geyma sparnað sem það á með réttu á lægri vaxtatekjum en nemur vaxtagjöldunum af lántöku sem komast mætti hjá.

Ekki er víst að lífeyrissjóðirnir telji allir skynsamlegt að gefa fólki tækifæri til að ráðstafa eigin sparnaði í auknum mæli. Þeir ættu þó ekki að kveinka sér um of því þeir þurfa hvort eð er að koma meira fjármagni í ávöxtun en þeir ráða við með góðu móti, eins og fram kemur að ofan.

 

4. Raunhæfari byggingarreglugerð

Í byrjun síðasta árs voru loks kynntar tillögur um breytingar á margumræddri og íþyngjandi byggingarreglugerð frá 2012. Enn er þó þörf á að gera talsverðar lagfæringar á reglugerðinni til að draga úr sóun og óþarflega háum byggingarkostnaði, einkum vegna minni íbúða. Það má gera án þess að fórna nokkru af eðlilegum nútímakröfum um öryggis- og gæðamál.

 

5. Betri dreifing framkvæmda

Víða um land er húsnæðisskortur ekki aðeins vandamál fyrir fólkið sem skortir húsnæði heldur einnig fyrir atvinnurekendur og heilu samfélögun sem ekki geta vaxið og eflst vegna þess að ungt fólk í byggðarlaginu og þeir sem vilja flytja á staðinn og taka þátt í uppbyggingunni fá ekki húsnæði við hæfi. Í þessu efni hefur skortur á veðhæfi á svo kölluðum kaldari svæðum og flutningskostnaður sett verulegt strik í reikninginn.

Afleiðingin er sú að skekkjan á fasteignamarkaðnum eykst. Það ýtir undir ofhitnun á sumum stöðum en stöðnun annars staðar. Við þær aðstæður getur markaðurinn ekki rétt sig af heldur magnar upp öfgarnar og stuðlar að keðjuverkandi áhrifum í sitt hvora áttina. Í slíkum tilvikum er eðlilegt að stjórnvöld grípi inn í svo að kraftar markaðarins nýtist á jákvæðan hátt.

Það er ástæðan fyrir því að nauðsynlegt er að reka fasteignalánafyrirtæki sem tekur tillit til byggðasjónamiða og af sömu ástæðu getur verið rétt að beita skattalegum hvötum til að koma framkvæmdum af stað á ákveðnum svæðum. Átakið „Allir vinna“ var sett af stað um mitt ár 2010. Það fól í sér endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði (auk frístundahúsnæðis og húsnæðis í eigu sveitarfélaga). Tilgangurinn var að rjúfa óeðlilega kyrrstöðu á fasteignamarkaði og stuðla að framkvæmdum. Aðferðin reyndist vel. En slík þörf er til staðar nú, einkum á hinum kaldari svæðum og því ætti að beita sams konar hvötum til að ýta undir framkvæmdir þar sem þeirra er sérstaklega þörf.

 

Þau atriði sem ég hef nefnt hér að ofan snúa einkum að fjárhagslegum forsendum þess að ráðin verði bót á óviðunandi húsnæðisvanda sem nú setur mark sitt á samfélagið. Atriðin sem nefnd verða í seinni hlutanum snúa að samspili fjárhagslegra þátta og skipulagsmála.

03/21/17

(Við)snúningurinn

Það var búið að setja saman og hrinda í framkvæmd áætlun um haftalosun sem fól m.a. í sér að kröfuhafar bankanna skiluðu hundruðum milljarða í ríkissjóð. Samhliða því og í framhaldinu stóð til að ráðast í endurskipulagningu fjármálakerfisins. Haftalosunarferlið bæði bjó til það tækifæri og kallaði á að það yrði nýtt.

