Stefnuleysi í stærstu málunum

Heimurinn er að batna á flestan hátt, ekki hvað síst á þeim sviðum þar sem ætla mætti af almennri umræðu að ástandið væri að versna. Það virðist nánast ganga gegn rétttrúnaðarkenningum samtímans að benda á margt af því jákvæða en á sama tíma þykir óviðeigandi að ræða hætturnar.

Fátækt minnkar hratt í heiminum, heilbrigði og önnur lífsgæði batna, tækninni fleytir fram og nýtist fleirum og heimurinn er orðin mun friðsælli en hann var (þótt borgarastyrjöldin í Sýrlandi sé stór undantekning). Stundum er látið eins og að með því að benda á þetta sé verið að gera lítið úr fátækt, eða sjúkdómum og hryllilegum stríðsátökum. Það er mjög skaðlegt viðhorf, því ef við metum það sem reynist vel getum við gert enn betur.

 

Mannfall í stríðsátökum eftir Seinni heimsstyrjöld á hverja 100.000 heimsbúa.

 

En svo þarf líka að ræða hætturnar svo hægt sé að takast á við þær. Við höfum enda enga tryggingu fyrir því að batnandi heimur fari áfram batnandi. Í byrjun tuttugustu aldar ríkti bjartsýni. Framfarir á Vesturlöndum höfðu verið byltingarkenndar áratugina á undan og stríð þóttu til marks um fávísi fortíðar. Frelsi í milliríkjaviðskiptum hefur aldrei verið jafnmikið og árið 1913. Árið eftir skall á heimsstyrjöld.

Það er því vissara að hafa varann á. Læra af jákvæðri þróun en líta ekki á hana sem gefna. Þrátt fyrir framfarir stendur heimurinn frammi fyrir stórum úrlausnarefnum og sum þeirra eru þegar farin að breyta hefðbundnu pólitísku landslagi á Vesturlöndum. Ekki vegna þess að hin hefðbundnu stjórnmál séu farin að takast á við þessi mál heldur vegna þess þau gera það ekki. Þrjú þessara mála eru risastór og öll hafa þau áhrif á atvinnu og afkomu fólks. Þetta eru áhrif alþjóðavæðingar, áhrif hinnar nýju iðnbyltingar, hátækni- eða gervigreindarbyltingarinnar, og loks hinn mikli straumur fólks á milli landa, frá fátækari löndum til Vesturlanda.

 

Umfang og eðli málsins

Í öllum tilvikum hefur skort á að stjórnvöld á Vesturlöndum gerðu sér grein fyrir umfangi og eðli þessarar þróunar og að miklu leyti er umræða um hana verulega heft. Það á ekki hvað síst við um síðasta atriðið.

Straumur flóttamanna og annars förufólks til Evrópu er farinn að valda verulegri togstreitu innan, og á milli-, Evrópulanda. Viðfangsefnið verður sífellt erfiðara og átökin ágerast. Schengensamstarfið er í upplausn, ytri landamærin opin en í staðinn komið eftirlit á innri landamærum. Álagið og átökin draga úr getu Evrópulanda til að aðstoða þá sem þurfa mest á því að halda.

Undanfarin misseri höfum við heyrt fréttir af því að það hafi aldrei verið eins margir á flótta í heiminum og nú. Hvernig má það vera ef heimurinn hefur aldrei verið jafn friðsamur og velmegun aldrei eins almenn? Ástæðan er sú að þróun samfélaga með aukinni hagsæld dregur ekki úr fólksflutningum. Hún ýtir undir þá.

Oft er bent á að eina raunhæfa lausnin á straumi fólks til Evrópu sé að bæta lífskjör í löndunum sem fólk yfirgefur. Það er rétt eins langt og það nær. Að sjálfsögðu á það að vera kappsmál allra að hagur fátækra ríkja vænkist. En það mun hins vegar að óbreyttu auka verulega á fólksflutningana, fremur en að draga úr þeim, um fyrirsjáanlega framtíð.

