Slúðurpólitík

Þegar fyrst kom til umræðu að ég færi útí stjórnmál var ég varaður við því að um leið og nafn mitt yrði nefnt í tengslum við pólitík mundi ég upplifa rætni sem ég hefði ekki áður kynnst. Það ætti enn frekar við nú en áður vegna þeirra miklu hagsmuna sem eru í uppnámi í samfélaginu. Þ.e. þeir sem telji sig þurfa að verja þá hagsmuni séu enn frekar en áður tilbúnir til að beita óvönduðum meðölum.

Það stóð heima. Vefmiðlar höfðu varla náð að setja inn fréttir um að ég kynni að verða í framboði til formennsku í Framsóknarflokknum þegar sögur fóru að birtast annars staðar á netinu. Það reyndar hjálpaði mér að taka ákvörðun að skynja að einhverjir, hvar í flokki sem þeir stæðu, hefðu nógu miklar áhyggjur af hugsanlegu framboði til að leggja það á sig að kokka upp sögur (og að þeir sem slíkt gerðu væru líklega ekki besta fólkið til að ráða því hverjir byðu sig fram).

Mér hefur reyndar verið bent á að ég ætti fyrst að hafa áhyggjur ef það hætta að birtast um mig ósannindi. Sjái enginn ástæðu til að ljúga uppá mig sé það til marks um að ekki gangi nógu vel. Bullmagnið sé eins konar barómeter á gengið.

Ég verð reyndar að segja netskáldunum það til hróss að hugmyndaflug og frumleika hefur ekki vantað í sögurnar. Þar er jafnan fylgt þeirri meginreglu góðs skáldskapar að hugað sé að smáatriðunum. Slíkt skiptir máli. Tökum dæmi: Ef því er einfaldlega haldið fram að A sé bandamaður B fær sú saga varla mikið flug. Sé hins vegar sögð saga af því að C, sem þekktur er fyrir að vera nánasti samstarfsmaður A, hafi sést borða saltkjöt með B á Hótel Borg getur sagan komist á skrið.

Sögusmiðirnir verða líka að fá viðurkenningu fyrir skipulögð vinnubrögð. Sögurnar berast jafnt og þétt og hafa hver um sig afmarkað markmið. Yfirleitt snýst það annað hvort um að tengja mig við tiltekinn hóp (sem þá þykir óheppilegt að vera bendlaður við) eða fá ákveðinn hóp upp á móti mér. A.m.k. 10 ósannar sögur hafa náð dreifingu á rúmum tveimur vikum. Hver veit nema ég taki í lokin saman topp 10 lygasögurnar.

Hefðbundin aðferð í þessari grein stjórnmálanna er víst sú að hringja í hóp fólks og smeygja sögu eða staðhæfingu, sem koma á í umferð, inní samtalið svona eins og í framhjáhlaupi. Þessi sígilda leið mun enn vera notuð. Netið er hins vegar kjörvopn slúðurpólitíkusa. Nú getur einn maður setið heima við tölvu og hugmyndaflugið eitt takmarkar hvaða sögur breiðast um samfélagið.

Þótt vinnubrögðin séu skipulögð og nokkuð markviss eiga slíkar aðferðir ekki heima í samfélagi sem kallar á heiðarleika og fagmennsku í stjórnmálum. Nú þegar ríkir algjört neyðarástand í landinu og stjórnmálaflokkar hafa misst traust verða þeir sem vilja hafa áhrif á pólitík að sýna þá ábyrgð að bæta trúverðugleika stjórnmálanna í stað þess að draga enn úr honum.

Til gamans má rifja upp upp sögu af Adlai Stevenson, bandaríska demókratanum sem varð frægastur fyrir að að standa uppí hárinu á Sóvíetmönnum þegar hann var sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum í Kúbudeilunni. Eitt sinn þegar Stevenson var í kosningabaráttu þótti honum nóg um rógsherferð sem hópur repúblikana stóð fyrir. Hann gerði repúblikönunum þá tilboð: Ef þeir létu vera að ljúga uppá hann mundi hann láta vera að segja sannleikann um þá.