Þegar ég svo steig til hliðar sem forsætisráðherra á meðan mál væru að skýrast gekk það gegn öllu því sem ég taldi rétt og sanngjarnt en ég gerði það, eins og ég lýsti á sínum tíma, til þess að ríkisstjórnin gæti einbeitt sér að því að klára þá mikilvægu vinnu sem eftir var við haftalosunina og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Það gerði ég í trausti þess að þeir sem við tóku stæðu við sitt og ókláruð mál ríkisstjórnarinnar yrðu leidd til lykta.
Framkvæmdahópurinn hafði skilað sínu með glæsibrag og haftalosunarvinnan kláraðist en lítið gerðist af því sem pólitíkin þurfti að klára í framhaldinu eins og ég hef bent á alloft undanfarið ár.

Leikið lausum hala
Nú eru stjórnvöld að missa atburðarásina úr höndunum og vogunarsjóðir gera það sem þeim þykir best, leika lausum hala. Þeir eru nú að selja sjálfum sér Arion banka í tilraun til að auka enn ávinning sinn af þeim efnahagserfiðleikum sem Ísland lenti í. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í morgun munu þessir aðilar þá eiga bent og óbeint um 2/3 hluta bankans.
Auðvitað er ekki hægt að setja út á að fjárfestar hagnist á sanngjörnum viðskiptum. Fullvalda ríki getur hins vegar ekki sætt sig við að slíkir aðilar nái sínu fram með því að skipta sér af stjórnmálum og reyna eftir ýmsum leiðum að þvinga fram niðurstöðu sem hentar þeim.

Planið
Með stöðugleikaframlögunum þurftu vogunarsjóðirnir að fallast á að afhenda ýmsar eignir. Með því tóku þeir þátt í að skapa aðstæður svo losa mætti höft. Íslandsbanki var afhentur ríkinu í heild og samið um að ef Arion banki yrði seldur fengi ríkið megnið af söluandvirðinu. Því hærra sem verðið yrði þeim mun hærra yrði hlutfall ríkisins af hagnaðinum.

Hærra verð fól þannig í sér tvöfaldan ávinning fyrir ríkið. Þannig höfðu eigendur bankans þó engu að síður hag af því að fara vel með hann og hvata til að selja hann á sem hæstu verði. Til öryggis var svo sett inn trygging fyrir því að bankinn yrði ekki seldur of ódýrt. Hún var sú að ef verðið yrði lægra en sem næmi 80% af eigin fé bankans (0,8 á krónu eiginfjár) ætti ríkið forkaupsrétt. Ef bankinn yrði enn óseldur árið 2018 gat ríkið svo leyst hann til sín

Þannig voru hagsmunir ríkisins tryggðir hvernig sem hlutirnir kæmi til með að velkjast og sama hvort það finndust kaupendur og hverjir þeir yrðu …svo framarlega sem vogunarsjóðirnir seldu ekki sjálfum sér bankann.

Að selja sjálfum sér banka
Slíkt var óraunhæft á sínum tíma. slitabúin gátu ekki selt bankana nema með velvild stjórnvalda og reglur um eignarhald voru eitt af stóru málunum sem leysa átti úr við endurskipulagningu fjármálakerfisins. -Vinnu sem svo stöðvaðist með þeim afleiðingum sem við horfum nú upp á.

Ýmsum þykir verðið sem greitt er fyrir Arion banka lágt og það vekur athygli að verðið er aðeins 0,01 yfir því verði sem myndi virkja forkaupsrétt ríkisins. Ef þau 87% í Arion banka sem ekki eru í eigu ríkisins verða seld á sem nemur 0,81 krónu á hverja krónu eigin fjár koma rúmir 100 milljarðar í hlut ríkisins. Skuld upp á 84 milljarða verður gerð upp og í ofanálag fær ríkið 16,8 milljarða vegna hagnaðar af sölunni.

Ef hins vegar hefði verið selt á verðinu 1,2 kæmu 152,7 milljarðar í hlut ríkisins og miðað við gengið 1,5, væru það 194 milljarðar. Ef við teljum 20% álag á eigið fé eðlilegt verð (1,2) fengi ríkið því um 52 milljörðum meira í sinn hlut en það fær fyrir það verð sem vogunarsjóðirnir styðjast við þegar þeir selja sjálfum sér bankann. Þeir geta svo selt hann aftur á hærra verði eða leyst hann upp án þess að láta ríkið hafa sinn skerf.

