Nú hafa flestir málsmetandi menn fallist á að það sé bæði framkvæmanlegt og nauðsynlegt að uppgjöri snjóhengjunnar, og þar með talið gömlu bankanna, ljúki með verulegri eftirgjöf kröfuhafanna og efnahagslegu svigrúmi fyrir Ísland. Menn hafa líka fallist á að hægt sé að ná þessari niðurstöðu hratt með skattlagningu ef samningaleiðin dugar ekki til.
Hópurinn sem stendur að vefsíðunni snjohengjan.is bendir á að eðlilegt svigrúm nemi þegar allt er talið um 800 milljörðum. Það er miklu meira en þarf til að leiðrétta stöðu heimilanna. Samhliða því er hægt að bæta stöðu ríkissjóðs og endurreisa velferðarkerfið.
Þetta snýst ekki um eignaupptöku. Tapið er þegar fallið til. Það var að mestu leyti borið af erlendum lánardrottnum sem hafa innleyst tapið og látið sig hverfa. Í þeirra stað komu vogunarsjóðir sem hafa grætt gífurlega (á pappírnum) á því að nú er verið er að innheimta mikið af því sem talið var tapað og búið var að afskrifa. Þetta hafa þeir getað gert m.a. vegna neyðarlaganna og gjaldeyrishaftanna. Það er ekki hægt að sætta sig við að Íslendingar striti við að auka heimtur og vinna upp það sem þegar hafði tapast án þess að fá nokkra hlutdeild í því. Hvað þá að við gerum það innan hafta og berum kostnaðinn af höftunum án þess að nokkuð komi á móti.
Ég taldi að formenn flestra stjórnmálaflokka hefðu fallist á þetta. Ég hef því verulegar áhyggjur af bakslagi hjá formanni Samfylkingarinnar. Hann virðist nú hafa meiri áhyggjur af því bæta ímynd landsins gagnvart vogunarsjóðum en stöðu íslenskra heimila.
Aðrar þjóðir hafa gengið langt til að verja rétt sinn án þess að hafa sams konar tækifæri til þess og við. Tækifæri okkar er einstakt. Ætlum við að kasta því tækifæri á glæ til að gleðja vogunarsjóði? Hvers konar ímyndarherferð er það sem gengur út á að kynna erlendum vogunarsjóðum að Íslendingar láti undan öllum kröfum? Það er reyndar í góðu samræmi við rökin sem notuð voru fyrir því að samþykkja hundruða milljarða vaxtagreiðslur af ólögmætum Icesave-kröfum til að „bæta ímynd okkar“.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er hins vegar orðinn harður á því að ná þurfi fjármagni með góðu eða illu. Það er þá væntanlega ekki „bara fugl í skógi“. Hins vegar virðast forysta, og aðrir frambjóðendur, Sjálfstæðisflokksins vilja nýta það svigrúm í flest annað en að koma til móts við heimilin. – Heimili sem eiga réttmæta kröfu á þessi þrotabú þegar kemur að uppgjöri þeirra. -Heimili sem hafa borið hitann og þungann af hruninu, verðtryggt.
Neyðarlögin vörðu eignir. Eðlilegt framhald af þeim var að taka á skuldahliðinni. Það hefur ekki verið gert. Ekkert er gert til að verja eignir fólks sem hagaði sér skynsamlega fyrir hrun en varð fyrir tjóni af starfsemi fyrirtækjanna sem nú er verið að gera upp.
Þetta er einfalt: Það þarf að skipta eignum þrotabúanna. Það þjónar hagsmunum allra. Samhliða þeim uppskiptum verður hægt að aflétta gjaldeyrishöftum og koma til móts við skuldsett heimili og bæta ríkinu og velferðarkerfinu það tjón sem leiddi af hruninu sem nú er verið að gera upp. Við höfum einstakt tækifæri til að bæta tjón undanfarinna ára. Það tækifæri má ekki glatast!