Bankar hafa hag af verðbólgunni – Tökum á verðtryggingunni strax

Á laugardaginn birtist frétt um verðtryggingarójöfnuð Landsbankans, það hvernig misvægið í verðtryggðum eignum og skuldum bankans gerir það að verkum að Landsbankinn hagnast um rúman milljarð í hvert sinn sem verðbólgan hækkar um eitt prósent.

Aðrir bankar hafa dregið úr þessum ójöfnuði en staðreynd mála er sú að verðtryggingarkerfið býður upp á að ákveðnir aðilar hafi gríðarlegan hagnað af því að halda verðlagi uppi og spenna upp verðbólgu.

Húsnæðislán bankanna á árunum 2004-2008 eru kennslubókardæmi í því hvernig vanþróaður markaður er hagnýttur af fjármálastofnunum þegar kerfið býður upp á það á þennan hátt.

Bankarnir byggðu upp stöðu í verðtryggingu, þ.e. áttu verðtryggðar eignir langt umfram verðtryggðar skuldir. Árið 2004 hóf Kaupþing að bjóða húsnæðislán á lágum vöxtum og með hæra lánshlutfalli en þekktist og aðrir bankar fylgdu í kjölfarið. Aukið framboð af húsnæðislánum leiddi til þenslu á fasteignamarkaði og hærra fasteignaverð leiddi til verðbólgu. Bankarnir högnuðust á verðbólgunni enda búnir að byggja upp stöðu í verðtryggingu.

Í þessum aðstæðum eru það alltaf heimilin sem tapa. Þegar verðlag hækkar og verðbólga eykst minnkar kaupmáttur og verðtryggð húsnæðislán hækka. Ráðstöfunartekjur heimilanna lækka og erfitt eða ómögulegt verður að ná endum saman.

Lánastofnanir eins og Landsbankinn sem eiga verðtryggðar eignir umfram skuldir græða hins vegar á tá og fingri.  Þessu þarf að breyta. Það er hins vegar ekki einfalt því vandinn er að hluta til kerfislægur, þ.e. kerfi sem komið var upp á óðaverðbólgutímum veldur í dag vanda fremur en að leysa úr honum. Lausnin felst m.a. (en ekki eingöngu) í því að hefta möguleika bankanna til þess að byggja upp slíkar stöður með því að setja reglur um verðtryggingarjöfnuð.

Það þarf að taka á þessum vanda með aðferðum sem veita heimilunum raunverulega úrlausn til langs tíma en umbreyta ekki bara vanda þeirra úr einu formi í annað án þess að taka í raun á kerfislæga vandanum.

Þingflokkur framsóknarmanna mun á næstunni leggja fram tillögur um það hvernig taka má á verðtryggingarvandanum á markvissan og skynsamlegan hátt til að breyta kerfinu þannig að heimilin losni undan oki þeirra sem hafa beinan hag að því að halda uppi verðbólgu.

Meðal mikilvægustu grunnatriða í þeim tillögum sem við lögðum fram í haust (www.planb.is) er að skuldaúrlausn verð flýtt undir forystu stjórnvalda og að verðtrygging verði afnumin í skrefum. Og ef Ísland á ekki að læsast inni í stöðnunarástandi til framtíðar vegna skulda (eins og t.d. Japan) verður að taka á verðtryggingarvandanum samhliða almennri úrlausn skuldavanda heimila og fyrrtækja, fjölga óverðtryggðum lánakostum og leiðrétta kerfislæg vandamál sem valda heimilunum skaða.

Þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi talað um verðtryggingarbölið í tæp tuttugu ár hafa heimilin nú beðið í þrjú ár án árangurs eftir því að ríkisstjórn hennar taki á vandanum. Hversu lengi í viðbót? Er ekki kominn tími til að Jóhanna Sigurðardóttir gangi í lið með okkur sem viljum raunverulega leysa verðtryggingarvandann og styðji tillögur okkar til að gera eitthvað í málinu stað þess að tala bara um það?