Fleira kann að búa að baki þessari sölu sem kemur í beinu framhaldi af samningi um kaup á aflandskrónum og losun hafta en það er auðvelt að sjá hvernig aðeins þetta atriði getur munað eins og einum spítala fyrir ríkissjóð Íslands.

12/29/16

Bréf til útvarpsstjóra

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem fylgist með umfjöllun um stjórnmál á hlutlægan hátt, að frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir átta árum síðan hefur hópur starfsmanna og verktaka í Efstaleiti 1 haft eitt og annað við mig og Framsóknarflokkinn að athuga umfram flesta (alla) aðra stjórnmálamenn og -flokka.

Þegar ég vísa til Ríkisútvarpsins, eða RÚV hér að neðan, er það gert til einföldunar. Mikilvægt er að taka fram að með því er ég síður en svo að vísa til allra starfsmanna stofnunarinnar enda hefur RÚV á að skipa mörgu af besta fólki sem ég hef kynnst í störfum mínum, fyrst sem starfsmaður Ríkisútvarpsins og svo sem stjórnmálamaður.

Innan Ríkisútvarpsins er þó hópur sem hefur sterkar skoðanir á pólitík og samfélagsmálum almennt og er ófeiminn við að sýna það í störfum sínum. Það væri synd að segja að umræddur hópur hafi haft samúð með áherslumálum mínum í stjórnmálum, svo ekki sé meira sagt. Þennan hóp hef ég kallað SDG-RÚV-hópinn eftir áhugasviðinu en læt sem fyrr segir nægja að tala um RÚV til einföldunar.

Áður en ég kem að meginerindinu leyfi ég mér, samhengisins vegna, að rifja upp nokkur dæmi. 

Fyrstu dagarnir

Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar féll í byrjun árs 2009 hófust viðræður um myndun minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vg til bráðabirgða eða fram að kosningum þremur mánuðum seinna. Slík stjórnarmyndun var háð því skilyrði að stjórnin nýtti það einstaka tækifæri sem þá var til staðar til að lækka skuldir almennings (m.a. með því að yfirtaka kröfur bankanna á hrakvirði og færa þær niður).

Því er ekki að neita að Ríkisútvarpið hafði verið liðtækt við að fella ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en ætlaðist greinilega ekki til að Framsóknarflokkurinn eða nýr formaður hans (og fyrrverandi starfsmaður stofnunarinnar) hefðu miklu hlutverki að gegna í framhaldinu.

Það er að minnsta kosti ekki hægt að halda því fram að stofnunin hafi haft miklar áhyggjur af því hvort eða hvernig minnihlutastjórnin myndi uppfylla skilyrði um skuldaniðurfærslu. Þess í stað var lögð ofuráhersla á að þrýsta á um að stjórninni yrði komið á koppinn.

Á meðan ég var að reyna að knýja á um að forystumenn Samfylkingarinnar og Vg staðfestu með hvaða hætti þeir ætluðu að uppfylla skilyrðin var stöðugt þrýst á mig að lýsa því yfir að Framsókn myndi verja minnihlutastjórnina. Í tilfinningahitanum, sem þá ríkti, spurði grátandi fréttamaður mig hvað ég væri eiginlega að gera, hvort ég ætlaði ekki að fallast á myndun ríkisstjórnar áður en allt færi til fjandans?

Að bæta enn skuldum á almenning

Í Icesave-stríðunum bar ekki mikið á að Ríkisútvarpið sýndi samstöðu með íslenskum almenningi. Erfitt eða ómögulegt var að koma á framfæri fréttum af staðreyndum sem studdu réttarstöðu og vígstöðu Íslands. Hins vegar voru endalaust kallaðir til »fræðimenn« sem útskýrðu að Íslendingum bæri að taka kröfurnar á sig. Ýmist vegna þess að það væri lagaleg skylda, efnahagsleg nauðsyn eða jafnvel að Íslendingar hefðu bara gott af því að borga þetta. Þeir sem þar gengu harðast fram eru enn þann dag í dag fengnir til að leggja mat á mig og stöðu mína á RÚV.

