Framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn

Þá er lokasprettur kosningabaráttunnar hafinn. Þá dúkka upp fastir liðir eins og venjulega.

Össur spinnur svo mikið að maður heldur ekki þræðinum lengur.

Vart má á milli sjá hvor er meira áberandi, vinstristjórnaráróður sjálfstæðismanna eða hægristjórnaráróður samfylkingarfólks.

Allt eru þetta hefðbundin viðbrögð við velgengni miðjuflokks, og kemur því ekki á óvart.

Staðan er hins vegar ekki flókin. Eftir umræðu undanfarinna vikna er ljóst að annað hvort verður mynduð ríkisstjórn um áherslur Framsóknar eða það verður mynduð ríkisstjórn gegn þeim.

Annað hvort verður mynduð ríkisstjórn um skuldaleiðréttingu, afnám verðtryggingar og heilbrigðara fjármálakerfi eða ríkisstjórn þeirra sem telja í lagi að láta vogunarsjóði  ákveða hvenær Ísland brýst úr viðjum skulda og hafta, ríkisstjórn  sem telur ekki rétt að nýta einstakt tækifæri til að koma til móts við skuldsett heimili, ríkisstjórn um óbreytt fjármálakerfi, ríkisstjórn um verðtryggingu.

Umræðan um tillögur Framsóknarmanna hefur sem betur fer þróast mikið. Flestir flokkar hafa nú viðurkennt að tillögur Framsóknar eru raunhæfar, þó þeir tali enn gegn þeim af fullum krafti. Hið sama má segja um ýmsa sem áður hafa talað þvert gegn Framsókn á liðnum árum. Gylfi Magnússon bættist t.d. í gærkvöldi í hóp þeirra sem telja tillögur Framsóknar raunhæfar. Það er ánægjulegt og virðingarvert.

Áherslurnar njóta víðtæks stuðnings. Hópur fólks hefur til að mynda sett upp vefinn snjóhengjan.is, þar sem spurt er hvort menn vilji setja lausn snjóhengjuvandans í forgang. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem þar hafa tekið þátt er sammála framsóknarmönnum um mikilvægi þessa verkefnis.

Eftir kosningar tekur við framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn. Það ræðst af þeim stuðningi sem Framsókn fær í kosningunum og þeirri samningsstöðu sem niðurstaða kosninganna skapar. Miðað við málflutning forystumanna annarra flokka um áherslur Framsóknar hljótum við að gera ráð fyrir að þeir muni vilja mynda ríkisstjórn gegn tillögunum ef þeir fá tækifæri til. Fái þeir það tækifæri glatast hið einstaka tækifæri heimilanna.