10/26/16

Stefnan tekin í Norðaustur

Eftir flokksþing Framsóknarmanna og atburði sem því tengdust lýsti ég því yfir að ég myndi helga mig málefnum Norðausturkjördæmis og því að kjördæmið fengi notið þeirra tækifæra sem þar liggja. Það er enda hagur landsins alls að Norðausturkjördæmi gangi vel.

Eins og flestum má vera ljóst gramdist mér mjög að menn skyldu taka þá ákvörðun að flýta kosningum og hætta við að leggja fram fjárlög. Mér mislíkaði þetta af mörgum ástæðum. Ein var sú að ég hafði vikið úr embætti forsætisráðherra um tíma, á meðan mál væru að skýrast, einmitt svo að ríkisstjórnin gæti komist hjá slíkum útspilum. Þess í stað gæti hún þá einbeitt sér að því að klára þau verkefni sem útaf stóðu. Önnur ástæða er sú að með þessum ákvörðunum varð lítið úr þeirri sókn sem ég hafði boðað í byggðamálum enda þótt tekist hefði að skapa þær efnahagslegu aðstæður sem voru forsenda slíkrar sóknar.

Allt er til reiðu

Aðalatriðið er þó það að grunnurinn hefur verið lagður. Með blöndu hefðbundinna en oft erfiðra aðgerða í ríkisrekstrinum og óhefðbundinna aðgerða sem hvergi höfðu verið reyndar áður tókst að gjörbylta stöðu og framtíðarhorfum ríkissjóðs til hins betra. Það er því allt til reiðu svo ráðast megi í þær aðgerðir sem taldar verða upp hér að neðan. Það þarf að gera bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum.

Veiðigjöldunum skilað

Engin ríkisstjórn hefur skilað jafnmiklum veiðigjöldum í ríkiskassann og stjórnin sem starfaði frá 2013-2016. Það er nauðsynlegt að þessi gjöld og önnur auðlindagjöld sem kunna að vera lögð á skili sér aftur í byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er í raun nánast hreinn landsbyggðarskattur. Tugir milljarða eru teknir út úr samfélögum hringinn í kringum landið. Þessu þarf að breyta.

Þriðjungur veiðigjaldanna ætti að renna til sveitarfélaganna utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið, einkum nýsköpun á sviði atvinnumála og þriðjungur í sérstök sóknarverkefni sem gera byggðir landsins að eftirsóknarverðari stöðum til að búa, starfa og fjárfesta. Það á t.d. við um menningarmál og fegrun byggða m.a. í gegnum verkefnið „verndarsvæði í byggð“.

Dreifing ferðamanna um landið

Sú áætlun sem lýst er að ofan mun gera byggðir landsins, ekki hvað síst hina fögru bæi og náttúru Norðausturkjördæmis, að enn eftirsóknarverðari ferðamannastöðum. En til viðbótar þarf sértækar aðgerðir til að dreifa ferðamönnum betur um landið og nýta þar með betur þá auðlind sem í landinu liggur.

Bæta þarf samgöngumannvirki, t.d. með malbikun Dettifossvegar til að klára „demantshringinn“ sem yrði gríðarlega sterk söluvara í ferðaþjónustu. Flugþróunarsjóðurinn sem forsætisráðuneytið vann að því að koma á fyrr á kjörtímabilinu skiptir sköpum við að opna nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum. En meira þarf að koma til. Bæta þarf aðstöðu á flugvöllunum (fjárfesting í Keflavík nemur tugum milljarða) og jöfnun flutningskostnaðar á eldsneyti er nauðsynleg til að gera þessa flugvelli betur samkeppnishæfa við Keflavíkurvöll.
Sátt virðist hægt að ná um hækkun komugjalda. Rétt er að a.m.k. hluti þeirrar gjaldheimtu renni til sveitarfélaga. Á sama tíma og við hækkum komugjöld í Keflavík mætti halda komugjöldum á Akureyri og Egilsstöðum umtalsvert lægri til að skapa aukinn hvata fyrir flugfélög að nýta þá flugvelli.

Tekjustofnar sveitarfélaga

Sveitarfélög bera að miklu leyti hitann og þungann af fjölgun ferðamanna. Þau hafa ekki fengið auknar tekjur til samræmis við það. Að hluta til koma endurheimtur auðlindagjalda til móts við þann vanda en einnig þarf að færa sveitarfélögum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu. Þar þarf þó að huga að því að megnið af kostnaðinum við innviðauppbyggingu fellur til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum, t.d. gistináttagjöld, eru lögð á í borginni. Þess vegna þurfa komugjöld að renna til sveitarfélaganna svo að þau geti staðið straum af nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er líka eðlileg krafa í ljósi þess hversu mikið hallar á sveitarfélögin hvað varðar tekjuskiptingu.

Skattalegir hvatar

Lengi hefur verið rætt um að æskilegt gæti verið að veita skattalegar ívilnanir til fólks og fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi hefur m.a. verið litið til Noregs. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að innleiða slíka stefnu. Í henni felst að tryggingargjald verður lægra því fjær sem reksturinn er frá Reykjavík en einnig búsetustyrkir, þ.m.t. ferðastyrkir til þeirra sem þurfa að ferðast langa vegalengd til og frá vinnu. Einnig er ástæða til að líta til fyrirmynda í Noregi varðandi endurgreiðslu námslána þar sem fólk sem starfar utan höfuðborgarsvæðisins fær sérstaka niðurfærslu námslána.

Opinber störf

Við munum innleiða í stjórnkerfið hvata til að ný störf hjá hinu opinbera verði til á landsbyggðinni. Setja ætti reglu um að störfum hjá opinberum stofnunum fjölgi ekki á höfuðborgarsvæðinu. Vilji opinberar stofnanir, ráðuneyti osfrv. fjölga starfsfólki þurfa þær að búa til, eða auka við, starfsaðstöðu á landsbyggðinni og ráða fólk þar.