Eftir að forsetinn synjaði Icesave-lögunum staðfestingar í fyrra skiptið fór ekki á milli mála að margir innan stofnunarinnar töldu ábyrgð mína mikla. Ég fékk t.d. skilaboð um að hringja í fréttamann á Útvarpinu til að svara spurningum um málið. Ég hringdi og þegar fréttamaðurinn svaraði heilsaði hann með því að segja: »Hvað segir þú skíthæll?« Svo var ég beðinn að koma í Efstaleiti í viðtal þar sem ég fékk ekki mikið betri móttökur. Æstur starfsmaður fréttastofunnar (sem greinilega trúði eigin áróðri) spurði mig: »Hvað ert þú eiginlega búinn að gera, nú hrynur allt!«

Þegar forsetinn synjaði svo í seinna skiptið var ég staddur erlendis en fékk símtal frá fréttastofu RÚV og ekki í þeim tilgangi að flytja mér hamingjuóskir. Eftir að ég hafði lýst því að þetta væri góð niðurstaða var skellt á mig.

Kosningar

Fyrir kosningar 2009 var enginn skortur á viðmælendum sem útskýrðu að skuldalækkun og forsendur hennar væru eintómur popúlismi. Það sama var upp á teningnum 2013. Þá fengu menn stöðugt að heyra að ég væri með óábyrgar og óframkvæmanlegar hugmyndir og væri að skapa óraunhæfar væntingar. Enginn skortur var á sérfræðingum til að útskýra hversu vitlaust þetta væri allt saman og reglulega var minnt á eignarrétt kröfuhafa.

Viðtekin venja

Að ofan hef ég aðeins nefnt örfá dæmi. Við þau bætast meðal annars ótal pistlar fastráðinna starfsmanna og verktaka, umfjöllun í umræðuþáttum og jafnvel barnaefni. Í viðtalsþáttum í útvarpi og sjónvarpi hef ég svo fengið sérstakar trakteringar, jafnvel frá þeim sem að öllu jöfnu gera út á að vera »laufléttir« og lausir við pólitík.

Það er svo sem ekki eins og viðhorf þessa fólks til mín og annarra stjórnmálamanna séu sérstakt leyndarmál. Um það bera vott yfirlýsingar á mannamótum og jafnvel í viðtölum. Svo ekki sé minnst á facebook, twitter og blogg þar sem sama fólk lýsir skoðunum sínum á mér og öðrum stjórnmálamönnum. Það eitt fyllir tvær þykkar möppur.

Vald án ábyrgðar

Ríkisútvarpinu er falið mikið vald í lögum en því valdi eiga líka að fylgja ábyrgð og skyldur. Það var göfug hugmynd að stofna ríkisútvarp til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að fróðleik, afþreyingu og hlutlægum fréttum. Þegar lögð er sú kvöð á almenning að hann greiði fyrir slíka þjónustu hvort sem mönnum líkar betur eða verr er sjálfsögð krafa að stofnunin fari að lögum. Það getur varla talist ásættanlegt að pólitískir aktívistar fái gagnrýnilaust að nota slíka ríkisstofnun til að reka eigin áróður.

Þrátt fyrir að vald lýðræðislega kjörinna fulltrúa fari stöðugt minnkandi er ætlast til að þeir taki allri gagnrýni, helst án þess að svara fyrir sig. Meðferð Ríkisútvarpsins á valdi virðist hins vegar hafin yfir gagnrýni, og ekki bara það, það er beinlínis talið óviðeigandi að gagnrýna stofnunina.