Mikið magn upplýsinga um þróunina undanfarin ár og áratugi liggur fyrir, t.d. hjá Alþjóðabankanum. Þegar hagur fátæks ríkis byrjar að vænkast stóreykst straumur fólks frá landinu. Ýmsir fræðimenn, þar með talið bandaríski þróunarhagfræðingurinn Michael Clemens, hafa sýnt fram á þetta. Þegar árstekjur (kaupmáttarjafnaðar) fara yfir rúma 600 Bandaríkjadali á ári (eins og t.d. í Eþíópíu) eykst straumur fólks frá landinu. Ekki fer að draga úr straumnum, að mati Clemens, fyrr en tekjurnar eru komnar í um 7.500 dali. Hann hættir ekki við það mark en þá fyrst hættir aukningin. 7.500 dalir eru um það bil meðaltekjur í Albaníu, en eins og kunnugt er leita margir Albanir enn betri lífskjara annars staðar.

Með straumi fólks frá þróunarlöndum til Evrópu er hafin þróun sem að óbreyttu mun ágerast ár frá ári. Mesti fjöldinn kom árið 2015 eftir að Þýskaland var opnað. Það ár komu flestir í gegnum Grikkland. Samningar ESB við Tyrki og lokun innri landamæra hafa dregið úr þeim straumi en þó komu fleiri 2016 en 2014 og áfram verður fjölgun á þessu ári.

 

 

Mynd I: „Skráðar ólögmætar komur til ESB“ undanfarin ár. Eftir samninga ESB og Tyrklands færðist straumurinn aftur frá Eyjahafi og yfir að Miðjarðarhafinu miðju. Mynd II: Helstu leiðir 2017.
(Myndir: I. Skýrsla Evrópuráðsins COM(2017) 205 final/2. II. Frontex)

 

Það sem af er 2017 hefur stærsti hópurinn komið yfir hafið frá Líbíu til Ítalíu. Flestir sem koma þá leið eru ekki að flýja stríð heldur að leita betri lífskjara (m.a. að mati ESB). Þeir eiga þó að baki langt og hættulegt ferðalag áður en komið er að Miðjarðarhafinu þar sem þúsundir drukkna árlega. Nígeríumenn eru fjölmennastir á þessari leið en næst á eftir kemur fólk frá Bangladesh.

 

Áhrif upplýsingatækni

Á komandi árum mun þeim sem hafa upplýsingarnar og úrræðin til að komast til Evrópu í leit að betri kjörum fjölga hratt. Það er eðlilegt að hver sá sem eygir möguleika á að komast úr fátækt og óöryggi í umhverfi velmegunar, almennrar heilbrigðisþjónustu og svo framvegis vilji nýta það tækifæri.

Breytingin frá því sem áður var felst ekki aðeins í nýjum leiðum smyglaranna og því að fleiri hafa fjármagn til að kaupa „þjónustu“ þeirra. Hún felst einnig í ótrúlega hraðri breytingu á upplýsingastreymi. Smyglararnir, sem flestir eru alrændir glæpamenn, nýta sér ólíkar aðferðir við að selja ferðirnar. Þeir auglýsa jöfnum höndum með dreifibréfum á götum Lagos, eða annarra borga, og með facebooksíðum sem ætlað er að telja fólki trú um að þær þúsundir dollara sem farmiðinn kostar séu góð fjárfesting. Stundum er sú raunin en fólk er líka blekkt í hættuför, snuðað og jafnvel hneppt í vændi eða þrældóm, allt með fyrirheitinu um að því verði komið alla leið til Evópu þar sem bíði íbúð, heilbrigðisþjónusta og vel launuð vinna.

Yfir 90% Nígeríubúa eiga farsíma og hátt í 40% snjallsíma. Hlutfallið er heldur lægra í flestum öðrum Afríkulöndum en alls staðar dreifast þó upplýsingar margfalt hraðar en nokkurn tímann áður í sögunni.