Innviðir

Fjölgun íbúa og starfa og aukin fjárfesting utan höfuðborgarsvæðisins er háð því að innviðirnir séu samkeppnishæfir. Ljósleiðaravæðing landsins alls verður forgangsverkefni á nýju kjörtímabili. Gagnrýni á að ekki skuli hafa verið gengið lengra í þeim efnum á kjörtímabilinu er réttmæt. Hins vegar er nú allt til reiðu, skipulag og fjármagn til að ráðast í ljósleiðaravæðingu landsins.
Samgöngumál hafa setið á hakanum í meira en áratug, fyrst vegna þenslu og svo vegna kreppu. Nú er tímabært og mögulegt að hefja átak í samgöngumálum. Losna við einbreiðar brýr af þjóðveginum, laga hættulega vegaspotta og ráðast í Fjarðarheiðargöng og fleiri mikilvægar samgönguúrbætur í kjördæminu.

Innanlandsflug

Fullreynt er að hægt sé að ná samstarfi við núverandi borgaryfirvöld um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Flugvöllurinn er þjóðareign og megnið af landinu sem hann stendur á í eigu ríkisins. Afsal ríkisins á landi undir þriðju flugbrautinni (neyðarflugbrautinni) stenst ekki lög.
Fullt tilefni er til að greiða niður ferðir íbúa landsbyggðarinnar í innanlandsflugi. Fordæmi frá Skotlandi munu reynast vel í því efni. Hins vegar þarf að tryggja aukið opinbert eftirlit, með fulltingi samkeppnisyfirvalda, til að tryggja að niðurgreiðslan nýtist í raun til verðlækkunar. Álagning á ákveðnum flugleiðum innanlands er nú þegar of mikil og nauðsynlegt að tryggja að niðurgreiðsla ríkisins hverfi ekki með enn aukinni álagningu.

Heilbrigðisþjónusta
Á kjörtímabilinu hefur tugum milljarða verið bætt í heilbrigðismálin. Að mestu leyti hefur sú aukning fallið til á Landspítalanum. Á sama tíma hafa heilbrigðisstofnanir víða á landsbyggðinni ekki enn náð fyrri styrk. Þetta þarf að leiðrétta með því að hverfa frá áformum um aukna samþjöppun í heilbrigðisþjónustu. Byggja skal nýjan 21. aldar landspítala við Vífilsstaði en viðhalda um leið spítalarekstri í grennd við Reykjavíkurflugvöll í Fossvogi eða í nýrri húsum spítalans við Hringbraut. Um leið þarf að nýta betur innviði heilbrigðisþjónustunnar utan Reykjavíkur, stækka Sjúkrahúsið á Akureyri og veita heilbrigðisstarfsfólki hvata til að starfa á landsbyggðinni, annars vegar með betri starfsaðstöðu og hins vegar með fjárhagslegum hvötum á borð við niðurfærslu námslána.
Við fyrstu sýn virðist kosta meira að halda úti heilbrigðisþjónustu víða um land í stað þess að hafa hana á einum stað. En við mat á hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu hefur iðulega verið litið framhjá stórum hluta þess kostnaðar sem hlýst af slíkri breytingu. Það á m.a. við um ferðakostnað sjúklinga og vandamanna þeirra, dvalarkostnað, vinnutap og svo stærsta kostnaðarliðinn af öllum: Hann fellst í því að þegar heilbrigðisþjónusta er skert á einum stað skerðir það möguleika samfélagsins á að halda í fólk og fyrirtæki eða að laða að nýja íbúa og fjárfestingu. Fátt hefur meiri áhrif á ákvarðanir um staðarval en spurningin um hvort boðið sé upp á viðunandi heilbrigðisþjónustu.
Ekki má gleyma því að víða eru samgöngur mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu. Samgönguhindranir eins og Víkurskarð geta komið í veg fyrir að fólk geti nýtt þá heilbrigðisþjónustu sem því er ætlað. Það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að losna þarf við slíkar hindranir á Norður- og Austurlandi með framkvæmdum eins og Vaðlaheiðargöngum. Reyndar er álitamál hvort það sé forsvaranlegt að láta íbúa Norðausturlands greiða sérstaklega fyrir að komast leiðar sinnar innan sama atvinnu- og þjónustusvæðis.

Menntamál

Kostnaður á hvern nemanda í minni framhaldsskólum verður óhjákvæmilega meiri en í stóru framhaldsskólunum á höfuðborgarsvæðinu. Ávinningurinn af því að gera nemendum kleift að ljúka framhaldsnámi í, eða nærri, heimabyggð er þó miklu meiri en nemur kostnaði af því að reka framhaldsskóla hringinn í kringum landið. Það er því mikilvægt að fjárveitingar séu nægar til að gera skólunum kleift að rækja hlutverk sitt til fulls. Það á ekki hvað síst við um verkmenntaskólana.
Mikilvægi Háskólans á Akureyri er ótvírætt. Skólinn hefur sannað svo ekki verður um villst mikilvægi þess að taka stórar ákvarðanir um uppbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins og gera það með hliðsjón af heildaráhrifum og langtímaáhrifum en ekki bara kostnaði til eins árs. Með samkomulagi ríkisins við HA er hægt að gera skólanum kleift að auka við framboð á mikilvægum sérsviðum, t.d. nám í tæknigreinum, sem svo mun nýtast við vöxt atvinnulífs og verðmætasköpunar um allt land.

Sjávarútvegur

Samhliða þeirri nýsköpun sem ég hef lýst verður starfsumhverfi hefðbundinna undirstöðuatvinnugreina kjördæmisins styrkt. Einstakur árangur íslensks sjávarútvegs byggist á kerfi sem gerir honum kleift að gera langtímaáætlanir. Eigi sjávarútvegur áfram að geta skilað samfélaginu verulegum fjárhagslegum ávinningi, verið burðarstólpi í atvinnulífi byggðarlaga og staðið undir fjárfestingu og nýsköpun þarf greinin að búa við starfsöryggi. En einnig þarf að auka öryggi byggðarlaga sem hafa reitt sig á sjávarútveg. Það má gera með aukinni byggðatengingu.