Það er reyndar nokkuð almenn regla á fjölmiðlum, og hefur lengi verið, að játa aldrei mistök og biðjast aldrei afsökunar (nema það snúi að einhverjum sem tilheyrir þóknanlegum og ógagnrýniverðum hópi fólks). Þetta var löngu orðið ríkjandi viðhorf á RÚV þegar ég starfaði þar. Nú er hins vegar svo komið að gagnrýni flokkast nánast sem afbrot.

Refsing við afbrotum

Þeir sem fremja slíkt brot eru gjarnan sagðir hafa vegið að starfsheiðri RÚV-arans. Það virðist hins vegar ekki vera til neitt sem kallast að vega að starfsheiðri stjórnmálamanna. Þó eiga þeir vinnu sína undir starfsheiðri sínum á fjögurra ára fresti, í mesta lagi.

Svo er það sem ætti að valda enn meiri áhyggjum: Í seinni tíð hefur stofnunin talið sér sæmandi að gerast allt í senn, ákærandi, rannsakandi, saksóknari, dómari og böðull í tilteknum málum. Í stað þess að segja fréttir og lýsa atburðarás eru fréttir búnar til og atburðarás hönnuð.

Fólk sem lendir í því að stofnunin taki afstöðu gegn því má sín yfirleitt ekki mikils. Það er ekki aðeins vegna þess að RÚV getur stýrt túlkuninni og mótað afstöðu með því að beita öllu frá fréttum að skemmtiefni. Þeir sem voga sér að gera athugasemd eiga líka á hættu að kalla yfir sig enn meiri neikvæða umfjöllun því viðbrögðin eru oft þau að bæta í til að reyna að réttlæta fyrri ásakanir og sýna að meðferðin á viðkomandi hafi ekki verið tilhæfulaus. Við þessar aðstæður er ekki að undra að margir veigri sér við því að standa á rétti sínum.

Erindið

Þrátt fyrir ofangreinda hættu á refsingum get ég ekki annað en gert athugasemdir við að Ríkisútvarpið skuli á árinu 2016 hafa stigið það skref að leita samráðs við utanaðkomandi og erlenda aðila um að steypa ríkisstjórn Íslands af stóli. Þar notast ég við skilgreiningu sænsks samstarfsmanns RÚV sem sagðist síðastliðið vor vera á leið til Íslands til að framkvæma „coup“.

Þátttaka RÚV í verkefninu tók á sig ýmsar myndir. Áður en dæmalaus Kastljóssþáttur var sýndur var til að mynda hringt í tvígang í þingmenn stjórnarflokkanna til að fá álit þeirra á stöðu minni og ríkisstjórnarinnar. Mér vitanlega var ekki birt ein frétt, ekki einn viðtalsbútur við þá sem vörðu forsætisráðherrann og ríkisstjórnina. Aðeins ef tókst að ná í setningar sem hægt var að túlka sem gagnrýni voru svörin birt. Einn þingmanna stjórnarliðsins sem lenti í slíku sá þann kostinn vænstan að senda frá sér tilkynningu til að reyna að leiðrétta túlkun RÚV.

Svo var það hinn ótrúlegi Kastljóssþáttur. Þáttur sem var auglýstur dagana á undan eins og glæpamynd. Eins og komið hefur fram voru væntingarnar það miklar eða samstarfið það gott að mótmæli voru undirbúin og skipulögð dagana áður en þátturinn var sýndur.

Ég mun síðar fjalla betur um þá atburðarás alla en helstu staðreyndir ættu að vera flestum kunnar, þ.m.t. útvarpsstjóra. Þátturinn byggðist að sögn þeirra sem að honum komu á margra mánaða undirbúningsvinnu og gögnum sem sjónvarpsmönnum var skammtað af einhverjum dularfullum mönnum í útlöndum. Með fylgdu spurningar sem átti að spyrja. Úr þessu var búin til óskiljanleg moðsuða sem gekk út á að gefa til kynna að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu framið afbrot með því að fela eignir í skattaskjólum.

