500.000.000.000 kr. gjöf ríkisstjórnarinnar til Evrópu?

-Staðfesting frá Frakklandi

Íslensk stjórnvöld ákváðu að yfirtaka allar Icesave-skuldbindingar Landsbankans þrátt fyrir að breskir og íslenskir lögfræðingar hefðu fært fyrir því sterk lagaleg rök að Íslendingum bæri ekki að yfirtaka umræddar skuldbindingar. Að sögn utanríkisráðherra urðum við þó að gera það til að skapa ekki óvissu um innistæðutryggingar evrópskra banka (í miðri fjármálakrísu). Evrópusambandið virðist hafa óttaðist að ef íslenskir skattgreiðendur tækju ekki á sig ábyrgðina gæti bankakerfi Evrópu riðað til falls.

Í þessu felst nokkuð sterk samningsstaða fyrir Íslendinga til viðbótar við allt hitt (beitingu hryðjuverkalaga, áhlaupið á Kaupþing og fleiri glappaskot breskra stjórnvalda).

Þegar efnahagsleg framtíð þjóðarinnar var í húfi (skuldir heimilana, lánshæfi fyrirtækja, velferðarkerfið osfrv.) ákvað ríkisstjórnin hins vegar að kasta frá sér öllum vopnum og vörnum og taka á sig skuldaklafa í þeirri von að Evrópusambandið launaði þeim greiðann seinna. Hafi markmiðið verið að bæta samningsstöðu vegna hugsanlegrar inngöngu í Evrópusambandið eru áhrifin þveröfug.

Réttur Íslendinga staðfestur

Í skýrslu sem nefnd skipuð fulltrúum frá seðlabanka, fjármálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti Frakklands vann árið 2000 var fjallað um evrópska innistæðutryggingasjóði. Skýrslan heitir á frummálinu Rapport de la Commission bancaire pour l’année 2000.

Helstu persónur í nefndinni:

Formaður nefndarinnar sem vann skýrsluna var Jean-Claude Trichet, núverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans. Hann var þá seðlabankastjóri Frakklands.

Einnig leiddu nefndina…

Jean-Pierre Jouyet, núverandi forstjóri franska fjármálaeftirlitsins.

Þegar skýrslan var unnin fór hann fyrir Franska fjármálaráðuneytinu. Áður hafði hann verið starfsmannastjóri Jacques Delors og unnið að mótun Evrópusambandsins (m.a. Maastrichtsáttmálanum). Síðar varð hann forseti Parísarklúbbsins (f. Le Club de Paris), samtaka 19 helstu fjármálaþjóða heims sem funda reglulega til að aðstoða þjóðir sem lentar eru í verulegum fjárhagskröggum. Oft er það gert í samráði við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Jouyet var svo evrópumálaráðherra Frakklands þar til í síðasta mánuði þegar hann tók við fjármálaeftirlitinu.

…og

Xavier Musca núverandi forseti Parísarklúbbsins.

Skýrslan:

Skýrslan sem nefndin skilaði af sér er áhugaverð lesning. Það sem er þó sérstaklega áhugavert fyrir Íslendinga er kafli sem fjallar um innistæðutryggingasjóði. Eitt af því sem fjallað er um í kaflanum eru hinar samræmdu innistæðutryggingar Evrópusambandsins, sem yfirleitt er vísað til í umræðu um ábyrgð vegna Icesave-reikninga. Þar segir:

„Enda þótt það markmið [með samræmdu reglunum] að auka stöðugleika bankakerfisins hafi komið skýrt fram, er kerfið sem komið var á í Frakklandi, eins og í flestum löndum sem hafa formleg innistæðutryggingakerfi, ekki til þess ætlað að fást við kerfiskrísu.”

[Umrædda blaðsíðu úr skýrslunni má sjá hér]

Í framhaldinu kemur fram að við slíkar aðstæður þurfi önnur úrræði. Það er því ljóst að í því kerfishruni sem varð á Íslandi er ekki hægt að ætlast til þess að innistæðutryggingasjóðurinn (sem bresk stjórnvöld hafa nú lánað fyrir Icesave-reikningunum) standi undir því tjóni sem orðið hefur. Skýrslan staðfestir semsagt túlkun Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors og Lárusar Blöndal lögfræðings á umræddri tilskipun Evrópusambandsins. Stefán hefur reyndar bent á að á endanum kunni Evrópusambandið að vera ábyrgt vegna gallaðrar tilskipunar.

Með öðrum orðum, sú ofurvaxna ábyrgð sem ríkisstjórnin hefur núna fallist á að íslensk heimili og fyrirtæki taki á sig fyrir bresk stjórnvöld og Evrópusambandið fær ekki staðist.

Ljóst er að fullyrðingar um að vonandi standi „aðeins” 150 milljarðar kr. eftir af Icesave-skuldbindingunni þegar eignir Landsbankans hafa verið seldar eru fjarri lagi. Eignasafn bankans var ekki gott og eru þó mun sterkari eignasöfn banka orðin óseljanleg og verða áfram um langt skeið að mati þeirra sem til þekkja (ítarlega var fjallað um þetta í Financial Times í desember). Á meðan beðið er eftir því að eignirnar verði seljanlegri þarf að viðhalda þeim, halda áfram afskriftum og borga vexti af nauðungarláni breskra stjórnvaldi. Í ljósi aðstæðna er nær lagi að ætla að um 500 milljarðar muni að óbreyttu lenda á þjóðinni en ekki 150.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð því að það að setja allt sem fæst fyrir eignir gamla Landsbankans upp í Icesave felur í sér að Icesave-kröfuhafar verða teknir framfyrir aðra kröfuhafa sem áður áttu jafnvel sterkari lagalegan kröfurétt. Þetta er gert í krafti neyðarlaganna svo kölluðu. Ég hef enn ekki hitt lögmann sem treystir sér til að fullyrða að þau lög fái staðist verði látið á þau reyna. Höfði aðrir kröfuhafar Landsbankans mál (sem þeir munu eflaust gera) með þeim afleiðingum að lögin verði dæmd ógild gætu því Íslendingar þurft að greiða þeim kröfuhöfum mörghundruð milljarða skaðabætur til viðbótar við það sem farið verður í Icesave.

Þær erlendu skuldbindingar sem íslenska ríkið er nú að taka á sig eru hlutfallslega svo háar að ekkert ríki gæti staðið undir þeim. Þær munu gera stjórnvöldum ókleift að koma til móts við skuldsett heimili og fyrirtæki (sem þau verða þó að gera), hindra erlenda fjárfestingu og lánafyrirgreiðslu (Ísland verður skilgreint sem gjaldþrota), koma í veg fyrir bráðnauðsynlega innspýtingu í efnahagslífið og gera ríkinu ókleift að halda uppi þeirri heilbrigðis og velferðarþjónustu sem við eigum að venjast.

Argentína sá sig knúna til að lýsa yfir þjóðargjaldþroti með mun minni erlendri skuldsetningu.

Jón Sigurðsson og bandamenn hans í sjálfstæðisbaráttunni börðust áratugum saman við ofurefli og beittu þar sleitulaust fyrir sig lögum og mörghundruð ára gömlum samningum. Kjörorðið var ,,eigi víkja!” Það er ekki nema von að Jón sé þungur á brún þar sem hann stendur á Austurvelli og starir á Alþingishúsið.