Landbúnaður

Landbúnaður verður áfram ein af undirstöðuatvinnugreinum kjördæmisins. Fallandi afurðaverð kallar á aðlögun af hálfu stjórnvalda. Sé litið til heildaráhrifa er stuðningur við innlenda matvælaframleiðendur og þar með neytendur mikilvæg efnahagsleg aðgerð en einnig byggða- menningar- og lýðheilsumál.
Með stuðningi við landbúnað tryggjum við undirstöðu byggðar um allt land, leggjum grunn að uppbyggingu annarra greina á borð við ferðaþjónustu, viðhöldum þúsundum starfa, tryggjum heilnæm og góð íslensk matvæli og spörum sem nemur um 50 milljörðum króna í gjaldeyri á ári. Framsókn-NA mun standa með íslenskri matvælaframleiðslu.

Iðnaður 

Mikilvægt er að stjórnvöld hlutist til um að uppbygging á sviði iðnaðar eigi sér stað sem víðast á landinu. Eigi markaðurinn einn að ráða för mun slík uppbygging fyrst og fremst verða í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem mest framboð er af vinnuafli og veðhæfi fasteigna mest. En þegar verkefni eru komin af stað annars staðar hafa þau þeim mun meiri margfeldisáhrif og styrkja byggð og alla starfsemi til muna. Á slíkum stöðum er iðnaðaruppbygging til þess fallin að styðja við alla aðra starfsemi á atvinnusvæðinu.
Stjórnmálamenn þurfa því að hafa þor til að beita sér fyrir því að ríkisvaldið liðki fyrir uppbyggingu á sviði iðnaðar utan höfuðborgarsvæðisins. Slíkan hvata skortir ekki aðeins hjá hinum frjálsa markaði heldur líka í stjórnkerfinu. Þess vegna þurfa kjörnir fulltrúar almennings að vera óhræddir við að beita sér til að rétta þá skekkju af. Nýleg dæmi sýna að ekki aðeins hefur kerfið tilhneigingu til að þvælast fyrir því að slík verkefni fari af stað, það getur jafnvel gripið inn í til að stöðva stór og mikilvæg verkefni sem eru þegar farin af stað. Ríkisstjórnin þarf strax í þessari viku að setja bráðabirgðalög svo hægt sé að halda áfram vinnu við að tengja Þeistareiki við Kröflu og uppbygginguna á Bakka. Ella geta getur því mikilvæga verkefni verið stefnt í óvissu mánuðum saman og það jafnvel sett í uppnám fyrir vikið.

Forsendurnar – er þetta hægt?

Öll þau verkefni sem ég hef rakið í greinunum tveimur um Norðausturstefnu Framsóknarflokksins snúast um að tryggja heildarhagsmuni samfélagsins og gera það með því að líta til heildaráhrifa og langtímaáhrifa af þeirri stefnu sem unnið er eftir fremur en að horfa bara kostnaðar til eins árs.

Allt er þetta framkvæmanlegt og raunar nauðsynlegt. Á þremur árum höfum við gjörbreytt stöðu og horfum í rekstri ríkisins til hins betra. Grunnurinn hefur aldrei verið jafnsterkur. Nú þegar við hefjumst handa við að byggja ofan á þann grunn er grundvallaratriði að við fjárfestum í landinu öllu. Stórsókn í byggðamálum er einmitt það, fjárfesting til framtíðar. Þetta snýst ekki um eyðslu heldur fjárfestingu sem skila mun samfélaginu ávinningi til langrar framtíðar. Fyrir því mun ég nú berjast af sama krafti og ég barðist fyrir þeim breytingum sem gera sóknina nú mögulega.

Vegna árangurs stjórnarmeirihlutans á kjörtímabilinu erum við nú í stöðu til hverfa frá þeirri vörn sem staðið hefur áratugum saman og hefja sókn fyrir Ísland allt.

 

Greinarnar “Stefnan tekin í Norðaustur” og “Áfram í Norðaustur” birtust í Morgunblaðinu 15. og 24. október 2016

09/1/16

Selt undan flugvellinum

Nú er liðið eitthvað á annan áratug frá því ég birti myndir af því í sjónvarpi hvernig verið væri að þrengja að Reykjavíkurflugvelli með því að sækja að honum úr öllum áttum og sneiða búta af landinu í kringum flugvöllinn jafnt og þétt. Áformað var að flytja götur og vegi nær flugvellinum og skipuleggja lóðir undir hina ýmsu starfsemi allt um kring. Loks yrði búð að byggja meðfram flugbrautunum og inn á milli þeirra og þá yrði loks bent á að það gengi ekki að vera með flugvöll inn á milli húsanna.

Samkvæmt áætlun

Smátt og smátt hefur þetta svo gengið eftir. Hringbrautin var færð þannig að nú er beinlínis ekið undir lendingarljós einnar flugbrautarinnar og lóðaúthlutanir hafa farið fram af meira kappi en forsjá. Valsmenn hf. hafa til dæmis búið við óvissu í meira en áratug vegna lóðasamkomulags við borgina. Stundum hefur virst sem borgaryfirvöldum þætti það bara ágætt ef hremmingar Valsmanna mættu verða til þess þrýsta á um lokun flugvallarins. Það er varla hægt annað en að hafa samúð með Valsmönnum vegna þeirra fyrirheita sem borgin hefur gefið byggingafélaginu og ætlað svo ríkinu að uppfylla.

Háskólinn í Reykjavík fékk líka að kynnast því að borgaryfirvöld eiga það til að fara fram úr sér þegar kemur að lóðaúthlutunum í kringum flugvöllinn. Þegar þau óttuðust að skólinn kynni að flytja í annað sveitarfélag fékk hann snarlega lóð við flugvöllinn. Eftir að skipulag uppbyggingarinnar var kynnt kom í ljós að borgin hafði óvart lofað að gefa skólanum hluta af landi ríkisins og land innan öryggisgirðingar flugvallarins. Það gerðist þrátt fyrir að nægt pláss hafi verið fyrir skólann og aðrar byggingar á landi borgarinnar og það utan flugvallargirðingar. Málið var svo leyst með því að sópa því undir veg sem lagður var inn á flugvallarsvæðið og með því að færa öryggisgirðinguna nær flugbrautinni. Þannig gerðist það að eitt af flugskýlum Reykjavíkurflugvallar stendur nú á umferðareyju utan flugvallargirðingarinnar.