Ýmiss konar þvættingi öðrum var blandað inn í frásögnina og loks stuðst við falsað viðtal við mig. Viðtal sem menn höfðu beinlínis æft hvernig mætti láta koma sem verst út fyrir viðmælandann og rugla hann sem mest í ríminu um hvað verið væri að ræða. Viðtal sem var tekið á fölskum forsendum og í framhaldi af samskiptum sem að öllu leyti byggðust á hreinni lygi af hálfu starfsmanna og samstarfsmanna RÚV. Viðtal sem svo var klippt sundur og úr samhengi og svörtum fílter og öðrum tæknibrellum beitt í ofanálag. Á allan hátt óheiðarlega að verki staðið af hálfu samstarfsmanna Ríkisútvarpsins.

Á þessu byggði RÚV umfjöllun sína og eftirfylgni næstu daga og mánuði.

Skýringar og staðreyndir skiptu engu

Ekkert tillit var tekið til þeirra skýringa sem veittar höfðu verið. Vikum saman höfðum við hjón þó leitast við að svara öllu sem hægt var að svara og það blindandi því að sjónvarpsmennirnir vildu ekki sýna um hvaða gögn þeir voru að spyrja. Þess var reyndar getið í fréttum RÚV að ég og kona mín hefðum sent frá okkur greinargerð um málið en það sem þótti helst fréttnæmt var hversu löng greinargerðin var.

Allt sem ekki studdi við hina fyrir fram skrifuðu sögu var virt að vettugi. Þannig hringdu sjónvarpsmennirnir t.d. í bankamenn erlendis og fengu þar þau svör að skýringar okkar hjóna á tilurð fyrirtækisins væru líklega réttar. Bankamennirnir fengu að heyra að þetta væru ekki þau svör sem leitað væri eftir og að sjálfsögðu var ekkert með þau gert frekar en annað sem ekki studdi við handritið.

Ef tekið hefði verið tillit til skýringanna hefði líka fallið um sjálfa sig undarleg samsæriskenning um að ég hefði selt eiginkonu minni hundraða milljóna eignir til að komast hjá einhvers konar skráningu. Tilgáta sem sjónvarpsmennirnir höfðu bitið í sig vegna þess að þeir skildu ekki gögnin sem þeim voru send og gátu svo ekki hugsað sér að draga í land.

Framganga Ríkisútvarpsins var öll með mestu ólíkindum og á engan hátt skyld því sem mér var á sínum tímum kennt að væru grundvallarreglur fréttamennsku.

Eins og erlendis?

Nokkuð hefur borið á því að RÚV hafi reynt að afsaka framgöngu sína í málinu með því að vísa til þess að hún hafi verið í samræmi við umfjöllun erlendra fjölmiðla. Það er fjarri lagi.

Í fyrsta lagi byggðist umfjöllun erlendra miðla, að því leyti sem hún var á skjön við raunveruleikann, einkum á upplýsingum frá RÚV og samverkamönnum þess. Þannig bárust undarlegar fullyrðingar og fyrirspurnir frá allmörgum erlendum miðlum og þegar sýnt var fram á að fullyrðingarnar væru alrangar viðurkenndu sumir hinna erlendu fréttamanna að þeir hefðu fengið efnið sent frá Íslandi. Með öðrum orðum; RÚV og samverkamenn þess voru ekki að fylgja fordæmi erlendra miðla heldur að mata þá til að reyna að beita þeim fyrir sig í íslenskri pólitík.

Enda er ólíku saman að jafna þegar framganga RÚV er borin saman við erlenda miðla. Ég bendi útvarpsstjóra t.d. á að bera saman umfjöllun breskra miðla um forsætisráðherra Breta vegna Panama-skjalanna við það hvernig stofnunin sem hann stýrir vann úr því að finna nafn mitt í sömu skjölum.

Breska pressan er ekki rómuð fyrir miskunnsemi og sanngirni en umfjöllun um mál Camerons var þó á allan hátt yfirvegaðri en framganga RÚV hér heima. Breski forsætisráðherrann hafði þó ólíkt þeim íslenska hagnast á að hafa fjölskyldueignir í skattaskjóli. En auðvitað er það aukaatriði þegar markmiðið er að fella ríkisstjórn.

