Það er áhugavert að fylgjast með erlendu fréttastöðvunum fjalla um evru- og skuldakrísuna. Ekki síst vegna þess hve lítil og léttvæg umfjöllun flestra íslenskra fjölmiðla er um málið. Íslendingar þurfa að fylgjast vel með því sem er að gerast á fjármálamörkuðunum. Það er ekki nóg að treysta á að hin almáttugu gjaldeyrishöft og áframhaldandi stöðnun bjargi okkur.
Ég ítreka viðvörun mína um að ef ekki verður búið að ganga frá skuldamálunum og setja af stað stór fjárfestingaverkefni áður en evru- og ríkisskuldakrísan fer endanlega úr böndunum verðum við ekki í stakk búin til að sigla í gegnum fjárhagslegt óveður. Krísan hefur því miður magnast mun hraðar síðustu daga en von var á og nú ríkir alger óvissa um framhaldið. Við stöndum því frammi fyrir mikilli hættu.
Fyrir mánuði síðan, þann 5. júlí, lagði ég fram beiðni um að utanríkismálanefnd Alþingis yrði kölluð saman strax, m.a. “til að fara yfir þann efnahagsvanda sem steðjar að evrusvæðinu í kjölfar síversnandi efnahagsstöðu Grikklands og möguleg áhrif vandans á stöðu Íslands.” Það var ekki gert.
Ástæðan sögð sumarleyfi og framkvæmdir á húsnæði. Formaður nefndarinnar mat það svo að engri “brýnni nauðsyn” væri til að dreifa. Beiðnin var ítrekuð við formann nefndarinnar þann 20. júlí og fengust þau svör að áformað væri að halda fund um málið á næstu vikum, eftir mánaðarmót þegar sumarleyfum væri lokið.
Í ljósi þess hvernig nú kraumar á fjármálamörkuðum eru þessi mánuður ekkert annað en glataður tími.
En aftur að erlendu fjölmiðlunum. Þar eru allir á því að ESB sé í afneitun og auk þess ófært um að taka ákvarðanir á meðan krísan magnast með hverjum klukkutímanum og skapar hættu á nýrri heimskreppu. Svo koma viðbrögð frá ESB: „Til stendur að halda fund um málið innan fárra vikna“. Það var einmitt það.