Samkomulagið

Stærsti áfanginn í því að bola flugvellinum burt átti að vera lokun NA/SV-flugbrautarinnar sem í daglegu tali er kölluð neyðarbrautin vegna þess að flugvélar lenda þar þegar ekki er talið eins öruggt að lenda á hinum flugbrautunum tveimur.

Í október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. Óvissuna höfðu þeir reyndar skapað sjálfir með því að leggja fram tillögu að aðalskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að norður/suður-brautin, önnur af stóru brautum flugvallarins, viki árið 2016.

Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.

Fallist var á þetta og samkomulagið undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.

Lokun neyðarbrautarinnar

Þeir sem annast sjúkraflug og ýmsir aðrir talsmenn íslenskra flugmanna og fyrirtækja í flugrekstri hafa varað við lokun neyðarbrautarinnar og bent á að ekki hafi verið rétt staðið að öryggismati sem lá þar til grundvallar. Nú síðast lýsti öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna yfir vonbrigðum með drög að samgönguáætlun meðal annars með vísan til lokunar brautarinnar. Bent er á að ekki sé hægt að lenda flugvél á suðvesturhorni landsins í stífri suðvestan átt eftir lokunina.

Brautin seld

Ég læt vera að fjalla um tæknilegar forsendur lokunarinnar þótt ærið tilefni sé til að leiða þá umræðu til lykta eins fljótt og auðið er. En á meðan sú umræða stendur enn berast þær óvæntu og óskemmtilegu fréttir að ríkið hafi selt Reykjavíkurborg rúmlega 110.000 fermetra land sem nú er undir suðurenda umræddrar neyðarbrautar fyrir 440 milljónir króna. Þetta er algjörlega óskiljanleg ráðstöfun eftir það sem á undan er gengið í átökum ríkisvaldsins við núverandi borgaryfirvöld um Reykjavíkurflugvöll og með hliðsjón af stöðunni sem uppi er í þeirri deilu.

Þar fyrir utan er verðið fáránlega lágt fyrir svo stórt og verðmætt land. Vandfundnar eru verðmætari lóðir í Reykjavík og ekki óvarlegt að ætla að verðmæti þessarar ríkiseignar nemi 8 til 10 milljörðum króna sé litið til söluverðs byggingarréttar annars staðar í borginni, m.a. verðlagningar borgarinnar sjálfrar á lóðum sem ekki eru jafnverðmætar og þær sem hér um ræðir.

Að vísu mun ríkið eiga að fá einhvern hlut í þeim tekjum sem fást af sölu byggingarréttar en ekki hefur komið fram hversu mikill sá hlutur verður að öðru leyti en því að tekið er fram að því meira sem fáist fyrir lóðirnar þeim mun stærri verði hlutdeild Reykjavíkurborgar.

Óheimil sala

Þessi sérkennilega sala, sem að óbreyttu mun kosta ríkið veikari stöðu í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og milljarða króna, er sögð gerð á grundvelli samnings sem tveir fyrrum varaformenn Samfylkingarinnar gerðu rétt fyrir kosningar 2013. Þ.e. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Katrín Júlíusdóttir þáverandi fjármálaráðherra. Vísað er í heimild í fjárlögum ársins 2013 til að réttlæta söluna nú.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar lýsti því reyndar yfir fyrir þremur árum að til stæði að vinda ofan af þessum gjörningi og heimildin var ekki endurnýjuð. Auk þess hafa lögmenn, þ.m.t. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum Hæstaréttardómari, bent á að salan nú standist ekki lög. Jafnvel þótt fjallað hefði verið um málið í fjárlögum þessa árs (sem ekki var gert) dygði það ekki til. Samþykkja þyrfti sérstök lög um söluna.

Ljóst má vera að sala á flugvallarlandi ríkisins í Skerjafirði stenst hvorki lagalegar forsendur né fjárhagslegar forsendur og hún vinnur gegn því markmiði að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og öruggar flugsamgöngur milli höfuðborgarinnar og landsins alls. Annað getur því vart talist forsvaranlegt en að rifta hinum ólögmæta samningi. Sú riftun myndi vonandi marka viðsnúning í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og sýna að ríkisvaldið sé reiðubúið að gera það sem þarf til að stöðva tilraunir borgaryfirvalda til að fjarlægja flugvöllinn sneið fyrir sneið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. september 2016

07/26/16

Það sem ekki má bíða

Það er sama til hvaða mælikvarða er litið. Á þremur árum hefur ríkisstjórn Íslands náð árangri sem er einstakur í samanburði við önnur þróuð ríki. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér.

Ég hef áður bent á hversu mikilvægt er að halda því til haga að þegar viðraðar voru hugmyndir um að flýta kosningum var það háð því að fyrst tækist að klára mikilvæg verkefni ríkisstjórnarinnar.

Áætlunin

Þegar ríkisstjórnin var mynduð gerðum við samning til fjögurra ára. Eins og ég hef áður lýst unnum við eftir heildaraætlun um hvernig við gætum náð markmiðum okkar á þessum fjórum árum. Áætlunin, fjögurra ára planið, skiptist í megindráttum í tvennt. Fyrri áfanginn snerist um hvernig taka ætti á þeim stóra vanda sem beið okkar, seinni hlutinn um hvernig standa ætti að sókninni og uppbyggingunni sem svo ætti, og þyrfti, að taka við. Fyrri hlutinn snerist um að takast á við vandamál, seinni hlutinn um að nýta tækifæri.

Til að leysa vandamálin þurfti að mínu mati að blanda saman erfiðum en margreyndum aðgerðum annars vegar og óhefðbundnum og róttækum aðgerðum hins vegar. Það þurfti til dæmis einbeittan vilja til að hætta skuldasöfnun og reka ríkissjóð með afgangi öll ár kjörtímabilsins samhliða því að innleiða hvata til fjárfestingar og verðmætasköpunar. En ríkisstjórnin þurfti líka að vera reiðubúin til að ráðast í aðgerðir sem engin stjórnvöld nokkurs staðar höfðu nokkurn tímann reynt. Hluti á borð við almenna skuldaleiðréttingu og aðgerðir til að fá kröfuhafa bankanna til að afsala sér hundruðum milljarða króna samhliða afnámi fjármagnshafta. Hluti sem sagðir voru óraunhæfur popúlismi, skýjaborgir, og ólögmæt eignaupptaka svo nefnd séu dæmi um hófstilltari hluta gagnrýninnar sem við kvað.