Breska dagblaðið Guardian, sem fylgir sömu pólitísku stefnu og RÚV og var hluti af þeim hópi fjölmiðla sem létu skammta sér Panama-upplýsingarnar, tók þó sérstaklega fram að blaðið hefði ekki séð neinar upplýsingar sem bentu til lögbrota eða óheiðarlegs ávinnings íslenska forsætisráðherrans eða konu hans.

Meira að segja sænska útgáfa Kastljóssþáttarins, sem stýrt var af samverkamanni RÚV, sem mér var síðar gert ljóst að þætti alræmdur “fauti” í sinni stétt, komst ekki í hálfkvisti við útgáfu RÚV. Fautinn hafði auk þess á orði að hann hefði haft efasemdir um hvort forsvaranlegt væri að ganga eins langt og gert var.

Eftirmálin

Eftir því sem frá leið þurfti enginn að efast um hvert væri megin skotmarkið. Þegar ég hafði stigið til hliðar hvarf skyndilega allur áhugi á Panama-skjölum og því hvaða nöfn hefðu birst þar og hvers vegna. Við tóku áhyggjur nokkurra RÚV-aktívista af því að ég kynni að halda áfram í stjórnmálum. Þær áhyggjur leyndu sér ekki á mannamótum og samfélagsmiðlum. Eftir fylgdu afar sérstæð afskipti af málefnum Framsóknarflokksins, köllum það einlægan áhuga. Sá áhugi birtist m.a. í beinum útsendingum frá hverjum Framsóknarfundinum á eftir öðrum auk reglubundinna viðtala við fólk sem menn vissu hvar þeir hefðu.

Meira að segja í kosningasjónvarpi RÚV sáu þáttastjórnendur ástæðu til að hefja þáttinn á geðvonskuathugasemdum um mig og spurningu um hvort ég ætlaði ekki að biðjast afsökunar. Það var svo sem ágætt að fá tækifæri til að svara hinum undarlegu athugasemdum en þó hefur ekki verið venjan á Íslandi að menn séu krafðir um afsökunarbeiðni fyrir að á þá hafi verið ráðist. Slíkt þekkist vissulega sums staðar í heiminum þar sem fólk er látið biðjast afsökunar, jafnvel refsað fyrir að á það hafi verið ráðist ef það tilheyrir ekki réttum þjóðfélagshópi. Í menningarbyltingunni í Kína var þetta t.d. viðtekin venja. En þetta hefur ekki verið siður á Íslandi.

Varla þarf að taka fram að áhugi Kosninga-RÚV á öðrum Panama-málum var svo gott sem enginn.

Staðreyndirnar

Víkur þá sögunni að nokkrum staðreyndum um málið sem RÚV nýtti á þann hátt sem ég lýsti hér að ofan.

1. Skattar greiddir eins fyrir íslenskt félag

Hvorki ég né eiginkona mín áttum eignir í skattaskjóli. Eignir eiginkonu minnar hafa verið í fjárstýringu hjá erlendum banka, frá því við vorum búsett erlendis. Erlent félag, sem þáverandi viðskiptabanki skráði og gaf nafnið Wintris, hélt utan um eignirnar. Því fyrirkomulagi var ekki á nokkurn hátt komið á til að draga úr skattgreiðslum á Íslandi. Enda hafa eignirnar í skattframtölum verið taldar fram sem eignir eiginkonu minnar og tekjur af þeim sem tekjur hennar. Kona mín sýndi þannig einbeittan vilja til að greiða til samfélagsins og enga tilburði til að nýta tækifæri til annars.

2. Aldrei reynt að fela það

Enda sá hún aldrei ástæðu til að fela tilvist félagsins eða skráningarlands þess. Það hefur birst á skattframtölum frá upphafi, nafn, skráningarland og eignir. Auk þess hafði ég löngu ákveðið með ríkisstjórninni að kaupa gögn um félög erlendis (sömu gögn og Ríkisútvarpið byggði umfjöllun sína á) og afhenda skattrannsóknarstjóra. Það skipti mig engu hvaða upplýsingar væri að finna í þeim “Panama-skjölum” enda aldrei reynt að fela tilvist félagsins.