 

Dæmi um facebooksíður sem ætlað er að hvetja fólk til að kaupa ferðir með smyglurum til Evrópu. Yfirleitt er lögð áhersla á að ferðin sé hættulítil og að í Evrópu bíði gull og grænir skógar. Síðurnar birta oft „sjálfur“ af brosandi fólki á ströndum Grikklands eða Ítalíu eða skilaboð sem sögð eru vera frá ánægðum „viðskiptavinum“.
(Myndir: Facebook með tilvísunum The Guardian, The Daily Mail, The Daily Telegraph, The Mirror og Sky News)

 

Að óbreyttu mun þeim sem leita allra leiða, og hafa tækifæri, til að leggja í slíka för fjölga jafnt og þétt. Því meira sem hagur fátækustu landanna vænkast þeim mun fleiri munu eygja möguleika á að yfirgefa þau lönd. Á sama tíma er spáð gífurlegri fólksfjölgun í þróunarlöndunum.

 

Fólksfjölgunin

Nígeríumenn eru orðnir um 190 milljónir*. Hagkerfið vex hratt en þjóðin líka. Árið 2045, eftir innan við þrjátíu ár, verður Nígería orðin fjölmennari en Bandaríkin. Landsmenn verða um 450 milljónir árið 2050 að mati Mannfjöldastofnunar Sameinuðuþjóðanna sem hefur reglulega bætt í spána undanfarin ár (2008 var gert ráð fyrir að þeir yrðu 290 milljónir 2050). Helmingur Úgandabúa er yngri en 15 ára. Landsmenn þar eru nú rúmar 40 milljónir. Þeir verða komnir yfir 100 milljónir eftir þrjátíu ár. Við lok aldarinnar verða 14 af 25 fjölmennustu ríkjum heims í Afríku. Ekkert land í Evrópu kemst þá á þann lista.

Norður af Nígeríu er landið Níger. Það er fátækasta land heims, það situr á botni lífsgæðalista Sameinuðuþjóðanna. Hvergi í heiminum fjölgar fólki eins hratt. Því er spáð að við lok aldarinnar verði Níger orðið tvöfalt fjölmennara en Rússaland. Nágrannarnir í suðri, Nígeríumenn verða þá orðnir nærri jafnmargir og Kínverjar.

Íbúar Níger fara ekki margir til Evrópu í hælisleit. Þeir eru of fátækir. Fólk frá öðrum löndum streymir hins vegar í gegnum landið með viðkomu í eyðimerkurborginni Agades. Hún er helsta miðstöð smyglara áður en farið er yfir Sahara á leiðinni að Miðjarðarhafinu og starfsemin er helsta tekjulind margra borgarbúa. Evrópusambandið bauð styrki í skiptum fyrir að fólksflutningunum yrði hætt. Afleiðingin varð auðvitað sú að fólksflutningarnir héldu áfram en leyndin jókst, og þar með hætturnar.

CNN sagði nýverið fréttir af því að í eyðimörkinni í kringum Agades séu annars vegar þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna og hins vegar ný herstöð bandaríska flughersins fyrir sprengjudróna. Staðurinn varð fyrir valinu því ástandið í Níger er þrátt fyrir allt „stöðugra“ en í grannríkjunum hringinn í kringum landið þar sem íslamistar láta mikið til sín taka. Það er því álíka langt fyrir drónana að skutla sprengjum í allar áttir. Fleiri lönd hafa ráðist í framkvæmdir á hernaðarsviðinu. Frakkar eru með herstöð í Níger og átta öðrum fyrrum nýlendum sínum í Afríku og Kínverjar gera sig nú mjög gildandi í viðskiptum um alla álfuna. Kínverjar hafa mikla þörf fyrir hráefni en eru auk þess meðvitaðir um að vöxturinn í þróunarlöndunum verður gífurlegur næstu árin og sérstaklega í Afríku.

Þótt ásókn í að komast til London, Munchen eða Stokkhólms og annarra borga í Evrópu haldi áfram verða þær áður en langt um líður hálfgerð þorp samanborið við stærstu borgir Afríku. Eftir 30 ár verða borgir á borð við Lagos í Nígeríu og Kinshasa í Austur-Kongó orðnar „megaborgir“ með 30-40 milljónir íbúa. Margfalt fleiri en París eða London. Þær verða þó ekki eins fjölmennar og Dhaka í Bangladesh.