Árangurinn

Þrátt fyrir þetta var ég bjartsýnn. Ég hafði trú á verkefninu. Ég var sannfærður um að þetta væri allt hægt og efaðist ekki um tækifæri landsins. En þrátt fyrir að ég hafi verið bjartsýnn við upphaf vinnunnar gekk hún betur en jafnvel ég þorði að vona.

Það gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér, síður en svo. Lagabreytingar til að örva verðmætasköpun og aðhaldssöm fjárlög kölluðu á stöðuga og oft á tíðum harða gagnrýni síðustu fjóra mánuði hvers árs. Það var þó ekkert miðað við stríðið sem leiddi af áformum um að láta vogunarsjóði og aðra kröfuhafa föllnu bankanna borga fyrir losun gjaldeyrishafta og endurreisn efnahagslífsins, eins og ég mun greina betur frá síðar. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum muna þó væntanlega eftir dæmum um það sem á gekk í þeim slag. Slag þar sem vogunarsjóðirnir vörðu á skömmum tíma 20 milljörðum króna í hagsmunagæslu.

Afrakstur vinnunnar birtist í vel yfir 1.000 milljarða króna viðsnúningi á stöðu ríkisins, líklega nær 1.500 milljörðum. Breytingin fyrir samfélagið í heild er enn meiri. Enn hefur ekki verið bent á annan eins efnahagslegan viðsnúning í seinni tíma hagsögu. Lee Bucheit kallaði enda þann þátt sem sneri að losun hafta og fjárútlátum kröfuhafa einstakan í fjármálasögu heimsins.

Framhaldið

Við erum því einstaklega vel í stakk búin til að framfylgja seinni hluta áætlunarinnar, betur en nokkur hefði trúað, og það verðum við að gera. Þótt lengst af hafi gengið vel að framfylgja stjórnarsáttmálanum eru nokkur mikilvæg verkefni ókláruð. Það eru verkefni sem teljast til seinni hluta fjögurra ára plansins. Nú eru forsendur til að klára þau öll og ótækt að gera það ekki.

Sum þessara verkefna snúast um aðkallandi framhald vinnu við það sem kalla mætti endurbætur á reglunum sem samfélagið starfar eftir. Önnur snúa að fjárfestingu og því að nýta hinn mikla efnahagslega árangur til uppbyggingar.

Leiðrétting fyrir eldri borgara

Um síðustu áramót gáfum við fyrirheit um að áfram yrði lögð áhersla á að bæta kjör eldri borgara og tryggja að efnahagslegur árangur skilaði sér í bættum lífskjörum lífeyrisþega. Samhliða því stóð til að endurskoða örorkubætur og raunar bótakerfið í heild. Pétursnefndin svo kallaða (kennd við Pétur H. Blöndal og síðar undir forystu Þorsteins Sæmundssonar) hefur skilað af sér tillögum um mikilvægar úrbætur í lífeyriskerfinu. Það er óhugsandi fyrir ríkissjórn sem náð hefur þeim árangri sem við höfum skilað á síðast liðnum þremur árum að vanrækja að skila þeim árangri áfram til fólksins sem byggði upp samfélagið sem við njótum nú góðs af.

Búsetujafnrétti

Frá upphafi hef ég lagt áherslu á að eitt af mikilvægustu verkefnum þessarar ríkisstjórnar væri að vinna að umfangsmiklum úrbótum á því sem nefna má búsetujafnrétti. Reyndar snýst það um meira en jafnrétti landsmanna óháð búsetu. Það snýst um að tryggja að árangur Íslendinga nýtist landinu öllu svo að landið allt nýtist við að ná árangri fyrir Íslendinga.

Í þjóðhátíðardagsræðu var ég afdráttarlaus um að úrbætur í þessu efni væru forgangsmál á seinni hluta kjörtímabilsins. Ég útskýrði að við stæðum á þeim tímamótum að ekki væri forsvaranlegt að bíða lengur með að vinna að bættum fjarskiptum um allt land, einkum ljósleiðaravæðingu, samgöngubótum, endurreisn heilbrigðis- og menntakerfisins á landsbyggðinni auk þess að tryggja forsendur fyrir eðlilegri atvinnusköpun. Hið síðastnefnda snýst um að stjórnvöld skapi þær aðstæður að ný störf verði til um allt land, bæði hjá hinu opinbera og með einkarekstri.

Þessi ríkisstjórn verður að skila áþreifanlegum árangri fyrir byggðir landsins. Klári hún það ekki mun önnur ríkisstjórn ekki gera það. Skaðinn af því að vanrækja stærstan hluta landsins yrði mikill fyrir landið allt.

Aðrir innviðir

Óþarfi að telja upp þá fjölmörgu mikilvægu innviði landsins sem nauðsynlegt er að halda áfram að bæta nú þegar við höfum efni á því og tækifæri til þess. Á mörgum sviðum höfum við þó ekki aðeins tækifæri til að setja meiri peninga í verkefnin, við getum líka leyft okkur að hugsa upp á nýtt með hvaða hætti við stöndum að uppbyggingunni, Það á ekki hvað síst við á sviði heilbrigðismála.

Fjármálakerfið og verðtrygging

Loks nefni ég mikilvægi þess að ríkisstjórnin hverfi ekki frá því gríðarmikilvæga verkefni að laga fjármálakerfið á Íslandi og losa samfélagið úr viðjum verðtryggingar. Samhliða því þarf að gera ungu fólki auðveldara og ódýrara að taka óverðtryggð lán og eignast húsnæði. Allt er þetta hægt enda hefur það verið í undirbúningi í þrjú ár. Sá undirbúningur fólst í því að búa til forsendurnar (ríkið hefur t.a.m. yfirtekið fjármálakerfið að mestu leyti) og svo að hanna bestu leiðina. Það er allt til reiðu. Fjögurra ára planið hefur gengið upp til þessa. Nú er viljinn allt sem þarf til að klára það.