3. Ekki bara samviskusöm heldur fórnfús

Ekki aðeins sýndi kona mín einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu og afþakkaði auk þess alla möguleika á að fresta eða draga úr skattlagningu á Íslandi. Hún sýndi líka að hún var reiðubúin til að fórna eins miklu og þurfa þætti svo að samfélagið gæti komist á réttan kjöl. Hún hafði átt eignir í hinum föllnu bönkunum í formi skuldabréfa sem lagalega voru eins og hverjar aðrar innistæður. Flestar af þessum eignum töpuðust eða voru teknar til að gera að fullu upp við þá sem áttu sams konar eignir skráðar sem innistæður eða í peningamarkaðssjóðum (sem eru skuldabréf). Samt studdi hún mig í þeirri baráttu að ganga enn á það sem eftir var af eignunum hennar svo hægt væri að koma til móts við skuldsett heimili og rétta af efnahagslíf landsins.

Ég hafði ekki kunnað við að stæra mig af þessu en Kastljós sneri því á hvolf og gaf í skyn að það væri stórkostlega grunsamlegt að vera reiðubúinn til að fórna eigin hagsmunum. Ekkert hefur farið fyrir umræðu um hagsmunatengsl þeirra sem tóku ákvörðun um að verja innistæður og eignir einstaklinga í peningamarkaðssjóðum upp á hundruð milljóna eða milljarða (og það á kostnað konu minnar og annarra).

Réttlæti RÚV felst í að níða þá í svaðið sem eru tilbúnir að fórna eigin hagsmunum en líta fram hjá því þegar menn verja eigin hagsmuni. Það er sitt hvað réttlæti og RÚV-læti

4. Nýtti ekki tækifæri til að hagnast á íslenskum aðstæðum

Efnaðasta fólk á Íslandi eru þeir sem áttu peninga erlendis eftir hrun og nýttu þá til að kaupa á brunaútsölunni á Íslandi. Þeim sem áttu fjármagn í útlöndum bauðst að kaupa íslenskar krónur af Seðlabankanum á afslætti. Vextir voru settir í hæstu hæðir, jafnvel þótt um verðtryggðar eignir væri að ræða. Eiginkona mín ákvað hins vegar að á meðan ég væri í stjórnmálum kæmi ekki til greina að nýta slík tækifæri til að hagnast á aðstæðum á Íslandi enda hætt við að það hefði þótt orka tvímælis.

Hvað ætli Kastljós hefði sagt ef eiginkona mín hefði keypt krónur á afslætti og ávaxtað þær á háum verðtryggðum vöxtum á Íslandi eða notað þær til að kaupa t.d. hlutabréf í Icelandair?

Niðurstaða

Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu, þrátt fyrir að engu hafi verið haldið leyndu um hið erlenda félag og þrátt fyrir óþrjótandi vilja konu minnar til að fórna meiru fyrir samfélagið í stað þess að nýta sér neyð þess, hefur hún mátt þola að verða skotmark Ríkisútvarpsins og samverkamanna þess í þeim tilgangi að ná á mig höggi.

Við það var beitt aðferðum sem standast hvorki siðferðilegt, faglegt né lagalegt mat.

Því spyr ég útvarpsstjóra:

Eru þessi vinnubrögð samboðin þeirri stofnun sem þú stýrir og í samræmi við hlutverk hennar?

En ég spyr líka spurningarinnar sem við vitum líklega flest svarið við:

Ert þú reiðubúinn til að biðja mig afsökunar fyrir hönd Ríkisútvarpsins og ef ekki mig þá eiginkonu mína, konu sem átti svo sannarlega ekki skilið að fá þá meðferð sem hún hlaut af hálfu Ríkisútvarpsins á árinu 2016?

 

Textinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 29.12.2016