Ef mannfjöldaspár Sameinuðuþjóðanna og Heimsborgastofnunarinnar (Global Cities Institute) ganga eftir mun meirihluti núlifandi Íslendinga upplifa heim þar sem fleiri munu búa í einni borg í Nígeríu (Lagos) heldur en í Þýskalandi öllu. Það mun gerast upp úr 2060. Um svipað leyti verður heildarfjöldi Nígeríumanna orðinn meiri en allra núverandi ESB ríkja samanlagt.

Í Nígeríu og mörgum Afríkulöndum á sér stað gríðarleg uppbygging. Nígería á það sameiginlegt með nágrönnum okkar í Noregi að eiga umtalsverðar olíu- og gaslindir en það dugar ekki eitt og sér þegar landsmönnum fjölgar um sem nemur öllum íbúum Noregs á hverju ári auk þess sem afraksturinn skilar sér ekki alltaf í sameiginlega sjóði. Þótt uppbyggingin í mörgum Afríkuríkjum sé hröð er erfitt að halda í við þarfirnar þegar fólksfjöldinn vex eins hratt og raun ber vitni.

 

Eko Atlantic City er nýr borgarhluti sem verið er að byggja á landfyllingu við Lagos í Nígeríu. Gert er ráð fyrir að íbúar verði 250-400.000. Það jafngildir fjölgun íbúa í Lagos á sex- til níu mánuðum.
(Myndir: Royal HaskoningDHV – News Express Nigeria – International Business Times – Pulse.ng – ekoatlantic.com – EnviroNews Nigeria)

 

Líklega kannast ekki margir við borgina Blantyre, en við næstu aldamót, innan mannsaldurs, verða íbúar borgarinnar orðnir um 57 milljónir (m.v. spár GCI). Margfalt fleiri en nokkurri evrópskri borg. Blantyre er næst-stærsta borgin í Malaví. Höfuðborgin, Lilongve verður enn stærri. Íslendingar hafa töluvert komið að þróunaraðstoð í Malaví og þar er íslenskt sendiráð (sem stendur til að loka). Malaví er eitt af minnstu ríkjum Afríku, að flatarmáli, og eitt af vanþróuðustu löndum heims. Það er nú þegar hið þéttbýlasta í Afríku.

 

Breyttur heimur og stór verkefni

Innan eins mannsaldurs mun heimurinn breytast mikið og úrlausnarefnin verða mörg og stór á leiðinni. Vonandi batna lífsgæði í þróunarlöndunum sem hraðast og mest. Vesturlönd ættu að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum. Hvernig sem þróunin verður er ljóst að hún mun hafa gríðarleg áhrif á umhverfismál, öryggismál, efnahagsmál og ótalmargt annað. Víða mun jafnvægi raskast og tekist verður á um mikla hagsmuni. Átök innan, eða á milli, ríkja með hundruð milljóna íbúa fælu í sér meiri hrylling en hægt er að ímynda sér.

En hvort sem það verða stríð eða vöxtur og framfarir munu möguleikar fólks á að ferðast langar leiðir aðeins aukast. Evrópa þarf því að komast að niðurstöðu um hvernig eigi að taka á straumi fólks til álfunnar.

Samkvæmt ítalska innanríkisráðuneytinu komu 171.299 föru- og flóttamenn yfir hafið til Ítalíu árið 2016. Enn fjölgar á þessu ári og Ítalir segjast aðframkomnir. Í fyrra voru Nígeríumenn fjölmennastir, eða um 36.000. Það breytti þó ekki miklu í Nígeríu því á sama tíma fjölgaði íbúum landsins um tæpar 5 milljónir.

Ef áhrifin á pólitískar stoðir Evrópu eru orðin þetta mikil nú þegar, hvers er þá að vænta? Er ekki að minnsta kosti rétt að greina stöðuna og þróunina til að geta brugðist við henni á skynsamlegan hátt?