05/11/16

Upplýsingar um eignir og skattgreiðslur

Undangengin ár hefur það verið viðtekin krafa að stjórnmálamenn geri gein fyrir eigum sínum og ýmsir telja að eðlilegt sé að einnig sé gerð grein fyrir skuldum. Færa má sterk rök fyrir því. Það er ekki jafn augljóst að gera eigi kröfu um að stjórnmálamenn birti upplýsingar um fjármál fjölskyldu sinnar. Ég hef þó lýst mig reiðubúinn til þess að birta slík gögn ef aðrir forystumenn í stjórnmálum gerðu slíkt hið sama.

Ekki er að sjá að félagar mínir á Alþingi telji ástæðu til að birta upplýsingar um fjármál maka sinna en örfáir hafa að undanförnu birt takmarkaðar upplýsingar um eigin fjármál umfram það sem hagsmunaskráning þingmanna gerir ráð fyrir.  Engu að síður hef ég ákveðið, að veittu samþykki eiginkonu minnar, að birta nú ítarlegar upplýsingar um eignir og skattgreiðslur okkar hjóna  um áratug aftur í tímann.

Þær persónuupplýsingar sem hér eru birtar  eru langt umfram það sem ég hefði nokkurn tímann átt von á að verða krafinn um.

Mér telst til að þær upplýsingar sem hér fylgja séu þær ítarlegustu sem nokkur íslenskur stjórnmálamaður hefur veitt  um eigin fjármál eða fjölskyldu sinnar. Ég hvet aðra kjörna fulltrúa til að gera slíkt hið sama, einkum þá sem hafa haft frumkvæði að því að gera fjármál annarra að pólitísku bitbeini hvort sem þeir ætla að bjóða sig áfram fram til opinberra starfa eða ekki.

Ég  ítreka að eftirfarandi upplýsingar eru að sjálfsögðu birtar með leyfi Önnu, eiginkonu minnar.

 

Vakin er athygli á eftirfarandi atriðum :

1. Erlendu félagi Önnu  hefur aldrei verið leynt og eignir aldrei verið í skattaskjóli. Gerð er grein fyrir félaginu, skráningarlandi þess og öllum eignum á skattframtali.

2. Félagið eða skráningarland þess eru ekki notuð til að draga úr skattbyrði. Anna hefur ætíð greitt fullan skatt af eignum sínum og tekjum í samræmi við íslensk lög.

3. Við framtalsgerð hefur verið horft í gegnum félagið eins og það hafi aldrei verið til og eignir þess skráðar sem bein eign Önnu frá því ári áður en svo kallaðar CFC-reglur tóku gildi. Sú varfærna leið að greiða skatta af öllum eignum, hverri fyrir sig, í stað þess að nýta félagið og líta á það sem fyrirtæki í atvinnurekstri (og skila CFC-framtali) hefur skilað sér í hærri skattgreiðslum til ríkisins en ef stuðst hefði verið við atvinnurekstrar-/CFC-leiðina. Sú leið myndi auk þess þýða að komast mætti hjá skattgreiðslum næstu árin vegna uppsafnaðs taps.

4. Anna nýtti ekki tækifæri til að fresta skattlagningu söluhagnaðar þegar hún seldi hlut sinn í fjölskyldufyrirtækinu.

5. Hjálögð gögn sýna að á umræddu tímabili námu skattgreiðslur okkar hjóna tæpum 300 milljónum króna. Reiknað til núvirðis má áætla að skattgreiðslur af eignum eiginkonu minnar nemi hátt í 400 milljónum.

6. Leiðrétting umsýslufélags á skráðu eignarhaldi 31. desember 2009 breytir engu um skattgreiðslur vegna Wintris.

7. Á yfirlitinu má sjá að Anna hefur ekki hagnast á því að geyma fjármagn sitt erlendis eins og hún hefur gert til að forðast árekstra við stjórnmálastörf mín. Ljóst má vera að hún hefði  hagnast á því að geyma peninga í verðtryggðum íslenskum hávaxtakrónum eða íslenskum hlutabréfum.

8. Skattayfirvöld hafa aldrei gert athugasemd við með hvaða hætti talið er fram. Eins og sjá má í töflu 5 í hjálögðum gögnum hefur sú leið sem farin var við framtalsgerð enda skilað ríkissjóði hærri skattgreiðslum heldur en ef gert hefði verið upp eins og um félag í atvinnurekstri væri um að ræða, þ.e. hin svokallaða CFC-leið. 

 

Hér að neðan fylgir yfirlit um skattgreiðslur tekið saman fyrir okkur af KPMG sem haldið hefur utan um skattskil okkar hjóna allan þann tíma sem um ræðir:

Eignarhlutur í Wintris Inc. hefur verið skráður til eignar í skattframtölum á kaupverði, 337.995 kr., frá því hann komst í eigu Önnu árið 2008.

Verðbréf sem skráð hafa verið sem eign Wintris Inc. hafa verið færð á skattframtöl Önnu og sameiginleg skattframtöl frá því ASP og SDG voru fyrst samsköttuð með sama hætti og hún hefði átt verðbréfin beint. Tekjur af verðbréfunum hafa verið færðar til tekna á skattframtölin með sama hætti og ef Anna hefði átt verðbréfin beint. Við framtalsgerðina hefur því verið horft í gegnum Wintris Inc. eins og félagið hafi aldrei verið til.

Skattframtalsgerðin hefur byggt á þeirri meginforsendu að starfsemi Wintris Inc. hafi ekki verið atvinnustarfsemi, enda um að ræða verðbréfaeign, í vörslu og fjárstýringu banka, og tekjur af verðbréfunum. Því hefur ekki verið skilað svokölluðum CFC-framtölum, sem ætluð eru vegna eignarhalds á atvinnustarfsemi í lágskattaríkjum.

Í yfirliti um skattstofna og skattgreiðslur er meðal annars sýnt hverjar skattgreiðslur hefðu orðið ef starfsemi Wintris Inc. hefði verið talin atvinnustarfsemi.

