Ég var að klára stjórnmálafund á Hótel Borg. Fundurinn var mjög skemmtilegur að því leyti að það var fullt hús og rúmlega það og mikill áhugi á pólitískum málefnum líðandi stundar.
Það var reyndar svolítið skrítið að fara beint úr bleiuskiptum á pólitískan fund þannig að ég var ekki beinlínis í ham en þetta venst líklega. Lífeyrissjóðamál og verðtryggingin voru ofarlega á baugi. Það var mjög gagnlegt því að þingflokkurinn er að fara yfir þau mál þessa dagana.
Meðal þess sem þarf að taka á samhliða því að dregið verði úr vægi verðtryggingarinnar er að koma í veg fyrir að bankar taki stöðu með verðtryggingunni, þ.e. safni verðtryggðum eignum langt umfram verðtryggðar skuldir og hagnist þannig á verðbólgu (sjá síðustu færslu).
Jafnframt hlýtur að vera hægt að ná samstöðu um endurskoðun lífeyriskerfisins. Þar er af mörgu að taka en augljóslega er ekki hægt að hafa tekjutengingarnar eins og þær eru núna þar sem margir fá nánast ekkert fyrir það sem þeir hafa lagt í séreignarlífeyrissjóði.
Ég geri ráð fyrir að taka nokkurt frí frá pólitíkinni á næstunni til að geta sinnt fjölskyldunni eins og vera ber. En eitt af því sem mig langar að gera þegar ég kem aftur er að halda fund sérstaklega um ESB málið, sem alltaf kemur upp á svona stjórnmálafundum en aldrei gefst nægur tími til að rökræða svo vel sé. Það væri gaman að sjá sem flesta á slíkum fundi, helst með ólíkar skoðanir á málinu.