Fyrir skömmu birti ég stutta útgáfu af þessari grein í Viðskiptablaðinu. Það er lýsandi fyrir vandann sem við er að eiga að grein, sem miðaði eingöngu að því að lýsa eðli og umfangi eins af stærstu úrlausnarefnum samtímans, vakti mjög neikvæð viðbrögð nokkurra rétttrúnaðarpredikara á vinstri jaðrinum. Bara það að fjalla um málið var óviðeigandi að þeirra mati, óháð því hvað sagt var. Er ekki fokið í flest skjól þegar ekki má tína til staðreyndir og leggja til að leitað sé skynsamlegra lausna með hliðsjón af þeim? Á hægri kantinum má svo finna þá sem vilja horfa fram hjá ógeðfelldri starfsemi smyglaranna svo að Vesturlönd fái meira af ódýru vinnuafli.

Viljum við ekki að það fólk sem flytur til Vesturlanda ferðist eftir löglegum og öruggum leiðum? Viljum við ekki bregðast við hinum mikla straumi flóttamanna með það að markmiði að hjálpa sem flestum og þeim sem þurfa mest á því að halda. Eða eigum við að líta á fólksflutninga sem leið til að fá fólk til að vinna erfið störf fyrir lítið kaup á Vesturlöndum? Það hljóta flestir að geta verið sammála um að markmiðið eigi að vera að vinna að velferð fólks um allan heim en menn hljóta líka að átta sig á því að það gerist ekki af sjálfu sér. Það getur ekki talist ásættanlegt að viðhalda og jafnvel ýta undir fyrirkomulag þar sem fólk er blekkt til að afhenda glæpamönnum aleiguna og leggja í lífshættulega ferð sem endar jafnvel með því að fólk sé hneppt í þrældóm eða vændi.

Bill Gates, sem líklega hefur gefið meiri peninga til mannúðaraðstoðar í Afríku en nokkur annar maður í heimssögunni, sá nýverið ástæðu til að hvetja Evrópulönd til að stemma stigu við straumnum frá Afríku. Núverandi nálgun myndi, að hans sögn, hvetja sífellt fleiri til að yfirgefa álfuna og leita til Evrópu og Evrópa myndi ekki ráða við það. Frekar ætti að bæta í þróunaraðstoð. Sjóður þeirra hjóna (og Warrens Buffett) sem Melinda Gates stjórnar hefur náð umtalsverðum árangri m.a. með áherslu á bætta heilbrigðisþjónustu og menntun kvenna.

Fólk mun ekki hætta að nýta þau tækifæri sem það telur að því bjóðist til að bæta líkskjör sín og fjölskyldna sinna (oft fara menn af stað sem fulltrúar stórfjölskyldu). Sókn fólks í betri kjör fyrir sig og sína er eðlileg og hún mun halda áfram. Sú þróun hjálpar hins vegar ekki raunverulegum flóttamönnum. Þeir eru margir og þeir þarfnast mikillar aðstoðar. Stefnu- og framtaksleysi Evrópuríkja og ESB í bland við stórvarasama hvata mun ekki hjálpa fólki til lengdar. Á næstu árum og áratugum mun þurfa að aðstoða mikinn fjölda flóttamanna og takast um leið á við gríðarlega stór viðfangsefni sem fylgja breyttum heimi. Stærstu viðfangsefni samtímans munu ekki hverfa ef menn tala ekki um þau. Þau munu bara stækka og verða erfiðari viðureignar því síðar sem tekist er á við þau.

Til að byrja með þarf stefnu. Ef stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðlar, fræðimenn og aðrir sem hafa það hlutverk að ræða lausnir, horfa til framtíðar og móta stefnu þora ekki að ræða stærstu úrlausnarefni samtímans (nema með innihaldslausum frösum) eru þeir að eftirláta öfgamönnum umræðuna og lausnirnar. Ef það gerist er ólíklegt að heimurinn haldi áfram að batna.

 

 

*Í greininni í Viðskiptablaðinu voru íbúar Nígeríu sagðir 170 milljónir. Þar var stuðst við tölur frá 2013. Á síðustu 5 árum hefur íbúum landsins fjölgað meira en sem nemur öllum íbúum Norðurlanda samanlagt.