Það hefði ekki haft áhrif á auðlegðarskattsstofn, hvort starfsemi Wintris Inc. hefði verið talin atvinnustarfsemi eða ekki.

 

Tafla 1

 

Tafla 2

 

Tafla 3

 

Tafla 4

 

Tafla 5

 

Tafla 6

04/3/16

Stóra myndin

Það hefur legið fyrir frá því áður en ég hóf þátttöku í stjórnmálum að konan mín ætti talsvert af peningum. Sumum finnst það eitt og sér vera ákaflega neikvætt. Við því er ekki mikið að gera því ég ætla hvorki að skilja við konuna mína né fara fram á að hún afsali sér fjölskylduarfleifð sinni. Hún hefur hins vegar aldrei hagnast á þátttöku minni í stjórnmálum, þvert á móti, þá hefur pólitísk þátttaka mín og stefnan sem ég hef barist fyrir orðið til þess að rýra eignir hennar. Hún hefur samt aldrei kvartað yfir því vegna þess að hún vill að ég berjist fyrir stefnu sem tryggir heildarhagsmuni samfélagsins og til þess þurfa þeir sem betur standa að vera tilbúnir til að leggja meira af mörkum en hinir. Það hefur aldrei staðið á henni að gera það.

Frá því að hún eignaðist umtalsverða peninga hefur hún verið hörð á því að greiða af þeim skatta til íslensks samfélags fremur en að nýta kosti sem buðust til að spara á því að skattleggja þá erlendis. Hún hefur því hvorki nýtt sér skattaskjól né er hægt að tala um að félag hennar sé aflandsfyrirtæki í þeim skilningi að það greiði skatta erlendis frekar en hér á landi.

Við fall bankanna voru allir sem áttu inni hjá þeim peninga kröfuhafar sama á hvaða formi þær eignir voru, hvort sem það voru innistæður, eign í skuldabréfum í gegnum peningamarkaðssjóði eða í skuldabréfum beint. Allt var þetta jafngilt fyrir lögum, einfaldlega peningar sem bankarnir tóku að láni hjá viðskiptavinum á mismunandi formi.

Neyðarlögin endurröðuðu þessum kröfum. Þeir sem áttu sínar kröfur í formi innistæðna á Íslandi fengu kröfur sínar bættar að fullu. Svo voru gerðar ráðstafanir til að þeir sem áttu kröfu í gegnum peningamarkaðssjóði fengju sitt bætt að mestu. Þeir sem áttu kröfur á formi skuldabréfa voru hins vegar látnir borga fyrir hina. Þetta var róttæk breyting sem ég hef þó alltaf stutt og talið mikilvæga þótt með því hafi mjög mikið af eignum eiginkonu minnar og annarra sem áttu sína peninga hjá bönkunum í formi skuldabréfa verið færðir yfir til hinna sem áttu peninga hjá bönkunum á öðru formi.

En þar lauk sögunni ekki. Ég tók upp á því að berjast fyrir því að það yrði gengið enn lengra. Ég barðist fyrir því að enn meira yrði tekið af þeim sem, eins og konan mín, höfðu átt eignir á formi skuldabréfa um leið og vogunarsjóðirnir yrðu látnir leggja sitt af mörkum. Ég barðist fyrir því að konan mín sem hafði átt eignir í banka, sem í raun höfðu verið eins og hverjar aðrar innistæður yrði látin gefa eftir enn meira af eignum sínum svo að hægt væri að koma til móts við skuldsett heimili, sem ekkert hafði verið gert fyrir, og verja lífskjör í landinu.

Ég sá ekki ástæðu til að grobba mig af þessu á sínum tíma enda er ekki víst að slíkt hefði hjálpað til við að ná þeirri niðurstöðu sem náðist. En nú er þetta semsagt komið í ljós og meira til.

  1. Það hefur komið í ljós að konan mín, sem allir máttu vita að ætti mikla peninga eftir reglubundana fjölmiðlaumfjöllun í mörg ár, hefur greitt af þeim fullan skatt til íslensks samfélags fremur en að nýta tækifæri til að greiða skatta erlendis. Jú, bankinn stofnaði fyrir hana félag og skráði það eins og títt var á sínum tíma í landi sem gerir út á að halda utan um fyrirtæki fyrir fólk. Hins vegar hefur hún aldrei átt peninga í skattaskjóli né verið með aflandsfélag til að greiða skatta erlendis því félagið og eignir þess eru skattaðar á Íslandi.
  2.  Það hefur líka komið í ljós að stefnan sem ég setti á dagskrá og var sögð óraunhæf eignaupptaka hefur orðið til þess að konan mín hefur þurft að taka á sig enn meira tap (umfram kröfuhafa sem áttu innistæður osfrv).
  3. Loks hefur komið í ljós að konan mín hefur forðast að skapa árekstra við stjórnmálastörf mín með því að nýta meðvitað ekki möguleika á að kaupa krónur á afslætti og fjárfesta hér í verðtryggðum hávaxtakrónum eða íslenskum fyrirtækjum. Hún hefði getað hagnast á því en kaus að nýta sér ekki þá möguleika.

Það þykir frétt að konan mín sé kröfuhafi af þeirri gerð sem hefur verið látinn taka á sig tap á meðan enginn spyr um alla hina kröfuhafana, stjórnmálamenn og maka þeirra sem fengu allar sínar kröfur greiddar. Því er meira að segja ruglað saman viljandi að hafa átt inni peninga hjá bönkunum fyrir hrun (rétt eins og innistæðueigendur) og tapað á því og svo vogunarsjóðunum sem keyptu kröfur eftir fall bankanna til að græða á þeim.

 

Gamlir kunningjar út baráttunni um hagsmuni þjóðarinnar

Þeir sem helst vilja líta framhjá þessum grundvallarstaðreyndum eru einmitt þeir sömu og veittu mér mesta mótspyrnu í baráttunni fyrir að vogunarsjóðirnir yrðu látnir leggja sitt af mörkum og með því tap annarra kröfuhafa aukið um leið. Sama fólkið og taldi hugmyndir mínar óraunhæfar gera  því nú skóna að ég hafi haft rangt við.

Það er ekkert launungarmál að mér hefur þótt undarlegt að fylgjast með því með hvaða hætti RÚV hefur nálgast þetta mál. Umfjöllunin öll hefur haft meira yfirbragð þess að segja sögu eða hanna atburðarás fremur en að greina frá staðreyndum. Byrjað var á að kalla til, sem álitsgjafa, menn sem hafa verið vægast sagt neikvæðir í minn garð og ríkisstjórnarinnar á síðustu misserum án þess að gera nokkra grein fyrir tengslum þeirra. Þannig var siðfræðingurinn sem sagði að Íslendingum bæri siðferðisleg skylda til að greiða Icesave fenginn til að leggja mat á málið strax í upphafi og aðrir úr sömu átt fylgdu svo í röðum. Næst var farið að hringja reglulega í þingmenn stjórnarliðsins en svör þeirra aldrei birt þegar þau töldust jákvæð í minn garð eða ríkisstjórnarinnar. Aðeins teknar út setningar sem hægt var að setja neikvætt yfirbragð á og þær settar í nýtt samhengi.

Á sama tíma bárust mér fregnir af því að þeir sem hafa verið að undirbúa Kastljóssþátt hringi vítt og breytt í fólk til að reyna að fá það til að rengja eitthvað af því sem ég hef sagt um þessi mál og taki því ákaflega illa þegar menn staðfesti frásögn mína. Og nú liggur svo á að þátturinn mun ryðja úr vegi öðrum þætti sem gerður hefur verið að pólitískum áróðursþætti í seinni tíð, Stundinni okkar.

Ég ætla að láta þetta nægja af umræðu um atburðarásina hjá RÚV að undanförnu að öðru leyti en því að ekki verður hjá því komist að nefna nýjasta atvikið þar sem keyrði gjörsamlega um þverbak. Þá flutti RÚV einstaklega ósmekklegan pistil Sigrúnar Davíðsdóttur sem birtur var sem frétt. Pistillinn gekk allur út á að gefa í skyn að ekki hefðu verið greiddir skattar af eignum eiginkonu minnar. Það byggðist fyrst og fremst á tilvísun í grein eftir Indriða H. Þorláksson frá árinu 2009. Í þeirri grein rakti hann að það hafi verið alsiða hjá bönkunum að stofna aflandsfélög fyrir vel stæða viðskiptavini sína á árunum fyrir hrun. Bent var á að slík félög hafi verið hægt að nota til að fela fjármagn og komast hjá því að greiða af því skatt og verða „sjálftökumenn“: Út frá þessu gaf fréttamaðurinn (eða pistlahöfundurinn) svo í skyn að fyrst slíkt hafi verið hægt þá megi gera ráð fyrir því að það hafi verið gert (enda þótt búið sé að segja fréttir af eignum og skattgreiðslum eiginkonu minnar í fjölmiðlum alveg frá upphafi).

Á sama tíma skrifaði sami pistlahöfundur pistil um fjármál eiginkonu minnar á heimasíðu sína á ensku til að dreifa óhróðrinum sem víðast. Ég hef reyndar orðið var við að einhverjir hér heima hafi lagt sig fram um að dreifa sögum til erlendra fjölmiðla þar sem farið er með rangt mál í grundvallaratriðum. Dreifing óhróðursins virðist því vera orðinn grundvöllur að nýrri útrás.

Uppgjör slitabúanna og losun hafta snýst um hagsmuni almennings á Íslandi. Það er sérlega merkilegt að þeir sem voru hörðustu gagnrýnendur mínir varðandi mikilvægi þess að kröfuhafar gæfu eftir af eignum sínum og baráttunni gegn því að Icesave-kröfunum yrði skellt á íslenskan almenning, telja sig best til þess fallna að gagnrýna mig nú þegar í ljós er komið að í þeirri baráttu var ég um leið að berjast fyrir því að fórna tugum milljóna af eignum eiginkonu minnar vegna þess að ég taldi það mikilvægt fyrir samfélagið.

Árum saman, allt fram að hruni sérhæfði Sigrún Davíðsdóttir sig í að skrifa lofgreinar um útrás íslensku bankanna og annarra fyrirtækja. Hún var meira að segja, að eigin frumkvæði, fengin til að skrifa skýrslur um snilldina til notkunar í áróðursskyni. Fljótlega eftir hrun varð hún að mati margra okkar í InDefence einn ötulasti talsmaður breskra og hollenskra stjórnvalda í Icesavedeilunni. Næst sérhæfði hún sig í að verja vogunarsjóðina og gera mig og aðra sem vildum að þeir legðu peninga til íslensks samfélags tortryggilega. Í greinargerð sem skrifuð var fyrir fulltrúa vogunarsjóðanna var bent á að gott aðgengi væri að Sigrúnu. Við vorum svo upplýst um að fulltrúar kröfuhafarnir og ráðgjafar þeirra hafi sagt að það þyrfti ekki einu sinni að greiða henni fyrir þessa þjónustu, svo einörð væri hún í sinni afstöðu.

 

Svo spyrja menn

Semsagt. Konan mín sem hefur alltaf viljað leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags, konan sem tapaði á falli bankanna, taldi sjálfsagt að tapa meiru til að tryggja eignir annarra kröfuhafa, þ.e. sparifjáreigenda. Hún tapaði líka á þeirri leið sem ég boðaði til að koma til móts við skuldsett heimili og verja efnahagsstöðugleika og var öflugasti hvatamaður minn í þeim efnum og tapaði svo loks á því að vilja ekki skapa árekstra með því að kaupa krónur á afslætti og fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum eða verðtryggðum íslenskum hávaxtakrónum.

Laun hennar eru þau að RÚV með Sigrúnu Davíðsdóttur í broddi fylkingar, eftir skrif um bankaútrásina, Icesave og vogunarsjóðina, birtir frétt með mynd af henni undir fyrirsögninni: „Wintris-málið: „Íslands sjálftökumenn“

Svo er ég spurður af hverju ég sé ekki búinn að fara í viðtal á RÚV.